Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 253 . mál.


Sþ.

448. Tillaga til þingsályktunar



um sameiningu sveitabýla í hagræðingarskyni.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að kanna hvort hagræða megi í landbúnaði með því að sameina sveitabýli í búrekstri. Könnuninni skal lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.

Greinargerð.


    Atvinnurekendur í flestum greinum atvinnulífsins eru stöðugt að sameina fyrirtæki sín og rekstur með aukna hagræðingu fyrir augum. Sama lögmál gildir um atvinnurekstur í landbúnaði. Því er rétt að láta kanna á hvern hátt slíkri sameiningu verður best á komið til að hagræða í búrekstri landsmanna. Það leiðir væntanlega til aukins sparnaðar í þjóðarbúinu.
    Stutt er síðan þrjú myndarleg býli lögðu saman og fylgdi því strax aukin hagræðing. Þannig eru nú samtals 12 dráttarvélar á þessum býlum ásamt viðeigandi fylgibúnaði og þeim má strax fækka verulega svo að lítið dæmi sé tekið um hagræðingu. Svona má halda áfram.
    Þá er einnig ástæða til að kanna hvort rétt sé að veita í þessu skyni fé af greiðslum til landbúnaðarins sem annars færu til annarra verkefna. Aukin hagræðing mundi bæta bændum strax allan hugsanlegan tekjumissi.