Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 361 . mál.


Sþ.

619. Tillaga til þingsályktunar



um heimsverslunarmiðstöð á Íslandi.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson, Guðmundur Ágústsson,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort ekki sé tímabært að koma upp heimsverslunarmiðstöð (World Trade Centre) á Íslandi með beinum tölvu- og fjarskiptatengslum við allar heimsverslunarmiðstöðvar og allar helstu kauphallir heimsins.

Greinargerð.


    Hin öra framþróun í milliríkjaviðskiptum, sem átt hefur sér stað á síðari árum, krefst skjótra viðbragða af hálfu okkar Íslendinga því að ella má telja víst að við munum dragast aftur úr á þeim vettvangi. Kaup og sala á gjaldeyri og ýmsum vörum, svo sem kornvöru, sykri, kaffi, málmum o.fl., fer nú oftast fram með beinum tölvufjarskiptum gegnum sérstakar fjarskiptamiðstöðvar þar sem slík viðskipti ganga fyrir sig með ógnarhraða og í miklu magni. Þar geta þeir aðilar, sem stunda verslun og viðskipti á alþjóðlegum vettvangi, m.a. keypt og selt á svokölluðum framvirkum markaði. Þannig er hægt að kaupa ákveðið magn vöru, t.d. sykur eða kaffi eða gjaldeyri, á verði dagsins til afhendingar eftir ákveðinn tíma jafnvel fleiri ár. Kaupandi og seljandi taka þá sameiginlega áhættu af því að verð vörunnar á afhendingardegi verði verulega hærra eða lægra en þegar samningar voru gerðir. Slík viðskipti verða æ algengari, en krefjast bæði þekkingar á alþjóðlegum mörkuðum og aðgangi að beinum markaðsupplýsingum gegnum fullkomið tölvufjarskiptakerfi.
    Höfuðtilgangurinn með heimsverslunarmiðstöðvunum er samstillt þjónustu- og upplýsingastarf milli þeirra sjálfra og þeirra aðila, sem eiga hlutdeild í milliríkjaviðskiptum um allan heim. Með beinum tölvufjarskiptum má fylgjast með breytingum á heimsmarkaðsverði á nánast öllum tegundum vöru og gjaldeyris á heimsmarkaði á hverri sekúndu. Kaup og sala fer fram með tölvuboðum á sama hátt. Þannig skapa heimsverslunarmiðstöðvarnar heildstæðan vettvang frjálsra og sjálfstæðra viðskipta milli einstaklinga, stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja um víða veröld. Um 45 slíkar miðstöðvar eru nú starfræktar víðs vegar um allan heim. Frægust þeirra er eflaust heimsverslunarmiðstöðin í New York.
    Árið 1987 fór fram töluverð umræða um það á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hvort æskilegt væri að koma upp slíkri miðstöð á Íslandi. Í því sambandi var unnin fróðleg greinargerð sem leiddi í ljós hvaða möguleikar og valkostir fælust í slíkri stofnun fyrir Íslendinga. Af henni má sjá að helstu þættir þess starfs, sem æskilegt er að fari fram í slíkri miðstöð, eru fyrir hendi hér á landi í sjálfstæðum stofnunum, félagasamtökum, hjá einstaklingum og fyrirtækjum um allt land. Þótt starf þeirra hafi verið með ágætum er ljóst að mun betri árangri má ná með samvirkri þátttöku þeirra í slíkri heimsverslunarmiðstöð. Sem dæmi um þessa aðila má nefna fjármálastofnanir, Útflutningsráð Íslands, Verslunarráð Íslands, Félag íslenskra stórkaupmanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda, sjávarafurðadeild Sambandsins, sölusamtök lagmetis, útflutningssamtök landbúnaðar-, fiskeldis- og loðdýrabænda, auk ótal annarra aðila. Þessir aðilar eru misjafnlega vel búnir til þess að mæta breyttum tímum og kröfum markaðarins þar sem slíkt útheimtir hlutfallslega háan tilkostnað miðað við umsvif.
    Landfræðileg lega Íslands býður upp á mjög góða aðstöðu og möguleika til verslunar og viðskipta á heimsvettvangi. Með heimsverslunarmiðstöð á Íslandi getum við nýtt þessa möguleika enn betur. Íslendingar eru mjög háðir útflutningsverslun og því eðlilegt að leitað sé leiða til að henni séu ávallt búin sem best skilyrði. Nú er að verða mikil breyting á helstu mörkuðum okkar í Evrópu og nýir markaðir í Austur-Evrópu að opnast. Því er nauðsynlegt að Íslendingar fylgist vel með og dragist ekki aftur úr nágrannaþjóðunum í þessu tilliti.



Fylgiskjal.


Gestur Ólafsson,
framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu:



Hugmynd að heimsverslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu.


(Janúar 1987.)



    Undanfarna mánuði hefur talsvert verið rætt um það á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að æskilegt væri að koma upp svonefndri heimsverslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu, en 45 slíkar miðstöðvar hafa verið reistar á undanförnum árum víðs vegar um heim.
    Megintilgangur með slíkri viðskiptamiðstöð er að koma upp sameiginlegri aðstöðu á einum stað fyrir alla þá sem standa í milliríkjaviðskiptum á viðkomandi svæði og bjóða þar upp á fjölbreytta aðstöðu og hvers konar þjónustu sem slík fyrirtæki þurfa á að halda auk fullkomnustu fjarskiptatækni.
    Lausleg könnun á þessu máli hefur leitt í ljós að full þörf virðist vera á slíkri viðskiptamiðstöð hér á höfuðborgarsvæðinu og að góður fjárhagslegur grundvöllur ætti að vera fyrir þessari miðstöð ef samstaða hlutaðeigandi aðila næst. Það sem hér fer á eftir er sett saman til þess að reifa þessa hugmynd og kanna hvort slík samstaða sé fyrir hendi.

Heimsverslunarmiðstöðvar.
    Hugmyndin að heimsverslunarmiðstöðvum sá dagsins ljós skömmu eftir seinni heimsstyrjöld. Slíkar miðstöðvar hafa nú verið byggðar í fjölmörgum löndum og löngu sannað ágæti sitt.
    Heimsverslunarmiðstöðvar eru starfærktar bæði í þróuðum iðnríkjum og líka í löndum þar sem erlend viðskipti eru enn á þróunarstigi. Þetta á jafnt við um vestræn ríki og kommúnistaríki. Til þessa hefur 45 heimsverslunarmiðstöðvum verið komið á laggirnar um allan heim. Um 60 þúsund fyrirtæki eiga aðild að Sambandi heimsverslunarmiðstöðva. Þetta samband var stofnað árið 1968 í New Orleans og heitir á ensku „The World Trade Centre Association“. Þetta alþjóðasamband var stofnað til að hvetja til og auðvelda alþjóðaviðskipti til þess að koma á alþjóðlegum viðskiptasamböndum og til að hvetja til aukinnar milliríkjaverslunar milli viðkomandi landa.
    Þessum markmiðum er náð með samræmdu átaki þeirra fyrirtækja, sem hafa áhuga á alþjóðaverslun og þjónustuiðnaði á viðkomandi stað, og opinberra aðila. Komið er á fót aðstöðu til þess að einfalda og auka viðskiptatengsl. Þannig er hægt að skiptast á þekkingu og reynslu um staðhætti og ástand á hverjum stað. Samband heimsverslunarmiðstöðva hjálpar til við að koma þessum upplýsingum á
framfæri og býður upp á mars konar aðstöðu sem getur komið sér vel fyrir fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum. Aðilar að einni heimsverslunarmiðstöð eiga aðgang að heimsverslunarmiðstöðvum í öðrum löndum og hafa þannig góðan grundvöll til þess að eiga í viðskiptum á fjölmörgum stöðum. Heimsverslunarmiðstöðvum hefur m.a. verið komið á laggirnar í eftirtöldum borgum:
    Amsterdam, Atlanta, Baltimore, Basel, Bombay, Brussel, Chicago, Kaupmannahöfn, Dubai, Eindhoven, Genf, Gautaborg, Hong Kong, Houston, Kuala Lumpur, Le Havre, Leiden, Lissabon, London, Marseille, Melbourne, Mílanó, Montreal, Moskvu, Nanjing, New Orleans, New York, París, Ríó de Janeiro, Rotterdam, Seoul, Singapore, Strasborg, Taipei, Tel Aviv, Tókíó, Torontó, Vancouver og Washington.

Tilgangur með byggingu heimsverslunarmiðstöðva.
    Aðaltilgangur heimsverslunarmiðstöðva er eins og fyrr segir að stuðla að auknum alþjóðaviðskiptum. Heimsverslunarmiðstöð leitast ekki við að koma til móts við þetta markmið með því að keppa við einkaaðila og opinbera aðila sem þegar taka þátt í þessari starfsemi, heldur með því að styðja og efla starfsemi þessara aðila með því að koma upp fjölbreyttri aðstöðu og starfsemi. Heimsverslunarmiðstöð leitast við að skilgreina þau svið þar sem um vandamál er að ræða og atriði sem standa í vegi fyrir auknum heimsviðskiptum og leysa þessi vandamál í samvinnu við aðra aðila.
    Þar sem vandamál, athafnir, markmið og fjármagn í milliríkjaviðskiptum er breytilegt frá svæði til svæðis eru skipulag, uppbygging og starfsemi heimsverslunarmiðstöðva líka breytileg.
    Sums staðar hefur verið talið að áhrifaríkasta leiðin til að stuðla að milliríkjaviðskiptum hafi verið að skipuleggja slíkar miðstöðvar eins og markaði sem sýna vel framleiðslu viðkomandi svæðis. Í öðrum miðstöðvum er um tiltölulega litla sýningarstarfsemi að ræða og starfsemi heimsverslunarmiðstöðvarinnar getur þá aðallega verið fólgin í skrifstofustarfi fyrir innflytjendur og útflytjendur og fjölmarga einkaaðila og opinbera aðila sem veita þjónustu á alþjóðavettvangi.
    Hér er mjög mikilvægt að hafa í huga að hlutverk heimsverslunarmiðstöðva er breytilegt. Þessi hugmynd er ekki mjög gömul og þeir aðilar, sem aðild eiga að þessum verslunarmiðstöðvum, eru enn þá að gera sér fulla grein fyrir því hvernig slík miðstöð getur best þjónað viðskiptamönnum sínum. Á undanförnum árum hefur verið um mjög mikla framför að ræða á þessu sviði og talið er að
þessi alþjóðasamtök geti veitt viðskiptavinum sínum margs konar þjónustu næstu tíu ár sem ekki er hægt að ímynda sér nú. Mikilvægi slíkrar heimsverslunarmiðstöðvar er fyrst og fremst fólgið í þeim athöfnum, sem hún innir af hendi, og þeirri starfsemi sem þar fer fram og því er mikilvægt að þessi starfsemi breytist stöðugt til að koma til móts við breytilegar þarfir og tækifæri. Hér á eftir verður fjallað lauslega um nokkur grundvallaratriði í starfsemi slíkra heimsverslunarmiðstöðva sem þegar hafa sannað gildi sitt við að auðvelda og hvetja til alþjóðaviðskipta.

Verslunarmiðstöð fyrir heimsverslun.
    Í grundvallaratriðum er góð heimsverslunarmiðstöð verslunarstaður (shopping centre) þar sem menn í alþjóðaviðskiptum geta auðveldlega haft samband við öll mikilvæg opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki á viðkomandi svæði sem taka þátt í milliríkjaviðskiptum. Þetta hjálpar líka þeim aðilum sem hafa aðstöðu í þessari miðstöð og þurfa að hafa samband hver við annan í daglegum viðskiptum. Slík miðstöð leggur líka sérstaka áherslu á mikilvægi milliríkjaviðskipta. Auk þessa eru slíkar miðstöðvar mjög hentugar fyrir alþjóðlega viðskiptaaðila, þ.e. þeir geta stundað þessi viðskipti á einum stað, bæði þægilega og hratt og auk þess kynnt sér nýja möguleika og upplýsingar.

Sýning á framleiðslu viðkomandi svæðis.
    Eitt nytsamlegasta hlutverk heimsverslunarmiðstöðvar er að þar er hægt að sýna vel útflutningsvarning viðkomandi svæðis. Helst ætti þetta að vera hægt án þess að viðkomandi útflytjendur þurfi nauðsynlega að leigja skrifstofurými í verslunarmiðstöðinni. Þetta getur sparað útflytjendum mikinn kostnað og fyrirhöfn við að finna markaði upp á eigin spýtur. Hér er einnig um mikið hagræði að ræða fyrir alþjóðlega kaupendur sem geta komið á einn stað í viðkomandi verslunarmiðstöð, kynnt sér þar þann varning sem þeir hafa áhuga á og vonandi gengið frá kaupum á staðnum.

Upplýsingaþjónusta.
    Áreiðanlegar upplýsingar á réttum tíma eru lykill að vel heppnuðum alþjóðaviðskiptum. Á mörgum sviðum er um mjög marga aðila að ræða og mjög mikið af upplýsingum sem erfitt getur verið að henda reiður á. Hlutverk upplýsingamiðstöðvar í slíkri heimsverslunarmiðstöð er því mjög mikilvægt og tengsl þessarar upplýsingamiðstöðvar við upplýsingabanka víða um heim. Markmið með rekstri slíkrar upplýsingamiðstöðvar er að bjóða upp á faglegar rannsóknir
og aðstoð og nákvæm svör við fyrirspurnum um viðskiptasambönd, fjármál og fjölmörg önnur atriði.
    Alþjóðleg fjarskipti (telecommunications) frá heimsverslunarmiðstöðvum eru mjög mikilvæg og margar slíkar verslunarmiðstöðvar hafa komið sér upp beinu sambandi við alþjóðleg gervitungl.

Samskipti.
    Fyrir nokkru kom Samband heimsverslunarmiðstöðva á laggirnar sérstakri tölvusamskiptaþjónustu í samvinnu við TIMESHARE. Þessi samskiptaþjónusta (World Trade Centre Network) tengir saman alla þá aðila sem eiga aðild að slíkum heimsverslunarmiðstöðvum og veitir þeim samskiptaþjónustu á mjög vægu verði og gerir þeim líka kleift að leita að viðskiptaaðilum víðs vegar í heiminum.

Menntun og námskeið.
    Mjög mikilvægur þáttur í alþjóðaviðskiptum er að geta boðið upp á námskeið, fyrirlestra og margs konar þjálfun á öllum þeim sviðum sem tengjast milliríkjaviðskiptum. Í flestum góðum heimsverslunarmiðstöðvum er boðið upp á slík námskeið, m.a. fyrir stjórnendur fyrirtækja í alþjóðafjármálum, sköttum, sölustarfsemi og á öðrum sviðum. Einnig getur verið gott að geta boðið upp á tungumálakennslu og námskeið fyrir þá sem eru að hefja störf í alþjóðaviðskiptum viðvíkjandi skjalagerð og framkvæmd alþjóðaviðskipta.

Framtíðarhorfur.
    Á undanförnum árum hafa heimsverslunarmiðstöðvar í vaxandi mæli tekið að sér að skipuleggja ferðir verslunarnefnda til mismunandi heimshluta og taka á móti slíkum sendinefndum frá öðrum löndum. Jafnframt því að taka á móti slíkum viðskiptanefndum geta heimsverslunarmiðstöðvar boðið upp á mjög mikilvæga þjónustu, ekki einungis skipulagt ferðir, heldur líka notað þekkingu sína og sambönd til þess að koma á viðskiptatengslum og koma á kynnum manna á milli. Búist er við að þessi þáttur starfseminnar vaxi mjög mikið á komandi árum.
    Einnig má búast við að heimsverslunarmiðstöðvar og Samband heimsverslunarmiðstöðva taki vaxandi þátt í starfsemi alþjóðaaðila sem líka leitast við að efla alþjóðaviðskipti.
    Samband heimsverslunarmiðstöðva hefur líka ákveðið að leggja áherslu á að hjálpa þróunarlöndum (industrializing nations) við að koma upp slíkum verslunarmiðstöðvum í þessum löndum og veita þeim aðgang að upplýsingum, þekkingu og tækifærum og gera þeim kleift að taka þátt í alþjóðaviðskiptum.

Heimsverslunarmiðstöðin í Amsterdam.
    Til frekari glöggvunar fer hér á eftir lýsing á heimsverslunarmiðstöðinni sem nýlega var opnuð í Amsterdam. Þessi heimsverslunarmiðstöð var byggð nálægt Schiphol-flugvelli og er þannig upp byggð að fjögur háhýsi, sem í eru skrifstofur, eru tengd með lægri þjónustubyggingu. Neðan jarðar eru bílastæði fyrir 1.200 bifreiðir. Heildarflatarmál þessarar byggingar er 110 þúsund fermetrar. Í þessari byggingu er mjög fjölbreytt þjónustustarfsemi, banki, pósthús, túlkar o.fl. Sameiginleg skrifstofa getur séð um alla venjulega skrifstofuvinnu, pöntun á aðstöðu fyrir fundi og ráðstefnur, sér um samninga viðvíkjandi sýningum, sér um að ráða nauðsynlegt aðstoðarfólk, útvegar miða, vegabréfsáritanir, sendla, ráðgjafarþjónustu og útsendingar á bréfum. Þessi skrifstofa getur séð um og skipulagt minni eða stærri fundi, hvort heldur er um að ræða óformlega fundi eða aðalfundi fyrirtækja. Auk þess er þarna um að ræða símaþjónustu sem tekur á móti skilaboðum, sér um telex- og telefax-sendingar. Með rafeindabréfakerfi er líka hægt að hafa beint samband við allar aðrar heimsverslunarmiðstöðvar.
    Upplýsingaþjónusta og önnur þjónustustarfsemi eru á jarðhæð í tengslum við aðalanddyri byggingarinnar. Þarna eru veittar verslunarupplýsingar (Trade Information Centre) og þarna er móttaka bæði fyrir gesti og fyrirtæki sem hafa aðstöðu í byggingunni. Þar er líka hægt að fá þjónustu viðvíkjandi almannatengslum (public relations), sölustarfsemi og auglýsingum, prentun, fjárhagsráðgjöf og bókhaldsaðstoð. Þarna eru tveir bankar og pósthús og nokkur upplýsingaborð, þar sem svarað er spurningum um hótel, bílaleigu, tryggingu, flutninga, verslunarferðir og önnur ferðalög. Einnig er hægt að panta miða í leikhús og á hljómleika.
    Iðnaðar- og verslunarráðið í Amsterdam sér um rekstur á miðstöð verslunarupplýsinga í þessari miðstöð. Þarna er hægt að fá yfirgripsmiklar verslunarupplýsingar vegna góðrar samvinnu margra aðila á þessu sviði, m.a. Export Promotion and Information Agency of the Ministry of Economical Affairs, The Holland Trade System, The Office of Business Information. Auk þessara upplýsinga um verslun í Hollandi er líka aðgangur að verslunarupplýsingum í öllum öðrum heimsverslunarmiðstöðvum. Megináhersla í þessari miðstöð er lögð á ráðgjöf viðvíkjandi útflutningi.
    Auk þess veitir hún aðstoð erlendum fyrirtækjum sem hafa áhuga á að koma upp útibúum í Hollandi og einnig hollenskum fyrirtækjum sem hafa áhuga á
stækkun erlendis. Þarna eru veittar upplýsingar viðvíkjandi tollum, markaðsmálum, flutningum og ýmsar hagrænar upplýsingar um svæði hvar sem er í heiminum. Auk þessa getur þessi miðstöð útvegað verslunarsambönd ef óskað er. Þessi miðstöð tryggir líka að þær upplýsingar, sem hún veitir, séu nýjar og áreiðanlegar, enda hefur hún aðgang að fjölmörgum upplýsingabönkum bæði hjá öðrum heimsverslunarmiðstöðvum og upplýsingabanka hollenska verslunarráðsins sem nær yfir öll fyrirtæki sem rekin eru í Hollandi. Auk þessa er þarna skjala- og uppsláttarbókasafn. Allar þessar upplýsingar eru án endurgjalds og gjald er einungis tekið fyrir sérstök verkefni og fjarskipti.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á góða nýtingu á þessari heimsverslunarmiðstöð. Þarna er hægt að leigja aðstöðu til að halda ráðstefnur, sýningarsali og kennslustofur í lengri eða skemmri tíma, jafnvel þótt einungis sé um að ræða nokkra klukkutíma.
    Á jarðhæð er um að ræða 700 fermetra sýningarsvæði sem er mjög heppilegt fyrir alls kyns sýningar og vörukynningu. Þetta svæði hentar einnig mjög vel fyrir samkvæmi, móttökur og léttan mat.
    Í þessari heimsverslunarmiðstöð er mjög góð funda- og ráðstefnuaðstaða fyrir 200–800 manns. Hátalarar, sýningarvélar og önnur venjuleg tæki eru í þessum sölum eða geta fylgt með ef óskað er. Að sjálfsögðu er hægt að láta í té hvers konar skrifstofuþjónustu og bera fram veitingar eins og óskað er. Í verslunarmiðstöðinni er líka sérstakur salur fyrir blaðamannafundi. Þarna er líka sérstök aðstaða fyrir vídeó-ráðstefnur. Úr anddyrinu er gengið beint inn í stærsta sal byggingarinnar, Amsterdam-salinn, sem tekur 200 manns í sæti. Hægt er að breyta salnum þannig að hann henti vel fyrir fjölmargar athafnir, fundi, ráðstefnur, tískusýningar, veislur, dansleiki og jafnvel hljómleika.
    Í verslunarmiðstöðinni er hægt að leigja skrifstofupláss með eða án húsgagna og tækja í skemmri eða lengri tíma, allt frá einum degi upp í nokkra mánuði.

Aðstaða til þjálfunar/menntunar.
    Á hæðinni, sem er yfir klúbbnum í heimsverslunarmiðstöðinni, er aðstaða til verslunarfræðslu og almennrar kennslu. Á þessari hæð eru 13 fyrirlestra- eða kennsluherbergi sem rúma 40–60 manns. Í þessum sölum er að finna nýjustu og bestu kennslutæki.
    Auk þess er þarna að finna tungumálamiðstöð sem sér um kennslu í flestum nútímatungumálum. Innan göngufjarlægðar eru nokkur hótel fyrir þá sem sækja lengri námskeið og sama máli gegnir um fullkomna aðstöðu til leikfimi og
útivistar. Sú aðstaða, sem þarna er boðið upp á, er einnig mjög hentug við skipulag hvers konar stjórnunarnámskeiða.

Heimsverslunarklúbburinn í Amsterdam.
    Þessi klúbbur er kjarni heimsverslunarmiðstöðvarinnar í Amsterdam. Þessi klúbbur er líka mjög góður fundarstaður fyrir alþjóðlega viðskiptaaðila. Félagsmenn í klúbbnum hafa aðgang að sérstökum bifreiðastæðum neðan jarðar. Sérstök lyfta, sem einungis félagsmenn hafa aðgang að, flytur fólk þaðan upp í anddyri klúbbsins. Í klúbbnum er líka leshorn með dagblöðum og tímaritum hvaðanæva úr heiminum og vídeótex-kerfi. Matsalurinn í klúbbnum býður upp á frábæran mat og mjög góða þjónustu. Þarna eru líka þrír einkamatsalir og hægt er að vera þarna með hádegisfundi og einkamóttökur. Fyrirtæki og stofnanir, sem taka þátt í eða styðja alþjóðsamskipti, geta orðið aðilar að félaginu sem rekur heimsverslunarklúbbinn í Amsterdam. Í þessu félagi eru bæði þeir sem leigja aðstöðu í heimsverslunarmiðstöðinni, svo og fyrirtæki og félög í og utan Amsterdam. Félagsmenn í Heimsverslunarfélaginu í Amsterdam eiga einnig aðgang að öllum öðrum heimsverslunarmiðstöðvum. Þeir hafa líka heimild til að taka þátt í verslunarkynningum sem eru haldnar á vegum félagsins. Þeir fá líka aðstoð við undirbúning verslunarferða, við öflun viðskiptasambanda og við verslunarsamninga. Aðilar að félaginu í Amsterdam fá líka sjálfkrafa aðild að Heimsverslunarfélaginu (World Trade Centre Organisation) og hafa þannig aðgang að allri þjónustu sem heimsverslunarmiðstöðvar annars staðar í heiminum geta veitt, þar með talið aðgang að klúbbum í þessum miðstöðvum. Þeir hafa líka forgang að húsakynnum þessara samtaka og fá einnig sérstakan afslátt.

Vinnuaðstaða fyrir framkvæmdastjóra.
    Í tengslum við klúbbinn í heimsverslunarmiðstöðinni í Amsterdam eru sjö vinnustofur fyrir framkvæmdastjóra. Hér er um tvö samtengd svæði að ræða. Annars vegar er hvíldarsvæði með hreinlætisaðstöðu en hins vegar er um að ræða fullkomna skrifstofu- og fundaraðstöðu. Þessi aðstaða var sérstaklega skipulögð fyrir framkvæmdastjóra sem vilja nota tíma sinn eins vel og kostur er á og njóta jafnframt allrar þeirrar þjónustu sem heimsverslunarmiðstöðin hefur upp á að bjóða.

Matsala.
    Í heimsverslunarmiðstöðinni í Amsterdam hefur verið lögð áhersla á bæði góðan rekstur og vinalegt umhverfi bæði fyrir þá sem vinna í miðstöðinni og þá
sem koma þangað í heimsókn. Þarna er um að ræða mismunandi matsölustaði og kaffisölur. Sjálfsafgreiðslumatsalan tekur um 300 viðskiptavini í sæti og selur mat á mjög vægu verði. Kaffihúsið er ekki langt frá þessum matsölustað. Á mörgum skrifstofuhæðunum er líka eldunaraðstaða þar sem hægt er að útbúa létta hressingu.

Verslun í heimsverslunarmiðstöðinni.
    Í heimsverslunarmiðstöðinni er líka um að ræða fjölda verslana sem þjóna bæði þeim sem vinna þar og aðliggjandi svæði. Þarna er rakarastofa, ágæt fjölverslun, sérstök tóbaksverslun, verslun með alls konar skrifstofuvörur, bækur og tímarit, ferðaskrifstofa, blómabúð, lyfjabúð, gjafaverslun og skartgripabúð, svo að eitthvað sé nefnt.

Skrifstofurými.
    Í heimsverslunarmiðstöðinni í Amsterdam er hægt að leigja skrifstofur af hvaða stærð sem er til lengri eða skemmri tíma og hafa jafnframt aðgang að allri þeirri þjónustu sem miðstöðin hefur upp á að bjóða. Skrifstofur eru leigðar út í einingum sem eru 60 fermetrar hver og henta mjög vel fyrir hvers konar fyrirtæki sem hafa mikil samskipti við útlönd. Þessar skrifstofur eru leigðar með gólfteppi og gluggatjöldum og er skipt niður með hreyfanlegum milliveggjum eins og óskað er. Hægt er að leigja skrifstofurými allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur eða mánuði. Þetta er gert sérstaklega með tilliti til aðila sem vilja hafa aðgang að skrifstofurými hvenær sem er, hversu langan tíma sem er og vilja jafnframt hafa aðgang að eins fullkominni skrifstofuþjónustu og fjarskiptaþjónustu og kostur er. Þessi aðstaða er líka mjög hentug fyrir aðila sem eru að þreifa fyrir sér um starfsemi á ákveðnu sviði og fyrir þá sem þurfa að sinna ákveðnum tímabundnum verkefnum.