Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 373 . mál.


Sþ.

1153. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988.

Frá 2. minni hl. fjárveitinganefndar.




    Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1988 var lagt fram stefndi þáverandi ríkisstjórn að eftirfarandi meginmarkmiðum:
—     Að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum.
—     Að draga úr lánsfjárþörf; engar nýjar erlendar lántökur til A-hluta stofnana.
—     Að draga úr sjálfvirkni ríkisútgjalda.
—     Að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs.
—     Að gera tekjuöflunarkerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara.
    Annar minni hl. telur að þessum markmiðum hafi ekki verið náð. Niðurstaða fjáraukalaga fyrir árið 1988 sýnir hækkun á útgjöldum ríkissjóðs frá fjárlögum sem nemur rúmum 9 milljörðum kr. Tekjur hækkuðu um tæpan milljarð umfram áætlun fjárlaga. Halli á ríkissjóði nam 8 milljörðum kr. svo að langt er frá því að jöfnuður hafi náðst. Lánsfjárþörf varð því tæpir 9 milljarðar kr., þar af erlendar lántökur 3,5 milljarðar kr. Ríkisbáknið þandist út sem aldrei fyrr á árinu 1988. Sjálfvirkni ríkisútgjalda óx að sama skapi.
    Það sem einkum átti að vera til einföldunar við endurskoðun tekjuöflunarkerfisins var að breikka söluskattsstofninn með innifólgnum hinum illræmda matarskatti. Þessi einföldun varð á kostnað réttlætisins og hefur reynst almennu launafólki þung í skauti. Auk þess hefur hún hefur komið illa niður á einstökum atvinnugreinum. Má þar nefna veitingarekstur og ferðaþjónustu.
    Af þessu er ljóst að engin af tilgreindum meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar náðu fram að ganga. Halli ríkissjóðs á árinu varð meiri en dæmi eru um. Augljóst er því að fjármálastjórn þáverandi ríkisstjórna hefur gersamlega brugðist. Ábyrgðina verða þeir að bera sem um stjórnvölinn héldu.
    Annar minni hl. getur ekki staðið að afgreiðslu frumvarpsins.

Alþingi, 2. maí 1990.



Málmfríður Sigurðardóttir.