Kvöldfundir
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt sem hér er mælt að það er allóvenjulegt að efna til kvöld - og næturfunda trekk í trekk á Alþingi Íslendinga. Ég ætla ekki að fara að hafa uppi andmæli við því út af fyrir sig að það verði rætt hér eitthvað lengur, standi yfir fundir eitthvað fram á kvöldið, en þó með einu skilyrði og það er það að ef á að ræða hér það mál sem hér er á 71. fundi, þáltill. um álver, álbræðslu og skýrslu þar að lútandi, þá sé það tryggt fyrir fram að ríkisstjórn Íslands verði viðstödd og ráðherrar í ríkisstjórninni, allir með tölu. Allir með tölu. Það er, eins og fram kom í mínum ábendingum í gær við hæstv. forseta, algert skilyrði fyrir því að hér geti slík umræða farið fram, enda náttúrlega varla að ríkisstjórnin aki sér undan því þar sem hún stendur að því að mér skilst að mál þetta liggur hér fyrir þinginu sem stjtill. Að því tilskildu er ég reiðubúinn að sitja hér fram á kvöldið og ræða þessi mál. Ég held að ég sé á mælendaskrá, ég hef ekki enn þá komist að í þessu máli, en það getur væntanlega orðið og mér er það ljúft ef ríkisstjórnin verður hér viðlátin öll með tölu, allir hæstv. ráðherrar.