Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 376 . mál.


Sþ.

645. Skýrsla



um starfsemi þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsbandalagsins árið 1989.

Frá Guðmundi H. Garðarssyni, Jóhanni Einvarðssyni, Karli Steinari Guðnasyni,


Salome Þorkelsdóttur og Inga Birni Albertssyni.



1. Inngangur.
    Sendinefnd Alþingis hjá þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins, hér eftir nefnd Norður-Atlantshafsþingið (North Atlantic Assembly, NAA), leggur nú fram í fyrsta sinn sérstaka skriflega skýrslu um starfsemi þingsins. Með tilliti til þess er fjallað nokkuð um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og birtur svonefndur Atlantshafssáttmáli (Norður-Atlantshafssamningur) sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949. Jafnframt er fjallað nokkuð um texta sáttmálans. Þá er greint nokkuð frá upphafi þingmannasamtakanna og fyrri starfsemi.

2. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 1949.
    Á fyrstu árunum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 ríkti mikil óvissa í heimsmálum. Þrátt fyrir svonefnt Jalta-samkomulag forustumanna bandamanna um skipan mála að aflokinni styrjöldinni var víðs fjarri að framkvæmdin yrði með þeim hætti að viðunandi væri. Mikillar tortryggni gætti meðal sigurvegaranna í styrjöldinni sem m.a. mátti rekja til gjörólíkra þjóðskipulagshátta stórveldanna. Þrátt fyrir yfirlýstan tilgang bandamanna um að í ríkjum Evrópu skyldi stjórnarfar byggjast á lýðræðislegu þingræði og að frjálsar kosningar skyldu fara fram í ríkjum álfunnar brugðust Sovétríkin við með þeim hætti að í þeim ríkjum, sem þau höfðu frelsað undan hrammi nasista og á hernámssvæði þeirra í Þýskalandi, fóru ekki fram frjálsar kosningar. Þess í stað voru settar á laggirnar leppstjórnir Sovétríkjanna skipaðar fulltrúum kommúnistaflokka viðkomandi landa. Þetta átti sér stað í Austur-Þýskalandi, Póllandi, Tékkóslóvakíu, Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjalandi. Júgóslavía og Albanía voru á yfirráðasvæði Sovétríkjanna en tókst að tryggja sér ákveðið sjálfstæði. Eystrasaltslöndin voru innlimuð í Sovétríkin. Í Grikklandi efndu kommúnistar til skæruhernaðar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þar gætu þrifist þingræðislegir stjórnarhættir. En vegna öflugrar andstöðu, sem m.a. var studd af Bretum, mistókst þeim atlagan. Hin mikla ólga í Evrópu á tímabilinu 1945–1950 og andstaða Sovétríkjanna við endurreisn hinna stríðshrjáðu þjóða á meginlandinu með Marshall-aðstoðinni, samfara valdatöku komúnistaflokkanna í Austur-Evrópu í skjóli hervalds Sovétríkjanna, leiddu til stofnunar varnar- og öryggisbandalags Vestur-Evrópuríkjanna og ríkja Norður-Ameríku, Bandaríkjanna og Kanada árið 1949.
    Árið 1949 sat að völdum samstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Utanríkisráðherra var Bjarni Benediktsson. Ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar settist að völdum 1947. Sumarið 1948 bundust Íslendingar samtökum við allar helstu viðskiptaþjóðir sínar á grundvelli Marshall-áætlunarinnar sem starfrækt var í tengslum við Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Um svipað leyti áttu sér stað miklar viðræður milli helstu lýðræðisríkja Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna og Kanada um nauðsyn þess að stofna varnar- og öryggisbandalag þessara ríkja. Í janúar 1949 var óskað eftir aðild Íslendinga að þessum viðræðum og 18. mars 1949 var Íslandi formlega boðin þátttaka í þessum samtökum af ríkisstjórnum þeirra landa sem unnu að stofnun bandalagsins, en þau voru: Bandaríkin, Belgía, Bretland, Frakkland, Holland, Kanada, Lúxemborg og Noregur.
    Í framhaldi þessa lagði ríkisstjórnin 28. mars 1949 fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafssamningi. Tillagan var svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gerast stofnaðili fyrir Íslands hönd að Norður-Atlantshafssamningi þeim sem fulltrúar Bandaríkjanna, Belgíu, Bretlands, Frakklands, Hollands, Kanada, Lúxemborgar og Noregs hafa orðið ásáttir um og prentaður er sem fylgiskjal með ályktun þessari.“
    Í inngangsorðum samnings segir:
    „Aðilar samnings þessa lýsa yfir að nýju tryggð sinni við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir.
    Þeir eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinna, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti.“
    Þar segir enn fremur: „Þeir hafa ákveðið að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveislu friðar og öryggis.“
    Í 1. gr. sáttmálans stendur:
    „Aðilar takast á hendur, svo sem segir í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, að leysa hvers konar milliríkjadeilumál, sem þeir kunna að lenda í, á friðsamlegan hátt þannig að alþjóðafriði, öryggi og réttlæti sé eigi stofnað í hættu … “
    4. gr.: „Aðilar munu hafa samráð sín á milli, hvenær sem einhver þeirra telur friðhelgi landsvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.“
    Í 5. gr.: „Aðilar eru sammála um að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla … “
    Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna er því lýst að undanfarna mánuði hafi lýðræðisþjóðirnar við norðanvert Atlantshaf unnið að samningsgerð sín á milli til að tryggja frið og velmegun á þessum slóðum með þeim hætti að stofna til samtaka, slíkra sem ráðgerð eru í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Að lokinni síðari umræðu 30. mars 1949 var tillagan samþykkt að viðhöfðu nafnakalli með 37 atkvæðum gegn 13.
    4. apríl 1949 undirrituðu utanríkisráðherrar þeirra 12 ríkja, er stóðu að stofnun bandalagsins, Atlantshafssáttmálann í Washington. Sáttmálinn birtist sem fylgiskjal I með þessari skýrslu.
    Við undirskrift samningsins flutti Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ræðu þar sem hann komst m.a. svo að orði:
    „Að vísu er það rétt sem ég áðan sagði að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum í. Þar sem fjarlægðirnar eru horfnar er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar — eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alls staðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að vilja spilla honum. Þegar þessi samningur var ræddur á Alþingi Íslendinga reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefur aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði, að kasta grjóti með höndunum en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum við hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari.“
    Af hálfu ríkisstjórnarinnar höfðu auk Bjarna Benediktssonar unnið sérstaklega að undirbúningi að þátttöku Íslands að Atlantshafsbandalaginu með þeim hætti, er að framan greinir, þeir Emil Jónsson fyrir hönd Alþýðuflokksins og Eysteinn Jónsson fyrir Framsóknarflokkinn.

3. Norður-Atlantshafsþingið.
Almennt.
    Í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna eru þingmenn frá öllum aðildarríkjum bandalagsins, en samtökin eru vettvangur þar sem þingmenn frá Norður-Ameríku og Evrópu koma saman til að ráðgast um mál er varða sameiginlega hagsmuni.
    Þingmannasamtökin voru stofnuð árið 1955, en fram til ársins 1966 gengu þau undir nafninu „þingmannaráðstefna NATO“. Nú nefnast þau „Norður-Atlantshafsþingið“ (North Atlantic Assembly, NAA). Hlutverk þingsins er að efla samstarf og skilning með ríkjum bandalagsins, stuðla að því að sjónarmið bandalagsins séu höfð til hliðsjónar við lagasetningu og loks að hvetja til samstöðu um málefni bandalagsins á þjóðþingum bandalagsríkjanna.
    Enda þótt samtökin séu með öllu óháð Atlantshafsbandalaginu eru þau tengiliður milli þingmanna og bandalagsins. Á ársfundum og öðrum fundum samtakanna flytja ýmsir af æðstu embættismönnum NATO mál sitt og við slík tækifæri eru málefni bandalagsins grannskoðuð og rædd í smáatriðum. Venjulega kemur framkvæmdastjóri NATO á ársfundi samtakanna og situr þar fyrir svörum.
    Á Norður-Atlantshafsþinginu eiga sæti 188 fulltrúar. Þjóðþing aðildarríkjanna tilnefna fulltrúa sína í samræmi við samþykkt þar um (sjá fskj. II). Ráðherrar eða aðrir, sem eiga beina aðild að ríkisstjórnum, mega ekki vera fulltrúar í samtökunum. Fulltrúatala aðildarríkjanna er í hlutfalli við mannfjölda.
    Innan þingsins starfa fimm fastanefndir: efnahagsmálanefnd, félagsmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, stjórnmálanefnd og vísinda- og tæknimálanefnd. Að loknum ársfundi samtakanna 1980 var mynduð sérstök nefnd til að fjalla um kjarnorkuvopn í Evrópu og fylgjast með framhaldi afvopnunarviðræðna austurs og vesturs.
    Nefndir þessar koma saman til fundar tvisvar á ári, að vori og hausti, áður en allsherjarfundir þingsins hefjast, og ræða þá helstu úrlausnarefni NATO á hverjum tíma. Æski nefndirnar að kanna til hlítar einstök mál, sem fram koma á nefndarfundum, koma þær á fót undirnefndum. Hjá slíkum undirnefndum er nú m.a. fjallað um samskipti austurs og vesturs, hindrunarlaus skipti á upplýsingum og ferðum einstaklinga, bandalagið og komandi kynslóð, samstarf í varnamálum, hefðbundnar varnir Evrópu, ástand á bandalagssvæðinu sunnanverðu, öryggismál utan varnarsvæðisins er varða NATO og orkulindir og orkunýtingu í ríkjum bandalagsins. Undirnefndirnar, sem koma saman oft á ári, tryggja samfellda starfsemi þingmannasamtakanna.
    Norður-Atlantshafsþingið kemur saman til allsherjarfundar einu sinni eða tvisvar á ári. Rædd eru mál sem teljast aðkallandi á hverjum tíma og bandalaginu viðkomandi. Um slík mál eru lagðar fram ítarlegar skýrslur sem síðan eru ræddar og afstaða tekin til í formi ályktana. Þeim er síðan vísað til Atlantshafsráðsins eða viðkomandi ríkisstjórna, þjóðþinga eða alþjóðastofnana, allt eftir eðli þeirra.
    Skrifstofa þingsins skipuleggur kynnisferðir þingmanna og sérfræðinga um Evrópu og Norður-Ameríku eftir því sem þörf krefur.
    Viðurkenning á framlagi þingmannasamtakanna í þágu NATO kom m.a. fram í yfirlýsingu um samskipti bandalagsríkjanna sem þjóðarleiðtogar undirrituðu í Brussel í júní 1974. Þar segir í 13. gr.:
    „Þau (aðildarríki Atlantshafsbandalagsins) viðurkenna að eining innan bandalagsins hefur ekki einungis komið fram í samvinnu ríkisstjórna þeirra heldur og í frjálsum skoðanaskiptum kjörinna fulltrúa almennings í löndum bandalagsins. Því mæla þau með því að tengsl þingmanna verði efld.“
    Stjórnvöld eða þjóðþing í aðildarríkjunum kosta starfsemi þingmannasamtakanna.
    Starfsemi samtakanna hefur verið efld á seinni árum og gegna þau nú veigamiklu hlutverki í samskiptum við þjóðþing og lýðræðishreyfingar Sovétríkjanna og annarra Austur-Evrópuríkja.
    Fyrstu fulltrúar Alþingis, er þátt tóku í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins árið 1955, voru Björn Fr. Björnsson, Guðmundur I. Guðmundsson og Jóhann Hafstein.

Þátttaka fulltrúa Alþingis.
    Fulltrúar Alþingis á fundum Norður-Atlantshafsþingsins hafa frá upphafi verið tilnefndir af þeim þingflokkum sem stóðu að samþykkt Alþingis um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu í mars 1949, en þeir voru, sem fyrr er frá greint, Alþýðuflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.
    Starfsemi þingmannasamtakanna var í byrjun í frekar lauslegu formi. Mest áhersla var lögð á að upplýsa þingmenn um framkvæmd öryggis- og varnarmála NATO og stöðu þessara mála gagnvart vígbúnaði Sovétríkjanna. Með tímanum urðu samskipti ríkjanna og þar með þingmanna einstakra NATO-ríkja nánari. Samstarf á sviði efnahagsmála og vísinda hefur aukist. Þá er meiri áhersla lögð á að ná til borgara einstakra ríkja Atlantshafsbandalagsins um málefni bandalagsins og viðkomandi ríkja. Við þetta verða helstu nefndir þingsins mun virkari og má segja að þær ásamt helstu undirnefndum og vinnuhópum um einstök verkefni séu starfandi allt árið um kring. Haldnir eru reglulegir nefndarfundir þar sem ítarleg umræða fer fram um þýðingarmestu þættina í starfsemi bandalagsins, sem og um önnur þau atriði er geta haft áhrif á stöðu Atlantshafsbandalagsins og einstakra ríkja innan þess. Nýjasta dæmi þessa er umfjöllun undirnefndar um ný viðhorf í afvopnunarmálum. Þá hefur á sl. tveimur árum mikil umfjöllun átt sér stað um þróun mála í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu. Efnt hefur verið til funda með sérfræðingum í þessum málum. Þá hafa fulltrúar þingmannasamtakanna farið til Pragar, Búdapest, Varsjár og Moskvu og hafið viðræður við fulltrúa þjóðþinga þeirra landa um gagnkvæm samskipti milli vestrænna og austrænna þingmanna í þeim tilgangi að tryggja frið og öryggi í heiminum.
    Upphaf þessara samskipta var boð þingmannasamtakanna til þáverandi aðstoðarutanríkisráðherra Ungverjalands, Gyula Horn, um að hann kæmi á fund þingsins sem haldið var í Hamborg í nóvember 1988 og flytti þar ræðu um þróun mála í Ungverjalandi. Horn, sem nú er utanríkisráðherra Ungverjalands, þáði boðið. Þar flutti hann ræðu sem vakti mikla athygli í Evrópu og má segja að með því hafi ísinn verið brotinn í stjórnmálalegum samskiptum NAA við Austur-Evrópuríkin. Síðan hafa þingmannasendinefndir farið austur á bóginn og 14. og 15. febrúar sl. var haldinn í Brussel sameiginlegur fundur stjórnmála- og öryggis- og varnarmálanefnda NAA og fulltrúa æðsta ráðs Sovétríkjanna um aukin samskipti þingmanna NATO-ríkjanna og Sovétríkjanna. Stjórnarnefnd NAA leggur áherslu á að jákvæðar viðræður við þessa aðila styrki umbótaöfl viðkomandi ríkja og þar með batnandi friðarhorfur.
    Núverandi fulltrúar Alþingis á Norður-Atlantshafsþinginu voru tilnefndir af þingflokkum Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks haustið 1987 og eru sem hér segir:
    Aðalmenn:
    Guðmundur H. Garðarsson, Sjálfstæðisflokki.
    Jóhann Einvarðsson, Framsóknarflokki.
    Karl Steinar Guðnason, Alþýðuflokki.
    Varamaður:
    Salome Þorkelsdóttir, Sjálfstæðisflokki.
    Í ársbyrjun 1988 tilnefndi Borgaraflokkurinn fulltrúa sinn, Inga Björn Albertsson, sem tók þátt í NAA sem varamaður frá sama tíma.
    Í samræmi við samþykktir NAA skiptu aðalmenn með sér verkum sem hér segir: formaður Guðmundur H. Garðarsson, varaformaður Jóhann Einvarðsson og ritari Karl Steinar Guðnason.
    Í samræmi við þetta tók Guðmundur H. Garðarsson sæti aðalmanns í stjórnarnefnd þingsins. Varamaður hans er Jóhann Einvarðsson. Ritari nefndarinnar er Aðalheiður Birgisdóttir.
    Samkvæmt samþykktum NAA geta fulltrúar aðildarþjóða tekið þátt í öllum nefndum þingsins í samræmi við vilja og ákvörðun viðkomandi sendinefnda. Vegna smæðar hefur Ísland þó aðeins fullan atkvæðisrétt í þremur nefndum, auk stjórnarnefndar. Hið sama gildir um Lúxemborg.
    Sendinefndin ákvað þátttöku í nefndum NAA sem hér segir:
    Stjórnmálanefnd: Jóhann Einvarðsson.
    Félagsmálanefnd: Karl Steinar Guðnason.
    Vísindanefnd: Salome Þorkelsdóttir.
    Varnar- og öryggismálanefnd: Guðmundur H. Garðarsson og Ingi Björn Albertsson.
    Jóhann Einvarðsson og Karl Steinar Guðnason hafa auk þess tekið þátt í störfum í undirnefndum þeirra fastanefnda sem þeir eru fulltrúar í og var Jóhann kjörinn skýrsluhöfundur undirnefndar stjórnmálanefndarinnar (sub-committee on confidence and security building measures) á þinginu í Hamborg 1988.
    Báðar undirnefndirnar héldu fundi á Íslandi síðastliðið ár.
    Vegna takmarkaðra fjárframlaga í fjárlögum hafa íslensku fulltrúarnir í NAA ekki getað tekið þátt í störfum Atlantshafsþingsins sem skyldi. Rétt er þó að geta þess að mikil breyting til hins betra hefur orðið í þessum efnum árin 1989 og 1990.

Stjórn Atlantshafsþingsins.
    Í stjórn Atlantshafsþingsins 1989–1990 eru:
    Forseti: Patrick Duffy, Englandi.
    Varaforsetar:    William V. Roth, Jr., Bandaríkjunum. Mariano Rumor, Ítalíu. Zeki Yavuzturk, Tyrklandi.
    Féhirðir: Robert Laucournet, Frakklandi.
    Framkvæmdastjóri: Peter Corterier, Vestur-Þýskalandi.
Stjórnarnefnd:
    Belgía: Lambert Kelchtermans.
    Kanada: Robert Hicks.
    Danmörk: Grethe Fenger Möller. Varamaður: Hans Hækkerup.
    Frakkland: Michel Chauty. Varamaður: Jean-Michel Boucheron.
    Þýskaland: Manfred Abelein. Varamaður: Hans Koschnick.
    Grikkland: Ioannis Valliliades. Varamaður: Ioannis Averof.
    Ísland: Guðmundur H. Garðarsson. Varamaður: Jóhann Einvarðsson.
    Ítalía: Varamaður: Margherita Boniver.
    Lúxemborg:     Mathias Greisch. Varamaður: Willy Bourg.
    Holland: Ton Frinking. Varamaður: Abraham Stemerdink.
    Noregur: Jan Petersen. Varamaður: Gunnar Berge.
    Portúgal: Angelo Correia. Varamaður: José Luis Nunes.
    Spánn: Javier Barrero.
    Tyrkland: Zeki Yavuzturk. Varamaður: Ismail Sengun.
    England:     Geoffrey Johnson Smith.
    Bandaríkin: Dante F. Fascell. Varamenn: Joseph R. Biden, Jr., og Jack Brooks.

Um starfsemi NAA 1989.
    Helstu atriðin í starfsemi Atlantshafsþingsins árið 1989 voru sem hér segir:
6.–9. janúar.
    Kyrrahafsfundur, Hawaii. Fundur skipulagður af Kyrrahafsnefndinni í samstarfi við Atlantshafsráð Bandaríkjanna (Atlantic Council of the U.S.A. (ACUS)).
    Viðfangsefni fundarins: Stjórnmála-, efnahags- og öryggisleg tengsl milli Atlantshafsríkja og Kyrrahafsríkja.
26.–28. janúar.
     Samstarf í varnarmálum (undirnefnd varnar- og öryggis- málanefndar), Bandaríkin.
    Heimsókn þingmanna til San Diego, Phoenix og Washington.
25. janúar.
    Viðskiptatengsl Atlantshafsríkjanna (undirnefnd efnahagsmálanefndar), Genf.
    Heimsókn í GATT (General Agreement of Tariffs and Trade). Viðræður um þróun alþjóðaviðskipta með sérstöku tilliti til viðskiptatengsla Atlantshafsríkjanna, svo og viðræður um fundi GATT í Uruguay.
29. janúar–3. febrúar.
    Undirnefndarstörf um leiðir til traustvekjandi aðgerða í öryggismálum (stjórnmálanefnd).
    Heimsókn til Bandaríkjanna. Jóhann Einvarðsson tók saman skýrslu og gerði tillögur fyrir hönd nefndarinnar um þetta efni.
31. janúar–2. febrúar.
    Undirnefndarfundur um opinberar upplýsingar um varnar- og öryggismál (félagsmálanefnd). London.
13.–14. febrúar.
    Efnahagsmálanefnd, París. Árlegur fundur nefndarinnar með fulltrúum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD).
14.–16. febrúar.
    Sérstakir fundir í Brussel.
    Fundir í NATO og SHAPE.
20.–25. febrúar.
     Undirnefnd um málefni Austur-Evrópu (stjórnmálanefnd). Heimsókn til Tékkóslóvakíu.
13.–15. mars.
    Undirnefnd um upplýsingastarfsemi í varnar- og öryggismálum (félagsmálanefnd). Fundur í Madrid.
15.–17. mars.
    NATO-efnahagsmálaráðstefna. Árlegur fundur nefndarinnar með þátttöku undirnefndar um málefni Austur-Evrópu. Aðalefni ráðstefnunnar: Endurreisn efnahagslífs Sovétríkjanna.
21.–23. mars.
    Undirnefnd um hefðbundnar varnir: Nýjungar í varnarsamstarfi Evrópu (varnar- og öryggismálanefnd). Ráðstefna WEU um öryggismál Evrópu, Flórens, Ítalíu.
2.–5. apríl.
    Undirnefnd um hefðbundnar varnir: Nýjar leiðir í samstarfi um öryggismál Evrópu (varnar- og öryggismálanefnd). Fundir í Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi.
3. apríl.
    Undirnefndarfundur um traustvekjandi aðgerðir í öryggismálum (stjórnmálanefnd). Fundur í Reykjavík. Umræður um þróun mála á afvopnunarráðstefnunni í Vín.
6. apríl.
    Undirnefndarfundur um viðskipti Atlantshafsríkjanna (efnahagsmálanefnd). Fundur í aðalstöðvum Evrópubandalagsins í Brussel.
14.–16. apríl.
    Stjórnarnefndarfundur í Haag, Hollandi.
17.–18. apríl.
    Undirnefndarfundur um samstarf í varnarmálum (varnar- og öryggismálanefnd).
    Fundur í Haag.
23.–28. apríl.
    Undirnefnd um samstarf á sviði rannsókna og vísinda (vísindamálanefnd). Washington, Colorado og Florida.
3.–5. maí.
    Undirnefnd um málefni ráðstefnu varðandi öryggismál og samstarf Evrópuþjóða (félagsmálanefnd). London. Fundur með forráðamönnum NATO, fulltrúum Varsjárbandalagsins og hlutlausra ríkja.
3.–6. maí.
    Undirnefnd um málefni Austur-Evrópu (stjórnmálanefnd). Heimsókn til Póllands.
26.–30. maí.
    Vorþing í Antalya, Tyrklandi.
31. maí–2. júní.
     Undirnefndarfundur um samstarf í varnarmálum (varnar- og öryggisnefnd). Fundur í Tyrklandi.
3.–5. júní.
    Undirnefndarfundur um öryggis- og varnarmál Evrópu (félagsmálanefnd). Fundur í París með forráðamönnum NATO, fulltrúum Varsjárbandalagsins og hlutlausra ríkja ásamt sérfræðingum um mannréttindi.
9.–15. júní.
    Undirnefndarfundur um viðskipti Atlantshafsríkjanna (efnahagsmálanefnd). Fundarefni: Utanríkisviðskiptastefna Bandaríkjanna og Kanada. Vandamál í tengslum við endurskoðun stefnu ríkjanna í landbúnaðarmálum.
    Áætlun Evrópubandalagsins 1992.
    Fundirnir voru haldnir í Ottawa, Chicago og Washington.
13.–16. júní.
    Undirnefnd um samstarf í varnarmálum (varnar- og öryggismálanefnd). SEALINK-fundur í Annapolis.
3.–7. júlí.
    Heimsókn til Sovétríkjanna í boði æðsta ráðsins. Forseti ásamt nokkrum stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra NAA.
3.–9. september.
    Undirnefnd um samstarf á sviði rannsókna og vísinda (vísindanefnd). Heimsókn til Sovétríkjanna. Moskva, Novosíbírsk og Irkutsk.
4.–15. september.
    Árleg ferð. Atlantshafssvæðið. Varnarstöðvar skoðaðar í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.
8.–12. september.
    Undirnefnd um upplýsingar varðandi varnar- og öryggismál (félagsmálanefnd).
    Fundir í Reykjavík og Washington.
18.–20. september.
    Undirnefndarfundur um nýjar leiðir í varnar- og öryggismálum Evrópu (varnar- og öryggismálanefnd).
    Fundir í Lissabon og Madrid.
19.–20. september.
     Heimsókn til NATO og SHAPE fyrir nýja þingfulltrúa og starfsfólk í NAA.
5.–10. október.
    Ársþing í Róm.
Október.
    Undirnefnd um málefni Austur-Evrópu og nýjar leiðir í öryggismálum (stjórnmálanefnd). Heimsókn til Ungverjalands.
30. okt.–2. nóvember:
    Undirnefnd um málefni Austur-Evrópu (stjórnmálanefnd). Hringborðsumræður með þingmönnum frá Ungverjalandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu í Bonn.

    Framangreind upptalning gefur nokkra hugmynd um með hvaða hætti NAA starfar. Þingmenn frá helstu aðildarríkjum taka virkan þátt í starfsemi nefnda ásamt miklum fjölda sérfræðinga á ýmsum sviðum. Á skrifstofu Atlantshafsþingsins í Brussel starfa nú um 35 manns. Framkvæmdastjóri er dr. Peter Corterier, fyrrv. ráðherra og þingmaður á Sambandsþingi Þýskalands.
    Matthías Á. Mathiesen var forseti Norður-Atlantshafsþingsins 1967–1968.
    Stjórnarnefnd þingsins hefur tvívegis haldið fundi á Íslandi og fram undan er fundur í Reykjavík dagana 6.–8. apríl nk. Ekki hefur enn verið unnt að halda þing NAA á Íslandi vegna skorts á fullnægjandi aðstöðu hvað varðar fundahald og tæknilega útfærslu.
    Skýrslur, ályktanir og greinargerðir um helstu mál, sem NAA fjallar um, eru gefnar út á ensku og dreift opinberlega. Samþykktir eða ályktanir NAA eru ekki bindandi fyrir aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.
    Dagana 5.–10. október 1989 var haustþing samtakanna haldið í Róm. Þar voru að venju tekin til umfjöllunar þau mál sem efst voru á baugi hjá Atlantshafsríkjunum. Einnig var áberandi umræða um þróun mála í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Mikla athygli vakti að til þingsins var boðið Vladimir Lobov, öðrum æðsta hershöfðingja sovéska herráðsins, og John Galvin, yfirhershöfðingja NATO-herjanna. Umræðuefnið var stefnan í átt til meira jafnvægis í öryggismálum Evrópu. Þetta er í fyrsta sinn sem hershöfðingjar NATO og Varsjárbandalagsins hittast hjá þingmannasamtökunum og spunnust miklar og líflegar umræður eftir framsögu þeirra.
    Á þinginu voru samþykktir gerðar um m.a. eftirfarandi málefni:
1.     Stefnu bandalagsins og stöðvun vígbúnaðar.
2.     Traustvekjandi aðgerðir í öryggismálum.
3.     Málefni Austur-Evrópu.
4.     Nýjan skilning á öryggismálum í heiminum.
5.     Sovéska utanríkisstefnu undir forustu Gorbatsjovs.
6.     Atlantshafsbandalagið og almenningsálitið.
7.     Almannavarnir.
8.     Fræðslu um varnar- og öryggismál.
9.     Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu.
10.     Viðskiptatengsl Atlantshafsríkjanna.
11.     Endurbætur í sovésku efnahagskerfi.
12.     Eftirlit með samningum um vígbúnaðarmál.
13.     Takmörkun á útbreiðslu kjarnavopna.
14.     Varnarvígbúnað.
15.     Umhverfismál.
16.     Samvinnu um rannsóknir og þróun.
17.     Varnarsamvinnu innan bandalagsins.
18.     Öryggismál Atlantshafsbandalagsins.
19.     Ný viðhorf varðandi hefðbundin vopn.



Fylgiskjal I.


ATLANTSHAFSSÁTTMÁLINN



    Atlantshafssáttmálinn var undirritaður 4. apríl 1949 í Washington og hljóðar svo:

Inngangsorð.


    Aðilar samnings þessa lýsa yfir að nýju tryggð sinni við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir.
    Þeir eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinna, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti.
    Þeir leitast við að efla jafnvægi og velmegun á Norður-Atlantshafssvæðinu.
    Þeir hafa ákveðið að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveislu friðar og öryggis.
    Þeir hafa því orðið ásáttir um Norður-Atlantshafssamning þennan.

1. gr.

    Aðilar takast á hendur, svo sem segir í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, að leysa hvers konar milliríkjadeilumál, sem þeir kunna að lenda í á friðsamlegan hátt, þannig að alþjóðafriði, öryggi og réttlæti sé eigi stofnað í hættu og að beita ekki hótunum né valdi í milliríkjaskiptum á nokkurn þann hátt sem ósamrýmanlegur er markmiðum Sameinuðu þjóðanna.

2. gr.

    Aðilir munu stuðla að frekari þróun friðsamlegra og vinsamlegra milliríkjaviðskipta með því að styrkja frjálsar þjóðfélagsstofnanir sínar, með því að koma á auknum skilningi á meginreglum þeim, sem þær stofnanir eru reistar á, og með því að auka möguleika jafnvægis og velmegunar. Þeir munu gera sér far um að komast hjá árekstrum í efnahagslegum milliríkjaviðskiptum sínum og hvetja til efnahagssamvinnu sín á milli, hvort heldur er við einstaka samningsaðila eða alla.

3. gr.

    Í því skyni að ná betur markmiðum samnings þessa munu aðilar hver um sig og í sameiningu, með stöðugum og virkum eigin átökum og gagnkvæmri aðstoð, varðveita og efla möguleika hvers um sig og allra í senn til þess að standast vopnaða árás.

4. gr.

    Aðilar munu hafa samráð sín á milli hvenær sem einhver þeirra telur friðhelgi landsvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.

5. gr.

    Aðilar eru sammála um að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla; fyrir því eru þeir sammála um ef slík vopnuð árás verður gerð að þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varnar og sameiginlegrar, sem viðurkenndur er í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá, sem á er ráðist, með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir, sem hann telur nauðsynlegar, og er þar með talin beiting vopnavalds til þess að koma aftur á og varðveita öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins.
    Tilkynna skal öryggisráðinu tafarlaust allar þvílíkar vopnaðar árásir og allar ráðstafanir sem gerðar eru vegna þeirra. Hætta skal slíkum ráðstöfunum þegar öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að koma á aftur og varðveita alþjóðafrið og öryggi.

6. gr.*


    Ákvæði 5. gr. um vopnaða árás á einn eða fleiri samningsaðila skulu taka til vopnaðrar árásar:

i.     á lönd hvaða aðila sem vera skal í Evrópu eða Norður-Ameríku, * * á Tyrklandi eða eyjar undir lögsögu hvers aðila sem vera skal í Norður-Atlantshafi norðan hvarfbaugs krabbans.

ii.     á lið, skip eða loftför hvers aðila sem vera skal á eða yfir þessum yfirráðasvæðum eða öðru svæði í Evrópu þar sem hernámslið einhvers aðilans hafði setu þegar samningurinn gekk í gildi, eða Miðjarðarhafinu eða Norður-Atlantshafinu norðan hvarfbaugs krabbans.
......
*    Eins og hún hljóðar nú, eftir inngöngu Grikklands og Tyrklands í bandalagið (1952).
**     Hér er felld úr upptalningunni „hin frönsku héruð í Algier“, en er Alsír fékk sjálfstæði lýstu Frakkar yfir því að landsvæði þessi teldust eigi lengur til samningssvæðisins. Atlantshafsráðið ákvað að sú breyting miðaðist við 3. júlí 1962.
......

7. gr.


    Samningur þessi breytir engu um réttindi og skyldur þeirra aðila, sem eru meðlimir Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt sáttmála þeirra né frumskyldu öryggisráðsins til varðveislu alþjóðafriðar og öryggis, og má á engan hátt túlka hann á þann veg.

8. gr.


    Hver aðili um sig lýsir yfir því að engar milliríkjaskuldbindingar, sem nú eru í gildi milli þess aðila og nokkurs annars aðila samnings þessa eða nokkurs þriðja ríkis, brjóti í bága við ákvæði samnings þessa og lofar að gerast ekki aðili að nokkurri milliríkjaskuldbindingu sem brjóta mundi í bága við samning þennan.

9. gr.

    Með samningi þessum setja aðilar á stofn ráð og skal hver þeirra eiga þar sæti til þess að athuga mál sem varða framkvæmd samnings þessa. Haga skal svo skipun ráðsins að það geti komið til funda tafarlaust hvenær sem er. Ráðið skal setja á stofn þær undirnefndir sem nauðsynlegar kunna að þykja; fyrst og fremst skal það stofnsetja þegar í stað varnarnefnd er geri tillögur um ráðstafanir til framkvæmdar 3. og 5. gr.

10. gr.

    Aðilar geta, ef þeir eru allir sammála um það, boðið hverju öðru Evrópuríki, sem vera skal og aðstöðu hefur til að vinna að framgangi meginreglna samnings þessa og stuðla að öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins að gerast aðili að honum. Ríki, sem boðin er þátttaka, getur orðið aðili að samningnum með því, að afhenda ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku staðfestingarskjal sitt. Ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku mun tilkynna hverjum aðila um afhendingu hvers slíks staðfestingarskjals.

11. gr.

    Samning þennan skal fullgilda og skulu ákvæði hans framkvæmd af aðilum í samræmi við stjórnlagaákvæði hvers um sig. Fullgildingarskjölin skulu afhent ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku svo fljótt sem unnt er en hún tilkynnir síðan öllum öðrum ríkjum, sem undirritað hafa, um afhendingu hvers skjals. Samningurinn skal ganga í gildi milli þeirra ríkja, sem hafa fullgilt hann, jafnskjótt sem fullgildingarskjöl meiri hluta þeirra ríkja, sem undirritað hafa, þar á meðal Bandaríkjanna, Belgíu, Bretlands, Frakklands, Hollands, Kanada og Lúxemborgar, hafa verið afhent, og að því er önnur ríki varðar skal hann ganga í gildi þann dag sem fullgildingarskjöl þeirra eru afhent.

12. gr.

    Þegar tíu ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, eða hvenær sem er eftir það, skulu aðilar ráðgast um endurskoðun hans ef einhver þeirra óskar þess. Skal þá höfð hliðsjón af þeim atriðum, sem þá hafa áhrif á frið og öryggi á Norður-Atlantshafssvæðinu, þar á meðal framvindu almennra samninga og svæðissamninga samkvæmt sáttmála hinna Sameinuðu þjóða til varðveislu alþjóðafriðar og öryggis.

13. gr.

    Þegar tuttugu ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa getur hver aðili sagt honum upp með eins árs fyrirvara, talið frá afhendingu tilkynningar þess efnis til ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku, en hún skýrir ríkisstjórnum annarra aðila frá afhendingu slíkra tilkynninga.

14. gr.

    Samningur þessi er gerður á ensku og frönsku og skulu báðir textar jafngildir. Skulu þeir varðveittir í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku. Skal hún senda staðfest eftirrit af samningnum til ríkisstjórna annarra ríkja er undirritað hafa.

    Sáttmálinn tók gildi 24. ágúst 1949 (fullgildingardagur) þegar öll aðildarríki höfðu staðfest hann.




Fylgiskjal II.


STARFSREGLUR FYRIR


NORÐUR-ATLANTSHAFSÞINGIÐ



Formálsorð.


Norður-Atlantshafsþingið.


    Fulltrúar á Norður-Atlantshafsþingi (North Atlantic Assembly, NAA) eru valdir úr hópi fulltrúa á þjóðþingum ríkja sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu með þeim hætti sem þykir hentugast í hverju landi. Ráðherrum í ríkisstjórnum er óheimilt að sitja þingið.

Markmið.


    Þar sem þingfulltrúar Norður-Atlantshafsþingsins eiga einnig sæti á þjóðþingi í heimalandi sínu þjónar þingið sem tengiliður milli yfirstjórnar Atlantshafsbandalagsins og ríkisstjórna aðildarlandanna. Í umræðum sínum leitast þingið við að skapa víðtæka einingu um Atlantshafsbandalagið á löggjafarþingum aðildarríkjanna og stuðlar að markmiðum bandalagsins.

Starfsreglur.


I. AÐILD


1. gr.

1.     Fjöldi þingfulltrúa skal vera 188 eins og nánar er kveðið á um í viðauka I.
2.     Hver þingfulltrúi má hafa einn eða fleiri varamenn en aðeins einn þeirra má greiða atkvæði í hans stað.
3.     Fulltrúar skulu kjörnir, ef kostur er, til a.m.k. eins árs í senn.
4.     Þingfulltrúar verða að vera fulltrúar á þjóðþingi í heimalandi sínu. Þegar þingmennsku þeirra lýkur mega þeir sitja áfram sem fulltrúar á Norður-Atlantshafsþinginu þar til aðrir hafa verið kjörnir í stað þeirra, að öðrum kosti sex mánuði hið lengsta.
5.     Sé deilt um rétt fulltrúa til þingsetu skal hann taka sæti sitt til bráðabirgða og njóta sömu réttinda sem aðrir þingfulltrúar þar til þingið hefur komist að niðurstöðu í máli hans.

II. STJÓRN ÞINGSINS


2. gr.

1.     Í stjórn þingsins eru forseti, þrír varaforsetar og gjaldkeri.
2.     Áður en þingfundum lýkur ár hvert skal þingið kjósa sér, í þessari röð: forseta, varaforseta og gjaldkera.
3.     Framboð til embættis forseta, varaforseta og gjaldkera skal stutt skriflega af minnst þremur þingfulltrúum og verður stjórnarnefnd að samþykkja framboð þeirra.
4.     Þegar stjórnarnefnd metur framboð til embættis forseta, varaforseta og gjaldkera skal hún tryggja (1) að varaforsetar komi hver frá sínu landi og (2) að a.m.k. einn stjórnarmaður þingsins sé valinn úr hópi þingfulltrúa frá Bandaríkjum Norður-Ameríku eða Kanada.
5.     Kjörtímabil forseta og varaforseta er frá lokum þings á því ári sem þeir eru kjörnir til loka næsta árlegs þinghalds.
6.     Kjörtímabil gjaldkera nær frá 1. apríl árið eftir að hann er kjörinn til 31. mars á þar næsta ári.

3. gr.


1.     Þingfulltrúar og atkvæðisbærir varamenn þeirra kjósa stjórn þingsins samkvæmt ákvæðum 23. gr. Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg. Aðeins þeir atkvæðaseðlar, sem merktir eru nöfnum þeirra sem hafa vera skráðir í framboð með löglegum hætti, skulu taldir með fjölda greiddra atkvæða.
2.     Forseti skal kjörinn leynilegri kosningu og hefur hver þingfulltrúi eða varamaður hans eitt atkvæði. Ef enginn frambjóðandi til embættis forseta hefur fengið hreinan meiri hluta greiddra atkvæða eftir tvær umferðir telst sá frambjóðandi kjörinn sem fær flest atkvæði í þriðju umferðinni. Verði atkvæði jöfn er hlutkesti látið ráða.
3.     Varaforsetar skulu kjörnir leynilegri kosningu og hefur hver þingfulltrúi eða varamaður hans jafnmörg atkvæði og stöður eru lausar. Frambjóðandi eða frambjóðendur, sem fá flest atkvæði, teljast kjörnir. Verði atkvæði jöfn er hlutkesti látið ráða.
4.     Gjaldkeri skal kjörinn leynilegum kosningum samkvæmt ákvæðum 2. tölul. hér að ofan.
5.     Sé fjöldi frambjóðenda jafn og eða færri en fjöldi embætta sem laus eru má kjósa þá með lófataki.
6.     Heimilt er að endurkjósa forseta, varaforseta og gjaldkera, varaforseta þó aðeins einu sinni.
7.     Ef forseti getur af einhverjum ástæðum ekki gegnt embætti sínu á kjörtímabilinu skal einn varaforsetanna koma í hans stað og skal tilnefning hans sem forseta um stundarsakir vera borin undir stjórnarnefnd til samþykkis á næsta fundi hennar.
8.     Ef gjaldkeri verður af einhverjum ástæðum ófær um að gegna embætti sínu fyrir eða á kjörtímabilinu skal stjórnarnefndin kjósa eftirmann á næsta fundi sínum til að taka við embættinu út kjörtímabilið. Verði ágreiningur um kosninguna skal stjórnarnefnd kjósa samkvæmt ákvæðum 2. tölul. 8. gr. hér að neðan.

III. FORSETI


4. gr.

    Forseti setur þingið og tilkynnir þinghlé og þingslit. Honum ber auk þess að gæta reglu á þinginu, framfylgja starfsreglunum, beina athygli þingsins að málum sem falla undir markmið þess, gefa mælendum orðið, hafa umsjón með umræðum, bera tillögur undir atkvæði og tilkynna niðurstöður. Úrskurður forseta um fundarsköp er endanlegur.

5. gr.

    Sjái forseti sér ekki fært að stjórna þinginu eða óski hann að taka þátt í umræðum þess skal einn varaforsetanna taka við fundarstjórn.

6. gr.

    Forseti skal dreifa til hlutaðeigandi aðila afritum af öllum ályktunum sem samþykktar hafa verið af þinginu.


IV. STJÓRNARNEFND


7. gr.

1.     Í stjórnarnefnd á sæti einn fulltrúi frá hverju aðildarríki og er hann tilnefndur af sendinefnd lands síns. Einnig má tilnefna varamenn. Forseti, varaforsetar og gjaldkeri sitja fundi stjórnarnefndar í krafti embættis síns.
2.     Forseti, varaforsetar og gjaldkeri hafa aðeins atkvæðisrétt í stjórnarnefnd séu þeir fulltrúar sendinefndar sinnar í nefndinni eða ef enginn fulltrúi er viðstaddur frá sendinefnd þeirra.
3.     Forseti kallar stjórnarnefnd saman til fundar.
4.     Stjórnarnefnd má bjóða formönnum og skýrsluhöfundi þingnefndanna að sitja fundi sína með málfrelsi en án atkvæðisréttar. Formönnum þingnefndanna ber að láta stjórnarnefnd fá upplýsingar reglulega um störf nefnda sinna og niðurstöður þeirra.

8. gr.


1.     Aðalhlutverk stjórnarnefndar er:
    a.    Að vera málsvari þingsins á milli þinghalda.
    b.    Að semja og dreifa væntanlegri dagskrá næsta fundar þingsins, að höfðu tilskildu samráði ekki seinna en þremur vikum fyrir upphaf þings, og að ákveða dag- og staðsetningu þingsins.
    c.    Að sjá um skipulagningu þingfunda fram í tímann.
    d.    Að undirbúa fjárhagsáætlun þingsins og afgreiða hana til bráðabirgða.
    e.    Að hafa umsjón með fjármálum þingsins samkvæmt fjárhagsáætlun þess og skila uppgjöri á hverju þingtímabili. Gjaldkeri stjórnar ber ábyrgð á fjármálum þingsins.
    f.    Að samræma starfsemi nefndanna, að gera undir viðeigandi kringumstæðum tillögur um mál sem taka ætti fyrir og veita þeim leiðsögn þegar fleiri en ein nefnd kynnu að vera að fást við sömu málin.
    g.     Að skipa undirnefndir til að fjalla nánar um mál sé þess talin þörf.
    h.     Að takmarka samkvæmt ákvæðum 30. gr. fjölda skýrslna sem leggja má fyrir þingið hverju sinni ef hún kýs að gera það.
    i.     Að gera allar mögulegar ráðstafanir í gegnum Norður-Atlantshafsráðið og á annan viðeigandi hátt til að tryggja framkvæmd tilmæla og samþykkta þingsins.
2.     Hver fulltrúi í stjórnarnefnd skal hafa eitt atkvæði. Þegar ákvörðun felur í sér aukin útgjöld skal vægi atkvæða taka mið af fjárframlagi frá hverju landi sem nánar er kveðið á um í viðauka II.

9. gr.


1.     Stjórnarnefnd skipar og segir upp aðalritara sem er undir beinni yfirstjórn forseta.
2.     Stjórnarnefnd ákvarðar vald og verksvið aðalritara.
3.     Stjórnarnefnd ákveður fjölda starfsmanna við embætti aðalritara og stöðu þeirra.
4.     Stjórnarnefnd skipar og segir upp aðstoðarmanni aðalritara, fjármálastjóra og endurskoðanda.


V. GJALDKERI


10. gr.

1.     Gjaldkeri skal vera þingmaður sem er fulltrúi á þinginu. Hann á sæti í stjórnarnefnd en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt fulltrúi lands síns í nefndinni.
2.     Það er hlutverk gjaldkera:
    a.    Að leggja fyrir stjórnarnefnd drög að fjárhagsáætlun næsta almanaksárs fyrir 1. nóvember ár hvert.
    b.    Að leggja fjárhagsáætlun næsta almanaksárs fyrir þingið þegar hún hefur verið samþykkt í stjórnarnefnd.
    c.    Að leggja fyrir stjórnarnefnd endurskoðaða reikninga sl. árs fyrir 1. júlí ár hvert.
    d.    Að hafa yfirstjórn með fjármálum þingsins almennt. Gjaldkeri skal undirrita fyrir hönd þingsins öll skjöl er varða fjármál þess. Fjármálastjóri er fjárhagslega ábyrgur gagnvart gjaldkera.

VI. ÞINGFUNDIR


11. gr.

1.     Allir þingfundir skulu haldnir í heyranda hljóði nema þingið ákveði annað.
2.     Áheyrendur á áheyrendapöllum skulu vera um kyrrt í sætum sínum og hafa hljóð og er það í valdi forseta að láta ryðja áheyrendapalla verði misbrestur á því. Almenningur verður að yfirgefa pallana þegar þingið heldur lokaða fundi.

12. gr.


1.     Forseti má með samþykki stjórnarnefndar bjóða aðilum öðrum en þingfulltrúum að ávarpa þingið.
2.     Forseti má bjóða aðilum öðrum en þingfulltrúum að sitja fundi þingsins sem áheyrnarfulltrúar. Þeir skulu yfirgefa þingsalinn þegar þingið heldur lokaða fundi nema forseti ákveði annað.

13. gr.


1.     Enginn þingfulltrúi skal taka til máls nema forseti gefi honum orðið.
2.     Skýrsluhöfundar, sem leggja fram ályktanir nefnda, skulu hafa forgang á mælendaskrá.
3.     Þegar tíminn, sem áætlaður hefur verið fyrir umræður, virðist ekki nægjanlegur má þingið að tillögu forseta ákveða að takmarka skuli ræðutíma hvers mælanda, þó ekki við minna en þrjár mínútur. Atkvæði skal greiða um slíka tillögu án umræðna.
4.     Formönnum og skýrsluhöfundum þeirra nefnda, sem hafa lagt fram skýrslur eða ályktanir skal gefa kost á að svara fyrir sig að loknum umræðum.
5.     Þegar rætt er um breytingartillögu má enginn tala lengur en fimm mínútur.
6.     Enginn fulltrúi má tala lengur en þrjár mínútur þegar hann gerir grein fyrir atkvæði sínu.

14. gr.


1.     Enginn má grípa fram í fyrir ræðumanni nema til þess eins að áminna hann.
2.     Haldi ræðumaður sig ekki við umræðuefni má forseti áminna hann og fari ræðumaður ekki eftir ábendingunni skal honum vikið úr ræðustóli.

15. gr.


    Komi fram tillaga eða athugasemd um fundarsköp má forseti gefa flutningsmanni orðið til að gera stutta grein fyrir henni. Réttur til svars er einnig leyfilegur. Tillaga eða athugasemd skal síðan afgreidd án frekari umræðna.

16. gr.

1.     Tillögur, áskoranir, álitsgerðir eða tilmæli skulu varða mál sem sett verði á dagskrá fundarins annaðhvort af stjórnarnefnd eða af þinginu sjálfu á meðan á þingfundinum stendur, eftir tillögu forseta.
2.     Tillögu er beint til Norður-Atlantshafsráðsins um það að ráðið grípi til aðgerða til að framfylgja stefnu þingsins og er vænst svars frá ráðinu við tillögunni.
3.     Samþykkt lýsir yfir formlegu áliti þingsins í einhverju máli sem kallar ekki á aðgerðir af hálfu Norður-Atlantshafsráðsins. Má beina áskorunum til allra ríkisstjórna í löndum Norður-Atlantshafsbandalagsins eða aðeins nokkurra þeirra, til allra þjóðþinga aðildarríkjanna eða aðeins nokkurra þeirra eða til alþjóðlegra samtaka.
4.     Álitsgerð tjáir álit þingsins þegar svara á formlegri fyrirspurn frá Norður-Atlantshafsráðinu eða frá alþjóðlegum samtökum um mál sem falla undir verksvið þingsins.
5.     Tilmæli frá þinginu fjalla um innri málefni og skipulag þingsins og nefnda þess.
6.     Í þessum reglum um starfsreglur er orðið ályktanir notað yfir tillögur, samþykktir, álitsgerðir og tilmæli.

17. gr.


    Þingið má fara fram á það við forseta að hann biðji um álit annarrar alþjóðasamkomu eða samtaka á tilteknum ályktunum. Forseti má sjálfur ákveða að leita álits hjá öðrum alþjóðasamtökum.

18. gr.

1.     Hver þingfulltrúi hefur rétt til að flytja breytingartillögur við ályktanir og mæla fyrir þeim.
2.     Breytingartillögur verða að varða ályktunina sem þeim er ætlað að breyta. Þær skulu undirritaðar af flutningsmönnum sínum og, sé þess nokkur kostur, lagðar fram með nægilegum fyrirvara til að hægt sé að þýða þær og dreifa þeim áður en umræður hefjast. Forseti ákveður hvort þær skuli teknar til greina.
3.     Breytingartillögur skal afgreiða á undan þingskjölum sem þeim er ætlað að breyta. Séu lagðar fram breytingartillögur við sömu málsgrein sem útiloka hvor aðra skulu atkvæði fyrr ganga um þá tillöguna sem, að mati forseta, gengur lengra til breytingar frá upphaflegri tillögu.
4.     Í fundargerð skal að jafnaði skrá bæði breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram og niðurstöður atkvæðagreiðslu um þær skv. 7. tölul. 23. gr.

19. gr.


1.     Leyfilegt er að vísa máli aftur til nefndar hvenær sem er. Afgreiða skal tillögu þess eðlis samkvæmt reglum um atkvæðagreiðslu í 23. gr.
2.     Þótt þurft hafi að vísa máli aftur til nefndar vegna framkominnar breytingartillögu skal ekki fresta umræðu um málið nema þingið ákveði það sérstaklega. Þingið má setja nefnd ákveðinn frest til að skila áliti sínu um breytingartillögu sem til hennar hefur verið vísað.

20. gr.


1.     Aðkallandi mál má, að tillögu stjórnarnefndar, setja á dagskrá þingsins hvenær sem er.
2.     Hver þingfulltrúi má leggja fram skriflega ósk um að fleiri atriðum verði bætt við dagskrá þingsins, þó ekki síðar en tveimur vikum fyrir upphaf fyrsta þingfundar.
3.     Séu slíkar óskir studdar með undirskriftum sex eða fleiri þingfulltrúa frá a.m.k. tveimur löndum skal stjórnarnefnd fjalla um þær og getur hún, telji hún það rétt, lagt þær fyrir þingið. Ákveði stjórnarnefnd að mæla ekki með því að slíku máli verði bætt við dagskrá þingsins skulu flutningsmenn hafa rétt til að skjóta málinu til þingsins.

21. gr.


    Fulltrúar bera sjálfir ábyrgð á orðum sínum og gerðum og skulu orð þeirra ekki vera að neinu leyti skuldbindandi fyrir ríkisstjórnir eða þjóðþing þeirra.

22. gr.

    Hver fulltrúi skal rita nafn sitt á viðveruskrá hvers fundar áður en hann tekur sæti sitt.


VII. ATKVÆÐAGREIÐSLA


23. gr.

1.     Þingfulltrúar greiða atkvæði sem einstaklingar.
2.     Þingið skal að jafnaði greiða atkvæði með handauppréttingu og atkvæðaspjöldum. Spjöld þessi skulu ekki vera fleiri en fjöldi fulltrúa í hverri sendinefnd eins og tiltekið er í viðauka I og ekki bundin einstaklingum. Þeim er útbýtt til sendinefndanna tvisvar á ári og gilda aðeins fyrir eitt þingtímabil.
3.     Verði niðurstaða atkvæðagreiðslu með handauppréttingum tvísýn að mati forseta skal greiða atkvæði með nafnakalli sendinefnda. Skylt er að halda atkvæðagreiðslu með nafnakalli sendinefnda fari tíu eða fleiri þingfulltrúar fram á það nema þegar verið er að kjósa stjórn þingsins og er þá kosið samkvæmt ákvæðum 3. gr. hér að ofan. Forseti má ákveða hvenær sem er að halda atkvæðagreiðslu með nafnakalli sendinefnda.
4.     Hver þingfulltrúi má fara fram á sératkvæðagreiðslu um einstaka málsgrein eða hverja málsgrein í tillögu eða ályktun. Hver þingfulltrúi má fara fram á að málsgrein, sem er til meðferðar í þinginu, verði skipt í hluta og atkvæði greidd sérstaklega um hvern hluta hennar. Séu breytingar gerðar við einhverja málsgrein verður síðan að greiða atkvæði um málsgreinina í heild svo breytta.
5.     Atkvæðagreiðsla með nafnakalli sendinefnda fer fyrst fram innan hverrar sendinefndar og eru atkvæðatölur skráðar fyrir hverja sendinefnd.
6.     Nafnakall sendinefnda eftir stafrófsröð þeirra á ensku fer fram eftir fimm mínútna frest sem skal nota til að afla upplýsinga um og skrá niðurstöður atkvæðagreiðslunnar í hverri sendinefnd fyrir sig. Í hverri sendinefnd má hámarksfjöldi greiddra atkvæða vera jafn fjölda fulltrúa hennar. Fjöldi atkvæða, sem sendinefnd greiðir, ræðst af fjölda fulltrúa hennar sem viðstaddir eru atkvæðagreiðsluna hverju sinni og hafa atkvæðaspjöld en enginn fulltrúi má greiða fleiri en eitt atkvæði.
7.     Forseti lætur telja atkvæði greidd með nafnakalli og tilkynnir niðurstöðurnar. Fjöldi greiddra atkvæða, ásamt hjásetum, skal skráður í fundargerð þingfundarins.

24. gr.


1.     Að undanskildum kosningum þeim, sem lýst er í 3. gr. hér að ofan, skal einfaldur meiri hluti nægja til að ákveða niðurstöðu allra atkvæðagreiðslna.
2.     Aðeins atkvæði með eða á móti skulu talin með greiddum atkvæðum.


VIII. NEFNDIR


25. gr.

1.     Þingið skal skipa eftirfarandi fastanefndir:
    a.     félagsmálanefnd,
    b.     efnahagsmálanefnd,
    c.     varnar- og öryggismálanefnd,
    d.     stjórnmálanefnd,
    e.     vísinda- og tæknimálanefnd.
    Þingið má skipa fleiri nefndir.
2. a.     Bandaríki Norður-Ameríku skulu eiga átta sæti í stjórnmálanefndinni og sjö í hverri nefnd annarri.
     b.    Frakkland, Sambandslýðveldið Þýskaland, Ítalía og Stóra-Bretland skulu hvert um sig eiga fjögur sæti í efnahags-, varnar- og öryggismálanefndunum og þrjú sæti í vísinda- og tæknimálanefndinni og í félagsmálanefnd.
     c.    Kanada, Spánn og Tyrkland skulu hvert um sig eiga þrjú sæti í varnar- og öryggismálanefnd og stjórnmálanefnd og tvö sæti í öllum hinum nefndunum.
     d.    Belgía, Grikkland, Holland og Portúgal skulu hvert um sig eiga tvö sæti í varnar- og öryggismálanefnd og stjórnmálanefnd og eitt sæti í öllum hinum nefndunum.
    e.    Danmörk og Noregur skulu eiga eitt sæti í hverri nefnd.
    f.    Ísland og Lúxemborg eiga þrjú sæti hvort um sig. Fulltrúar þeirra mega sitja fundi í öllum nefndunum og skulu þeir hafa atkvæðisrétt í þremur þeirra samkvæmt eigin vali.
    Hver sendinefnd skal tilnefna nefndarfulltrúa sína.
3.     Fulltrúar mega eiga sæti í fleiri en einni nefnd.
4.     Auk aðalnefndarfulltrúa má tilnefna í hverja nefnd varamenn frá sömu löndum. Varamenn njóta sömu réttinda í nefndunum og aðalmenn innan ramma ákvæða 2. tölul. 1. gr. og 6. tölul. 32. gr.
5.     Þeir sem sæti eiga í yfirstjórn þingsins eiga í krafti embættis síns sæti í öllum nefndum. Þeir hafa hins vegar aðeins atkvæðisrétt ef þeir eiga sæti í nefndinni sem fulltrúar landa sinna.

26. gr.


1.     Formaður nefndar ákveður hvenær skal halda nefndarfundi og fer það eftir vinnudagskrá þingsins eins og hún hefur verið lögð fram af stjórnarnefnd.
2.     Að frumkvæði nefndarformanna eða fyrir tilstilli stjórnarnefndar mega tvær eða fleiri nefndir skipuleggja sameiginlega umfjöllun um mál sem varðar þær báðar.

27. gr.


1.     Á meðan á þinghaldinu stendur skal hver nefnd kjósa sér formann, einn eða tvo varaformenn og skýrsluhöfunda úr hópi fulltrúa sinna.
2.     Heimilt er að endurkjósa þá sem gegndu slíkum embættum á undanförnu ári en enginn formaður, varaformaður eða skýrsluhöfundur má gegna sama starfinu lengur en fjögur ár.

28. gr.


1.     Nefndarfundir skulu ekki haldnir í heyranda hljóði nema slíkt hafi verið samþykkt af hlutaðeigandi nefnd. Formanni nefndarinnar er heimilt að bjóða utanaðkomandi aðilum sem eru ekki þingfulltrúar að ávarpa nefndina.
2.     Hver þingfulltrúi má sækja fundi í þeim nefndum sem hann á sjálfur ekki sæti í.
3.     Hver þingfulltrúi skal skrá sig á viðveruskrá nefndarfundar dag hvern áður en hann tekur sæti sitt.
4.     Áheyrnarfulltrúar, eins og þeir eru skilgreindir í 2. tölul. 12. gr., mega sitja nefndarfundi sé þeim boðið af formanni hennar. Þeir mega hafa aðgang að vinnuskjölum nefndarinnar.


IX. UNDIRNEFNDIR OG VINNUHÓPAR


29. gr.

1.     Hverri nefnd er heimilt, innan ramma ákvæða 2. og 3. tölul., að skipa undirnefndir og ákvarða umboð þeirra og verksvið. Nefndir mega einnig skipa vinnuhópa, þ.e. undirnefndir sem hafa bréflega samband en ferðast ekki.
2.     Stjórnarnefnd ákveður hámarksfjölda undirnefnda og vinnuhópa og, reynist þess þörf, fjölda þeirra hjá hverri nefnd.
3.     Bera skal samsetningu, umboð og lengd starfstíma undirnefnda og vinnuhópa undir stjórnarnefnd til samþykkis og falla öll slík leyfi niður í lok árlegs þinghalds nema endurnýjuð séu. Stjórn þingsins á í krafti embættis síns sæti í öllum undirnefndum og vinnuhópum.
4.     Nefndum er heimilt að tilnefna stjórnarmenn í undirnefndum og vinnuhópum sínum, þ.e. formann, varaformann og skýrsluhöfunda, þegar undirnefnd eða vinnuhópur er skipaður. Sé það ekki gert verður undirnefndin eða vinnuhópurinn að kjósa sjálf sína stjórnarmenn eins fljótt og unnt er eftir stofnun nefndarinnar eða hópsins. Skulu þeir gegna þessum embættum eitt ár hið lengsta. Heimilt er að endurskipa þá, en ekki oftar en þrisvar.
5.     Vinnuáætlanir undirnefnda og vinnuhópa, þar með taldar ferðaáætlanir og heimsóknir hinna fyrrnefndu, ákveður formaður hlutaðeigandi undirnefndar í samráði við skýrsluhöfunda hennar og formann aðalnefndarinnar og í samræmi við almenn fyrirmæli stjórnarnefndar.
6.     Slíkar vinnuáætlanir skal leggja fram jafnskjótt og unnt er eftir lok þings þar sem undirnefndin eða vinnuhópurinn var skipaður og samþykktur af stjórnarnefnd. Vinnuáætlanir skulu bornar undir stjórnarnefnd, einkum til samþykktar á fyrirhuguðum útgjöldum.
7.     Viðbótarferðir og heimsóknir umfram það sem áætlað var í upphafi eru aðeins heimilar þegar sérstaklega stendur á og þá með samþykki stjórnarnefndar eða forseta þingsins.
8.     Engin undirnefnd skal fara í heimsókn án þess að a.m.k. einn stjórnarmaður sé með í förinni eða, sé þess ekki kostur, einn stjórnarmaður úr aðalnefndinni auk viðeigandi fulltrúa frá alþjóðaskrifstofunni.
9.     Sé formaður undirnefndarinnar ekki mættur skal varaformaður koma í hans stað en séu þeir báðir forfallaðir kemur skýrsluhöfundur í stað þeirra. Sé enginn stjórnarmaður mættur má stjórnarmaður úr aðalnefndinni taka við stjórn í undirnefndinni.
10.     Þegar skýrsluhöfundur undirnefndar þarf að ferðast til að undirbúa skýrslu sína skal viðeigandi fulltrúi alþjóðaskrifstofunnar fylgja honum.
11.     Aðalskrifstofa þingsins greiðir eingöngu ferðakostnað þingforseta, gjaldkera, aðalritara eða fulltrúa alþjóðaskrifstofunnar.
12.     Til að tryggja starfshæfni og virkni undirnefndanna mega formenn þeirra á meðan á starfstíma þeirra stendur biðja sendinefndir að tilnefna varamann fyrir fulltrúa eða nýjan fulltrúa í hans stað. Með leyfi stjórnarnefndar eða forseta má biðja þingfulltrúa frá aðildarlöndum sem eiga ekki sæti í undirnefndinni að starfa í henni tímabundið.
13.     Í undantekningartilfellum má kjósa sérstaka skýrsluhöfunda fyrir eina eða fleiri nefndir til að kanna mál sem varða þær sameiginlega. Er tilnefning þeirra háð samþykki stjórnarnefndar.


X. SKÝRSLUR OG ÁLYKTANIR


30. gr.

1.     Stjórnarnefnd má ákveða við hvert þinghald að takmarka fjölda skýrslna sem nefnd skal senda frá sér fyrir næsta árlegt þinghald.
2.     Þegar skýrsluhöfundur undirbýr lokaskýrslu fyrir hönd nefndar sinnar skal hann, á þann hátt sem hann telur heppilegast, gera grein fyrir orðum og skoðunum nefndarmanna sem komið hafa í ljós í umræðum á fundum nefndarinnar að vori til.
3.     Á fundum sínum að hausti til skal viðkomandi nefnd athuga skýrslurnar, taka þær til umræðu og greiða atkvæði um hugsanlegar breytingartillögur og síðan samþykkja þær eða hafna.
4.     Aðeins skýrslur, sem samþykktar hafa verið í hlutaðeigandi nefnd, verða birtar.

31. gr.


1.     Skýrsluhöfundar og sérstakir skýrsluhöfundar bera ábyrgð á að leggja uppkast að ályktunum (tillögum, samþykktum, álitsgerðum og tilmælum) fyrir nefndir sínar og síðan fyrir þingið sjálft. Þegar þeir leggja skýrslur sínar fyrir nefndirnar í fyrsta skipti skulu þeir taka fram hvaða mál þeir hafa í hyggju að bera fram ályktanir um.
2.     Skýrsluhöfundar skulu láta drög að ályktunum, sem verða væntanlega lögð fyrir nefndirnar, fylgja þeim skýrslum sem dreift er fyrir nefndarfundina rétt á undan þinginu sjálfu.
3.    a.    Hver nefndarfulltrúi má leggja fram drög að ályktunum að eigin frumkvæði. Skal slíkt hafa borist skýrsluhöfundinum (eða sérstaka skýrsluhöfundinum sé um slíkan að ræða) ekki seinna en þremur vikum fyrir nefndarfundina sem haldnir eru á undan þinginu sjálfu.
    b.    Skýrsluhöfundur skal leitast við að leggja þessi drög fyrir nefndina um leið og þau sem hann hefur sjálfur útbúið. Nefndin dæmir um hvort þau séu frambærileg. Skýrsluhöfundur má sameina drög að ályktunum sem hann fær í hendur við þau sem hann sjálfur hefur samið.
    c.    Engin drög að þingskjölum má leggja fyrir nefnd sem hefur ekki borist skýrsluhöfundinum með tilgreindum fyrirvara.
4.     Engin ályktun skal lögð fyrir sjálft þingið sem hefur ekki áður verið lögð fyrir og samþykkt í nefnd, að undanskildum þeim sem tilgreind eru í 20. gr. hér að ofan.


XI. ATKVÆÐAGREIÐSLA Í NEFNDUM


32. gr.

1.     Nefnd skal að jafnaði greiða atkvæði með handauppréttingu og nota atkvæðaspjöld sem tilgreind voru í 2. tölul. 23. gr.
2.     Í undantekningartilfellum má formaðurinn ákveða að atkvæðagreiðsla fari fram með nafnakalli sendinefnda.
3.     Kosningar skulu vera leynilegar. Fái enginn frambjóðandi til formanns hreinan meiri hluta eftir fyrstu umferð skal sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í annarri umferð teljast réttkjörinn. Verði atkvæði jöfn er hlutkesti látið ráða. Kjósa skal varaformenn og skýrsluhöfunda með sama hætti. Sé aðeins einn frambjóðandi tilnefndur er heimilt að kjósa hann með lófataki.
4.     Að undanskildum kosningum, sem kveðið er á um í 3. tölul. hér að ofan, skal einfaldur meiri hluti greiddra atkvæða nægja til að ráða úrslitum í atkvæðagreiðslum í nefndum. Aðeins skal telja atkvæði með og á móti til greiddra atkvæða.
5.     Atkvæðagreiðsla í nefnd með nafnakalli verður aðeins gild sé a.m.k. einn þriðjungur nefndarmanna viðstaddur.
6.     Atkvæðisréttur er bundinn einstaklingum. Varamaður, sem hefur rétt til að taka sæti aðalmanns sem er fjarstaddur eða forfallaður af einhverjum ástæðum, má greiða atkvæði í hans stað. Sendinefndir skulu tilnefna þann fjölda fulltrúa sem hefur atkvæðisrétt og allt að jafnmörgum varamönnum eins og er nánar tilgreint í 25. gr. hér að ofan og í viðauka III við starfsreglur þessar.
7.     Formaður nefndar má taka þátt í umræðum og hefur atkvæðisrétt, þó ekki oddaatkvæði.
8.     Hver nefndarmaður, sem ekki kemur því við að sækja nefndarfund, má senda varamann eða annan fulltrúa frá landi sínu í sinn stað.
9.     Skrá skal niðurstöður úr öllum atkvæðagreiðslum.


XII. FUNDARGERÐIR NEFNDARFUNDA


33. gr.

1.     Formaður nefndarinnar skal sjá til þess að fundargerð sé rituð á hverjum nefndarfundi.
2.     Formlegar breytingartillögur skulu skráðar í fundargerð nefndarfundanna.
3.     Fundargerðir eru trúnaðarmál og eru ætlaðar nefndarmönnum viðkomandi nefndar til afnota.


XIII. DAGSKRÁRNEFND


34. gr.

    Drög að tillögum, samþykktum, álitsgerðum og tilmælum, sem samþykkt hafa verið af nefndum þingsins, skulu lögð fyrir dagskrárnefnd sem skipuð er af stjórnarnefnd og formönnum nefnda auk skýrsluhöfunda viðkomandi nefnda sem gegna hlutverki ráðgjafa. Dagskrárnefnd skal ákveða hvernig þessi drög að tillögum, samþykktum, álitsgerðum og tilmælum skulu lögð fyrir þingið.


XIV. RITARAR SENDINEFNDANNA


35. gr.

1.     Sendinefndir tilnefna sína ritara sem hafa rétt til að sitja fundi þingsins og nefnda þess og hafa aðgang að þingsalnum og nefndaherbergjum.
2.     Ritarar sendinefnda eru beðnir að aðstoða aðalritara við að viðhalda nánum og virkum tengslum milli starfsliðs Norður-Atlantshafsþingsins og þjóðþinganna.


XV. RÁÐGJAFARHLUTVERK


36. gr.

    Þingið má, að tillögu stjórnarnefndar, leita ráða hjá alþjóðlegum stofnunum, bæði opinberum og óopinberum, sem fást við mál sem falla innan verksviðs þingsins. Það má biðja þessar stofnanir um skriflegar skýrslur um slík mál, efna til umræðu um þessar skýrslur og veita fulltrúum þessara stofnana áheyrn.


XVI. TUNGUMÁLANOTKUN


37. gr.

1.     Opinber tungumál þingsins eru enska og franska. Ræður fluttar á öðru málinu skal túlka á hitt.
2.     Óski ræðumaður eftir því að nota annað tungumál ber honum sjálfum að tryggja að það verði túlkað á annað hvort opinbert tungumál þingsins.


XVII. SKÝRSLUR, ÚTGÁFUSTARFSEMI


38. gr.

1.     Aðalskrifstofan ber ábyrgð á dreifingu skjala fyrir upphaf hvers þingfundar.
2.     Skrifstofan skal sjá um útgáfu skýrslna, tillagna, samþykkta, álitsgerða og tilmæla þingsins. Skrá verði samin yfir fundi sjálfs þingsins sem hver fulltrúi skal hafa aðgang að. Laga má stíl og formgalla fundargerða með samþykki forseta í allt að þrjá mánuði eftir að viðkomandi þinghaldi lýkur.


XVIII. FRÉTTATILKYNNINGAR


39. gr.

1.     Opinberar fréttatilkynningar skal aðeins gefa út:
—     varðandi starfsemi þingsins í heild, samkvæmt sérstakri fyrirskipun forseta,
—     varðandi starfsemi nefndar, samkvæmt sérstakri tilskipun viðkomandi nefndarformanns og með samþykki nefndarinnar.
2.     Þar fyrir utan mega fulltrúar notfæra sér aðstöðu hjá aðalskrifstofunni til að senda frá sér fréttatilkynningar á eigin ábyrgð, án þess að slíkt verði bindandi fyrir þingið að neinu leyti. Skal taka það skýrt fram í upphafi að fullyrðingar í tilkynningunni tjái skoðanir þessa fulltrúa en ekki endilega viðhorf Norður-Atlantshafsþingsins.
3.     Drög að skýrslum, tillögum, samþykktum, álitsgerðum og tilmælum skal ekki senda fjölmiðlum áður en fjallað er um þau nema með samþykki skýrsluhöfundar.


XIX. UNDANÞÁGUR OG BREYTINGAR


40. gr.

    Á meðan á árlegu þinghaldi stendur má forseti hvenær sem er leggja til að undanþága verði veitt frá þessum þingskapareglum. Slík tillaga verður að hljóta einróma samþykki viðstaddra þingfulltrúa.

41. gr.

    Hægt er að breyta starfsreglunum með tvennu móti:
a.    Sex eða fleiri þingfulltrúar frá a.m.k. tveimur löndum geta lagt fram skriflegar tillögur þess efnis. Skal leggja þessar tillögur fyrir stjórnarnefnd án umræðna en stjórnarnefnd getur vísað þeim áfram til sérstaks vinnuhóps eða skýrsluhöfunda. Stjórnarnefnd skal skila skýrslu um málið til þingsins.
b.    Að öðrum kosti má stjórnarnefnd hvenær sem er tilnefna skýrsluhöfund til að endurskoða reglurnar um starfsreglur. Eftir að hafa skoðað niðurstöður hans skal stjórnarnefnd skila skýrslu um málið til þingsins.


VIÐAUKI I



Skipan þingsins.



    Aðildarlönd hafi eftirfarandi fjölda þingfulltrúa:

    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         36
    Frakkland ..............................................         18
    Sambandslýðveldið Þýskaland ............................         18
    Ítalía .................................................             18
    Stóra-Bretland .........................................         18
    Kanada .................................................         12
    Spánn ..................................................         12
    Tyrkland ...............................................         12
    Belgía .................................................         7
    Grikkland ..............................................         7
    Holland ................................................         7
    Portúgal ...............................................         7
    Danmörk ................................................         5
    Noregur ................................................         5
    Ísland .................................................         3
    Lúxemborg...............................................         3


VIÐAUKI II



Atkvæðisréttur í stjórnarnefnd.



    Þegar stjórnarnefnd tekur ákvörðun, sem felur í sér aukin fjárútgjöld, skal fjöldi atkvæða hvers fulltrúa vera sem hér segir:

    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         6
    Frakkland ..............................................         5
    Sambandslýðveldið Þýskaland.............................         5
    Stóra-Bretland .........................................         5
    Ítalía .................................................             4
    Kanada .................................................         4
    Belgía .................................................         3
    Holland ................................................         3
    Danmörk ................................................         2
    Grikkland ..............................................         2
    Ísland .................................................         2
    Lúxemborg ..............................................         2
    Noregur ................................................         2
    Portúgal ...............................................         2
    Spánn ..................................................         2
    Tyrkland ...............................................         2


VIÐAUKI III



Skipan nefnda.



1. Fulltrúar í stjórnmálanefnd:
    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         8
    Belgía .................................................         2
    Frakkland ..............................................         4
    Grikkland ..............................................         2
    Ítalía .................................................             4
    Holland ................................................         2
    Sambandslýðveldið Þýskaland ............................         4
    Portúgal ...............................................         2
    Stóra-Bretland .........................................         4
    Danmörk ................................................         1
    Kanada .................................................         3
    Noregur ................................................         1
    Spánn ..................................................         3
    Ísland .................................................         (1)
    Tyrkland ...............................................         3
    Lúxemborg ..............................................         (1)

    Samtals: 43 (45) fulltrúar.


2. Fulltrúar í varnar- og öryggismálanefnd:
    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         7
    Belgía .................................................         2
    Frakkland ..............................................         4
    Grikkland ..............................................         2
    Ítalía .................................................         4
    Holland ................................................         2
    Sambandslýðveldið Þýskaland ............................         4
    Portúgal ...............................................         2
    Stóra-Bretland .........................................         4
    Danmörk ................................................         1
    Kanada .................................................         3
    Noregur ................................................         1
    Spánn ..................................................         3
    Ísland .................................................         (1)
    Tyrkland ...............................................         3
    Lúxemborg ..............................................         (1)

    Samtals: 42 (44) fulltrúar.


3. Fulltrúar í efnahagsmálanefnd:
    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         7
    Belgía .................................................         1
    Frakkland ..............................................         4
    Grikkland ..............................................         1
    Ítalía .................................................             4
    Holland ................................................         1
    Sambandslýðveldið Þýskaland ............................         4
    Portúgal ...............................................         1
    Stóra-Bretland .........................................         4
    Danmörk ................................................         1
    Kanada .................................................         2
    Noregur ................................................         1
    Spánn ..................................................         2
    Ísland .................................................         (1)
    Tyrkland ...............................................         2
    Lúxemborg ..............................................         (1)

    Samtals: 35 (37) fulltrúar.


4. Fulltrúar í vísinda- og tæknimálanefnd:
    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         7
    Belgía .................................................         1
    Frakkland ..............................................         3
    Grikkland ..............................................         1
    Ítalía .................................................             3
    Holland ................................................         1
    Sambandslýðveldið Þýskaland ............................         3
    Portúgal ...............................................         1
    Stóra-Bretland .........................................         3
    Danmörk ................................................         1
    Kanada .................................................         2
    Noregur ................................................         1
    Spánn ..................................................         2
    Ísland .................................................         (1)
    Tyrkland ...............................................         2
    Lúxemborg ..............................................         (1)

    Samtals: 31 (33) fulltrúar.


5. Fulltrúar í félagsmálanefnd:
    Bandaríki Norður-Ameríku ...............................         7
    Belgía .................................................         1
    Frakkland ..............................................         3
    Grikkland ..............................................         1
    Ítalía .................................................             3
    Holland ................................................         1
    Sambandslýðveldið Þýskaland ............................         3
    Portúgal ...............................................         1
    Stóra-Bretland .........................................         3
    Danmörk ................................................         1
    Kanada .................................................         2
    Noregur ................................................         1
    Spánn ..................................................         2
    Ísland .................................................         (1)
    Tyrkland ...............................................         2
    Lúxemborg ..............................................         (1)

    Samtals: 31 (33) fulltrúar.


VIÐAUKI IV



Skilafrestur fyrir dreifingu skjala.



    Eftirfarandi texti er útdráttur úr bréfi sem aðalritari Norður-Atlantshafsþingsins sendi fulltrúum í stjórnarnefnd 16. júlí 1976 og samþykkt var á næsta fundi hennar:
    Öllum ályktunum skal skilað til alþjóðaskrifstofunnar a.m.k. sex vikum áður en fundir hefjast þar sem þau eru til umræðu. Skýrsluhöfundar skulu skila lokadrögum sínum og athugasemdum til skrifstofunnar a.m.k. fjórum vikum fyrir fundina. Starfsmenn alþjóðaskrifstofunnar skulu hafa skilafresti þessa í huga þegar þeir senda ályktanir til skýrsluhöfunda nefndanna.
    Skýrslur skulu sendar sendinefndum á frummáli þremur vikum fyrir fundinn í síðasta lagi. Sami skilafrestur á við þegar útdráttum úr skýrslum á báðum opinberum tungumálum þingsins er dreift. Þýddar útgáfur skýrslnanna skulu sendar sendinefndum a.m.k. tveimur vikum fyrir fundina.


VIÐAUKI V



    Á fundum og ferðalögum undirnefnda og vinnuhópa, svo sem á árlegu ferðalagi þingsins, hefur hinn kjörni formaður eða tilnefndi stjórnandi forgang umfram alla aðra án tillits til stöðu þeirra. Honum fylgja síðan stjórnarmennirnir sem skilgreindir eru í fyrstu fjórum liðum hér á eftir í þeirri röð. Þar sem slíkt á við koma formaður aðalnefndar og almennur ritari aðalnefndarinnar þar á eftir. Þá koma skýrsluhöfundur og varaformaður undirnefndarinnar:
1.     Forseti.
2.     Varaforsetar í röð eftir starfsaldri.
3.     Gjaldkeri.
4.     Aðalritari.
5.     Fulltrúar í stjórnarnefnd.
6.     Formenn sendinefnda þjóðanna (ef aðrir en í 5).
7.     Formenn fastnefndanna fimm í röð eftir starfsaldri.
8.     Skýrsluhöfundar fastanefndanna fimm í röð eftir starfsaldri.
9.     Varaforsetar fastanefndanna fimm í röð eftir starfsaldri.
10.     Þingfulltrúar.
11.     Aðstoðarmaður aðalritara.
12.     Framkvæmdastjórar nefnda.