Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég var reyndar búinn að ræða hér um þetta mál en hæstv. ráðherra var ekki viðstaddur þá svo ég ætla aðeins að fara aftur yfir þau atriði sem ég var að leggja áherslu á í þessu máli. Að sjálfsögðu er það rétt hjá hæstv. ráðherra að bregðast við þeim vanda sem við er að etja í sambandi við það þegar loðnuveiðar hafa brugðist, eins og sagt er, en ég vil ekki meina það að endilega veiðarnar hafi brugðist heldur hafa rannsóknirnar brugðist. Fyrir ári síðan fengum við að heyra það í sjávarútvegsnefndum Alþingis að það væri hægt að veiða allt að milljón tonn af loðnu og þá átti þorskurinn líka að éta milljón tonn og svo átti svona mikið að hrygna. En nú þegar rannsóknir fóru fram aftur fundust ekki nema 400 þús. eða 500 þús. tonn, eitthvað á því bilinu. Ég spyr því: Af hverju eigum við að taka mark á fiskifræðingum sem taka ekki mark á sjálfum sér? Þeir taka ekki mark á sínum eigin rannsóknum fyrir ári síðan, og hvað er meira að marka rannsóknirnar í dag? Það hafa engar áreiðanlegar skýringar komið á því hvað raunverulega hefur gerst. Að mínu viti hefði þess vegna verið óhætt að veiða eitthvað meira af loðnu. Það er ekki hægt að hringla með svona veiðikvóta fram og aftur.
    Ég held að þetta sýni enn frekar en nokkru sinni fyrr að það þarf að auka hafrannsóknir og það mjög mikið og það verður að gera það strax og þá á fleiri sviðum heldur en á loðnu. En ég ítreka að það er líka mjög slæmt mál að þau byggðarlög sem bundu vonir við þennan Hagræðingarsjóð, þó svo að ég hafi ekki greitt honum atkvæði á sínum tíma, þá var búið að skapa væntingar hjá fólki sem nú fær ekki neinar bætur vegna þess að það verður fyrir óþægilegum skerðingum í kringum þetta kvótakerfi. Þeim sjónarmiðum, sem þá voru uppi hjá hæstv. ríkisstjórn við að koma því máli í gegn, er nú allt í einu fleygt til hliðar og allt önnur sjónarmið eiga nú að gilda. Mér finnst, hæstv. forseti, svo mikill hringlandaháttur í kringum allt þetta mál að ég hef ekki hugsað mér að greiða atkvæði í þessu máli.