Tollalög
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að taka undir það frv. til laga sem hér liggur fyrir um breytingu á tollalögum, nr. 55 frá 30. mars 1987, með síðari breytingum. Ég tel að það frv. sem hér liggur fyrir sé mjög tímabært, það sé til einföldunar og það sé til lækkunar vöruverðs og verðlags í landinu og þar með minni verðbólgu.
    Flutningsgjöld og fjarlægðir hafa mikil áhrif á vöruverð hér á Íslandi. Þess vegna hlýtur það að vera mjög mikilvægt að ekki sé lagður tollur sérstaklega á flutningsgjöldin eins og er gert í dag. Ég vil taka sem dæmi að ef menn fá ókeypis flutning fyrir vöru, þá er samt lagður tollur á áætlað flutningsgjald. Og það hljóta allir að sjá að slíkar reglur eru náttúrlega afskaplega heimskulegar. Það hlýtur að verða að afnema slíkar reglur því að þessi skattur orsakar það að vöruverð er hér hærra en annars þyrfti að vera. Ef þetta yrði afnumið mundi vöruverð hér í flestum tilfellum vera undir vöruverði víðast í nágrannalöndum miðað við þær kannanir sem gerðar hafa verið á innfluttum vörum hér og í nágrannalöndunum, t.d. á Norðurlöndunum. Það hefur sýnt sig að verslunarmenn á Íslandi hafa staðið sig fullkomlega í því að gera hagstæð innkaup en þar á móti hafa yfirvöld ríkisfjármála ekki staðið sig í því að hægt sé lækka vörurnar eins og þetta að koma til móts við hagstæðan innflutning og lágt vöruverð vegna þessarar reglu. Og ég vona að fjh. - og viðskn. muni afgreiða þetta sem lög frá Alþingi og ég vona einnig að fjmrh. muni styðja þetta.