Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 79 . mál.


Ed.

81. Frumvarp til laga



um æskulýðsmál.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)




I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


     Tilgangur þessara laga er að setja reglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi og stuðla að samvinnu þeirra aðila er að þeim málum vinna. Aðilar, sem notið geta stuðnings samkvæmt lögum þessum, eru:
     Félög og samtök er vinna að æskulýðsmálum á áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjárframlögum félagsmanna.
     Aðrir þeir aðilar er sinna einkum málum ófélagsbundinnar æsku í skipulögðu starfi.
     Lögin taka til æskulýðs - og tómstundastarfsemi. Lögin miðast einkum við æskulýðsstarfsemi fyrir börn og ungmenni og einnig félagsstarf með ungu fólki. Menntamálaráðuneytið setur reglur er kveða nánar á um hvað teljist æskulýðssamtök í skilningi laganna.

II. KAFLI


Stjórn æskulýðsmála.


2. gr.


     Heildarsamtök æskulýðsfélaga fara með stjórn æskulýðsmála í umboði og samráði við menntamálaráðuneytið samkvæmt lögum þessum. Heildarsamtök æskulýðsfélaga kjósa stjórn sem fer með daglega stjórn æskulýðsmála og starfrækir miðstöð æskulýðsfélaga.

3. gr.


     Menntamálaráðherra getur falið stjórn heildarsamtaka æskulýðsfélaga:
     Að skipuleggja og samræma opinberan stuðning við æskulýðsstarf í landinu og leitast við að efla starfsemi félaga og samtaka sem að æskulýðsmálum vinna.
     Að gera tillögur til menntamálaráðuneytis um fjárveitingar til æskulýðsmála.
     Að gangast fyrir námskeiðum, fundum og ráðstefnum um æskulýðsmál og skyld málefni.
     Að sjá til þess að gefin séu út leiðbeinendarit á sviði félagsmála og að endurskoðun þessara rita fari að minnsta kosti fram á fimm ára fresti.
     Að boða eigi sjaldnar til fundar en einu sinni á ári með fulltrúum æskulýðssamtaka þar sem fjallað er um æskulýðsmál og gerð grein fyrir störfum stjórnar og heildarsamtaka.
     Að safna gögnum um æskulýðsmál hér á landi og erlendis. Fylgjast með þróun þeirra mála, gera samanburð og láta í té upplýsingar til stjórnvalda um æskulýðsmál.
     Að stuðla að því að fram fari fræðilegar rannsóknir á sviði æskulýðsmála og að koma á framfæri nýjungum í æskulýðsstarfi.
     Að sjá um tengsl við þá aðila er sinna íþrótta - og æskulýðsmálum í menntamálaráðuneyti.
     Að stuðla að samstarfi um ráðstafanir er miða að lausn sérstakra vandamála er skapast kunna og snerta börn og ungmenni.
     Að sjá um daglegan rekstur miðstöðvar æskulýðsfélaga.
     Að sinna öðrum þeim verkefnum en talin eru upp í lögum þessum og menntamálaráðuneytið kann að fela heildarsamtökum.

III. KAFLI


Fjármögnun.


4. gr.


     Kostnaður við störf stjórnar heildarsamtaka æskulýðsfélaga, rekstur miðstöðvar æskulýðsfélaga og þar með talinn launakostnaður starfsmanns heildarsamtakanna skal greiddur með framlagi úr ríkissjóði.
     Ákvæði um framkvæmd þessarar greinar skulu sett í reglugerð.

IV. KAFLI


Æskulýðssjóður

.

5. gr.


     Stofna skal æskulýðssjóð. Ríkissjóður leggur sjóðnum til árlega 10 millj. kr. á verðlagi í janúar 1990.
     Verkefni sjóðsins skal vera að veita fjármagni til einstakra verkefna í æskulýðsstarfi. Þá skal einnig heimilt að styrkja námskeið og annað fræðslustarf einstakra æskulýðssamtaka. Skipa skal fjögurra manna sjóðstjórn. Formaður sjóðsins skal tilnefndur af menntamálaráðherra, stjórn heildarsamtaka æskulýðsfélaga skipar tvo menn og einn er tilnefndur af fjármálaráðherra. Skulu fulltrúar ráðherranna vera tilnefndir til jafnlangs tíma og ráðherrarnir sitja. Fulltrúar stjórnar heildarsamtaka æskulýðsfélaga sitja kjörtímabil stjórnar heildarsamtaka æskulýðsfélaga.

V. KAFLI


Reglugerð og gildistaka.


6. gr.


     Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

7. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 24/1970, um æskulýðsmál.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram sem stjórnarfrumvarp á 112. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Frumvarpinu fylgdi eftirfarandi greinargerð:
    Þetta frumvarp er byggt á tillögum nefndar sem menntamálaráðherra skipaði 16. des. 1988. Nefndin skilaði tillögum sínum til menntamálaráðherra 21. desember sl. Nefnd þessi á einnig að skila tillögum um stefnumótun í íþróttamálum til aldamóta og er tillagna þeirra að vænta í vetur. Nefndin sem samdi frumvarpsdrögin var þannig skipuð:
Árni Guðmundsson, æskulýðsfulltrúi Hafnarfirði, Hermann Sigtryggsson æskulýðsfulltrúi, Akureyri, Lovísa Einarsdóttir íþróttakennari, Hólmfríður Garðarsdóttir framkvæmdastjóri, Unnur Stefánsdóttir verkefnastjóri, Jóhanna Leópoldsdóttir skrifstofustjóri, Elís Þór Sigurðsson, íþrótta - og æskulýðsfulltrúi, Akranesi, Alfreð Gíslason sagnfræðingur og Janus Guðlaugsson námsstjóri.
    Í starfi sínu hafði nefndin hliðsjón af nefndarstörfum um sama málefni sem lauk á árinu 1986. Í heild er hér um að ræða endurskoðun á æskulýðslögunum frá 1970 og er um ýmsar breytingar að ræða.
    Í tillögum sínum gerði nefndin ráð fyrir því að sérstakur æskulýðsfulltrúi ríkisins starfaði áfram. Menntamálaráðherra féllst ekki á þá tillögu og gerir hér í frumvarpinu tillögu um að starf æskulýðsfulltrúa verði lagt niður. Þá gerði nefndin ráð fyrir mörkuðum tekjustofni í æskulýðssjóð. Þeirri tillögu er hafnað, en í staðinn gert ráð fyrir föstu framlagi í sjóðinn úr ríkissjóði og nemi framlagið 10 millj. kr. á verðlagi janúarmánaðar 1990.
    Grundvallarbreytingin samkvæmt frumvarpinu er sú að æskulýðsfélögunum er ætlað úrslitaforræði málaflokksins ásamt menntamálaráðherra. Þannig er forræðið fært frá ríkinu til félagasamtakanna. Er það í samræmi við stefnu menntamálaráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum.
    Gert er ráð fyrir að skipting verkefna sé afmörkuð þannig að starfsemi ráðuneytis sé að mestu leyti á vettvangi samstarfs ríkisstjórna og í samskiptum við sveitarfélög eftir því sem við á. Hafa ber í huga að verkaskiptingarlögin munu hafa veruleg áhrif hvað varðar félags - og æskulýðsstarf í sveitarfélögum.
    Á undanförnum árum hafa starfað tveir meginaðilar, þ.e. Æskulýðssamband Íslands og Æskulýðsráð ríkisins, í þessum málaflokki. Fjárveitingar til þessara aðila hafa alla tíð verið af skornum skammti. Má í því sambandi nefna að árið 1989 var t.d. 1.280.000 kr. varið til Æskulýðsráðs ríkisins (ÆRR) og 500.000 kr. varið til Æskulýðssambands Íslands (ÆSÍ). Ljóst er að umrætt fjármagn nægir engan veginn til að standa undir blómlegu æskulýðsstarfi.
    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að stofna ein heildarsamtök æskulýðsfélaga. Í framhaldi af því er hugmyndin sú að skapa heildarsamtökunum sameiginlega aðstöðu, miðstöð æskulýðsfélaga. Miðstöð þessi mun gegna svipuðu hlutverki og Íþróttamiðstöðin í Laugardal gegnir fyrir íþróttahreyfinguna. Hafa ber þó í huga að um mun minni einingu er að ræða. Með þessu fyrirkomulagi fá félögin því sameiginlegan starfsvettvang og verða vonandi betur búin til að mæta auknum verkefnum og kröfum sem til þeirra verða gerðar í framtíðinni.
    Varðandi gildandi lög um æskulýðsmál frá 1970 þá er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir að greinar eins og 5. gr. laganna um heimild til að stofna æskulýðsnefndir eins eða fleiri sveitarfélaga falli niður. Grein þessi hefur í raun aldrei verið í gildi. 8. gr. um sumarbúðir og útivistarsvæði er þegar komin í önnur lög og er þar af leiðandi óþörf. 10 gr. er um stuðning bæjar - og sveitarfélaga.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Gera þarf ráð fyrir að menntamálaráðuneytið setji reglur er kveði á um hvað teljist æskulýðssamtök í skilningi þessa frumvarps og jafnframt komi þar fram aldursákvæði. Benda má á að skilgreining hjá evrópska æskulýðssjóðnum hvað varðar aldursákvæði æskulýðsfélaga er að þau samtök, sem vilja kalla sig æskulýðssamtök og fá úthlutað úr sjóðnum, hafi eigi fleiri en 1 / 4 hluta félagsmanna sinna yfir 30 ára aldri.

Um 2. gr.


     Í þessari grein er gerð tillaga um þá grundvallarbreytingu að menntamálaráðuneytið felur heildarsamtökum æskulýðsfélaga að annast þennan málaflokk í samráði við ráðuneytið.

Um 3. gr.


     Greinin fjallar um helstu verkefni heildarsamtaka æskulýðsfélaga. Í þessari grein er starfsemi samtakanna skilgreind í 12 liðum. Hér er um mun nánari skilgreiningu að ræða en í gildandi lögum.

Um 4. gr.


     Í þessari grein er fjallað um fjármögnun. Gert er ráð fyrir eins og fram kemur í umfjöllun um 4. gr. að ríkissjóður standi fyrir framlagi er nemi launakostnaði starfsmanns heildarsamtaka æskulýðsfélaga, framlagi vegna húsnæðis og rekstrarframlagi vegna skrifstofu.

Um 5. gr.


     Í þessari grein eru sameinuð ýmis ákvæði gömlu laganna og sett í eina grein. Gert er ráð fyrir að stofna sérstakan æskulýðssjóð sem mundi njóta árlegra framlaga af fjárlögum er nemi allt að 10 millj. kr. á ári (á verðlagi janúarmánaðar 1990).
    Gert er ráð fyrir að í sjóðstjórn verði fjórir einstaklingar. Formaður er tilnefndur af menntamálaráðherra, heildarsamtök æskulýðsfélaga skipa tvo menn og einn er tilnefndur af fjármálaráðherra.

Um 6. og 7. gr.


     Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Umsögn um frumvarp til laga um æskulýðsmál frá fjármálaráðuneyti,


Fjárlaga- og hagsýslustofnun, send menntamálaráðherra.


(20. mars 1990.)



    Frumvarp þetta miðar að því að stofnuð verði ein heildarsamtök æskulýðsfélaga sem fari með stjórn æskulýðsmála í umboði og samráði við menntamálaráðuneytið. Heildarsamtökin kjósa stjórn sem fer með daglega stjórn æskulýðsmála og starfrækir miðstöð æskulýðsfélaga.
    Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að stofnaður verði æskulýðssjóður. Verkefni sjóðsins skal vera að veita fjármagni til einstakra verkefna í æskulýðsstarfi. Auk þess er sjóðnum heimilt að styrkja námskeið og annað fræðslustarf einstakra æskulýðssamtaka.
    Frumvarp þetta felur væntanlega í sér nokkra hækkun á framlagi úr ríkissjóði til æskulýðsmála frá því sem gildandi lög nr. 24/1970, um æskulýðsmál, kveða á um. Í fjárlögum 1990 er fjárveiting til Æskulýðsráðs ríkisins 1,5 m.kr., Æskulýðssambands Íslands 0,7 m.kr. og gera má ráð fyrir að launakostnaður æskulýðsfulltrúa ríkisins verði á árinu 1990 um 1,5 m.kr. Verði frumvarp þetta að lögum er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum vegna ofangreindra liða.
    Að mati ráðuneytisins verður framlag ríkissjóðs samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps allt að 15 m.kr. á ári. Beinn kostnaðarauki ríkissjóðs gæti því numið um 11 m.kr. á ári (janúarverðlag 1990).
    Eftirfarandi er mat ráðuneytisins á þeim ákvæðum frumvarpsins sem áhrif hafa á fjárveitingar úr ríkissjóði:

1. Heildarsamtök æskulýðsfélaga (sbr. 4. gr.):
    Frumvarpið kveður á um að kostnaður við störf stjórnar heildarsamtaka æskulýðsfélaga, rekstur miðstöðvar æskulýðsfélaga, þar með talinn launakostnaður starfsmanns heildarsamtakanna, skuli greiddur með framlagi úr ríkissjóði.
    Reiknað er með að í miðstöð æskulýðsfélaga verði aðstaða til fundarhalda og aðstaða fyrir starfsmann samtakanna. Gera má ráð fyrir að kostnaður við leigu og rekstur um 100m 2 húsnæðis verði um 1,0 m.kr. á ári, launakostnaður starfsmanna um 1,5 m.kr. og önnur rekstrargjöld 2 2,5 m.kr. Ætla má að ákvæði þessarar greinar hafi í för með sér árlegt framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 4,5 5 m.kr.
2. Æskulýðssjóður (sbr. 5. gr.):
    Ákvæði eru þess efnis að árlega skuli ríkissjóður veita æskulýðssjóði fast framlag að upphæð 10 m.kr. á verðlagi í janúar 1990.