Byggðastofnun
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Þar sem hv. 2. þm. Norðurl. e. vefengdi mín orð hér áðan er rétt að ég standi upp og geri betur grein fyrir því hvað ég átti við. Í grg. frv. kemur fram hvernig standa á að fjármögnun þessara breytinga en það er að vísu ekki tekið fram í frv., enda hélt ég því ekki fram að í því væri útreikningur frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun. Hefði verið beðið um þær upplýsingar í hv. allshn., þá hefði að sjálfsögðu verið orðið við þeirri beiðni. Ég skal nú gera ráðstafanir, þar sem þessi beiðni hefur komið fram, til þess að þessar upplýsingar liggi fyrir Nd. þegar málið kemur þar til afgreiðslu.
    Á það má benda varðandi þetta frv. að fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á
Alþingi voru í þeirri nefnd sem samdi frv. og þeim hefði að sjálfsögðu verið í lófa lagið að afla sér þessara upplýsinga eða kalla eftir þeim. Ég taldi sem formaður nefndarinnar þegar málið var til afgreiðslu í hv. allshn. að eftir þessum upplýsingum þyrfti ekki að kalla. En ef nú er komin krafa um að óska sérstaklega eftir upplýsingum frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun eða fjmrn., þá sé ég ekkert á móti því að eftir þeim upplýsingum verði kallað.