Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 560 . mál.


Sþ.

964. Tillaga til þingsályktunar



um Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi.

Flm.: Guðrún Helgadóttir, Guðmundur H. Garðarsson,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson,


Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi samþykkir að fela ríkisstjórninni að hætta rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins á þéttbýlasta svæði landsins án tafar.
    Jafnframt fari fram ítarleg könnun á hagkvæmni slíkrar verksmiðju áður en ákveðið verður hvort hana skuli starfrækja annars staðar á landinu.

Greinargerð.


    Miklum óhug sló á íbúa höfuðborgarsvæðisins er sá atburður varð í Gufunesi sunnudaginn 15. apríl sl. að eldur varð laus á þaki ammoníaksgeymis þar á staðnum. Ljóst er að litlu munaði að þarna yrði stórslys þó að engin áhætturannsókn hefði sýnt líkur á atviki sem þessu, enda er ekki vitað þegar þetta er skrifað hvað eldinum olli.
    Hætta sú, sem af verksmiðju þessari stafar, hefur lengi verið þekkt. Í fyrstu töldu menn hættu einkum stafa af hugsanlegum sprengingum í köfnunarefnisáburði þeim sem þarna er framleiddur og geymdur var ósekkjaður um árabil. Lengi var það gert að skilyrði af hálfu borgaryfirvalda að byggð væri ekki nær verksmiðjusvæðinu en í 1.800 metra fjarlægð. Seinna var hætt að geyma áburðinn ósekkjaðan og þá töldu menn að óhætt væri að færa byggð nær verksmiðjunni. Nú er leyft að byggja í 1.200 metra fjarlægð frá svæðinu og er þegar risin mörg hundruð íbúða byggð skammt frá því.
    Mikil umræða varð á sínum tíma um þetta byggingasvæði þar sem slökkviliðsstjórinn í Reykjavík hafði með bréfi dags. 4. júní 1980 varað borgaryfirvöld við að reisa byggð nálægt verksmiðjunni. Menn töldu þá ekki ástæðu til að óttast svo mjög óhöpp í verksmiðjunni og verjandi væri að reisa byggð í nágrenni hennar. Þó hefur mönnum aldrei verið rótt vegna verksmiðjunnar á þessu þéttbýlasta svæði landsins og öðru hverju hafa orðið umræður um öryggismál á svæðinu.
    Árið 1985 lét borgarráð Reykjavíkur gera úttekt á áhættuþáttum í starfsemi verksmiðjunnar. Það verk unnu dr. Ágúst Valfells og Rúnar Bjarnason slökkviliðsstjóri. Í áliti þeirra kemur fram uggur um að umtalsverð hætta stafi af geymslu ammóníaks í fljótandi formi í kúlugeymi þeim sem nú kviknaði eldur á. Yrði eitthvert óhapp á verksmiðjusvæðinu töldu þeir hættu á að ammóníaksský bærist yfir borgina og kynni að valda stórslysum. Tekið var fram að þar væri ekki einungis um hættu að ræða í nánasta umhverfi verksmiðjunnar, heldur og í öðrum hverfum borgarinnar eftir því hvernig vindar blésu.
    Í desember 1985 sendi Vinnueftirlit ríkisins félagsmálaráðherra skýrslu sem það nefndi Hættumat vegn a ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Niðurstöður Vinnueftirlitsins gáfu félagsmálaráðherra tilefni til að skipa starfshóp til að fara yfir ástand þessara mála og tók hann til starfa á árinu 1986 og skilaði skýrslu í ársbyrjun 1988. Jafnframt lét ríkisstjórnin fara fram hagkvæmniskönnun á rekstri verksmiðjunnar og athugun á því hvort verjandi væri að halda rekstrinum áfram. Niðurstaðan er öllum kunn: Ákveðið var að reisa nýjan og öruggari ammoníaksgeymi og halda rekstrinum áfram í landi Reykjavíkurborgar þar eð talið var að með tilkomu hins nýja geymis væri öryggi tryggt.
    Eftir það sem gerðist 15. apríl sl. þegar eldur varð laus á þaki ammoníaksgeymis verksmiðjunnar verður mönnum æ ljósara að engin sú tækni er til sem að fullu komi í veg fyrir stórslys. Engin áhætturannsókn hafði leitt í ljós að hætta væri á atviki sem þessu og má það teljast til einstakrar slembilukku að ekki fór ver. Veigra víst flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins sér við því að hugsa þá hugsun til enda hvað hefði getað gerst ef illa hefði farið. Og við þennan atburð hafa augu manna opnast fyrir því að rekstur verksmiðjunnar í bæjarlandinu er áhætta sem ekki er verjandi að taka hvaða tækni sem menn kunna að kjósa til að auka öryggi. Óbrigðult öryggi gagnvart stórslysi í verksmiðjunni er ekki til.
    Þær skýrslur, sem fyrir liggja nú þegar um þennan atburð, leiða í ljós að um áratuga skeið hefur rekstur áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi verið ógnun við líf íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Því er það mikill ábyrgðarhluti að halda slíkum rekstri áfram. Flutningsmenn tillögu þessarar telja engan kost annan færan en leggja reksturinn niður áður en hörmungar hljótast af en litlu munaði að svo færi sl. sunnudag. Samkvæmt þessari tillögu er skorað á ríkisstjórn og borgaryfirvöld að hefjast nú þegar handa um lausn þessa máls.