Ferill 88. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 88 . mál.


Sþ.

91. Tillaga til þingsályktunar



um heimilisiðnaðarráðgjafa.

Flm.: Snjólaug Guðmundsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,

Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að stofna embætti heimilisiðnaðarráðgjafa til starfa á landsbyggðinni. Laun og annar kostnaður vegna starfsins verði greiddur úr ríkissjóði.
     Helstu verkefni heimilisiðnaðarráðgjafa verði eftirfarandi:
     Að kanna stöðu heimilisiðnaðar og minjagripagerðar á landsbyggðinni.
     Að leita uppi gamlan fróðleik um gerð ýmissa þjóðlegra muna með það að markmiði að þjóðleg handíð varðveitist og þróist áfram.
     Að veita faglega ráðgjöf með því að efna til námskeiða þar sem kunnáttufólk leiðbeinir um rétt vinnubrögð og handtök við gamla heimilisiðnaðinn og mikilvægi þess að nota hráefni sem er sérstakt fyrir Ísland.
     Að leggja sérstaka áherslu á vinnslu íslensku ullarinnar með því að standa fyrir tóvinnunámskeiðum.
     Að sækja aðstoð til hönnuða og hugmyndasmiða í leit að nýsköpun í heimilisiðnaði.
     Að aðstoða fólk við fjármögnun og markaðssetningu.
     Að hafa samstarf við atvinnumálaráðgjafa þar sem þeir eru starfandi.

G r e i n a r g e r ð .


    Forsenda fyrir sjálfstæði hverrar þjóðar er að hún varðveiti þá menningu sem þróast hefur með henni. Íslendingar státa af glæstum bókmenntaarfi sem þeir hafa lagt mikla rækt við. Það gleymist hins vegar oft að þjóðin byggir menningu sína ekki síður á þeirri verkmennt sem hefur þróast í aldanna rás og að mikilvægt er að hlúa að hinum verklega þætti menningarinnar og varðveita hann. Konur hafa gegnt og gegna enn í dag mikilvægu hlutverki við varðveislu menningarinnar. Þær hafa átt stóran þátt í að ferja þjóðlegan fróðleik, þekkingu og verkkunnáttu frá einni kynslóð til annarrar.
    Um árabil starfaði heimilisiðnaðarráðunautur á vegum Búnaðarfélags Íslands sem vann ómetanlegt starf. Handíðaskólinn var settur á stofn árið 1940, en eitt af höfuðmarkmiðum hans var að bjarga því sem bjargað yrði úr fornu listhandverki okkar, auka við það og færa til samræmis við nútímaþarfir. Þróun hans varð reyndar önnur í þessum efnum en ætlað var í upphafi. Húsmæðraskólarnir unnu einnig gagnmerkt starf við handmenntir en síðan flestir þeirra voru lagðir af er engin stofnun á vegum hins opinbera sem sinnir þessu starfi sem skyldi.
    Nú eru orðin þau þáttaskil vegna breyttra heimilishátta og fólksfæðar á heimilum að verkkunnáttan berst ekki lengur sjálfkrafa milli kynslóða. Það skiptir því sköpum að þessi þáttur menningarinnar glatist ekki og einhver aðili hafi það hlutverk að hann varðveitist og þróist áfram. Kvennalistinn vill með þessari tillögu benda á mikilvægi þessa þáttar en ekki síður hitt að þessa þekkingu og kunnáttu má nýta til atvinnusköpunar um land allt. Vegna samdráttar í landbúnaði er nú þegar umtalsvert atvinnuleysi í sveitum og fyrirsjáanlegt að það muni enn aukast ef ekki verða fundnar nýjar leiðir til atvinnusköpunar.
    Í leitinni að nýjum störfum hefur Kvennalistinn margoft bent á að smáiðnaður af ýmsu tagi er vænlegur kostur, ekki síst fyrir konur. Ein tegund smáiðnaðar er heimilisiðnaður sem byggir bæði á íslenskri verkmennt og hráefni sem til fellur á heimilunum eða finnst úti í náttúrunni. Með auknum straumi ferðamanna bæði íslenskra og erlendra eykst þörfin fyrir vandaða handunna muni og minjagripi. Sköpunarþrá fólks er alltaf fyrir hendi en liggur þó oft á tíðum í láginni þegar menn sjá ekki þörfina fyrir það sem þeir kjósa að gera og fáir hafa efni á að sinna slíkum störfum ef þeir bera ekkert úr býtum.
    Markmiðið með flutningi þessarar tillögu er tvíþætt: Annars vegar að veita sköpunarþránni útrás um leið og þjóðleg verkmennt varðveitist, hins vegar að skapa ný atvinnutækifæri á landsbyggðinni.
    Kvennalistakonur telja ráðningu heimilisiðnaðarráðgjafa eina af þeim leiðum sem vænlegt er að fara til að virkja sköpunarþrá fólks og leiðbeina því við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd eftir farvegi sem byggir á þjóðlegri verkkunnáttu.