Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Í umræddri blaðafrétt sem hv. 5. þm. Austurl. las upp úr stendur sitthvað fleira. Bátasjómaður í Grímsey segir að kvótakerfið hvetji menn frekar en letji til að kasta fiski í sjóinn og hann telur ekki fjarri að áætla að á ári hverju fari þannig í súginn allt að 50 -- 60 þús. tonn eða árlega um heildarafli smábáta. Og rökin fyrir þessari iðju telur hann vera að í takmörkuðum kvóta kappkosti menn við að koma með að landi fisk í hæsta gæðaflokki. Ef það er ekki hægt einhverra hluta vegna, þá er aflanum frekar hent en að fá lítið sem ekkert fyrir hann. Enn fremur gagnrýna smábátasjómenn alla nýtingu frystitogaranna, eins og kom hér fram áðan, en þar sé hugsað um það eitt að hirða verðmætasta hluta aflans en afganginum hent aftur í sjóinn. Þeir segja að umgengnin á miðunum að þessu leyti sé fyrir neðan allar hellur og mundi mörgum blöskra ef það væri látið viðgangast uppi á landi. Þannig býður kvótakerfið upp á að fiski sé hent. Þetta hlýtur að veikja trú manna á þeirri stefnu sem hér er rekin í fiskveiðum.
    En viðvíkjandi úthlutun aflaheimilda langar mig til að gera fyrirspurn til ráðherra. Togari hefur verið bundinn við bryggju í allt að tvö ár. Í þessum tillögum um veiðiheimildir sem nú liggja fyrir eru veiðiheimildir hans auknar um 300 tonn. Þegar spurt er um ástæður fyrir þessu eru svörin þau að viðmiðunin sé það sem togarinn hefði getað veitt hefði hann verið á veiðum. En um leið og slík ákvörðun er tekin eru veiðiheimildir skertar á öðrum skipum og bátum. Því fá þeir sem sannanlega hafa verið á veiðum þá skerðingu en ekki auknar heimildir? Þurfa að vera einhverjar hugmyndir um eitthvað sem hefði getað gerst til að menn fái aukningu á sínum heimildum? Ég vil fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann gefi skýringu á því á hverju slíkir úrskurðir eru byggðir, sem satt að segja eru lítt skiljanlegir fyrir venjulegt fólk.