Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér kemur ræða hv. 5. þm. Reykv. mjög á óvart, formanns fjh. - og viðskn. Honum var kunnugt um það að ég hafði beðið um tilteknar upplýsingar hjá fjmrn. þegar --- ég má segja skrifstofustjóri launadeildar var staddur á fundi fjvn., Birgir Sigurjónsson, og aðstoðarmaður fjmrh., Svanfríður Jónasdóttir. Bað ég um ákveðnar upplýsingar um launataxta flugumferðarstjóra. Ég fór í gærmorgun upp í launadeild og ítrekaði mínar óskir og fékk svo í morgun eða seint í gærkvöldi upplýsingar sem fólu í sér hluta af því sem ég hafði beðið um. Síðan hafði ég samband við ritara fjh. - og viðskn. í morgun og sagði honum frá því að ég þyrfti á þessum upplýsingum að halda nú við umræðurnar og það varð að samkomulagi milli okkar að ég dokaði við til hálftvö ef vera kynni að þessar upplýsingar yrðu látnar í té. Ég er hér að tala um opinberar upplýsingar, launatöflu, ekkert persónulegt, ekkert sem hver og einn á ekki að hafa aðgang að.
    Þó svo að þessar upplýsingar liggi enn ekki fyrir, herra forseti, geri ég ekki athugasemd við að umræður hefjist. Ég skilaði inn nál. rétt fyrir kl. hálftvö þó svo að þessar upplýsingar lægju ekki fyrir og ég hefði kannski bætt við einni eða tveim setningum eða breytt orðalagi hefði ég haft þær í höndum, en samkvæmt þeim nýjustu upplýsingum sem ég hef nú, og fékk rétt áður en fundur hófst, er þess að vænta að ég fái umbeðin plögg í hendur nú á næstu mínútum og ég vil vænta þess að svo verði.
    Ég ítreka að formanni fjh. - og viðskn. var kunnugt um þetta þannig að það á ekki að koma honum á óvart þó svo að ég hafi skilað nál. seint, en ég vil taka það fram að frágangur nál. eins og það er á borðum þingmanna er minn, þannig skilaði ég nál. í hendur Alþingis svo að það var ekkert eftir annað en ljósrita það. Þá var það fullbúið í hendur þingmanna.