Kjördagur
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Þau eru sjálfsagt rétt lokaorð hæstv. menntmrh., að hér hefði komið niðurstaða sem menn yrðu að una við. Ég reikna með því. Ég sagði það hér áðan að ég væri ósáttur við þessa afgreiðslu en ríkisstjórnin hefur valið sér aðra stuðningsmenn en mig í þessu máli og þar á meðal hefur hún fengið hv. þm. Halldór Blöndal. Ég vonast til þess að hann skrifi þá upp á tillöguflutning með núv. ríkisstjórn í þessa átt og trúlega einhverjir fleiri.
    En þessi umræða hefur verið gagnleg og ég fagna því hversu skýrt og rækilega hefur komið fram þessi gífurlega harða afstaða Sjálfstfl. gegn því að þingkosningar geti farið fram samkvæmt lögum, sem samþykkt voru í október 1987, annan laugardag í maí. Sjálfstfl. hefur krafist þess að þingkosningar skuli fara fram í aprílmánuði. Hann hefur ekki viljað hlusta á ummæli manna sem hafa viljað vara við þeim erfiðleikum og þeim mikla kostnaði sem af því hlýst að kjósa á þessum tíma.
    Ég vil einnig þakka hæstv. sjútvrh. fyrir skelegga ræðu hér og ég fagna alveg sérstaklega kafla í hans máli þar sem hann vitnaði til, og ég bið nú hv. þm. Sjálfstfl. að hlusta, hæstv. fyrrv. dómsmrh. Sjálfstfl. Auðar Auðuns í umræðum um svipað mál þegar hún gegndi því embætti og ummæla hv. þm. Ólafs Jóhannessonar sem þá gegndi formennsku þingflokks Framsfl.
    Ég vil leggja þunga áherslu á það að menn leggi þessi orð á minnið. Það er hins vegar öllum ljóst og það hefur komið fram að það er mikið af lögfræðingaliði í þingflokki Sjálfstfl. en það hefur jafnframt komið fram í þessum umræðum að það er vægast sagt misjafnt að gæðum.