Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 143 . mál.


Sþ.

1041. Nefndarálit



um till. til þál. um könnun á ofbeldi í myndmiðlum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem er tvíþætt. Annars vegar gerir hún ráð fyrir umfangsmiklum könnunum varðandi (a) tíðni og tegund ofbeldis, einkum líkamlegs og kynferðislegs, sem sýnt er í myndmiðlum og (b) hversu mikið og á hvað börn horfa í myndmiðlum, hins vegar að skora á menntamálaráðherra að láta draga verulega úr sýningum á þess konar efni.
    Nefndin sendi tillöguna til umsagnar. Svör bárust frá Barnageðlæknafélagi Íslands, barnaverndarráði, Kvikmyndaeftirliti ríkisins, Kvenfélagasambandi Íslands, Ríkisútvarpinu, Samtökum foreldra- og kennarafélaga í Reykjavík (SAMFOK) og sálfræðideild skóla í Reykjavík. Einnig kom Auður Eydal, forstöðumaður Kvikmyndaeftirlits ríkisins, til viðræðna við nefndarmenn um efni tillögunnar.
    Umsagnaraðilar taka undir efni tillögunnar. Í ítarlegri umsögn Kvikmyndaeftirlitsins segir m.a.:
    „Skoðunarmenn Kvikmyndaeftirlits ríkisins hljóta að fagna slíkri tillögu og telja löngu tímabært að marktækar upplýsingar liggi fyrir um þessi mál í heild. Hjá eftirlitinu liggja fyrir heimildir um hluta þess, þ.e. um dreifingu efnis og vægi ofbeldis í kvikmyndum sem sýndar hafa verið í kvikmyndahúsum eða hefur verið dreift með löglegum hætti á myndbandamarkaði sl. tvö ár. Allar kannanir í þessa veru eru þannig samstiga starfsemi Kvikmyndaeftirlitsins. Því miður hefur hún alls ekki mætt nægum skilningi stjórnvalda á undanförnum árum þrátt fyrir augljóst mikilvægi þess að skilvirkt eftirlit sé með öllu því flóði myndefnis sem að berst og aldrei hafi verið nauðsynlegra en nú að ákvæðum þeirra laga, sem að starfseminni lúta, sé framfylgt. Frá því haustið 1987 hefur verið unnið skipulega að því að færa starfsemi Kvikmyndaeftirlitsins til nútímahorfs, m.a. með ítarlegri skráningu allra kvikmynda sem sýndar eru í kvikmyndahúsum eða gefnar út á myndböndum.“
    Þá kemur fram í umsögninni að eftir gildistöku laga nr. 33/1983, um bann við ofbeldismyndum, „hófst skipuleg skoðun allra kvikmynda sem gefa átti út á myndbandamarkaði og eftir að verstu ofbeldismyndirnar höfðu verið hreinsaðar af markaðnum í febrúar 1985 (hátt í 80 kvikmyndir) hafa aðeins örfáar slíkar borist eftirlitinu árlega. Alls hafa rúmlega 100 kvikmyndir verið bannaðar alfarið á Íslandi samkvæmt skilgreiningu laganna síðan þau tóku gildi. Hins vegar er ljóst að í ýmsum kvikmyndum, sem hlotið hafa afgreiðslu eftirlitsins og ekki teljast brjóta í bága við ákvæði laganna, geta verið einstök mjög ljót ofbeldisatriði. Þessar myndir eru bannaðar börnum yngri en 16 ára. Okkur virðist sem þeim myndum, sem innihalda slík atriði, fari fremur fjölgandi.“
    Í lok umsagnar Kvikmyndaeftirlitsins segir:
    „Það er ljóst að könnun af því tagi, sem tillagan gerir ráð fyrir, mun gefa mikilsverðar upplýsingar um ástand mála og verða til leiðbeiningar alþingismönnum við endurskoðun laganna, svo og öðrum sem um málefni barna og ungmenna fjalla. Í starfi okkar leggjum við, skoðunarmenn kvikmynda, alla áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð. Við vonum að þessi könnun, ef af verður, veki upp jákvæða umræðu um málefni barna og í kjölfar þess verði brugðist við niðurstöðum á raunhæfan hátt, m.a. með því að styrkja starf þeirra sem vinna á vettvangi barnaverndarmála og gerst þekkja ástandið.“
    Í umsögn útvarpsstjóra segir m.a.:
    „Í vinnureglum fréttamanna sjónvarpsins er að finna svohljóðandi ákvæði sem snerta þetta mál: „Fréttamenn skulu hafa í huga að aðalfréttatími sjónvarps er þegar ætla má að verulegur fjöldi barna horfi á sjónvarp og skal val myndefnis taka mið af því. Forðast skal að nota fréttamyndir sem ætla má að veki ógn og skelfingu nema fréttagildi sé mikið. Fréttastjóra skal gerð grein fyrir slíkum myndum fyrir fram og metur hann hvort ástæða sé til að vara við þeim.“ Það heyrir til algjörra undantekninga að myndefni, sem hægt væri að túlka sem ofbeldi eða klám, birtist í innlendri dagskrárgerð sjónvarpsins. Því ber afar sjaldan við að vara þurfi áhorfendur við því efni sem sýnt er, að það sé ekki við hæfi barna. Þvert á móti hefur mikið af því innlenda efni, sem Sjónvarpið flytur, mikið fræðslu- og uppeldisgildi, fyrir utan skemmtanagildi, bæði fyrir unga og aldna.“
    Umsögninni fylgir greinargerð tekin saman af Hinrik Bjarnasyni, deildarstjóra innkaupa- og markaðdeildar Sjónvarps, þar sem m.a. er fjallað gildi þeirra kannana sem tillagan gerir ráð fyrir og hvernig hugsanlegt væri að draga verulega úr ofbeldi sem börnum og öðrum er sýnt í sjónvarpi, kvikmyndum og á myndböndum. Um hið síðartalda segir Hinrik m.a.:
    „Fari allt sem ætlað er munu þrjár sjónvarpsstöðvar, sem starfa samkvæmt íslenskum útvarpslögum, senda út dagskrá frá hausti 1990, og leyfi er veitt fyrir hinni fjórðu. Þeim fjölgar, sem ná útsendingum um gervihnetti, og dagskrárrásum slíkra hnatta fjölgar. Framleiðendur leggja æ meiri áherslu á „fulla nýtingu“ kvikmynda- og sjónvarpsefnis og er þá átt við að tekjumöguleikar af efninu séu nýttir út í hörgul: í kvikmyndahúsum, á myndbandaleigum, í lokuðum sjónvarpskerfum og loks í opnum, almennum kerfum. Jafnhliða þessu er fylgt fram kerfisbundinni markaðssetningu afleiddrar söluvöru, einkum þegar um er að ræða barna- og unglingaefni, svo sem leikföng, flíkur, sælgæti o.fl. Margt af þess konar varningi eru alls konar eftirmyndir bardagatóla og flokkast undir leikföng. Augljóst er að erfitt mun verða að sporna við útbreiðslunni þegar alþjóðlegt útbreiðslu- og auglýsingakerfi ýtir undir dreifingu vörunnar og sami innflytjandi á Íslandi kann að eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta við hvert stig ofangreindra dreifingarleiða. Til þess að hægt sé að afmarka einn ákveðinn flokk umfjöllunarefnis á hinu afar fjölbreytta sviði myndefnis, svo sem ofbeldi af öllu tagi, þarf ákaflega umfangsmikla og ítarlega löggjöf. Svo sem til er vísað í upphafi þessarar álitsgerðar er líklegt að þýðingarmikil atriði hennar séu þegar til í gildandi lögum. Er þá aðeins ónefnd eftirfylgjan, að lögunum sé fylgt eftir hvarvetna á landinu. Skiptir sá þáttur mestu og mun að lokum verða ráðandi um það hvort löggjöfin verður til einhverrar verndar þeim sem ætlað er.“
    Umsögn SAMFOKs er svohljóðandi:
    „Stjórn SAMFOKs, Samtaka foreldra- og kennarafélaga í Reykjavík, hefur í dag fjallað um tillögu til þingsályktunar um könnun á áhrifum ofbeldis í myndmiðlum. Slík könnun á að okkar mati rétt á sér og mundi sennilega leiða í ljós ýmislegt sem að okkur væri þörf að íhuga. Það er hins vegar samdóma álit okkar að friða þurfi skólana fyrir sífelldum truflunum sem fylgja slíkum könnunum, að minnsta kosti meðan skóladagurinn og starfstími skólanna er svo stuttur sem raun ber vitni. Ef hægt er að framkvæma könnunina án þátttöku skólanna sjáum við ekkert málinu til fyrirstöðu.“
    Í niðurlagi umsagnar sálfræðideildar skóla í Reykjavík segir:
    „Í raun er aðalatriðið að fjarlægja sem fyrst skaðlegt ofbeldisefni úr því myndefni sem börnum er boðið upp á.“
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið, sem fram koma í fyrri málsgrein þingsályktunartillögunnar, um mikilvægi kannana og rannsókna varðandi ofbeldi í myndmiðlum, ekki síst vegna barna. Tilhögun slíkra kannana og ákvörðun um forgangsröð þarf að vera vel undirbúin og taka mið af því notagildi sem þær geta haft til að draga úr ofbeldi í efni myndmiðla. Því telur nefndin ekki rétt að Alþingi gefi forskrift um slíkar kannanir í einstökum atriðum en
leggur áherslu á að þær verði undirbúnar og framkvæmdar eftir því sem nauðsynlegt er talið af dómbærum aðilum. Nefndin leggur sérstaka áherslu á aðgerðir til að dregið verði nú þegar með tiltækum ráðum úr því ofbeldi sem sýnt er í myndmiðlum og m.a. verði beitt heimildum gildandi laga og reglugerða í þessu skyni. Með vísan til þessa flytur nefndin breytingartillögu við málið á sérstöku þingskjali og mælir með samþykkt tillögunnar svo breyttrar.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. apríl 1990.



Hjörleifur Guttormsson,


form., frsm.


Birgir Ísl. Gunnarsson.


Alexander Stefánsson.


Guðni Ágústsson.


Kristinn Pétursson.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.