Upplýsingaskylda stjórnvalda
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson ):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 912 við frv. til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Mál þetta er mjög skylt því sem ég mælti fyrir áðan. Hér er um að ræða frv. sem er ætlað að setja reglur um hvernig hægt er að ná upplýsingum úr stjórnsýslunni. Þarna er fjallað um hinn almenna rétt bæði fjölmiðla og einstaklinga til þess að krefja stjórnsýsluna um gögn sem hún hefur verið að fjalla um.
    Löggjöf af þessu tagi hefur verið sett alls staðar á Norðurlöndum og eiginlega í flestum löndum Evrópu. Er tilgangur löggjafar af þessu tagi að straumur upplýsinga sé á milli stjórnsýslunnar og almennings og mælt sé fyrir um rétt fjölmiðla sérstaklega til að geta fylgst með því sem gerist innan stjórnsýslunnar. Nefndarálitið sem allshn. hefur orðið ásátt um er á þessa leið:
    ,,    Frv. er flutt í tengslum við frv. til stjórnsýslulaga, 203. mál þingsins, og var rætt samhliða því í nefndinni. Nefndin fékk á sinn fund Jón Sveinsson, aðstoðarmann forsrh., Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra, Eirík Tómasson hæstaréttarlögmann, Björn Þ. Guðmundsson prófessor, Lúðvík Geirsson, formann Blaðamannafélags Íslands, og Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð. Umsagnir bárust frá Blaðamannafélagi Íslands, Birni Þ. Guðmundssyni prófessor, umboðsmanni Alþingis, Sýslumannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, stjórnsýslunefnd, Páli Hreinssyni lögfræðingi, forsrn. og Þjóðskjalasafni Íslands. Auk þess sendi forsrn. þær umsagnir sem nefndinni, er samdi frv., bárust.
    Nefndin telur brýnt hagsmunamál fyrir almenning að fá lög um aðgang að upplýsingum sem stjórnvöld hafa. Slíkar reglur auka án efa réttaröryggi í landinu og stuðla að vönduðum vinnubrögðum stjórnvalda.
    Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv., eru til samræmis við þær breytingar sem meiri hl. nefndarinnar lagði til að gerðar yrðu á frv. til stjórnsýslulaga og varða hugtakanotkun. Einnig er lagt til að gildistöku sé seinkað um hálft ár.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta nefndarálit rita allir nefndarmenn í allshn. Ed.
    Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég held að allir séu sammála um að hér sé gott mál á ferð og mjög nauðsynlegt að frv. af þessu tagi verði lögfest. Ég þori að fullyrða það að allir sem mættu fyrir nefndina, svo og þær umsagnir sem bárust, mæltu eindregið með því að samþykkja frv. af þessu tagi. Hins vegar komu fram athugasemdir einstakra aðila um breytingar og hvort það væri rétt að lögfesta þetta frv. á þessu þingi.