Samningar um álver
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Eiður Guðnason (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það sem er að gerast hér er auðvitað svo fáheyrt að engu tali tekur. Einn hv. þm. treystir sér ekki til að tala héðan úr ræðustól nema öll ríkisstjórnin, allir ráðherrarnir séu hér viðstaddir svo þeir megi mál hans heyra. ,,Vegna þess að ég ætla að eiga orðastað við þá,`` sagði hv. þm.
    Ég treysti því að virðulegur forseti muni sjá til þess að Alþingi Íslendinga geti haldið áfram störfum sínum með eðlilegum hætti vegna þess að allir þeir ráðherrar, sem málið hafa í sinni umsjá og málið varðar mestu, eru hér staddir. Og það er ekki aðeins ósanngjarnt heldur óheyrt að þingmaður hafi uppi slíka kröfu með þessum hætti, þeim hætti sem hér hefur verið gert, og ég mælist eindregið til þess að virðulegur forseti sjái nú til þess að umræðan hefjist, enda er öllum skilyrðum til þess nú fullnægt.