Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi gera nokkrar athugasemdir við þetta frv. sem hér liggur fyrir og greina frá því að ég tel að þetta mál sé bæði seint fram komið og einnig efnislega ekki lagt fyrir þannig að það sé auðvelt að lýsa yfir almennum stuðningi við það. Hér er verið að loka hinu almenna húsnæðislánakerfi með tilteknum hætti eins og fram kemur í frv. og athugasemdum við það, án þess að séð sé fyrir með eðlilegum hætti viðskilnaði gagnvart þeim fjölda manna sem eru umsækjendur um húsnæðislán og hafa fengið staðfest lánsloforð, bindandi lánsloforð sumir hverjir og aðrir eru þar á biðlista í góðri trú.
    Þetta er einn þáttur af mörgum raunalegum í sambandi við meðferð húsnæðismála á undanförnum árum sem þetta frv. ber vott um og ég tel að það sé stjórnvöldum til lítils sóma hvernig að þessu efni hefur verið staðið. Alveg sérstaklega gagnrýni ég það með hvaða hætti viðskilnaðurinn er gagnvart þeim þúsundum manna sem hafa sótt um fyrirgreiðslu í þessu lánskerfi og fá nú ekki aðrar kveðjur heldur en þær sem hér er að finna með ákvæðum þessa frv., þar á meðal í ákvæði til bráðabirgða og þeirri almennu ávísun á svokallað húsbréfakerfi sem þeir geti fengið úrlausn í. Þar er um að ræða verulega önnur kjör í sambandi við húsnæðismálin heldur en gilt hafa í hinu almenna kerfi. Þar er um að ræða markaðstengt kerfi sem kunnugt er og sem alls ekki verður séð að leysi vanda húsbyggjenda. Alveg sérstaklega á það við um landsbyggðina, sem er sett í mjög óvissa stöðu að öllu leyti í sambandi við húsnæðismálin og það vil ég gagnrýna alveg sérstaklega.
    Sá málaflokkur sem hvað mestu veldur um viðhorf fólks til búsetu eru einmitt húsnæðismálin og þróun fasteignaverðs. Þetta á við í meiri mæli hér á landi en víða erlendis vegna þeirrar séreignarstefnu varðandi íbúðarhúsnæði sem hér hefur orðið ríkjandi. Vegna verðtryggingar og hárra vaxta lengst af á síðasta áratug hefur húsnæðiskostnaður fólks margfaldast og verð á fasteignum jafnframt þróast landsbyggðinni mjög í óhag. Byggingarkostnaður er hins vegar síst minni úti um land en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur valdið því að þeim hefur fækkað til muna sem ráðast í nýbyggingu íbúðarhúsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins. Það hefur lítið sem ekkert verið gert til að hvetja fólk til að eignast húsnæði úti á landi, t.d. með því að veita þeim forgang um afgreiðslu lána eða hagstæðari kjör vegna húsbygginga eða kaupa á húsnæði. Það hefur einnig allt of lítið verið um byggingu leiguhúsnæðis eða félagslegs húsnæðis á stöðum úti á landi sem hafa almennar forsendur til vaxtar.
    Sú hugmynd sem hér birtist í þessu frv., að leggja niður hið almenna húsnæðiskerfi og taka þess í stað upp húsbréf sem eins konar allsherjarlausn, getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þróun þessara mála á landsbyggðinni. Við þetta gerist tvennt: Vextir á húsnæðislánum yrðu markaðstengdir að fullu og lánsupphæð fer eftir fasteignamati en ekki áætluðum byggingarkostnaði. Það er augljóst að með upptöku þessa

kerfis væri verið að bæta gráu ofan á svart fyrir húsbyggjendur víðast hvar úti á landi.
    Ég tel að vegna þessara aðstæðna væri það heppileg ráðstöfun að svæði á landinu utan höfuðborgarsvæðisins nytu algjörs forgangs í sambandi við félagslega íbúðarkerfið og það sé í rauninni eina leiðin út úr því öngstræti sem menn eru komnir með þessi mál gagnvart landsbyggðinni.
    Ég vildi koma þessum sjónarmiðum hér á framfæri, virðulegur forseti. Mér sýnist ekki horfur á að þetta mál verði afgreitt hér þótt ég viti ekkert um hvað hefur verið um rætt í því efni. En mér finnst að hér sé verið að efna til breytinga sem leiða til mjög mikillar óvissu þó að vissulega hafi margir agnúar verið á útfærslu hins almenna húsnæðiskerfis og fjárskorturinn sem þar hefur blasað við og veldur hinum löngu biðröðum hefur auðvitað rekið það kerfi sem slíkt í strand þannig að það er ekki óeðlilegt að leitað sé leiða út úr því öngstræti. En það verða þá að vera leiðir sem duga og sem eitthvert réttlæti er í gagnvart fólki utan þessa svæðis þar sem fasteignaverðið er markaðstengt og er í hámarki miðað við það sem annars staðar gerist.