Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 466 . mál.


Sþ.

812. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu samnings um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi.

(Lögð fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi sem gerður var í Tampere 15. júní 1988, ásamt bókun um beitingu samningsins gagnvart furstadæminu Liechtenstein.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samnings um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi sem gerður var í Tampere 15. júní 1988. Enn fremur er þess farið á leit að Alþingi heimili fullgildingu bókunar um beitingu samningsins gagnvart Liechtenstein sem var gerð í Tampere sama dag. Samningurinn og bókunin eru birt sem fylgiskjöl með tillögu þessari.
    Innan Efnahagsbandalags Evrópu og EFTA hefur verið unnið að því að draga úr tæknilegum viðskiptahindrunum til að stuðla að óhindruðum vöruviðskiptum á evrópska efnahagssvæðinu. Starf þetta hefur einkum beinst að því að samræma framleiðslureglur með samræmdum stöðlum og gagnkvæmri viðurkenningu prófana og gæðavottorða. Með staðfestingu á samræmi er átt við að vörur uppfylli kröfur sem gerðar eru og er þá aðallega átt við grunnkröfurnar um vernd heilsu, öryggis og umhverfis.
    Árið 1985 ákvað Efnahagsbandalag Evrópu að setja tilskipanir um þær grundvallarreglur um framleiðsluvörur sem varða heilsu, öryggi og umhverfi. Aðildarríkjum Efnahagsbandalagsins ber skylda til að setja reglur sem uppfylla þau skilyrði sem tilskipanirnar setja. EFTA-ríkin hafa haft samvinnu við bandalagið á mörgum þeim sviðum sem tilskipanirnar ná til, t.d. um byggingarvörur, öryggi leikfanga, öryggi vinnuvéla og fjarskiptanotendabúnað.
    Bæði innan Efnahagsbandalagsins og EFTA-ríkjanna ákvarðast öryggis- og gæðareglur á tæknilegum sviðum, t.d. fyrir rafmagnsvörur, af evrópskum stöðlum sem settir eru af evrópsku staðlanefndunum CEN (Comité européen de normalisation) og CENELEC (Comité européen de normalisation électronique). Íslendingar taka þátt í starfi beggja staðlanefndanna.
    Eftirlit með samræmdum reglum um öryggi og gæði vara fer fram með sérstökum prófunum á þar til bærum rannsóknastofum. Í mörgum tilfellum eru yfirlýsingar framleiðandans látnar nægja. Rannsóknastofur gefa út vottorð um að vörurnar séu í samræmi við reglur sem settar hafa verið vegna öryggis, heilsu og umhverfis og staðla. Innan Efnahagsbandalagsins hafa samræmdar reglur um prófanir og vottorð verið settar um sífellt fleiri svið. Próf og vottorð frá EFTA-ríkjunum eru almennt ekki viðurkennd innan Efnahagsbandalagsins og þarf því ný próf þegar setja á vöru á markað í einhverju aðildarríki bandalagsins.
    Árið 1987 var settur á stofn vinnuhópur innan EFTA til þess að gera drög að stefnu EFTA á þessu sviði. Stefna EFTA um prófanir og vottanir var samþykkt af EFTA-ráðinu 14. janúar 1986, en markmið hennar er að stuðla að frjálsum vöruflutningum m.a. með gagnkvæmum prófunum. Samkvæmt EFTA-stefnunni á, í þeim tilfellum sem vottorð eru gefin út af prófunarstofnun sem beitir alþjóðlega samræmdum aðferðum í einu EFTA-ríki, að viðurkenna vottorðin í öllum EFTA-ríkjunum. Hvert aðildarríki getur þó við haft eftirlit ef nauðsyn þykir. Við þróun og framkvæmd prófana og skyldra athafna eiga EFTA-ríkin að hafa samvinnu og vinna samhliða Efnahagsbandalaginu. Til að staðfesta að vara sé í samræmi við staðla má samkvæmt stefnu EFTA nota ýmsar aðferðir. Framleiðandinn getur valið þá aðferð sem hentar best fyrir viðkomandi framleiðsluvöru hans.
    EFTA er fylgjandi því að skylduprófanir séu takmarkaðar við svið þar sem brýnar öryggiskröfur eða aðrar sambærilegar kröfur vegna almannahagsmuna eru gerðar. Í slíkum tilfellum eiga aðferðir, sem notaðar eru við prófanir, að vera samræmdar bæði innan Evrópu og á alþjóðagrundvelli. Um annað eiginleikamat yrði vísað til staðla og vottunar.
    Varðandi framkvæmd prófana og vottana leggur EFTA áherslu á að notaðir séu Evrópustaðlar og þær stofnanir sem fyrir hendi eru.
    Til að koma stefnu EFTA í framkvæmd eiga EFTA-ríkin að gera viðeigandi ráðstafanir innan lands. Þau eiga að stuðla að þróun á viðurkenndum rannsóknastofum innan lands og síðar að vottunarstofnunum sem byggja störf sín á viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum.
    Einn liður í því að framfylgja stefnu EFTA var gerð samningsins sem hér um ræðir. Samningurinn var samþykktur ásamt bókun vegna furstadæmisins Liechtenstein í EFTA-ráðinu 14. apríl 1988 og undirritaður á ráðherrafundi EFTA í Tampere 15. júní 1988. Samningurinn tekur gildi á fyrsta degi annars mánaðar eftir að síðasta staðfestingarskjal EFTA-ríkis er afhent.
    Samningurinn ryður í burtu hindrunum vegna prófana og staðfestinga á samræmi vara sem settar eru á markaðinn í öðrum EFTA-ríkjum, en markmið samningsins er jafnframt að stuðla að því að prófanir og rannsóknir, sem gerðar hafa verið í stofnunum í EFTA-ríkjunum, séu gildar fyrir vörur sem eru settar á markaðinn innan Efnahagsbandalagsins.
    Samkvæmt 5. gr. samningsins er gert ráð fyrir að ríkisstjórnir samningsríkjanna geti gert samninga um gagnkvæma viðurkenningu prófana og staðfestinga á samræmi á einstökum framleiðslusviðum. Slíka sérsamninga má einnig gera við ríki sem ekki eru aðilar að almenna samningnum. Ekki er séð fyrir samningum á einstökum framleiðslusviðum þar sem þegar er samræmingarkerfi í framkvæmd. Hins vegar er útlit fyrir að slíkir samningar verði gerðir þar sem Efnahagsbandalagið hefur sett tilskipanir um viðkomandi svið. Sérstök nefnd, er mun starfa samkvæmt samningnum, mun síðar ákveða hvaða sérsamningar verða hluti af samningnum.
    Í samræmi við þær breytingar, sem væntanlegar eru vegna sameiningar markaðarins í Evrópu og í samræmi við stefnu þá, sem fram kemur í samningi þeim sem hér er lagður fram, er nú unnið að gerð tillagna um fyrirkomulag gagnkvæmrar viðurkenningar á Íslandi. Ljóst er að sérstakrar lagasetningar er þörf og eru tillögur þar að lútandi nú í undirbúningi á vegum iðnaðarráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins.
    Frumvarp til laga um stöðlun og tengda starfsemi verður væntanlega lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Í frumvarpinu, sem unnið er á vegum iðnaðarráðuneytisins, er gert ráð fyrir að Staðlaráð Íslands verði gert að sjálfstæðri einkastofnun og að þar verði miðstöð alls stöðlunarstarfs í landinu. Þá er einnig gert ráð fyrir að Staðlaráði verði veittur einkaréttur á útgáfu staðla á Íslandi. Enn fremur þykir rétt að leggja til að Staðlaráð eigi aðild að alþjóðlegu samstarfi um staðlamál fyrir Íslands hönd, en að ráðinu verði heimilt að fela öðrum aðilum þátttöku í slíku samstarfi.



Fylgiskjal I.

(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal II.


(Texti er ekki til tölvutækur.)