Umferðarlög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, sem er á þskj. 258. Flm. auk mín eru hv. þm. Eiður Guðnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Guðrún J. Halldórsdóttir, Halldór Blöndal, Karl Steinar Guðnason, Margrét Frímannsdóttir, Skúli Alexandersson og Valgerður Sverrisdóttir.
    Þetta frv. varðar 72. gr. umferðarlaganna, þ.e. að á eftir 1. mgr. 72. gr. komi ný mgr. er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Barn, 12 ára eða yngra, sem hjólar eða er reitt á reiðhjóli, skal nota hlífðarhjálm.``
    Ég held, hæstv. forseti, að ég þurfi ekki að hafa mjög langt mál um þetta frv. Við höfum áður flutt frv. þar sem í voru ákvæði sem varða 1. gr. þessa frv. en það náði ekki fram að ganga. Á síðasta þingi fluttu 13 þingmenn þessarar hv. deildar frv. sem laut að notkun bílbelta í aftursætum bifreiða. Það frv. varð að lögum og tók gildi 1. okt. sl.
    Það ákvæði sem þetta frv. fjallaði um held ég að allir séu sammála um að sé mjög mikilvægt. Það lýtur að því að koma í veg fyrir alvarleg höfuðslys á börnum sem eru á reiðhjólum, en flest slys barna á reiðhjólum verða á börnunum á aldrinum 5 -- 9 ára. Gerðar hafa verið kannanir á vegum Bindindisfélags ökumanna. Hagvangur gerði slíka könnun í janúar 1990. Í henni kom fram að 90% þeirra sem spurðir voru og tóku afstöðu um lögleiðingu reiðhjólahjálma voru hlynntir þeirri ráðstöfun. Það er staðreynd að ár hvert slasast hundruð hjólreiðamanna hér á landi og í flestum alvarlegum reiðhjólaslysum verður höfuðið fyrir höggi við fall eða árekstur. Þess vegna er þetta talin vera eðlilegasta vörnin, að verja höfuð hjólreiðamannsins eins og kostur er.
     Á nýafstöðnu slysavarnaþingi, þingi sem Umferðarráð stóð fyrir, flutti Tryggvi Þorsteinsson, læknir á slysadeild Borgarspítalans, fyrirlestur um þessi mál, þ.e. hjólreiðaslys á Stór - Reykjavíkursvæðinu. Þar kom fram að 397 einstaklingar hefðu leitað til slysadeildar. Tryggvi lagði mikla áherslu á reiðhjólahjálmana og fagnaði því ef hægt yrði að lögleiða notkun þeirra.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa lengra mál um þetta frv. Mér finnst það skýra sig sjálft. Það eru það margir flutningsmenn að þessu frv. hér í hv. deild. og við höfum svo oft fjallað um þessi mál að ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja það frekar. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.