Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 373 . mál.


Sþ.

1137. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.



    Frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi 21. febrúar sl. og vísað til nefndarinnar 12. mars. Frumvarpið hefur því ekki verið lengi til meðferðar í nefndinni. Meðferð fjárveitinganefndar á efnisatriðum frumvarpsins hófst þó löngu fyrr; raunar í lok októbermánuðar sl. haust. Við þá yfirferð studdist nefndin við ríkisreikninginn fyrir árið 1988 og hafði nefndin því lokið rækilegri yfirferð yfir mörg helstu atriði fjárgreiðslna úr ríkissjóði umfram heimildir á árinu 1988 þegar frumvarpið til fjáraukalaga á þskj. 641 barst henni. Auk þeirrar yfirferðar, sem nefndin viðhafði á efnisatriðum fjáraukalagafrumvarps þess sem síðar var flutt, á haustmánuðum 1988, studdist hún við þær upplýsingar úr ríkisreikningi 1988 við mat sitt á útgjaldaáætlunum í fjárlögum fyrir árið 1990.
    Nefndin hafði þann hátt á meðferð málsins að fyrst fór hún yfir öll útgjaldaverkefni fjárlaga 1988 og bar saman við niðurstöðu samkvæmt ríkisreikningi. Sú yfirferð var gerð að viðstöddum starfsmönnum úr fjármálaráðuneyti og Fjárlaga- og hagsýslustofnun og var óskað eftir skýringum og upplýsingum frá þeim um greiðslur umfram greiðsluheimildir. Þær stofnanir og þau viðfangsefni, sem nefndin taldi sig ekki fá fullnægjandi skýringar á eða taldi ástæðu til að ræða sérstaklega um vegna óvenjumikils fráviks útgjalda frá heimildum fjárlaga, voru síðan tekin sérstaklega fyrir og efnt til funda í nefndinni þar sem til voru kallaðir fjármálastjórnendur þessara stofnana eða viðfangsefna, fulltrúar þeirra fagráðuneyta, sem ábyrgð bera á viðkomandi stofnunum eða viðfangsefnum, og fulltrúar fjármálaráðuneytisins. Var á þessum fundum farið nánar ofan í saumana á þessum stofnunum eða viðfangsefnum og forsjármenn þeirra og fagráðuneyti beðin um skýringar. Þar sem skýringar voru ekki fullnægjandi að dómi nefndarinnar var umræddum fjármálastjórnendum tjáð sú afstaða og þess óskað að viðkomandi fagráðuneyti og fjármálaráðuneytið fylgdust þar sérstaklega vel með. Í nokkrum tilvikum var gripið til sérstakra aðgerða í því skyni að koma á skipulagsbreytingum til þess að draga úr kostnaði og veita frekara kostnaðarlegt aðhald.
    Sá háttur, sem fjárveitinganefnd hefur haft á vinnu sinni við yfirferð fjáraukalagafrumvarpsins, er tímafrekur og kostar talsverða vinnu. Enginn vafi er hins vegar á því að svona vinnubrögð bera árangur því að forsjármenn ríkisstofnana og viðfangsefna á vegum ríkisins verða þannig áþreifanlega varir við að fjárveitingavaldið fylgist með fjármálastjórn þeirra og gerir athugasemdir ef viðurkenndar skýringar eru ekki gefnar á því ef útgjaldaniðurstaðan er ekki í samræmi við áformin.
    Með sambærilegum hætti fór fjárveitinganefnd einnig vandlega yfir svokallaðar „aukafjárveitingar“, þ.e. þær greiðslur úr ríkissjóði umfram fjárlagaheimildir, sem fjármálaráðherra hefur innt af hendi og eru umfram tilefni sem skýrast af breyttum launa-, verðlags- eða gengisforsendum fjárlaga. Aukafjárveitingar af þessu tagi, sem ekki má beinlínis rekja til breytinga á launa-, verðlags- og gengisforsendum frumvarpsins, námu samkvæmt yfirliti fjármálaráðuneytisins 2.566.572 þús. kr. og er sú fjárhæð þó samansett m.a. af aukafjárveitingum til útgjalda við einstök viðfangsefni sem rekja má til áhrifa verðlagsbreytinga, svo sem aukafjárveiting til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þá eru í þessari fjárhæð einnig með talin útgjöld vegna heimilda um kaup fasteigna sem veittar eru í 6. gr. fjárlaga, svo og vegna heimilda um uppgjör sem veittar eru í sömu grein. Langflestar aukafjárveitingar á þessum lista eru hins vegar vegna samþykktar ríkisstjórnar eða ákvarðana fjármálaráðherra samkvæmt óskum einstakra fagráðherra. Listi yfir umræddar aukafjárveitingar fylgir hér með í sérstöku fylgiskjali.
    Nefndin fór vandlega yfir þennan lista um aukafjárveitingar og kallaði eftir nánari skýringum um einstök efni. Fyrir löngu er búið að greiða þær upphæðir sem fjallað er um í þessum lista yfir aukafjárveitingar og þær greiðslur verða ekki afturkallaðar. Nefndin telur hins vegar að sumar þessara aukafjárveitinga orki tvímælis og að það sé farið að ganga ótæpilega langt ef ákveðnar eru með þessum hætti greiðslur úr ríkissjóði til viðfangsefna sem annaðhvort hafa aldrei verið lögð fyrir Alþingi til meðferðar ellegar Alþingi hefur ákveðið greiðslur til en framkvæmdarvaldið ekki verið sátt við og því ákvarðað án frekara samráðs við fjárveitingavaldið að auka greiðslur úr ríkissjóði þeirra vegna. Slíkar afgreiðslur virðast vera að færast í vöxt eftir því sem árin líða. Fjárveitinganefnd telur nauðsynlegt að hér verði breyting á og hefur flutt á yfirstandandi Alþingi frumvarp til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði sem m.a. er ætlað að lögfesta reglur sem ákveða með hvað hætti unnt sé að sinna óvæntum viðfangsefnum, óvæntum umframkostnaði við tiltekin verkefni og kostnaðaráhrif breyttra forsendna við verðlag, gengi eða laun en setji jafnframt skorður við „aukafjárveitingum“ af því tagi sem auka umfang viðfangsefnis umfram það sem Alþingi hefur ákveðið ellegar varða mál sem Alþingi hefur aldrei fjallað um eða hefur jafnvel hafnað.
    Í sérstöku fylgiskjali með þessu nefndaráliti er greint frá því hvaða viðfangsefni, útgjaldaliðir og stofnanir voru tekin til nánari athugunar hjá fjárveitinganefnd. Á þessu stigi málsins verður ekki greint frá einstökum athugasemdum nefndarinnar eða afstöðu nefndarinnar í heild eða einstakra nefndarmanna, útgjaldaliða eða stofnana sem skoðaðar voru sérstaklega með þessum hætti heldur látið nægja að ítreka að nefndarmenn og nefndin í heild var ekki sátt við allar niðurstöðurnar, en óskaði eftir tilteknum eftirlits- og aðhaldsaðgerðum varðandi nokkra útgjaldaliði og gerðar voru athugasemdir við nokkrar aukafjárveitingar. Eins og áður segir eru þó ekki tök á að afturkalla þessar greiðslur sem inntar hafa verið af hendi og varð það því niðurstaða nefndarinnar að leggja fremur til breytt vinnubrögð í frumvarpi nefndarmanna um fjárgreiðslur úr ríkissjóði en að gera formlegar athugasemdir við einstaka liði til Alþingis.
    Í greinargerð með frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1988, á þskj. 641, er gerð ítarleg grein fyrir niðurstöðum ríkisreiknings fyrir þau ár og niðurstöðum tekna og gjalda ríkissjóðs umfram áætlun fjárlaga. Er því aðeins stiklað á stærstu atriðunum hér.
     Tekjur: Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1988 urðu 64.506 m.kr. og er það 927 m.kr. hærri fjárhæð en fjárlög gerðu ráð fyrir. Verðlagsbreytingar urðu hins vegar aðrar en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir og ef verðlagsþróunin er tekin með í reikninginn námu innheimtar tekjur 3 milljarða kr. lægri upphæð en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Vegna samdráttar í veltu urðu tekjur af óbeinum sköttum 4 milljörðum kr. minni en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir að teknu tilliti til breyttrar verðþróunar, en tekjur af beinum sköttum hins vegar 1 milljarði kr. meiri og vó það upp fjórðung tekjutapsins af veltusköttunum. Liggur því ljóst fyrir að tekjubrestur skýrir að hluta til meiri hallarekstur á ríkissjóði árið 1988 en fjárlög gerðu ráð fyrir.
     Gjöld: Gjöld uxu hins vegar um 9.093.098 þús. kr. umfram áætlun fjárlaga og er ríkissjóðshallinn á árinu 1988 þannig að u.þ.b. tveim þriðju hlutum vegna aukningar útgjalda umfram áætlun fjárlaga og að þriðjungi vegna tekjubrests. Stærstu liðir umframútgjalda eru (í m.kr.):

    Rekstur stofnana ..............         3.134
    Tilfærslur ....................         3.134
    Aukin vaxtagjöld ..............         2.193
    Viðhald og fjárfestingar ......         645

Inni í þessum tölum eru vitaskuld bæði hækkanir vegna breytinga á gengis-, verðlags- og launaforsendum, hækkanir vegna vanáætlana og hækkanir vegna ákvarðana ríkisstjórnar og ráðherra um aukin umsvif eða ný verkefni.
    Um frekari skýringar er vísað til greinargerðar frumvarps á þskj. 641.
     B-hlutinn: Þá tók nefndin einnig málefni B-hlutastofnana til sérstakrar skoðunar. Nokkur misbrestur hefur verið á því að fylgt sé eftir við B-hlutastofnanir að þær standi við þær áætlanir sem gerðar eru í fjárlögum, sérstaklega að því er varðar fjárfestingar stofnananna, en einnig að því er varðar rekstur þeirra. Raunar hefur þetta aldrei verið gert svo að nokkurt samræmi sé í. Nokkrar þessara stofnana, má þar til nefna sérstaklega Póst og síma og RARIK, hafa verið krafðar um að upphaflegum áætlunum um rekstur og stofnkostnað væri strengilega fylgt og hefur verið fylgst sérstaklega með þessum stofnunum hvað varðar bæði rekstur og fjárfestingu. Aðrar B-hlutastofnanir hafa hins vegar ekki verið látnar sæta sömu meðferð, t.d. ÁTVR hvað fjárfestingar varðar og Þjóðleikhúsið hvað rekstur varðar. Þetta þarf að samræma. Gera verður þá hina sömu kröfu til allra B-hlutastofnana, þ.e. að þær skili sem réttustum áætlunum um rekstur til Alþingis, ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar séu teknar við afgreiðslu fjárlaga jafnframt ákvörðunum um rekstur og stjórnendur stofnananna framfylgi síðan þessum áætlunum. Fram hefur komið það sjónarmið, sérstaklega hvað varðar stofnanir sem hafa tekjur af starfsemi sinni, að svo lengi sem þær skili til ríkisins því sem þeim er ætlað að skila eða standi undir þeim rekstri sem þeim er ætlað að standa komi það fjárveitingavaldinu ekki við hvernig þær verja umframtekjum sínum hvort sem þær eru nú litlar eða miklar. Á þetta sjónarmið verður ekki fallist. Sömu kröfu verður að gera til allra B-hlutastofnana. Þar á enginn að vera rétthærri en annar. Skynsamlega verður að sjálfsögðu að standa að málum og gefa góðum stjórnendum svigrúm til stjórnunar þannig að frumkvæði og árangur í rekstri geti skilað sér til stofnananna en megindrætti í rekstri og fjárfestingu B-hlutastofnana á að marka við afgreiðslu fjárlaga og þá á að virða. Mikill misbrestur hefur verið á því hjá einstökum stofnunum og því verður að kippa í liðinn.
    Í nefndaráliti þessu hefur verið gerð grein fyrir þeim hætti sem fjárveitinganefnd hefur haft á afgreiðslu málsins. Greint hefur verið frá ýmsu sem fram kom á fundum nefndarinnar. Með vísan til þess sem hér hefur verið sagt, m.a. um þá niðurstöðu sem fjárveitinganefnd hefur komist að í störfum sínum og varðar það að nauðsynlegt sé að breyta starfsháttum framkvæmdarvaldsins varðandi greiðslur úr ríkissjóði og fjárveitingavaldsins hvað varðar afgreiðslu fjárlaga — en hvort tveggja eru forsendur þess að breytingar geti á orðið til bóta, leggur meiri hl. fjárveitinganefndar til að frumvarpið á þskj. 641 verði samþykkt óbreytt þótt einstakir nefndarmenn hafi haft athugasemdir við ýmsar afgreiðslur og nefndin í heild við þá þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum í samskiptum framkvæmdarvaldsins við fjárveitingavaldið.

Alþingi, 30. apríl 1990.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir,


fundaskr.


Alexander Stefánsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Ásgeir Hannes Eiríksson.






Fylgiskjal I.


Skrá yfir þau útgjaldaviðfangsefni og stofnanir sem fjárveitinganefnd


ræddi sérstaklega við í tengslum við afgreiðslu fjáraukalaga 1988.


Stofnun eða viðfangsefni ásamt fjárlaganúmerum.



0 201     Alþingi
0 301     Ríkisstjórn

2 101     Menntamálaráðuneyti:
    Aðalskrifstofa
    Mál Sturlu Kristjánssonar
    Menntaskólinn í Hamrahlíð
    Verkmenntaskólinn á Akureyri
    Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
    Námsstjórn og þróunarverkefni
    Kvikmyndaeftirlit ríkisins
    Unglingaheimili ríkisins
    Lánasjóður íslenskra námsmanna
    Þjóðskjalasafn
    Náttúruverndarráð
    Háskóli Íslands
    Háskólinn á Akureyri
    Grunnskólinn, almennt
    Leikfélag Akureyrar
    Ýmis íþróttamál

3 101     Utanríkisráðuneyti:
    Aðalskrifstofa
    Viðskiptaskrifstofa
    Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli

7 101     Félagsmálaráðuneyti:
    Aðalskrifstofa
    Málefni fatlaðra

11 101     Iðnaðarráðuneyti:
    Iðntæknistofnun
    Sjóefnavinnslan hf.
    Þörungavinnslan hf.
    Iðnaðarrannsóknir
    Iðja og iðnaður
    Orkumál, ýmis verkefni

6 101     Dómsmálaráðuneyti:
    Aðalskrifstofa
    Sýslumenn og bæjarfógetar
    Lögreglustjórinn í Reykjavík
    Vinnuhælið á Litla-Hrauni
    Löggildingarstofan
    Prestaköll og prófastsdæmi

4 101     Landbúnaðarráðuneyti:
    Aðalskrifstofa
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins
    Skógrækt ríkisins
    Einangrunarstöð holdanauta

5 101     Sjávarútvegsráðuneyti:
    Aðalskrifstofa
    Hafrannsóknastofnun

8 101     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti:
    Tryggingaeftirlitið
    Hollustuvernd ríkisins
    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri
    Sjúkrahúsið á Húsavík
    Sjúkrahús Suðurlands, Selfossi
    Sjúkrahúsið í Keflavík
    Ríkisspítalar
    St. Jósefsspítali, Landakoti

9 103     Fjármálaráðuneyti:
    Ríkisbókhald
    Gjaldheimtan í Reykjavík
    Fasteignamat ríkisins
    Innkaupastofnun ríkisins, framkvæmdadeild

    Í flestum þeim tilvikum, sem um ríkisstofnun var að ræða, var kallað í forstöðumenn þeirra ásamt með fulltrúum viðkomandi ráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

B-hluta stofnanir.


    Þá var sérstaklega rætt við forráðamenn eftirtalinna B-hlutastofnana, Húsnæðisstofnunar ríkisins vegna fjárfestinga í húsnæði, Þjóðleikhússins vegna mikilla rekstrarskulda, Skipaútgerðar ríkisins vegna hallareksturs, Ríkisútvarpsins vegna hallareksturs og framkvæmda sem m.a. voru kostaðar með kaupleigusamningum.



Fylgiskjal II.


Repró í Gutenberg







Prentað upp.