Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh., sem er að finna á þskj. 605. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
 ,,1. Hvaða áætlanir hefur ríkisstjórnin gert í atvinnumálum á Suðurnesjum til að mæta þeim samdrætti í umsvifum Bandaríkjahers sem fyrirsjáanlegur er?
    2. Hafa stjórnvöld látið gera áætlanir um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum sem yrðu notaðar við brottför Bandaríkjahers frá herstöðvum þar?``
    Varðandi þá umræðu sem hér var á undan þá vil ég taka það fram að ég geri ekki ráð fyrir að lausn íslenskra stjórnvalda á atvinnumálum á Suðurnesjum eigi að felast í að festa Bandaríkjaher í sessi hér á landi í einhvers konar dulargervi með aukinni íslenskri aðild og ég vona að það séu ekki þær lausnir sem boðið er upp á.
    Í sambandi við upplýsingar um atvinnuástand á Suðurnesjum eru nú samkvæmt tölum frá 31. jan. sl. starfandi á Keflavíkurflugvelli 1.035 Íslendingar hjá varnarliðinu, auk þess hjá Aðalverktökum 529 og 126 hjá undirverktökum. Þetta gera samanlagt 1.690 manns. Samsvarandi tala árið 1984 mun hafa verið um 1.850 en þá voru alls um 2.400 störf í kringum völlinn af ýmsu tagi. Það hefur jafnan og allt of lengi viljað brenna við að Suðurnesjamönnum hafi verið vísað upp á Völl til þess að finna lausnir á sínum atvinnumálum og það hafi átt að vera einhvers konar töfralausn sem kannski hefur tafið fyrir því að þær áætlanir sem ég er hér að leita eftir hafi verið gerðar.
    Nú er fyrirsjáanlegt að einhvers konar samdráttur hlýtur að verða á Keflavíkurflugvelli, vonandi sem allra mestur í ljósi þeirra friðarstrauma sem sem betur fer hafa aðallega verið ríkjandi að undanförnu. Því kalla ég eftir raunhæfum atvinnuáætlunum sem byggjast á einhverju öðru en töfralausnum, eins og álveri, sem ekkert leysa.