Jarðgangagerð á Austurlandi
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Öll umræða hér á hv. Alþingi um samgöngubætur, þar á meðal jarðgangagerð, er vissulega góðra gjalda verð og fagna ég því að hv. 5. þm. Austurl. hefur flutt hér tillögu um málið. Við þurfum hins vegar að hafa vel í huga hvar svona mál eru á vegi stödd og ég er ekki alveg sannfærður um að tillaga um þetta efni einmitt nú hitti naglann á höfuðið að því leyti að málið er ekki þannig statt varðandi undirbúning á Austurlandi að það sé kannski hægt einmitt á þessum mánuðum að álykta um að undirbúa heildarútboð jarðgangaframkvæmda á Austurlandi, en ekki sakar að ýta á eftir.
    Á Austurlandi er nú starfandi að tilhlutan hæstv. samgrh. nefnd, raunar með þátttöku Vegagerðar ríkisins, að því að undirbúa rannsóknir og ákvarðanir, stefnumótun, varðandi jarðgangagerð á miðsvæðinu austan lands. Sú nefnd hefur ekki lokið störfum. Hún var skipuð fyrir rösku ári líklega og er að vinna að málum. Ég held að það skipti mjög miklu að álit þeirrar nefndar, með aðild Vegagerðarinnar, liggi fyrir áður en farið er að undirbúa heildarútboð jarðgangaframkvæmda eins og hér er lagt til. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég vilji draga úr málinu, síður en svo. Fáum ætti að vera það jafnljóst hvaða þýðingu það hefur að fyrr en seinna takist að koma af stað jarðgangagerð á Austfjörðum til þess að tengja byggðarlögin þar saman. Ég á heima handan við einn hæsta fjallveginn og á þar oft leið um og auðvitað hugsum við oft um það að einnig þar, þótt þar séu jarðgöng í 600 metra hæð, þyrfti að vera greiðari gata á milli byggðarlaga.
    Varðandi fortíðina í þessu máli og undirbúning að jarðgangagerð ætla ég ekki að fara að rekja það hér í einstökum atriðum. Það hafa verið fluttar tillögur og það fyrr en hv. 3. þm. Austurl. gat um hér þó þær séu allar góðra gjalda verðar sem fram hafa komið. Það sem skiptir sköpum í þessum málum á undanförnum árum er frumkvæði núv. hæstv. samgrh. í þessum efnum. Ég held að það taki enginn af honum að hann hefur lagt mjög ríka áherslu á jarðgangagerð og hann hafði fullan stuðning Alþb. til þess að ganga fram með þeim hætti sem gert var á hans vegum.
    Það liggur líka fyrir að Austfirðingar eru reiðubúnir að taka undir þá stefnu að Vestfirðir hafi forgang í sambandi við næsta stórátak í jarðgangagerð, þ.e. nú að loknum jarðgöngum undir Ólafsfjarðarmúla. Ég hef a.m.k. ekki heyrt að menn ætluðu að fara að togast á um þá röðun framkvæmda og ég vona að sú samstaða haldi en jafnframt að við, sem stillum okkur þarna í annað sæti miðað við framtíðarátak í þessum málum, verðum ekki látnir gjalda þess, heldur njótum fulls stuðnings annarra til þess að myndarlega verði tekið á málum þegar jarðgöngum undir Breiðadalsheiði og Botnsheiði er lokið.
    Nú kann að vera að menn telji sig ráða við það að hafa í gangi framkvæmdir í báðum landshlutum. Síst mundum við Austfirðingar lasta það ef sá stórhugur væri í málum, en ég held að það teldist til bjartsýni,

miðað við þá stöðu sem hefur verið í fjárveitingum til samgöngumála á undanförnum árum, ætti það að takast. Sjálfsagt er auðvitað að taka þátt í athugun slíks máls.
    Ég vil jafnframt nefna það að það skiptir máli hvernig raðað er stórframkvæmdum í landinu, hvað það er sem menn hafa undir í þeim efnum, því að það hlýtur að vera heildarráðstöfunarfé þjóðarinnar sem skiptir máli í þessum efnum, möguleikarnir á stórvirkjum, möguleikarnir á að taka stórt á og það eru takmörk fyrir hvað efnahagskerfið í landinu tekur á móti. Í þessu sambandi hlýt ég að minna á það sem tengist umræðum um stórt álver hér við Faxaflóa. Þeirri umræðu tengist stórfelldur niðurskurður til
opinberra framkvæmda á næstu árum. Það er ekkert farið dult með það að það eru vegaframkvæmdirnar og samgöngumálin sem eru alveg sérstakur skotspónn í sambandi við þau mál. Og ég verð að minna hv. alþm. á það að það tengist því sem hér er til umræðu og einmitt mjög náið því að þegar menn er að líta til arðsemi framkvæmda í landinu og arðsemi fjármagns er nú kannski ástæða til þess að átta sig á því hver er þjóðhagsleg arðsemi þeirra framkvæmda, sem mikið eru umræddar, í sambandi við álbræðslu og virkjanir því tengdar annars vegar og hins vegar samgöngubóta í landinu. Ætli það gæti ekki verið fróðlegt að fara yfir þá þætti og átta sig á því hvar fjármagnið skilar sér í raun best fyrir þjóðfélagið?