Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur nú ekki verið venja mín að tefja umræður hér í sambandi við endurskoðun á fiskveiðistefnunni. Ég hef gert grein fyrir mínum skoðunum í nefnd í sambandi við þetta og undirbúning málsins. En ég verð bara að viðurkenna það að ég er svolítið undrandi yfir þessari tillögu eða samsetningu hennar. Ekki það að ég sé andvígur því að endurskoða fiskveiðistefnuna. Það er svo sjálfsagt mál að það hefur verið sett í lögin hverju sinni að endurskoðun skuli fara fram og hvernig og hvenær. Þess vegna er ekkert við það að athuga þó að þingmenn setji fram slíka tillögu um endurskoðun. Þá hefði líka verið alveg nægilegt að hafa bara fyrstu setninguna í tillögunni, að kjósa hlutfallskosningu sjö alþingismenn í milliþinganefnd er hafi það hlutverk að endurskoða fiskveiðistefnuna.
    En ég vil bara segja eins og er að ég held það hafi verið viðurkennt hér á hv. Alþingi og í allri umræðunni um fiskveiðistjórnun frá fyrsta degi að umræða hófst um að setja á fiskveiðistjórnun að styrkur hennar er samstaða við hagsmunaaðila í sjávarútveginum. Og ég veit ekki betur en ég hafi hlustað á það hér á Alþingi allan þennan tíma að alþingismenn hafa hælt sér af því og metið það að verðleikum, sem eðlilegt er, hvað hefur náðst breið samstaða um þetta mál, þó að sjálfsögðu séu menn ekki sammála um svo stórt hagsmunamál þjóðarinnar eins og stjórn fiskveiða og ekki síst þegar um er að ræða að stjórnunin þarf að miða við það að draga saman afla til þess að vernda fiskstofnana. Þetta hélt ég nú satt að segja að væri öllum flm. þessarar till. ljóst. Ég verð að segja það, þegar ég fer að athuga það betur, að tiltölulega fáir af þessum hv. þm. hafa raunverulega tekið þátt í þeirri vinnu sem hefur tekið fleiri mánuði í hvert skipti sem lögin hafa verið endurskoðuð. Flestir aðrir þingmenn en þeir hafa tekið þátt í því og það getur kannski verið ein orsökin fyrir því að þeir vilja núna láta kjósa hlutfallskosningu sjö þingmenn í milliþinganefnd. ( Gripið fram í: Hvað sagði hv. þm.?) Og ég verð að segja alveg eins og er, hv. þm., að það er alveg ljóst að hverjir sem yrðu kosnir í slíka milliþinganefnd hér á hv. Alþingi, hv. alþingismenn, mundu á fyrsta degi síns fundar verða að átta sig á því að þeir komast ekki hjá því að ræða við þá aðila í landinu sem þessi mál fyrst og fremst bitna á og fyrst og fremst eru hagsmunamál fyrir. Hvort sem við köllum þá sjómenn, útgerðarmenn eða aðra slíka þá eru það þeir aðilar sem þetta mál brennur á.
    Það sem kom mér til að standa hér upp, og auðvitað getur maður talað langt mál um þetta ef maður byrjar á því á annað borð en ég ætla ekki að gera það undir þessari umræðu, er að ég verð að segja það alveg eins og er að ég skil ekki það sem kemur fram í þessari tiltölulega stóru grg. sem fylgir till. Að menn skuli ætla sér að bera það fram að það náist betri stjórnun í fiskveiðum á Íslandsmiðum miðað við þá staðreynd að fiskstofnar eru í lágmarki, og verða sjálfsagt miðað við það magn sem úr þeim er tekið, og

miðað við þær aðstæður sem eru á miðum, ef notuð er sóknaraðferð, sóknarstýring, til þess að veiða þennan nytjafisk. Það eigi að hleypa öllum flotanum á ákveðnum tíma í ákveðið magn. Hvað skeður þá? Einfaldlega það að tiltölulega fá skip á fáum stöðum koma til með að veiða helftina af þeim afla sem leyft verður að veiða. Hvað haldið þið að skip eins og stóru togararnir, frystitogararnir og stærstu togararnir, stærstu og fullkomnustu fiskiskipin sem við eigum undir annarri stærð, geti veitt ef þau hafa ótakmarkað magn, hvort sem það er einn mánuður, tveir mánuðir eða fimm mánuðir umfram aðra? Hvernig haldið þið að dreifingin verði á þessu?
    Það er alveg ljóst að þetta er óframkvæmanlegt á þennan hátt. Og ég skil ekkert í mönnum sem meina það í raun og veru og ég veit að þeir meina það ekki því að ég er búinn að tala við nokkra af þessum flutningsmönnum hér og þeir hafa ekkert um þetta að segja. Þeir eru ekki fylgjandi því að taka upp sóknarstýringu í staðinn fyrir aflamark sem nú er. Og ég verð að segja það alveg eins og er að ég horfi með hryllingi á það tímabil sem kæmi upp ef þessi yrði staðreyndin. En ég tel að sóknarmarkið með þeirri stýringu sem hefur verið undanfarið hafi gert meira ógagn en menn hefur órað fyrir og gert meiri ójöfnuð milli svæðanna en menn hefur órað fyrir. Ég er því sannfærður um að þetta eitt sem er tekið fram í grg. er ekki sú aðferð sem við Íslendingar eigum að nota meðan við þurfum að stýra og takmarka aflann sem má sækja á miðin og meðan við þurfum að dreifa þessum afla sem mest um landið þar sem eru fiskiskip sem bera uppi hagsmuni byggðarinnar, þó að þau séu ekki afkastamikil eins og þessi nýjustu fiskiskip eru víða.
    Þetta tel ég að sé grundvallarmisskilningur en segi það alveg eins og er að auðvitað þurfum við að endurskoða fiskveiðistefnuna og ná fram nauðsynlegum breytingum. Það er alveg ljóst að það verður að gera það og þegar við tölum um loðnuna og öll þau vandamál sem henni fylgja núna, þá verðum við að viðurkenna það um leið, og fiskifræðingarnir hafa frætt okkur á því, að fæða þorsksins á vissu þroskastigi er loðnan. Ef hún minnkar, þá minnkar þorskurinn. Það þekkjum við á þeim svæðum þar sem við höfum átt heima. Ég vil enda á því að ég tel að við eigum að treysta fiskifræðingunum og Alþingi á fyrst og fremst að hugsa um það að efla rannsóknir á fiskveiðum og fiskstofnum landsins. Það er aðalatriðið sem skortir mikið á í dag.