Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 167 . mál.


Nd.

184. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 78 23. desember 1980, um jöfnunargjald, með áorðnum breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Í stað 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 51 29. maí 1989, um ráðstafanir vegna kjarasamninga, komi tveir nýir málsliðir er orðast svo:
     Greiða skal í ríkissjóð jöfnunargjald af öllum innfluttum vörum sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af vegna aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og fríverslunarsamnings Íslands við Evrópubandalagið. Gjaldið skal vera 4% frá 1. janúar 1991 og 2% frá 1. júlí 1991.

2. gr.


     Frá og með 1. janúar 1992 falla lög nr. 78/1980, um jöfnunargjald, með áorðnum breytingum, úr gildi.

3. gr.


     Lög þessi taka gildi 1. janúar 1991.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 1978 voru samþykkt á Alþingi lög um jöfnunargjald. Lögin voru tímabundin og var ætlað að gilda til 31. desember 1980. Jöfnunargjaldið var lagt á innflutning sömu iðnaðarvara og framleiddar voru hér á landi í þeim tilgangi að vega upp á móti þeim söluskatti sem varð hluti framleiðslukostnaðar þessara vara samkvæmt þágildandi söluskattslögum. Gert var ráð fyrir því við setningu laganna um jöfnunargjald að einungis yrði um tímabundna ráðstöfun að ræða þar sem stefnt skyldi að setningu laga um virðisaukaskatt í byrjun árs 1981 en með upptöku virðisaukaskatts yrði eytt uppsöfnunaráhrifum þeim sem fólgin voru í söluskattskerfinu.
    Jöfnunargjaldinu var m.a. ætlað að jafna þá röskun, sem þátttaka Íslands í fríverslun hafði óhjákvæmilega í för með sér, með minnkandi tollvernd á íslenskar iðnaðarvörur og því að virðisaukaskattur hafði verið tekinn upp í helstu viðskiptalöndum okkar.
    Ekki varð af upptöku virðisaukaskatts á árinu 1981. Ríkisstjórnin lagði því til við Alþingi að ný lög um jöfnunargjald yrðu sett ótímabundið. Jafnframt var gildissvið gjaldsins aukið og það nú lagt á allar vörur sem tollar höfðu verið felldir niður af.
Hluta af tekjum af jöfnunargjaldi hefur verið varið til að endurgreiða iðnfyrirtækjum uppsöfnun söluskatts, en í lögum um gjaldið segir: „Tekjum af jöfnunargjaldi skal ráðstafað í fjárlögum ár hvert að hluta til eflingar iðnþróunar.“
    Með lögum nr. 51/1989, um ráðstafanir í kjarasamningum, var jöfnunargjald hækkað í 5%.
    Með upptöku virðisaukaskatts hér á landi um síðustu áramót varð mikil breyting á samkeppnisskilyrðum iðnaðarins. Íslensk iðnfyrirtæki sitja nú að mestu leyti við sama borð og helstu keppinautar þeirra að því er varðar uppsöfnun opinberra gjalda í framleiðslu þeirra. Þó eru sterk rök fyrir því að jöfnunargjald verði ekki afnumið í upphafi næsta árs, eins og rætt hefur verið um, heldur verði það lækkað í áföngum árinu þannig að það verði horfið í upphafi ársins 1992. Það er lagt til í þessu frumvarpi.
    Uppsöfnunaráhrifa söluskatts gætir enn í rekstrarkostnaði iðnaðar af þremur orsökum, þ.e. vegna fasteigna sem komu til fyrir upptöku virðisaukaskatts, vegna viðhalds og endurbóta véla og vegna flutningatækja. Þjóðhagsstofnun hefur lagt mat á hversu mikil þessi áhrif eru, sbr. fylgiskjal. Samkvæmt niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar er áætlað að uppsafnaður söluskattur hafi numið 5,63% af framreiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna í iðnaði í árslok 1989. Söluskattur í afskriftum í hutfalli við rekstrarkostnað er áætlaður 0,22%. Að teknu tilliti til 6% raunvaxta af söluskattshluta rekstrarfjármuna verður uppsafnaður söluskattur um 0,64% af rekstrarkostnaði iðnaðar. Samkvæmt Þjóðhagsstofnun er endingartími þeirra fjármuna, sem hér um ræðir, allt frá örfáum árum til 25 ára. Mest munar þó um fasteignir sem hafa endingartíma á bilinu 12 25 ár, miðað við gefnar forsendur.
    Aðstöðugjald skekkir einnig samkeppnisstöðu iðnaðar, þar sem um er að ræða gjald á rekstrarkostnað, þ.m.t. vörunotkun, sem ekki þekkist í samkeppnislöndunum. Á þessu ári er áætlað að aðstöðugjald iðnaðar án stóriðju muni nema um 0,75% af tekjum. Þar sem jöfnunargjald er nú 5% eru því 4,25% eftir til að bæta áhrif uppsöfnunar söluskatts.
    Til þess að finna hvað jöfnunargjald þarf að vera hátt í eitt ár til þess að bæta iðnaði upp uppsöfnunina eftir að virðisaukaskattur leysir söluskatt af hólmi þarf forsendur um vexti og endingartíma þeirra fjármuna sem um ræðir. Miðað við 15 ára endingartíma og 6% raunvexti þyrfti 6,6% jöfnunargjald í heilt ár í þessu skyni. Þar sem iðnaðurinn hefur notið 4,25% jöfnunargjalds þegar, að teknu tilliti til aðstöðugjalds, þyrfti að meðaltali 3,2% jöfnunargjald á næsta ári til að bæta honum upp það sem á vantar.
    Niðurfelling 5% jöfnunargjalds mun hafa töluverð áhrif á samkeppnisstöðu iðnaðar. Það er augljóslega of skyndileg breyting fyrir iðnaðinn að þetta gerist í einum áfanga. Það er því á margan hátt eðlilegt að iðnaðurinn fái aðlögunartíma, þannig að gjaldið verði afnumið í áföngum. Því er hér lagt til að gjaldið verði 4% frá áramótum og 2% frá byrjun júlí og falli síðan niður í árslok. Þetta jafngildir 3% gjaldi að meðaltali á árinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir að jöfnunargjaldið verði lækkað í tveim áföngum á árinu. Það jafngildir 3% gjaldi á árinu. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1991 er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu verði 700 milljónir króna.

Um 2. gr.


     Lagt er til að jöfnunargjald verði fellt niður um næstkomandi áramót.

Um 3. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Þjóðhagsstofnun:

Minnisblað um uppsafnaðan söluskatt í rekstrarfjármunum iðnað

ar.

(Vinnuskjal 30. október 1990.)



    Hér á eftir fara niðurstöður á áhrifum söluskatts í rekstrarfjármunum og afskiftum í iðnaði. Við athugun þessar er byggt á upplýsingum úr ársreikningum fyrirtækja í iðnaði 1989. Sundurliðun á einstakar iðngreinar er hefðbundin sundurliðun sem fylgt hefur verið við útreikning á hlutföllum uppsafnaðs söluskatts í iðnaði.
    Tvenns konar upplýsingar koma fram á meðfylgjandi yfirliti. Annars vegar er um að ræða hlutfall söluskatts af framreiknuðu stofnverði varanlegra rekstrarfjármuna í iðnfyrirtækjum í árslok 1989. Við útreikning þennan eru þær forsendur gefnar að söluskattsskyldur efnisliður í stofnkostnaði fasteigna hafi numið 40% af stofnkostnaði í árslok 1989. Jafnframt er söluskattur í vélum og tækjum einungis bundinn við skrifstofuáhöld og tæki, t.d. tölvubúnað. Framleiðslutæki til útflutnings - og samkeppnisiðnaðar báru hins vegar ekki söluskatt. Aftur á móti er gert ráð fyrir að stofnkostnaður flutningstækja, t.d. bifreiða, sé að fullu með söluskatti í árslok 1989.
    Í öðru lagi eru á meðfylgjandi yfirliti áætluð hlutföll uppsafnaðs söluskatts í afskriftum rekstrarfjármuna af rekstrarkostnaðinum. Við útreikning þennan eru notaðar tölur úr ársreikningum, m.a. fyrningarskýrslum, um sundurliðaðar afskriftir eftir tegundum fjármuna. Forsendur um söluskatt í afskriftum eru þær sömu og að framan er lýst.
    Niðurstöður þessara útreikninga eru þær að hlutfall söluskatts af framreiknuðu stofnverði varanlegra rekstrarfjármuna nemi að meðaltali 5,6%. Þetta hlutfall er þó afar mismunandi eftir greinum og fyrirtækjum, lægst 2,3% í keramíkvinnslu, en hæst tæplega 9% í vikurvinnslu. Söluskattur í afskriftum sem hlutfall af rekstrargjöldum nemur að meðaltali 0,2%. Þetta hlutfall er eins og hið fyrra þó afar mismunandi eftir greinum og fyrirtækjum, allt frá tæplega 0,1% í skinnaiðnaði í rúmlega 0,8% í framleiðslu á steinull.
    Ofantaldar niðurstöður eru eins og áður sagði byggðar á rekstrarreikningum fyrirtækja árið 1989 og efnahag í árslok 1989. Áhrifa söluskatts í fjármunum og þar með afskriftum gætir að sjálfsögðu mest fyrstu vikur og mánuði eftir að upptaka virðisaukaskattskerfis átti sér stað, en minnka þegar frá líður og endurfjárfestingar hafa átt sér stað. Áhrifanna gætir að sjálfsögðu lengst í fasteignum en skemur í söluskattsskyldum tækjum og bifreiðum með skemmri endingartíma.
    Til að svara þeirri spurningu hversu lengi áhrifa uppsafnaðs söluskatts muni gæta í rekstrarkostnaði iðnfyrirtækja verður að gefa sér forsendur um meðalendingartíma fjármunanna og meðalaldur þeirra í árslok 1989. Endingartími eigna er eðli málsins samkvæmt afar mismunandi, en í skattalögum er fyrning ákveðin sem árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna eða eignaflokka. Fyrningahlutfall fasteigna er algengt 2 4%, nokkuð breytilegt eftir notkun og gerð, en almennt hærra hlutfallið ef um verksmiðjuhúsnæði er að ræða, sbr. reglugerð nr. 171 frá 1984. Fyrningarhlutföll véla og tækja eru á bilinu 12 20% og hlutföll fyrir flutningatæki geta verið á bilinu 8 15%. Ef meðalendingartími fjármuna er í takt við afskriftarhlutfallið ættu fasteignir að endast í 25 50 ár, vélar og tæki í 5 8 ár og flutningatæki í 7 13 ár. Forsendan um meðalaldur þessara fjármuna gæti verið sú að endingartíminn væri hálfnaður í árslok 1989 sem aftur þýðir að áhrifa söluskatts í verðmæti fjármuna og í afskriftum gætir allt að 4 7 ár í flutningatækjum og 3 4 ár í tækjum sem báru söluskatt. Miðað við þessar forsendur gætti áhrifa söluskatts í fasteignum í 12 25 ár, eftir því hvort afskriftir væru reiknaðar 4% eða 2% eins og áður segir.
Þjóðhagsstofnun:

Hlutfall söluskatts af framreiknuðu stofnverði


rekstrarfjármuna í iðnaði í árslok 1989


og hlutfall söluskatts í afskriftum 1989.


(4. nóvember 1990.)


    

Hlutfallstölur.




REPRÓ af töflu