Sjúkratryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans. Hann hélt því fram að á síðasta ári hefði náðst töluverður árangur við sparnað í lyfjakostnaði. Hafi svo verið hefur kostnaðurinn aukist annars staðar því niðurstaðan var í rauninni nánast óbreytt eins og áætlað hafði verið. Sá sparnaður sem átti að nást, um 500 -- 600 millj. kr., náðist ekki og hann varð að greiða. Í það heila tekið náðist sem sagt enginn sparnaður og ef eitthvað hefur sparast á einum lið hefur kostnaður aukist á öðrum lið.
    Ég skal ekki segja hvort svo fer nú en hæstv. ráðherra telur að það sparnaðarform sem þá var lagt upp með geti skilað á þessu ári allt að 150 millj. kr. Á hinn bóginn segir hann að meginefni þessa máls sé í því horfi að því hafi átt að ná með lagabreytingu þar sem væru sett lög um nýja skipan lyfjamála og með því ætti að nást verulegur sparnaður. Frv. til slíkra laga lægi nú hjá stjórnarflokkunum. Það sjá allir að frv. sem er nú til meðferðar hjá stjórnarflokkunum verður ekki að lögum á þessu þingi. Það hlýtur hæstv. ráðherra að sjá eins og aðrir. Þá er það í raun og veru úr sögunni á þessu ári þannig að það er hrein yfirlýsing um það að þessi sparnaður muni ekki takast, sem ætlunin var að ná með lagabreytingu.
    Ég er ekkert að gera lítið úr tilraunum hæstv. ráðherra til að ná fram sparnaði í þessum málaflokki. Þær tilraunir eru af hinu góða svo fremi að þær komi ekki ranglátlega niður. Hins vegar liggur það líka fyrir í lokasvari hæstv. ráðherra að kostnaðarþátttöku almennings í lyfjakaupum sé breytt þannig að kostnaðurinn sé ákveðinn sem hlutfall af lyfjakostnaði í stað fastrar tölu áður. Væntanlega þýðir það, ef það á að skila sparnaði fyrir Tryggingastofnunina og ríkissjóð, að meira leggst á herðar almennings en áður og þeir sem lenda í þeim hremmingum með sitt heilsufar að þeir verða að kaupa hin dýru lyfin, verða þá að bera þeim mun meira.
     Og síðan eitt að lokum. Það er sem sagt augljóst af svari ráðherra að sá sparnaður sem um er rætt, 500 millj. kr., næst ekki og það verður að leita heimilda Alþingis á fjáraukalögum þegar líður á árið eins og áður hefur þurft að grípa til oft í þessum málaflokki. Það er þá lokaniðurstaðan úr þessu svari að sparnaðurinn mun ekki nást.