Landgræðsla á Vestfjörðum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. um landgræðslu á Vestfjörðum. Fyrirspurnin er svo hljóðandi:
 ,,1. Hvernig ástand er á girðingum Landgræðslunnar á Vestfjörðum?
    2. Hvað miðar uppgræðslu í þeim?
    3. Hvenær er talið að uppgræðslu verði lokið samkvæmt áætlun þar um?
    4. Hvenær má í síðasta lagi gera ráð fyrir að landi innan girðinganna verði skilað til eigenda?``
    Ástæða þess að þessi fyrirspurn er borin fram er að á einum bæ í Rauðasandshreppi hefur Landgræðslan haft land í 40 -- 50 ár. Þegar það land var afhent Landgræðslunni á sínum tíma voru skýlaus ákvæði í lögum um að skila bæri landinu aftur þegar það væri uppgrætt. Jafnframt voru skýlaus ákvæði um það að það bæri að gera áætlun um uppgræðsluna.
    Ef ekki er staðið við slíka hluti er um hreinan þjófnað af hálfu ríkisins á landi að ræða. Og í þessu tilfelli er málið það alvarlegt að vegna þess að undirlendi er mjög takmarkað á viðkomandi jörð blasir það við að fáist þessi mál ekki á hreint, hvort landinu verður skilað eða ekki, mun það fyrirbyggja að aðrir aðilar taki við jörðinni.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst það dálítið skrýtið ef ríkið getur ekki afhent slíkt land þar sem jafnframt liggur fyrir
að jarðareigandi hefur í gegnum tíðina kostað allan þann áburð sem notaður hefur verið til uppgræðslu innan þessar girðingar.
    Nú er mínum tíma lokið og ég ætla ekki að ganga á rétt forseta en ég vona að hæstv. landbrh. geri sér grein fyrir því hvaða alvara fylgir þessu máli.