Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Það voru í fyrsta lagi þessi síðustu orð hv. þm. Guðmundar Ágústssonar um að það hafi legið fyrir þegar frv. var borið undir stjórnarflokkana að aðilar í sjávarútvegi hafi verið tilbúnir að standa að þessu. Þessi tilkynning kom a.m.k. ekki til Alþb. og það var ekkert reynt að þrýsta á samþykkt frv. á þeim grunni þar. En það hefur verið beitt öðrum brögðum við þá í Borgfl.
    En þetta var ekki aðalerindið hingað upp heldur sú sérstaka kveðja sem hv. þm. sendi okkur Karvel Pálmasyni um það að okkar hlutur mundi verða frekar lítill hér á hv. Alþingi þegar að því kæmi að fjalla næst um fiskveiðistefnuna. Ég ætla að mótmæla þessu. Í fyrsta lagi er ég í framboði til Alþingis, þegar búið að ákveða það. Og þó ég skipi ekki sæti sem er ofarlega á lista þá er aldrei útilokað að ég geti verið hér á þingi þegar næst verður fjallað um þetta mál. Og í öðru lagi veit ég ekki til þess að Karvel Pálmason, og ég fer hér með skilaboð hans, hafi gengið frá því á einn eða neinn hátt að hann verði ekki í framboði í næstu kosningum. Það er algerlega ófrágengið mál. Guðmundur hefði getað gefið hér yfirlýsingu um sjálfan sig en ekki um okkur, mig og hv. 3. þm. Vestf.