Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 286 . mál.


Sþ.

518. Tillaga til þingsályktunar



um hagræðingu í utanríkisþjónustunni.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að hagræða þegar í stað í utanríkisþjónustunni og leggja áherslu á utanríkisviðskipti. Sameina skal sendiráð á mikilvægustu stöðum og leggja önnur niður, opna ný sendiráð á nýjum markaðssvæðum og fjölga kjörræðismönnum. Enn fremur skal gefa íslenskum ríkisborgurum kost á að reka sendiráð landsins. Verkinu skal að fullu lokið í árslok 1990.

Greinargerð.


    Það er dýrt að vera sjálfstæð smáþjóð. Íslendingar halda úti tólf sendiráðum auk heimasendiherra og kostar sú þjónusta nærri 350 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1990. Með sama hlutfalli þyrftu Bandaríkin 13.000 sendiráð fyrir sig.
    Því er lagt til að sendiráð verði sameinuð eins og hér segir:
     1. Sendiráð á Norðurlöndum.
    Þau eru nú á eftirtöldum stöðum og er varið til þeirra þessum upphæðum á fjárlögum 1990 (í þús. kr.):

             Þús. kr.
    Kaupmannahöfn .............         25.343
    Stokkhólmur ...............         19.993
    Ósló ......................         23.558
                       ——
     Samtals         68.894

    Hér er lagt til að sendiráðin þrjú verði sameinuð í eitt sendiráð í Kaupmannahöfn. Íslenskum ríkisborgurum verði gefinn kostur á að reka sendiráðin í Stokkhólmi og Ósló fyrir eigin reikning gegn því að kosta líka einn verslunarfulltrúa á hvorum stað. Að öðru leyti ráði þeir fyrirkomulagi sjálfir innan marka reglugerðar sem utanríkisráðuneytið setur um rekstur sendiráða á þennan hátt. Takist ekki að bjóða sendiráðin tvö út með þessu móti verða þau lögð niður uns útboðið tekst.
    Kjörræðismönnum verði fjölgað verulega á Norðurlöndum í samræmi við helstu viðskiptahagsmuni þjóðarinnar. Þannig sparast a.m.k. 20–30 millj. kr. árlega án þess að dragi úr reisn eða þjónustu við Íslendinga nema síður væri. Það eru líka peningar og þá má nota til að efla utanríkisþjónustuna annars staðar.

     2. Sendiráð í Vestur-Evrópu.

                     Þús. kr.
    London ....................         27.660
    Bonn og Evrópuráðið .......         19.276
    París, OECD og UNESCO .....         33.356
    Brussel og EB .............         25.970
    NATO ......................         27.245
    Genf og EFTA ..............         29.422
                      —–
     Samtals         162.929

    Samtals eru því sex sendiráð eða aðsetur sendisveita í Vestur-Evrópu. Sendisveitin hjá NATO skal hér undanþegin enda lítur flutningsmaður á veru Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu sem hluta af vörnum þjóðarinnar en ekki hluta af viðskiptum hennar hvað sem öðrum kann að finnast.
    Hin sendiráðin fimm skal sameina í eitt sendiráð á meginlandi Evrópu. Þar koma bæði Brussel og París helst til greina en bíða verður eftir niðurstöðum í samningum EFTA- og EB-landa um sameiginlegan Evrópumarkað áður en það verður ákveðið. Með þeim breytingum hverfur líka þörfin fyrir sendisveitir í höfuðstöðvum bæði EB og EFTA.
    Íslenskum ríkisborgurum skal gefinn kostur á að reka þau sendiráð sem eftir standa á sama hátt og að framan greinir. Þá skal einnig stórfjölgað í liði kjörræðismanna í Vestur-Evrópu. Með þessu móti má spara a.m.k. um 75 millj. kr.

     3. Sendiráð í Austur-Evrópu.
    Þar er nú eitt sendiráð:

                     Þús. kr.
    Moskva ....................         27.354

    Ekki er lagt til að því verði breytt um sinn. Rétt er að fylgjast með þróun mála í Austur-Evrópu en hún er bæði spennandi og merkileg. Ljóst er að þar mun opnast gífurlega stór markaður sem gerir kröfur til sömu lífskjara og á Vesturlöndum. Á næstu árum fær Austur-Evrópa mikið lánsfé frá Vesturlöndum og þróunarstyrki. Íslendingar verða strax að bregðast við og leita þar nýrra markaða fyrir vöru og þjónustu.
    Ef þungi viðskiptanna færist yfir á önnur lönd austan gamla járntjaldsins er rétt að færa sendiráðið til sem því nemur. Að öðru leyti skal kannað rækilega hvort bjóða eigi út sendiráð í þessum löndum og tilnefna kjörræðismenn. Ekki er því gert ráð fyrir að hér sparist peningar að svo komnu máli og má vel reikna með auknum útgjöldum í Austur-Evrópu til að afla nýrra viðskipta.

     4. Sendiráð í Ameríku.
    Þar er núna eitt sendiráð í Bandaríkjunum, í Washington, og sendisveit í New York hjá Sameinuðu þjóðunum:

                      Þús. kr.
    Washington ................         30.773
    New York og Sameinuðu þj. .         41.234
                      —–
     Samtals         72.007

    Hér er lagt til að sendiráðið í Washington verði flutt til New York enda ekki langt á milli borganna og þörfin fyrir sendisveit er brýnni hjá Sameinuðu þjóðunum. Þá er rétt að kanna hvort hafa þarf sendiherra í Washington vegna siðareglna utanríkisráðuneytisins eða hvort búseta í New York fullnægir slíkum kröfum. Þá skal athuga hvort bjóða á sendiráðið út og fjölga kjörræðismönnum í Bandaríkjunum og Kanada.
    Hins vegar er rétt að kanna hvort opna þurfi sendiráð vegna nýrra viðskiptahagsmuna í löndum Suður- og Mið-Ameríku. Nota má þá peninga, sem sparast við sameininguna í Bandaríkjunum, til að hrinda því í framkvæmd. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir sparnaði í Ameríku á þessu stigi. Skipa þarf kjörræðismenn um endilanga álfuna.

     5. Sendiráð í Afríku, Asíu og Ástralíu.
    Þar eru nú engin sendiráð. En þar hafa svokallaðir heimasendiherrar gegnt störfum og er kostnaður við störf þeirra færður undir annan gjaldalið í fjárlögum:

                     Þús. kr.
    Almennt ...................         17.700

    Rétt er að opna strax sendiráð í Japan til að þjóna hinum gríðarstóra markaði í Austurlöndum fjær. Á sama hátt þarf að opna sendiráð í Austurlöndum nær til að þjóna auðugum markaði arabalandanna. Þá er rétt að hefja þegar í stað könnun á viðskiptum með vörur og þjónustu til landa Afríku og Ástralíu auk annarra svæða í Asíu.
    Jafnframt þarf að fjölga stórlega kjörræðismönnum í þessum stóru heimsálfum og vel má kanna hvort íslenskir ríkisborgarar vilji reka sendiráð á þessum slóðum.
    Þannig verður væntanlega ekki um sparnað að ræða heldur má búast við auknum útgjöldum til að vinna nýja markaði fyrir þjóðina.
    Flutningsmaður telur að með þessu móti sé hægt að spara háar fjárhæðir í utanríkisþjónustunni en síðan megi verja því fé til að auka hana verulega í öðrum löndum heimsins og afla þar nýrra markaða fyrir íslenska þjóð. Þannig nýtist áfram sama fjárhæð en þjónustan vex margfalt að sama skapi.