Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 40 . mál.


Nd.

245. Nefndarálit



um frv. til l. um launamál.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Í þessu nefndaráliti er rakið hvernig staðið var að samningi BHMR og ríkisins, hverjir voru að verki og hvaða skuldbindingar þeir tóku á sig. Rifjað er upp samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 1. febrúar sl. sem gengið hefur undir nafninu þjóðarsáttin. Sérstaklega er bent á að ríkisstjórnin tók að sér að koma í veg fyrir að BHMR-samningurinn næði efnislega fram að ganga. Hún aðhafðist þó ekkert í málinu lengst af þrátt fyrir fjölda viðvarana.
    Þegar ríkisstjórnin ákvað að greiða ekki umsamdar launahækkanir til BHMR fór málið fyrir Félagsdóm sem staðfesti skilning BHMR á kjarasamningnum með samhljóða niðurstöðu. Sagt er frá þeim sýndarviðræðum sem þá fóru fram og síðan setningu bráðabirgðalaganna sem í reynd eru lög um að breyta niðurstöðu æðsta dómstigs í kjaramálum.
    Þá er greint frá því að nægur meiri hluti var ekki fyrir hendi til að frumvarpið næði fram að ganga og skýrt frá hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að hunsa þingræðisregluna. Loks er sýnt fram á að mesti ógnvaldurinn við þjóðarsáttina er ríkisstjórnin sjálf.
    Þegar saga málsins er rakin og rifjuð upp sést að ríkisstjórnin hefur staðið þannig að þessu máli öllu að það er óverjandi fyrir 2. minni hl. nefndarinnar að bera með einum eða öðrum hætti ábyrgð á því að frumvarpið nái fram að ganga.

Kjarasamningur BHMR frá 18. maí 1989.
    Hinn 18. maí 1989 var gerður kjarasamningur milli BHMR og ríkisins. Verkfall BHMR hafði staðið frá 6. apríl. Samningaviðræðurnar voru sérstæðar, m.a. að því leyti að ráðherranefnd, sem í sátu þeir Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra, Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og Svavar Gestsson menntamálaráðherra, tók beinan þátt í viðræðum. Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra starfaði einnig náið með nefndinni og kom á lokastigi beint að viðræðunum. Það mun vera einsdæmi að fjórir ráðherrar taki svo mikinn þátt í gerð kjarasamnings.
    Samningurinn átti að gilda til ársloka 1994 og tryggja félagsmönnum BHMR allar sömu hækkanir og aðrir launþegar fá. Þungamiðja samningsins var hins vegar kjarasamanburður sem ætlað var að hækka laun BHMR-félaga því til viðbótar. Þetta lá ljóst fyrir frá upphafi, enda er í samningunum beinlínis tryggð 4,5% greiðsla upp í „væntanlega hækkun“ ef launasamanburði yrði ekki lokið fyrir 1. júlí 1990.
    Samkvæmt samningunum skal jafna laun háskólamanna í opinberri þjónustu við laun á almennum markaði fyrir hliðstæð störf í opinberri þjónustu miðað við sömu menntun og ábyrgð. Úrskurðarnefndir eiga að setja reglur um mat á menntun og ábyrgð. Þannig er stefnt að því að grunnpunktur launakerfis BHMR sé sömu laun fyrir sömu menntun og hækkanir reiknast þar frá miðað við meiri menntun annars vegar og ábyrgð hins vegar.
    Verði niðurstaða þessa samanburðar og mats sú að ríkisstarfsmenn séu vanhaldnir ber að leiðrétta það á allt að fjórum árum með meðaltalshækkunum einu sinni á ári sem svarar til eins til þriggja launaflokka, þ.e. 3% 9% í hvert sinn þar til meintum mun er eytt.

Pólitísk og persónuleg skuldbinding.
    Hinn 19. maí 1989 er haft eftir fjármálaráðherra í Morgunblaðinu að hér hafi ekki einungis verið um að ræða kjarasamning í venjulegri merkingu heldur einnig eins konar vinnusáttmála. Einn af kostum samningsins sé að hann gildi til ársins 1994. Launaliðurinn á árinu og fyrri hluta næsta árs endurspegli á skýran hátt þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið við önnur samtök. Í blaðinu sama dag er einnig viðtal við Indriða H. Þorláksson þar sem hann segist telja samninginn innan ramma launastefnu ríkisstjórnarinnar. Hann segir ómögulegt að meta á þessu stigi áhrif þeirra ákvæða sem lúti að launakerfi og koma eigi til framkvæmda á næstu árum.
    Í Þjóðviljanum sama dag er haft eftir fjármálaráðherra: „Samningurinn sem náðist er að mörgu leyti tímamótasamningur. ... Með því að bera beint ábyrgð á samningavinnunni var bæði ég sem fjármálaráðherra og síðan ríkisstjórnin í heild að taka verulega pólitíska áhættu þar sem líf hennar og kannski staða einstakra ráðherra gat ráðist af því hvernig samningsgerðin tækist.“ Hin beina þátttaka ríkisstjórnarinnar í samningagerðinni gæfi „auðvitað til kynna að ríkisstjórnin telur sig pólitískt og persónulega skuldbundna til að vinna það verk sem fram undan er í einlægni og byggja upp trúnaðartraust á nýjan leik“. Það er fátítt að svo ákveðnar yfirlýsingar séu gefnar eftir að samningar liggja fyrir. Ekki virtist vanta viljann í upphafi.

Innstæðulaus ávísun.
    Í umfjöllun um samninginn í DV 19. maí er skýrt frá því undir fyrirsögninni „Trygging gegn hækkunum annarra“ að háskólamenn muni samkvæmt samningnum fá þær hækkanir sem verða á launatöxtum þeirra verkalýðsfélaga sem samið hafa til skemmri tíma.
    Í Morgunblaðinu 20. maí er haft eftir forsætisráðherra að menn geti náttúrlega deilt um þær hækkanir sem eru framundan hjá BHMR síðar á samningstímabilinu. Hann muni standa við þær yfirlýsingar, sem hann hafi áður gefið, að kjör háskólamenntaðra manna í ríkisþjónustu eigi að vera sambærileg við það sem gerist hjá háskólamenntuðum mönnum utan ríkisgeirans.
    Í leiðara Morgunblaðsins 20. maí segir:
    „Ljóst er að í samkomulaginu felst ákvörðun um að hækka laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna verulega á næstu árum og verður fróðlegt að sjá hvort aðrir opinberir starfsmenn sætti sig við það án þess að fá sambærilegar hækkanir. Hefur einhver trú á því?“
     Þá segir einnig:
     „Nú hafa verið gerðir nýir samningar við aðra hópa opinberra starfsmanna sem eru ekki fremur í samræmi við veruleikann í íslensku atvinnulífi en hinir fyrri.“
     Sama dag skrifar Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðið:
     „Fjármálaráðherrann hefur verið að hæla sér af því, með stuðningi Þjóðviljans, að undanförnu að hann hafi kveðið niður með öllu markaðslaunahugmyndir háskólamanna í ríkisþjónustu. Niðurstaða kjarasamninganna er á hinn bóginn sú að gengið er að kröfum af þessu tagi en með býsna sérkennilegum hætti. Það er skrifuð út ávísun á framtíðina sem fjármálaráðherrann hefur ekki og getur ekki sýnt fram á að innstæða sé til fyrir.“
    Þannig var ríkisstjórnin vöruð við strax við gerð samningsins.

Kjarasamningur ASÍ og VSÍ frá 1. febrúar.
    Við undirbúning að gerð kjarasamnings ASÍ/VSÍ fyrr á þessu ári náðist samstaða milli aðila á vinnumarkaði um að freista þess að ná niður verðbólgu og treysta þar með atvinnu. Kom þá strax fram af hálfu BSRB og ASÍ að forsenda samninga, sem miðuðu að mjög lágri verðbólgu, væri sú að allir sætu við sama borð. Sett var því inn í samning ASÍ og VSÍ í 10. gr., 9. tölul., að forsenda samningsins væri sú að aðrir fengju ekki frekari hækkanir en í samningi ASÍ og VSÍ fælist.
    Upplýst er að atvinnurekendur kölluðu eftir tryggingum fyrir því að kjarasamningar ríkisstjórnarinnar röskuðu ekki febrúarsamningunum og einnig að ríkisstjórnin hafi handsalað þetta með einum eða öðrum hætti.
    Fjármálaráðherra hélt því fram að niðurlagsákvæði 1. gr. samnings við BHMR, um að standa skuli að breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu, gerði það að verkum að ekki kæmi til hækkana. Af hálfu VSÍ og margra annarra var bent á að þessi skilningur jafngilti því að í samningnum stæði að aldrei skyldi efna hann því að þessi hækkun umfram aðra mundi alltaf raska launamálum annarra.
    Það kvað við nokkuð annan tón þegar Þjóðviljinn rakti efni samninganna föstudaginn 2. febrúar 1990. Þar segir orðrétt:
    „Eftir þetta hjal hljóta sigurvegarar kjarabaráttunnar samt að vera félagar í BHMR. Þeir náðu að semja til lengri tíma en aðrir og ekkert virðist geta komið í veg fyrir að laun þeirra hækki umfram aðra hópa þótt þeir njóti vitaskuld góðs af mörgum þáttum þessara samninga. En það væri banabiti verkalýðshreyfingarinnar ef hún ætlaði sér að fá samningi BHMR rift og varla hægt að ætla neinum slíkt brot á grundvallarmannréttindum.“
    Þannig varaði málgagn Alþýðubandalagsins við því hvert stefndi ef ekki væri farin samningaleiðin.
    Formaður Alþýðubandalagsins, fjármálaráðherrann sjálfur, kaus hins vegar að horfa fram hjá fyrirliggjandi staðreyndum og sagði á Alþingi 6. febrúar 1990:
    „Hér hefur tekist á fullkomlega lýðræðislegan hátt með frjálsum samningum aðila á vinnumarkaði að festa í sessi stöðugleika í efnahagsmálum og byggja á þeim grundvelli sem ríkisstjórnin hefur lagt án þess að beita lögþvingun með einum eða öðrum hætti.“
    Síðar kom annað í ljós.
    
Framkvæmd samningsins við BHMR.
    Í Alþýðublaðinu 3. febrúar 1990 er haft eftir fjármálaráðherra að BHMR eigi ekki rétt á neinu umfram kjarasamninga ASÍ og VSÍ. Kjarasamningur BHMR gefi þeim ekki sjálfkrafa rétt á launahækkun umfram aðra launþega. Forsætisráðherra sagðist ekki útiloka lagasetningu til að koma í veg fyrir að einstakir hagsmunahópar sprengi nýgerða kjarasamninga. Utanríkisráðherra sagði í Morgunblaðinu 4. febrúar að engum líðist að sprengja ramma samninganna. Þrátt fyrir þetta hafðist ríkisstjórnin ekki að.
    Í DV 8. febrúar segir fjármálaráðherra:
    „Það er ljóst að Einar Oddur Kristjánsson, formaður VSÍ, hefur ekki lesið vel yfir kjarasamninga BHMR þegar hann kallaði þá tímasprengju sem þyrfti að aftengja. Það hefur engin tímasprengja verið tengd. ... Það er því ljóst að kjarasamningar háskólamanna munu ekki raska því jafnvægi sem nýju kjarasamningarnir eiga að tryggja á vinnumarkaði og í efnahagslífinu. Endurskoðun og breytingar á launakerfi háskólamanna verði því að vera innan þess ramma sem nýju kjarasamningarnir marka.“
    Í Þjóðviljanum bæði 1. og 8. maí varar Ari Skúlason hagfræðingur ASÍ við því að hækkanir í BHMR-samningnum geti ógnað samningi ASÍ og VSÍ og þeim stöðugleika í atvinnulífinu sem hafi verið forsenda hans.
    Þá hefur verið upplýst að bæði VSÍ og Reykjavíkurborg hafi varað við því að BHMR mundi fá hækkanir viðurkenndar ef deilan gengi til dóms. Ríkisstjórnin treysti því hins vegar blint að hægt væri að svíkja BHMR með fyrirvaranum í 1. gr. samningsins og hafðist ekki að.
    Þrátt fyrir öll varnaðarorðin gerðist ekkert fyrr en 12. júní þegar ríkisstjórnin boðaði BHMR til fundar og greindi frá því að hún hafi á grundvelli ákvæða í 1. gr. samningsins ákveðið að láta BHMR fylgja þjóðarsáttinni og fresta framkvæmd launahækkana samkvæmt þeim samningi sem hún sjálf hafði gert við BHMR.

Dómur félagsdóms.     
    BHMR höfðaði mál fyrir Félagsdómi og féll dómur 23. júlí þar sem fallist var á kröfur BHMR um 4,5% launahækkun frá 1. júlí.
    Í niðurstöðu dómsins segir m.a.:
    „Sýknukrafa stefnda [fjármálaráðherra] er í fyrsta lagi á því byggð að honum hafi verið heimilt og skylt að fresta framkvæmd nýs launakerfis og að honum sé því óskylt skv. 1. gr. samningsins að inna af hendi hina umkröfðu greiðslu til félagsmanna stefndu þar sem slík launahækkun valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu.
    Ekkert ákvæði kjarasamningsins tekur til þess hvernig sú aðstaða skuli skilgreind að framkvæmd tiltekinna ákvæða hans fari í bága við þetta markmið sem aðilar tóku sameiginlega á sig að stefna að. Verður þetta ákvæði samningsins ekki skýrt öðru vísi en svo að telji annar hvor samningsaðilanna slíka röskun vera yfirvofandi verði hann að leita samkomulags við hinn aðilann um hvernig við því skuli brugðist. Er því ekki fallist á með stefnda að ákvæði 1. gr. samningsins hafi heimilað honum að ákveða einhliða frestun greiðslna samkvæmt I. kafla samningsins sem koma áttu til framkvæmda 1. júlí 1990, enda hefur ekki verið í ljós leitt með óyggjandi hætti að afleiðingar samningsins verði aðrar en þær er sjá mátti fyrir við gerð hans.“
    Þarna er undirstrikuð sú staðreynd að áhrif samningsins voru þekkt frá upphafi og hlutu að hafa sams konar áhrif hvort sem þjóðarsáttin var gerð eða ekki. Og eins er bent á þann sjálfsagða hlut að leita verði samkomulags áður en annar aðilinn tekur einhliða ákvarðanir um efnisatriði.

Tilboð ríkisstjórnarinnar.
    Í framhaldi af dómi Félagsdóms settu fulltrúar ASÍ fram kröfu um hliðstæða hækkun á fundi í launanefnd ASÍ og VSÍ þriðjudaginn 24. júlí. BSRB lýsti þegar sömu kröfum. Fulltrúar VSÍ töldu málið utan starfssviðs launanefndar og var ákveðinn fundur samningsaðila fimmtudaginn 26. júlí.
    Miðvikudaginn 25. júlí hélt ASÍ miðstjórnarfund þar sem krafan um jöfnuð við launaþróun BHMR var enn áréttuð. Samningafundurinn fór fram 26. júlí og í kjölfar hans áttu fulltrúar samtakanna fund með formönnum stjórnarflokkanna. Jafnframt var af hálfu VSÍ rifjað upp að ríkisstjórnin hafi heitið því að tryggja sömu launaþróun hjá BHMR og þeim sem gerðu þjóðarsáttina. Í kjölfar þessa fundar var fundur í framkvæmdastjórn VSÍ þar sem málið var reifað og samningaráði veitt heimild til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar þættu til að knýja á um að staðið verði við fyrirheitið um sömu launaþróun.
    Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar efndi fjármálaráðherra þá til viðræðna við BHMR með það að markmiði að BHMR samþykkti að falla frá þeim launahækkunum sem staðfestar voru í Félagsdómi. Niðurstöður yrðu að liggja fyrir þriðjudaginn 31. júlí.
    Að kvöldi 30. júlí setti fjármálaráðherra fram lokaboð til BHMR: Þeir héldu 4,5% kauphækkuninni en fengju enga aðra til 15. september 1991 en nytu verðbótaúrskurða launanefnda. BHMR hafnaði þessari leið.
    Hinn 31. júlí var haldinn fundur samninganefnda ASÍ, VSÍ og VMSS þar sem lögð var fram yfirlýsing samninganefndar atvinnurekenda sem svar við kröfu ASÍ um hækkun til samræmis við BHMR. Þar var því heitið að atvinnurekendur hlytu að tryggja ASÍ-fólki hliðstæða launaþróun.

Bráðabirgðalögin gefin út.
    Í kjölfar þessara atburða var bráðabirgðalögunum hnoðað saman og voru þau gefin formlega út 3. ágúst. Meginefni laganna er að BHMR-hækkunin er afnumin frá 1. september og launaþróunin fest með sama hætti og hjá öðrum. 5. og 15. gr. BHMR-samningsins eru ógiltar og samningurinn látinn renna út 15. september 1991. Að formi til binda lögin alla gildandi kjarasamninga en breyta samt engu um neina nema við BHMR. Hér er einungis um form að ræða.
    Það er einnig athyglisvert að í nafni frjáls samningsréttar og lýðræðis voru lögin, að kröfu Alþýðubandalagsráðherranna, aðeins látin ná til þeirra sem þegar höfðu samið. Fjármálaráðherra benti á það að samningsréttur annarra væri óskertur. Það var sú beita sem þingmönnum Alþýðubandalagsins var ætlað að gleypa við.

Aðdragandi bráðabirgðalaganna.
    Eftir öll mistökin, sem ríkisstjórnin hafði gert, sat hún uppi með dóm sem staðfesti skilning BHMR og jafnframt þá hættu sem VSÍ, Reykjavíkurborg o.fl. höfðu varað við. Eftir dómsuppkvaðninguna varð ríkisstjórnin ráðvillt, en starfandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra tóku strax af skarið um lagasetningu. Hinn 24. júlí 1990 spurði blm. DV: „Kemur til greina að setja bráðabirgðalög á þessar hækkanir?“ Og fjármálaráðherra svaraði: „Nei, það tel ég ekki vera, það kemur ekki til greina að setja bráðabirgðalög á niðurstöðu dóms.“
    Daginn eftir var hins vegar haft eftir Jóni Baldvini Hannibalssyni utanríkisráðherra í Morgunblaðinu:
    „Mín niðurstaða er sú að í fyrsta lagi eigi að segja þessum samningi upp. Í annan stað á að styðja það frekar með bráðabirgðalögum sem þjóni eftirfarandi markmiðum: Í fyrsta lagi að taka til baka seinni áfangahækkanir BHMR-samningsins til þess að kaupmáttarniðurstaðan í lok samningstímabils almennu samninganna verði sú sama. Í annan stað tel ég að þau lög eigi að binda aðra hópa sem enn hafa ekki lokið sínum kjarasamningum en gætu hugsað sér til hreyfings í framhaldi af þessu.“
    Á næstu dögum gaus upp ágreiningur um hvort setja skyldi bráðabirgðalög og hvert efni þeirra ætti að verða. Niðurstaðan er kunn, en tvískinningurinn í orðum fjármálaráðherra leynir sér ekki í viðtali við Tímann 3. ágúst 1990. „Ég er mjög ánægður með það að bráðabirgðalögin eru í þeirri mynd sem þingflokkur Alþýðubandalagsins lagði áherslu á nú síðasta sólarhringinn. ... Við vildum ekki takmarka rétt þeirra sem eru með lausa samninga og það er ekki gert í þessum bráðabirgðalögum og almennur samningsréttur og lýðréttindi eru ekki skert.“
    Í Morgunblaðinu var viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson:
    „Bráðabirgðalögin eru í þeirri mynd sem við vildum hafa þau. Við vildum ekki takmarka samningsrétt þeirra sem eru með lausa samninga og það er ekki gert í þessum bráðabirgðalögum. Almennur samningaréttur og lýðréttindi eru ekki skert með þessum lögum.
    En hvað ef félög með lausa samninga ætla að fá meira en felst í þjóðarsáttinni. Verða þá sett lög á þau?
    Þau geta auðvitað farið fram á hvað sem er. En lýðræðislegur réttur þeirra til að gera sjálfstæða samninga er ekki skertur í þessum bráðabirgðalögum.“
    Þessi lýsing formanns Alþýðubandalagsins á innihaldi bráðabirgðalaganna virðist hafa dugað flestum þingmönnum flokksins. Þegar Þjóðviljinn spurði Svavar Gestsson hvernig honum litist á niðurstöðuna sagði hann:
    „Í fyrsta lagi er niðurstaðan sú að bráðabirgðalögin taka í raun og veru á tveimur aðalefnisatriðum. Því að fresta 4,5% launahækkun Bandalags háskólamanna í þrjá mánuði, sem í staðinn fá 2% hækkun 1. desember, 2,5% 1. mars og 2% 1. júní. Hvað varðar kaupmátt standa þeir ekki lakar en þeir hefðu gert. ... En það grundvallaratriði verða menn að hafa í huga að allir, sem á annað borð hafa lausa samninga, geta, ef þeir ná til þess stöðu, samið sig frá þessu. Þannig að mannréttindaákvæði laga, stjórnarskrár og leikreglna í þjóðfélaginu eru á sínum stað hvort sem um er að ræða rétt til uppsagnar, samninga og verkfalla. Pólitískt séð fyrir Alþýðubandalagið er þetta meginatriðið í mínum huga.“

Hver verður næstur?
    Tveir þingmenn Alþýðubandalagsins lýstu samt andstöðu við bráðabirgðalögin og greiddu atkvæði gegn þeim í þingflokknum. Geir Gunnarsson sagði í viðtali við Þjóðviljann 4. ágúst sl.:
    „Ríkisstjórnin gerði þennan samning áður en þjóðarsáttin var gerð og maður verður að ímynda sér að hún hafi ætlað að standa við hann. En svo er eins og menn hafi verið ráðnir í að hafa hann að engu. Svo kom þetta áfall sem úrskurður Félagsdóms var og þá var ekki hikað við að afnema dóminn með lögum. Alltaf þegar gerð er atlaga að samningsrétti launafólks hefur það fordæmisgildi. Það veit enginn hver verður næstur.“
    Við fyrstu umræðu um frumvarpið lýsti Hjörleifur Guttormsson skoðun sinni með þessum orðum:
    „Þetta er mjög alvarlegt mál sem hér er til umræðu. Það snertir grundvallarþætti stjórnskipunar okkar, undirstöðuþætti varðandi leikreglur í samfélaginu og það varðar mjög marga. Jafnvel þó menn telji sig hafa vissu fyrir því að þarna hafi verið mikil vá eða a.m.k. erfiðleikar fyrir dyrum í efnahagslegu samhengi þá finnst mér ekki hægt að rökstyðja þessa lagasetningu með vísun til efnahagslegra kringumstæðna miðað við það sem á undan var gengið. Þá er ég að vísa til Félagsdóms, niðurstöðu hans og dómsorðs, og ég er líka að vísa til þeirrar mjög takmörkuðu og brotakenndu viðleitni sem ríkisvaldið sem samningsaðili hafði haft uppi til þess að leysa þetta mál með samningum og friðsamlegum hætti við gagnaðilann, í þessu tilviki BHMR. Ríkisvaldið gerði samning við BHMR vorið 1989. Aðrir aðilar á vinnumarkaði sömdu í febrúar 1990. En ríkisvaldið hafði ekki fyrir því að koma því áleiðis til viðsemjanda síns, BHMR, að það liti svo á að vegna gerðra samninga á almennum markaði teldi það að fyrri samningur væri ógildur og honum væri sagt upp, sem hefði þó verið skylda ríkisvaldsins ef það var mat manna að ekki væri búandi við þennan samning, m.a. vegna ákvæða 15. gr. hans um víxlhækkanir og tilvísun í aðra kjarasamninga.“     

Meiri hluti ekki fyrir hendi.
    Þegar Stefán Valgeirsson lýsti því yfir í síðasta mánuði að hann mundi greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögunum varð ljóst að ríkisstjórnin hafði misst tilskilinn meiri hluta til að koma frumvarpinu í gegnum neðri deild án stuðnings eða hjásetu stjórnarandstöðuþingmanna.
    Þar með opinberaðist það jafnframt að forsætisráðherra hafði sagt forseta og þjóðinni rangt frá þegar hann sagði við setningu laganna að hann hefði tryggilega gengið úr skugga um meirihlutastuðning. Í blaðaviðtali fyrir skömmu segist hann hafa staðið í þeirri trú að meiri hluti hefði verið fyrir hendi þar sem hann hefði ekki átt von á andstöðu Geirs Gunnarssonar. Þegar svo var komið hlaut það að vera þingræðisleg skylda forsætisráðherrans, ef hann vildi ná frumvarpinu fram, að freista þess að afla frumvarpinu fylgis á Alþingi. Að öðrum kosti bar ríkisstjórninni að segja af sér, þannig að kostur gæfist á að mynda stjórn til að leysa málið á þingræðislegan hátt.
    Þrátt fyrir yfirlýsingu þingflokks sjálfstæðismanna um að greiða atkvæði gegn frumvarpinu, eins og það liggur fyrir, á grundvelli siðferðis- og lagaraka kaus ríkisstjórnin að ræða ekki við stjórnarandstöðuna um framhald málsins. Í stað þess hótaði hún þingrofi sem hefði fellt bráðabirgðarlögin úr gildi og í framhaldi af því átti að setja lögin á nýjan leik. Slíkt tilræði við þingræði og lýðræðisvenjur náði þó ekki fram að ganga þegar einn eindregnasti andstæðingur frumvarpsins ákvað að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna til að koma í veg fyrir að flokkur hans tæki þátt í að fótum troða leikreglur lýðræðisins ofan í það siðleysi og þau lögbrot sem áður höfðu átt sér stað í þessu máli.

Ríkisstjórnin er mesti ógnvaldur þjóðarsáttar.
    Kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins í febrúar voru að sjálfsögðu ekki endanleg lausn í baráttunni við verðbólguna. Ýmsir aðrir þættir koma þar til skjalanna, þættir sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur fyrst og fremst á valdi sínu. Kjarasamningarnir voru fyrst og fremst framlag til þess að lækka verðbólguna og skapa vinnufrið til frekari árangurs en eru hvergi nægjanlegir einir og sér. Um þetta hafa flestir verið sammála.
    En hvernig hefur ríkisstjórnin þá staðið sig í þeim hlutum sem að henni snúa? Aðilar vinnumarkaðarins og þá sérstaklega launþegar gera samkvæmt þjóðarsáttinni ekki meiri kröfur til tekna og eyðslu en samræmist verðmætasköpun atvinnulífsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki fylgt þeirri stefnu. Hún er þvert á móti að grafa undan þessari þjóðarsátt.
    Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórninni ekki tekist að ná valdi á útgjöldum ríkissjóðs. Síþensla ríkisútgjalda heldur áfram þótt nú sé reynt með bókhaldsbrögðum að fela útgjaldaaukninguna. Eigið fé sjóða er látið rýrna með því að skera niður ríkisframlög án þess að fjárhagur þeirra sé efldur með öðrum hætti. Stórfellt tap sjóða, svo sem Byggðasjóðs, Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs er falið. Framlag ríkissjóðs til lífeyrisskuldbindinga vegna opinberra starfsmanna er þurrkað út. Hvergi kemur fram í ríkisbókhaldi að lántaka Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins á sínum tíma hafi fallið á ríkissjóð. Á hverju hausti kynnir fjármálaráðherra nýtt tímamótafrumvarp til fjárlaga, hornstein stöðugleika í efnahagsmálum. En þegar upp er staðið er afkoma ríkissjóðs um 6.000 7.000 milljónum króna verri en þessi tímamótaplögg fjármálaráðherra gerðu ráð fyrir.
    Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin boðað skattahækkanir á atvinnuvegina þrátt fyrir að öllum sé ljóst að slíkar hækkanir koma fram í verðlagi sem ekki er gert ráð fyrir í þeim forsendum sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin sjálf komu sér saman um. Boðuð er 800 milljóna króna skattahækkun samfara samræmingu launatengdra gjalda. Til viðbótar er boðað 800 milljóna króna álag á sama stofn sem á að fara í að lækka aðstöðugjald án þess að neitt sé farið að vinna í því máli. Þá á að hækka tekjuskatt fyrirtækja að raungildi um 500 600 milljónir króna sem kemur fram í afkomu þeirra og getu til uppbyggingarstarfa. Enn fremur er boðaður sérstakur hafnarskattur sem hækkar kostnað við innflutning og leggst líka á útflutningsgreinar á sama tíma og raungengishækkun er fyrirsjáanleg.
    Í þriðja lagi hefur peningamagn aukist umfram verðbólgutölur en það getur gengið meðan fyrirtæki eru að bæta skuldastöðu sína og sparnaður þjóðarinnar eykst. Hættan er hins vegar sú að ríkisstjórnin muni beita sér gegn því að vextir breytist eðlilega ef eftirspurn eftir lánsfé fer að aukast á nýjan leik, t.d. ef fyrirtæki telja sig geta á ný farið að byggja sig upp. Ríkisstjórnin hefur gengið hart fram í að fá bankana ofan af því að breyta vöxtum þegar þeir hafa talið þess þurfa. Því er ekki við því að búast að ríkisstjórnin verði viljugri þegar þrýstingur á vaxtahækkanir eykst enn frekar vegna aukinnar ásóknar ríkissjóðs á innlenda lánsfjármarkaðinn. Peningamálastefna ríkisstjórnarinnar getur því á engan hátt samrýmst því markmiði að halda verðlagi í skefjum.
    Þannig liggur fyrir að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum mikilvægu málum samræmist alls ekki markmiði kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar sl. Á sama tíma og almennir launþegar hafa tekið á sig 15% kaupmáttarskerðingu vegna samdráttar í þjóðarbúinu og atvinnufyrirtækin leita allra leiða til að hagræða hefur ríkisstjórnin svikist um framlag sitt til þjóðarsáttar. Ríkisstjórnin sjálf er þannig mesti ógnvaldurinn við þá þjóðarsátt sem hún þáði að gerast aðili að á sínum tíma.

Niðurstaða.
    Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa margoft lýst stuðningi sínum við meginmarkmið kjarasamninganna sem hlotið hafa nafnið þjóðarsátt. Ólögmætar aðgerðir, bráðabirgðalög á dómsniðurstöðu og siðlaus framkoma ríkisstjórnar gagnvart viðsemjendum sínum geta hins vegar aldrei orðið hluti af þjóðarsátt.
    Ríkisstjórnin tók að sér að tryggja aðild BHMR að þjóðarsáttinni svokölluðu þegar aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir kjarasamning sinn 1. febrúar. Þrátt fyrir margar viðvaranir lét ríkisstjórnin undir höfuð leggjast að ræða við BHMR um samstarf á þeim grundvelli.
    Þannig hafnaði ríkisstjórnin því að fara lögmætar leiðir til að fá BHMR til þátttöku. Hún valdi einhliða samningsrof í stað samningsumleitana. Hún neytti ekki þess úrræðis að grípa til löggjafarvaldsins á meðan þing sat og enn voru tækifæri. Hún kaus að beita bráðabirgðalögum eftir að æðsti dómstóll hafði kveðið upp sinn dóm. Slíkt er af mörgum talið stjórnarskrárbrot.
    Á slíkum aðgerðum getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki tekið ábyrgð. Það gildir einu þótt slík afstaða gegn lögleysu og óréttlæti kunni að kosta óvinsældir um stundarsakir.
    Í þeirri stöðu, sem upp kom á Alþingi þegar ljóst var að ríkisstjórnin hafði misst meiri hluta sinn, jafngilti hjáseta Sjálfstæðisflokksins því að hann tryggði framgang frumvarpsins og bæri ábyrgð á bráðabirgðalögunum. Þess vegna hlaut þingflokkur sjálfstæðismanna að taka þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. 2. minni hl. nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði fellt.
    Matthías Bjarnason var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins vegna veikinda.

Alþingi, 6. des. 1990.



Friðrik Sophusson.



Fylgiskjal I.

ÞETTA SÖGÐU ÞEIR ÞÁ



Um ábyrgð, frjálsan samningsrétt og siðgæði.


    Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra var spurður í Morgunblaðinu 14. maí 1989 hvort hann útilokaði lagasetningu um gerðardóm á BHMR. Hann svaraði:
    „Við viljum hafa hér lýðræðislegt þjóðfélag með frjálsum samningsrétti. En lýðræði þolir ekki frjálsræði ef engin ábyrgð fylgir því. Ábyrgð er ekki verslunarvara sem menn kaupa úti í búð. Hún er eiginleiki, hugarfar, ákveðið siðgæði. Lagasetning, sem kemur í veg fyrir eiginhagsmunapot ákveðins þjóðfélagshóps, leysir hann undan þessari ábyrgð. Hún mundi ýta undir ábyrgðarlaust hugarfar. Við skulum bara leika okkur og sjá hvað við komumst langt. Ég tel að við stöndum hér á ákveðnum tímamótum. Við eigum að neita okkur um lagasetningu og halda áfram að byggja upp þá ábyrgðartilfinningu sem komið hefur fram í öðrum kjaradeilum.“

Hvatt til pólitískra verkfalla.


    Í blaðagrein, sem Páll Halldórsson, formaður BHMR, skrifar hinn 23. ágúst sl., lýsir hann afstöðu Ólafs Ragnars til aðgerða af hálfu BHMR þegar bráðabirgðalög voru sett árið 1988. Hann segir:
    „Núverandi fjármálaráðherra hvatti þá ákaft forustumenn BHMR til að æsa til pólitískra verkfalla gegn ríkisstjórninni og ekki vantaði frýjunarorðin þegar menn vildu ekki fara að ráðum hans. Pólitísk verkföll eru ólögleg þó honum hafi ekki fundist það þá þungbær röksemd.“

Staðið við yfirlýsingu.


    „Þessir samningar hafa að sjálfsögðu afar mikla þýðingu. Hér hefði orðið óþolandi ástand ef verkfallið hefði haldið áfram, fram eftir sumri eins og mér fannst stefna í, sagði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið um nýgerða kjarasamninga ríkisins og BHMR.
    Forsætisráðherra sagði að kostnaðarlega séð bæri að líta til þess að lítill munur yrði á kjarabótum BHMR og BSRB þá átta mánuði sem eftir væru af samningstíma BSRB. „Hins vegar geta menn náttúrlega deilt um þær hækkanir sem eru framundan hjá BHMR síðar á samningstímabilinu. Mér sýnist sem BHMR fái um 15% hækkun á eins árs grundvelli. Það er staðreynd að það er of mikil hækkun,“ sagði Steingrímur, en bætti svo við: „Það er auðvitað afar mikils virði að fá með þessum samningum jafnvel allt að fimm ára frið í skólum.“
    Steingrímur sagðist mundu standa við þær yfirlýsingar, sem hann hefði áður gefið, eins og í ríkisstjórninni 1985, að kjör háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins ættu að vera sambærileg við það sem gerðist hjá háskólamenntuðum mönnum utan ríkisgeirans. „Reyndar skil ég vel þá tortryggni sem er hjá þeim vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá þetta fram.“
    Forsætisráðherra var spurður hvers vegna hann hefði ekki sem forsætisráðherra á árunum 1985 til 1987 séð til þess að staðið yrði við yfirlýsingu hans: „Framkvæmdin í svona máli er náttúrlega í höndum fjármálaráðherra sem fer með þessi mál. Ég gaf þessa yfirlýsingu á sínum tíma að ósk BHMR og samkvæmt samþykki þáverandi fjármálaráðherra, Alberts Guðmundssonar,“ sagði Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra.“ (Morgunblaðið 20. maí 1989.)

Dómstólar og pólitískt vald.


    „Það er ekki hlutverk Félagsdóms eða annarra dómstóla að bjarga ríkisstjórninni út úr þeim lögfræðilegu ógöngum sem hún hefur ratað í.
    Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að helsta einkenni réttarríkis er að það eru lögin sem á endanum ákvarða réttindi manna og skyldur. Hinu sama gegnir um ráðamenn sem í athöfnum sínum og ákvörðunum eru bundnir af lögum. Annað einkenni réttarríkisins er að sérstökum stofnunum, dómstólum, er falið vald til að skera úr réttarágreiningi. Við úrlausn sína ber dómstólum að fara að lögum. Í þessu valdi dómstólanna felast í reynd takmörk hins pólitíska valds. Ráðamenn verða óhjákvæmilega að sníða áætlanir sínar og ákvarðanir að þeim lagalega veruleika sem þeir búa við. Pólitísk markmið ríkisstjórnar ákvarða ekki réttarstöðu manna, hversu skynsamleg sem þau kunna annars að vera.“ (Davíð Þór Björgvinsson lögfræðingur í Morgunblaðinu 12. ágúst 1990.)


Góð ráð Morgunblaðsins.


    „Ríkisstjórnin situr uppi með afleiðingar kjarasamninga sem hún gerði til þess að losna út úr erfiðu verkfalli. Hún stóð síðan að öðrum kjarasamningum sem gengu þvert á hina fyrri. Hún hefði auðvitað átt að gera hreint fyrir sínum dyrum strax í vetur. En hvað sem því líður má aldrei leika vafi á að ríkisstjórn fari að lögum. Þess vegna á ríkisstjórnin að ganga hreint til verks og nýta þann rétt sem hún hefur til þess að setja bráðabirgðalög, þannig að ekki fari á milli mála að rétt sé að verki staðið. Auðvitað hefði ríkisstjórnin átt að leggja tillögu að slíkri löggjöf fyrir Alþingi áður en því var slitið í vor. Allar upplýsingar lágu fyrir um þetta mál meðan þingið sat, en væntanlega hafa stjórnarflokkarnir viljað komast hjá pólitískum óþægindum vegna þessa máls fyrir sveitarstjórnarkosningar. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að nýta rétt sinn til bráðabirgðalaga vegna aðstæðna ætti hún að taka þátt í því að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvernig túlka beri loðið orðalag samninganna. Það stjórnar enginn lýðræðisþjóðfélagi með samningsbrotum og trúnaðarbresti við launþegasmtök.“ (Leiðari Morgunblaðsins 15. júní sl. í kjölfar „kaupránsyfirlýsingar“ ríkisstjórnarinnar.)

Gómaður í græna hliðinu.


    „Fjármálaráðherra hafði lýst því yfir að samningurinn við BHMR væri góður, að ákvæði hans í 1. gr. kæmi í veg fyrir verðbólgukollhnís og að Félagsdómur mundi dæma ríkisstjórninni í hag.
    Ítrekuðum ábendingum um að illa gæti farið var ekki sinnt. Nú stendur ráðherrann og skammar Félagsdóm. Þetta minnir á mann sem stendur í biðröðinni við græna hliðið með allt of mikið brennivín, er svo tekinn og ræðst á tollgæsluna.“ (Föstudagsspjall Guðmundar Einarssonar, aðstoðarmanns iðnaðarráðherra, í Alþýðublaðinu 27. júlí sl.)


Fylgiskjal II.


Árni Grétar Finnsson :

Setning bráðabirgðalaganna er andstæð stjórnarskránni.


    Umræður um staðfestingu bráðabirgðalaganna, sem ríkisstjórnin setti í sumar til ógildingar á samningum sínum við BHMR, eru nú í brennidepli. Í þeim umræðum virðast margir horfa fram hjá þeim meginkjarna málsins að setning bráðabirgðalaga eftir á til að ógilda efnislega niðurstöðu félagsdóms er andstæð stjórnarskránni.
    Stjórnarskráin er sá grunnur sem stjórnskipun íslenska lýðveldisins byggist á. Til að tryggja festu stjórnarskrárinnar gilda aðrar og umfangsmeiri reglur um breytingar á henni heldur en um venjulegar lagasetningar. Alþingismenn vinna sérstakt heit að því að virða stjórnarskrána.
    Almenn lög mega ekki brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í 28. gr. hennar, sem fjallar um útgáfu bráðabirgðalaga, er sérstaklega tekið fram: „Ekki mega þau þó ríða í bága við stjórnarskrána.“ Úrskurðarvald um hvort lög samrýmast stjórnarskránni er í höndum dómstólanna. Eru dæmi þess að Hæstiréttur hafi vikið lögum á þeim forsendum að þau væru andstæð ákvæðum hennar.
    Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar er ríkisvaldinu skipt í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þar er sérstaklega tekið fram að dómendur fari með dómsvaldið. Hliðstæð skipting ríkisvaldsins er í stjórnarskrám annarra ríkja með svipað stjórnarfar og Íslendingar búa við. Hugmyndin að þrískiptingu ríkisvaldsins er nær fjögurra alda gömul. Henni er ætlað að dreifa hinu mikla valdi ríkisins og stuðla að því að hver einstakur þáttur þess veiti hinum aðhald. Þar er hlutverk óháðra dómstóla mikilvægt, þar sem þeirra nýtur ekki lengur tekur alræði framkvæmdarvaldsins við.
    Samkvæmt 60. grein stjórnarskrárinnar skera dómstólar úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þar er dómstólum fengið vald til að úrskurða um hvort handhafar framkvæmdarvaldsins, þar með taldir ráðherrar, hafa farið að lögum í stjórnarathöfnum sínum.

Dómum verður ekki breytt með lögum.


    Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að dómstólum er ætlað að veita handhöfum löggjafar- og framkvæmdarvaldsins víðtækt aðhald. Þeir eru oft eina vörn þegnanna gegn öðrum þáttum ríkisvaldsins, sérstaklega framkvæmdarvaldinu. Hlutverk dómstólanna er að sjálfsögðu mun víðtækara en þetta þótt ekki verði um það fjallað hér. Með störfum þeirra er ætlunin að tryggja að endi skuli bundinn á alla þrætu. Ákvæði stjórnarskrárinnar um að dómendur fari með dómsvald þýðir að niðurstaða þeirra er endanleg í hverju einstöku máli sem þeir úrskurða. Henni er ekki hægt að breyta, hvorki af löggjafar- né framkvæmdarvaldi. Undantekningar um náðun og uppreisn æru í sakamálum eiga ekki við í því tilfelli sem hér er til umfjöllunar. Endurupptaka máls, t.d. sökum nýrra sönnunargagna, er háð ákvörðun dómstóla.
    Félagsdómur fékk til úrskurðar mál BHMR og ríkisins vegna ágreinings um framkvæmd kjarasamninga sem þeir gerðu sín á milli 1. maí 1989. BHMR krafðist þess að umdeild ákvæði samningsins um kauphækkanir tækju gildi, en ríkisstjórnin taldi forsendur ákvæðanna brostnar. Niðurstaða Félagsdóms gekk sem kunnugt er BHMR í vil og úrskurðaði dómurinn að hin umdeildu ákvæði kjarasamningsins væru í fullu gildi. Þar með var málinu lokið á lögformlegan hátt. Hér skiptir ekki máli hvaða afstöðu menn hafa til efnis umrædds kjarasamnings BHMR eða hvort hann kunni að hafa einhver áhrif á aðra samninga sem kenndir hafa verið við þjóðarsátt. Dómurinn er endanlegur fyrir báða aðila. Samkvæmt áðurnefndum ákvæðum stjórnarskrárinnar og viðurkenndum réttarreglum, sem af ákvæðunum leiðir, er óheimilt að breyta efnislegri niðurstöðu dómsins með lögum. Setning bráðabirgðalaganna 3. ágúst sl. er því andstæð stjórnarskránni.

Alvarlegt fordæmi

.
    Slík lagasetning eftir á, til að breyta efnislega dómsniðurstöðu, á sér ekkert fordæmi hér á landi, að því er ég best veit. Ef ríkisstjórnin vildi með lögum fella niður hin umdeildu ákvæði í kjarasamningi sínum við BHMR þá bar henni að gera það áður en málið fór fyrir félagsdóm, þá hafði hún heimild til lagasetningar, en eftir að dómur var genginn var ekki heimilt að breyta niðurstöðu hans efnislega með lögum.
    Setning bráðabirgðalaganna undir þessum kringumstæðum hefur í för með sér mjög alvarlegt fordæmi, ef samþykkt yrði. Þar með gætu ríkisstjórnir í framtíðinni með bráðabirgðalögum eða Alþingi með venjulegum lögum breytt efnislega eftir á dómum sem féllu ríkinu í óhag. Menn, sem ættu kröfur á ríkið og fengju þær staðfestar með dómi, yrðu þá að sæta því að þær yrðu efnislega ógiltar með lögum eftir að dómur væri genginn. Allir sjá til hvílíks ófarnaðar slíkt myndi leiða, en hvar eru mörkin eftir að fordæmið hefur verið gefið.


Fylgiskjal III.


Jón Steinar Gunnlaugsson:


Meginreglur og hentistefna


(Morgunblaðið 6. des. 1990.)



    Sú ákvörðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að greiða atkvæði gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar til staðfestingar á bráðabirgðalögum um kjarasamning BHMR hefur mætt andbyr og verið af sumum talin bera keim af pólitískri tækifærisstefnu. Ég er annarrar skoðunar um þetta og tel raunar að þingmönnum, sem greiða atkvæði gegn staðfestingarlögunum, þótt vitað sé um óvinsældir slíkrar afstöðu hjá „aðilum vinnumarkaðarins“ og fleirum, sé mikill sómi að slíkri afstöðu.

I.


    Nauðsynlegt er að fara yfir nokkur meginatriði þessa máls:
    1. Fjármálaráðherra gerði í maí 1988 kjarasamning við BHMR. Eitt meginefni samningsins var að fallast að nokkru á kröfur BHMR um meiri hækkanir til sinna manna en aðrir fengju. Var ætlunin með þessu að jafna kjör félagsmanna BHMR við kjör annarra manna við sambærileg störf sem ynnu hjá öðrum en ríkinu. Var kveðið á um hvernig þetta skyldi framkvæmt, m.a. á þann hátt að launin skyldu við tiltekin skilyrði hækka um 4,5% 1. júlí 1990.
    2. Í febrúar 1990 gerðu ASÍ, VSÍ og fleiri aðilar með sér kjarasamning sem kenndur hefur verið við þjóðarsátt. Var í honum samið um hófstilltar launahækkanir. Í 10. gr. samnings þessa voru taldar upp svonefndar forsendur hans. Þar var talið upp í 9. tölul. sem forsenda að „launaþróun annarra verði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum.“ Í þessum kjarasamningi var ekkert vikið að kjarasamningi BHMR við ríkisvaldið þó að samningsaðilarnir hafi vel vitað um tilvist hans og efni.
    3. Ríkisstjórnin ákvað í júní 1990 að efna ekki samning sinn við BHMR að því er varðaði hækkunina 1. júlí. Ágreiningur um þetta gekk til Félagsdóms. Gekk dómur þann 23. júlí 1990 með þeirri niðurstöðu að viðurkennd var krafa BHMR um að fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs væri skylt að efna samninginn. Fengu félagsmenn BHMR greidd laun sín í júlí og ágúst í samræmi við það.
    4. Þann 3. ágúst 1990 voru svo að tilhlutan forsætisráðherra sett bráðabirgðalög sem afnámu þær sérstöku launahækkanir sem félagsmenn BHMR höfðu öðlast rétt til og lýst er að ofan. Í formála bráðabirgðalaganna kemur fram að megintilefni þeirra sé að vinnuveitendur hafi ákveðið að veita sínum viðsemjendum sömu hækkun launa og félagar í BHMR höfðu hlotið. Nú er rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur dómsmál þar sem á því er byggt að bráðabirgðalögin standist ekki stjórnarskrá landsins og beri því að greiða aðilum BHMR laun samkvæmt kjarasamningi þeirra þrátt fyrir bráðabirgðalögin. Þá hefur ríkisstjórnin, svo sem skylt er, flutt á Alþingi frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögunum.
    Þingmaður, sem taka þarf afstöðu til málsins, hefur að nokkrum atriðum að hyggja. Skal nú litið á þau.

II.


    Það fyrsta og langþýðingarmesta sem þingmaðurinn þarf að athuga er hvort frumvarpið standist stjórnaskrá landsins, enda hafa allir alþingismenn unnið eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni samkvæmt fyrirmælum í 47. gr. hennar.
    Ég tel nokkuð augljóst að bráðabirgðalögin brjóti í bága við stjórnarskrá bæði að formi og efni.
    Að því er formið varðar tel ég að skilyrði fyrir setningu bráðabirgðalaga sem felast í 28. gr. stjórnarskrár hafi ekki verið til staðar. Stafar það af því að öll málsatvik sem máli skipta um kjarasamning BHMR lágu fyrir meðan Alþingi sat sl. vor. Það fær ekki staðist að ríkisstjórn geti beðið með lagasetningu þar til þingi hefur verið slitið til að bregast við „brýnni nauðsyn“ sem í ljós var komin meðan þing sat.
    Um efnið, og það er enn þýðingarmeira, er það að segja að réttur félagsmanna BHMR til launa sinna samkvæmt kjarasamningnum var örugglega eignarréttindi þeirra sem nutu verndar 67. gr. stjórnarskrár. Þar er lagt bann við að mönnum sé gert að láta af hendi eign sína nema fullt verð komi fyrir. Það er því brot gegn þessu ákvæði stjórnarskrár að gera þessi eignarréttindi upptæk án bóta.
    Einhverjir hafa fleygt því í umræðunum um málið að hliðstæður þessara bráðabirgðalaga megi finna. Ekki hef ég heyrt um nein dæmi þess. Þegar lög hafa verið sett um launamál og gerð kjarasamninga hafa þau yfirleitt verið um almenn atriði, svo sem bann við verkbindingu launa hjá öllum launþegum eða eða þá um aðferð við að koma á samningi, t.d. með gerðardómi til að aflétta vinnustöðvun. Þess háttar lög eru allt annars eðlis en lög sem hreinlega afnema kjarabætur sem tiltekinn tiltölulega fámennur launþegahópur hefur öðlast rétt til með samningi. Og svo mikið er víst að engum dómsúrlausnum er til að dreifa sem veita fordæmi fyrir lögum af því tagi sem hér um ræðir.

III.


    Auðvitað verða þingmenn að taka afstöðu til þess hvort þeir telji lagafrumvarp brjóta í bága við stjórnarskrá. Þeir geta aldrei vísað því álitaefni frá sér, t.d. með tilvísun til þess að verið sé að fjalla um mál fyrir dómstólum. Ef þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu að frumvarp fari gegn stjórnarskrá, eins og hér virðist vera augljóst, ber honum brýn skylda til að greiða atkvæði gegn því. Hann má aldrei láta hávaðasama þrýstihópa eða von um fleiri atkvæði í kosningum hrekja sig af leið í þessu efni. Hér eru nefnilega miklu þýðingarmeiri gæði í húfi, sjálf stjórnskipun landsins og leikreglurnar sem við höfum sem siðmenntuð þjóð ákveðið að eigi að gilda í samskiptum okkar hvert við annað. Þeir þingmenn sem láta þessi gildi ráða afstöðu sinni á stundum, þegar fjöldi manna hrópar á annað, verðskulda allan heiður.

IV.


    Talað er um að setning bráðabirgðalaganna hafi verið nauðsynleg til að vernda hina svokölluðu þjóðarsátt um að halda verðbólgu í skefjum. Þetta er rangt. Hin umsamda kauphækkun til BHMR - manna hefði lítil áhrif á verðbólgu þótt framkvæmd yrði. Áður var að því vikið að hvergi var getið um BHMR - samninginn í hinum almennu kjarasamningum í febrúar sl. Þó vissu menn vel um hann. Þetta ber líklega að túlka þannig að framkvæmd samnings BHMR hafi ekki verið meðal þeirra atriða sem gátu gefið tilefni til frávika í samningi ASÍ og VSÍ og upp voru talin sem forsendur þess samnings, enda var mönnum við samningsgerðina í lófa lagið að víkja að þessu berum orðum.
    Það sem stefnir þjóðarsátt í voða er yfirlýsing fyrirsvarsmanna vinnuveitenda um að þeir muni hækka laun viðsemjenda sinna ef kjarasamningur BHMR yrði efndur. Þetta er raunar skýrt tekið fram í inngangi bráðabirgðalaganna, svo sem áður var sagt. Engin samningsskylda knúði þá til slíkra hækkana. Og jafnvel þótt svo hefði verið gat það aldrei orðið viðhlítandi ástæða til að afnema umsamdar kjarabætur BHMR - hópsins. Eða eiga svonefndir aðilar á vinnumarkaði að geta samið um það sín í milli að aðrir aðilar í þjóðfélaginu skuli láta sín eignarréttindi bótalaust af hendi? Allir sjá að slíkt getur ekki gengið. Ef ríkisstjórnin taldi nauðsynlegt að koma með lagasetningu í veg fyrir verðbólguáhrif af þeim atvikum sem hér er lýst átti hún að gera það með lögum sem bönnuðu að framkvæmd kjarasamnings BHMR hefði áhrif til hækkunar launa á almennum vinnumarkaði.

V.


    Í því sem hér hefur verið sagt er ekki að neinu leyti verið að réttlæta samningsgerð fjármálaráðherra við BHMR í maí 1989. Sá samningur var áreiðanlega afar óskynsamlegur. Ráðherrann, sem þann samning gerði, ætti raunar fyrir löngu að hafa axlað ábyrgð á honum með því að segja af sér. En sá samningur var gerður af aðila sem til þess hafði formlegt vald og við það situr. Þar með hafði þessi launþegahópur öðlast þau réttindi sem þar var kveðið á um.
    Það er því miður of sjaldgæft í íslenskum stjórnmálum að sjá stjórnmálamenn standa vörð um þau grundvallarréttindi sem eru okkur öllum þýðingarmest þegar okkur hefur tekist að þurrka skammsýnisglýjuna úr augunum. Nú hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins gert þetta. Ég er viss um að þar hvílir aðeins trúnaður við meginreglur að baki.


Fylgiskjal IV.


Hjörleifur Guttormsson:


Vanhugsuð bráðabirgðalög.


(DV, 13. ágúst 1990.)



    Bráðabirgðalögin sem sett voru 31. júlí sl. marka spor í þjóðmálabaráttunni hér á landi og eiga eftir að verða umdeild lengi. Ástæðan er ekki sú að lagasetningin sem slík sé merkileg heldur miklu fremur aðdragandi hennar og þau viðhorf sem fram voru borin og talin voru réttlæta þetta skref.
    Lögin eiga eftir að koma fyrir Alþingi til staðfestingar. Ekki er ástæða til að ætla annað en þar verði mikill meiri hluti með samþykkt þeirra. Í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar mæltu aðeins tveir þingmenn, Geir Gunnarsson og sá sem þetta ritar, gegn setningu bráðabirgðalaganna. Stuðningur Sjálfstæðisflokksins við lagasetninguna hefur ekki farið leynt og aðeins einn þingflokkur, Kvennalistinn, hefur í heild lýst andstöðu við bráðabirgðalögin. Það ætti þannig að verða létt verk fyrir ríkisstjórnina að fá þennan gjörning sinn stimplaðan af komandi Alþingi.
    Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Bakgrunnur setningar bráðabirgðalaganna var mjög sérstæður og rökin fyrir þeim langt frá því að vera einhlít. Fjölmargar spurningar um grundvallaratriði og leikreglur í samfélaginu hljóta að vakna þegar litið er á málavexti. Niðurstaðan í skoðanakönnun DV í aðdraganda lagasetningarinnar, þar sem svörin voru nánast 50:50, bendir til þess að efasemdir um réttmæti lagasetningarinnar hafi verið langtum meiri meðal almennings en látið var í veðri vaka.

Snýst ekki um hlutaskiptin.


    Í áróðrinum fyrir lagasetningu var spilað ótæpilega á þá strengi að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn væru nógu vel haldnir fyrir og ekki væri verjandi að hleypa þeim fram úr öðrum með sérstakar hækkanir. Um þetta mætti margt segja. Auðvelt er að sýna fram á að launamunur í þjóðfélaginu er óhæfilega mikill og þeir sem minnst bera úr býtum eru á ósæmilega lágum kjörum. En um það snýst ekki þetta mál, nema menn telji rétt að taka upp þá stefnu að kveða á um kaup og kjör í landinu með lagasetningu í stað frjáls samningsréttar.
    Einnig er rétt að hafa í huga að launamunurinn er ekki fyrst og fremst milli fólks í einstökum heildarsamtökum, hvort sem þau heita ASÍ, BSRB eða BHMR, heldur innbyrðis innan þeirra og byggist á mismunandi umsömdum launaflokkum og ólíkum launakerfum. Í öllum þessum samtökum er að finna láglaunafólk og aðra sem eru langtum betur settir.
    Deilan um setningu bráðabirgðalaga nú varðar hins vegar grundvallarhagsmuni allra þessara samtaka, þ.e. spurninguna um frjálsan samningsrétt og hvort þau eigi að fallast á réttmæti þess að ríkisvaldið ógildi gerða samninga. Þótt talsmenn ASÍ og BSRB telji sig kannski hafa allt á þurru nú að því er varðar sína samninga kemst fólk í þessum samtökum ekki hjá því að íhuga hvert fordæmisgildi slík inngrip hafi.
    Talsmenn Vinnuveitendasambandsins mæla fagurlega þessa stundina að orð skuli standa gagnvart ASÍ en ætli þeim þyki nokkuð lakara að eiga hlut að því að knýja fram bráðabirgðalög í kjaramálum sem rökstudd eru með vísan í efnahagsleg markmið ríkisstjórnar? Það er ekki langt í næstu ríkisstjórn og ætli sú hin sama telji sig ekki eiga eitthvað ógert í baráttu við verðbólgu og við að tryggja efnahagslegan stöðugleika?

Valdhroki hefnir sín.


    Ríkisstjórnin missteig sig alvarlega í samskiptum sínum við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Í fyrsta lagi stóð hún að samningi við BHMR sem fól í sér ákvæði um „að verði almennar breytingar á launakjörum annarra launþega ... geta aðilar krafist breytingar á launaliðnum sem því nemur“. Í öðru lagi hafðist hún ekki að þegar ASÍ og VSÍ gerðu sinn þjóðarsáttarsamning í vetur leið. Í þriðja lagi tilkynntu ráðherrar einhliða 12. júní sl. að þeir ætluðu ekki að standa við ákvæði samnings síns við BHMR að því er varðaði 5. gr. hans varðandi launabreytingar 1. júlí. Í framhaldi af málshöfðun kom síðan samhljóma dómsorð Félagsdóms 23. júlí sl. svohljóðandi:
    „Af orðalagi 6. mgr. 5. gr. er ljóst að ákvæðið mælir fyrir um greiðslur ef framkvæmd kjarasamanburðarins dregst fram yfir 1. júlí 1990. Verða hin tilvitnuðu ákvæði ekki skýrð á annan veg en þann að stefnda beri að greiða félagsmönnum stefnanda upp í hækkun sem þeir kunna að eiga rétt á samkvæmt kjarasamanburðinum þar sem honum var ekki lokið 1. júlí 1990.“
    Af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra við þessum dómi mátti ætla að þeir hefðu misskilið ótvíræð ákvæði eigin samnings eða þá að ekki hafi verið ætlunin að standa við hann.

Bráðabirgðalög ofan í dóm.


    Það er ofan í þessi samskipti og dómsorð sem ríkisstjórnin nú setur bráðabirgðalög. Hún hefur tapað máli fyrir dómi en taldi sig ekki geta unað því, m.a. með vísun til yfirlýsingar atvinnurekenda um hliðstæða hækkun til sinna viðsemjenda og verðhækkanir og gengislækkun í kjölfarið.
    Samningaumleitanir, sem fram fóru milli BHMR og fjármálaráðherra í nokkra daga, leiddu í ljós að forustumenn BHMR voru reiðubúnir að taka ákvæði 15. gr. kjarasamnings síns um víxlhækkanir, byggðar á samningum annarra samtaka, til endurskoðunar, en töldu sig ekki hafa umboð til að falla frá launahækkun frá 1. júlí samkvæmt gildandi samningi. Samningaumleitanir fóru fram í skugga umræðu innan ríkisstjórnarinnar um báðabirgðalög og við þær aðstæður voru hverfandi líkur á að tækist að leysa málið með samkomulagi.
    Innan ríkisstjórnar voru uppi mjög harðar kröfur frá samstarfsaðilum Alþýðubandalagsins um lagasetningu. Fyrsta tillaga forsætisráðherra gerði ráð fyrir að binda allt í hólf og gólf á vinnumarkaði með lögum fram á haust 1991, einnig þá sem nú hafa lausa samninga. Niðurstaðan er mildari á pappírnum en leiðir að sama marki.

Brýnt að endurvekja traust.


    Ljóst er að mikill trúnaðarbrestur er orðinn milli háskólamenntaðra starfsmanna í þjónustu ríkisins og áður viðsemjenda þeirra. Forusta BHMR hefur boðað hörð viðbrögð gegn bráðabirgðalögunum og einnig samtök kennara. Samskipti þessara aðila við viðsemjanda sinn, ríkið, hafa verið erfið um árabil og deilur leitt til verulegs tjóns, ekki síst í starfi skólanna. Þannig hafa þeir sem síst skyldi, börn og nemendur, orðið fyrir barðinu á langvarandi erjum ríkisins við starfsmenn sína.
    Þetta er óviðunandi ástand og löngu hætt að vera einkamál einstakra hagsmunasamtaka. Það skiptir t.d. foreldra og nemendur afar miklu að góður starfsandi og samfella sé í skólastarfi. Þróun atvinnulífs hér sem annars staðar byggist í vaxandi mæli á rannsóknum sem að hluta til fara fram í ríkisstofnunum.
    Það er því brýnt að skaplegt andrúmsloft og bærilegt traust skapist milli handhafa ríkisvaldsins og starfsmanna í ríkisþjónustu, einnig þeirra sem aflað hafa sér háskólamenntunar. Ekki er ástæða til að ætla að háskólamenntað fólk sé að jafnaði óvægnara sem viðsemjendur um kaup og kjör en ýmsir aðrir hópar í þjóðfélaginu. Átökin að undanförnu og einhliða rifting ríkisins á gerðum samningum eru hins vegar ekki til þess fallin að efla traust og ýta undir sanngirni.
    Verkefni Alþingis á að mínu mati ekki að vera að blanda sér í þegar gerða samninga á vinnumarkaði. Löggjafinn hefur önnur ráð til að jafna kjör í landinu ef vilji er fyrir hendi.


Fylgiskjal V.


Fréttatilkynning frá BSRB.


(3. ágúst 1990.)



    BSRB harmar að ríkisstjórnin og Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna skuli ekki hafa leyst ágreiningsefni sín í milli með samningum. BSRB ítrekar þá afstöðu bandalagsins að kjarasamningum beri ekki að skipa með lagaboði og lýsir því fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni.
    Í þeim deilum, sem risið hafa síðustu daga, hefur BSRB lagt áherslu á að í einu og öllu verði staðið við kjarasamninga BSRB jafnframt því sem bent hefur verið á að það væri ekki ásættanlegt fyrir félagsmenn BSRB að félagsmenn annarra samtaka fengju sjálfkrafa allar hækkanir sem BSRB semdi um, en sætu hins vegar einir að hækkunum sér til handa. BSRB minnir á að allt launafólk hefur notið góðs af kaupmáttartryggingum og öðrum efnahagslegum ávinningum sem felast í þeim kjarasamningum sem BSRB og meginþorri íslensks launafólks gerði sl.vetur. Ljóst er að komi víxlverkunarákvæði kjarasamninga til framkvæmda eru samningsbundnar verðlagsforsendur samninganna brostnar og þar með sú kaupmáttartrygging sem kjarasamningur BSRB byggir á. Af þessum sökum hefur BSRB lagt áherslu á að þessi víxlverkunarhnútur yrði leystur með samkomulagi.



Fylgiskjal VI.


Um stefnu fyrir bæjarþingi.


(9. október 1990.)



    Fimmtudaginn 4. október sl. var lögð inn stefna fyrir bæjarþingi Reykjavíkur vegna eins félagsmanns úr aðildarfélögum BHMR til kröfu á þeim 4,5% sem afnumin voru með bráðabirgðalögunum frá 3. ágúst sl.
    BHMR hefur áður sent fjármálaráðherra „áskorunarbréf“ um að inna þessa greiðslu af hendi en fjármálaráðherra hefur ekki sinnt því.
    BHMR hefur óskað eftir því við fjármálaráðherra að niðurstaða í þessu einstaklingsmáli hafi fordæmisgildi fyrir alla félagsmenn sem heyra undir samninginn. Fjármálaráðherra hefur enn ekki svarað því.

Lagarökin í þessu máli eru m.a. eftirfarandi:
    BHMR telur að bráðabirgðalögin brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands í fjórum greinum:
     Samtökin telja að setning laganna brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um þrískiptingu valdsins. Lögin voru sett í þeim tilgangi að ómerkja dóm sem æðsta dómsvald hafði fellt.
     Samtökin telja að lögin stríði gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar sem eru í 67. gr. hennar. Með lögunum er hluti af launum afmarkaðs hóps þjóðfélagsþegna gerður bótalaust upptækur.
     Samtökin telja lögin brjóta gegn 73. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um félagafrelsi. Þegar viðsemjandi beitir sér fyrir einhliða afnámi samnings er í raun og veru verið að kippa stoðunum undan starfsemi stéttarfélaga. Þar með er verið að svipta launamenn þeim rétti til frjálsrar félagastarfsemi sem stjórnarskránni er ætlað að tryggja.
     Alþingi ræddi öll tilvik þessa máls í vetur og þar með einnig möguleikann á lagasetningu. Samtökin telja þess vegna að heimild til setningar bráðabirgðalaga skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki verið fyrir hendi.



Fylgiskjal VII.


Þórarinn V. Þórarinsson:


Bréf Vinnuveitendasambandsins til Friðriks Sophussonar.


(5. desember 1990.)



    Sem svar við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um skilning Vinnuveitendasambands Íslands á samhengi áður boðaðra skattaáforma ríkisstjórnarinnar við endurnýjuð sameiginleg markmið aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar í verðlagsmálum vill undirritaður láta eftirfarandi koma fram.
    Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga ASÍ og BSRB við vinnuveitendur og fjármálaráðuneyti, sem lokið var 24. nóvember sl., var af hálfu allra aðstandenda þessara samninga farið rækilega yfir forsendur og horfur fyrir síðari hluta samningstímabilsins. Í því samhengi var m.a. sett niður ný og sameiginleg verðlagsspá sem fjármálaráðherra staðfesti fyrir hönd ríkisstjórnar að endurspeglaði sameiginleg markmið sem ríkisstjórnin muni vinna að. Jafnhliða kom fram að hugsanlegum breytingum á sköttum verði hagað þann veg að sem minnst áhrif hafi á verðlag og samkeppnisstöðu.
    Það er mat hagfræðinga sem að þessu máli unnu að nýir óbeinir skattar eða hækkun kostnaðarskatta rúmist ekki innan þeirra verðlagsmarkmiða, sem samkomulag varð um, né heldur markmiða um samkeppnisstöðu. Um það er fráleitt ágreiningur. Hitt er þó ljóst að samkomulag um framangreind markmið þurfa ekki nauðsynlega að útiloka breytta samsetningu opinberra gjalda, svo fremi heildarskattlagningin sé óbreytt og breytingin raski hvorki verðlags- eða samkeppnisforsendum. Umræða um löngu liðna atburði á borð við niðurfellingu virðisaukaskatts á bókum eða væntanlega lækkun jöfnunargjalds hefur hér enga þýðingu því áhrif þessara breytinga á verðlag eru ýmist komnar fram eða ráð fyrir þeim gert á fyrri stigum.



Fylgiskjal VIII.


Guðmundur Magnússon:


Þjóðarsáttin: Er allt sem sýnist?


(Spástefna Stjórnunarfélags Íslands, 3. desember 1990.)



    Þjóðarsátt, þ.e. víðtækt samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins, annarra hagsmunasamtaka og ríkisstjórnar, getur komið að gagni um stundarsakir. Þjóðarsátt á tímum verðbólgu og efnahagsþrenginga getur slegið á væntingar um vaxandi verðbólgu og veitt svigrúm til viðnámsaðgerða. Hin svonefnda þjóðarsátt nú uppfyllir þessi skilyrði að mörgu leyti. Hún hefur kostað stundarfórnir sem menn vonast til að auki framtíðarhag. En hún hefur líka kostað missætti með friðkaupum við einn hóp á kostnað friðrofa við annan hóp í þjóðfélaginu. Framkvæmdinni fylgir einnig aukinn kostnaður, svo sem í eftirliti, málaferlum og ferðum milli banka.
    En hefur svigrúmið til þess að eyða verðbólgu og bæta lífskjör verið notað sem skyldi og er allt sem sýnist?
    Áður en ég svara þessu skulum við líta á eftirfarandi atriði:
     Hver eru viðhorfin í ríkisfjármálum?
     Hvað er að gerast í launamálum?
     Hvaða vísbendingar gefa peningamagn og vextir?
     Nokkrar sjálfsblekkingar og villuljós.
    Að lokum verða dregnar niðurstöður um hvað kraumar undir í þjóðarsáttinni.

1. Þrálátur ríkishalli og skuldbindingar utan fjárlaga.
    Fjárhagsstaða hins opinbera og viðhorfin í fjármálum ríkis og sveitarfélaga ráða miklu um framvindu verðbólgu, vaxta og kaupkrafna, svo og um væntingar manna og ákvarðanir. Æskilegast væri að fjárlögin gæfu raunhæfa mynd af stöðu ríkisfjármála hverju sinni þannig að þjóðarsátt væri reist á raunhæfum forsendum í þeim efnum. Því miður eru fjárlögin feluleikur í ýmsum atriðum. Hvort tveggja er að freisting er fyrir fjármálaráðherra að fresta eftir megni greiðslum þar til eftir áramót til þess að koma vel út í samanburði við fyrirrennara sína. En það er ekki einungis halli á fjárlögum heldur eru utan fjárlaga miklar skuldbindingar sem koma munu til greiðslu á næstu árum. Til að gefa hugmynd um hvað átt er við skulum við líta á eftirfarandi töflu:

Skuldbindingar utan fjárlaga.
     Vanreiknuð fjárþörf í fjárlagafrumvarpi, svo sem byggingarsjóða og LÍN.
     Lífeyrisskuldbindingar.
     Áfallnir vextir.
     Skuldir við sveitarfélög.
     Skuldir vegna orkumála.
     Skuldir vegna yfirtöku lána Útvegsbankans.
     Skuldir ýmissa stofnana í B-hluta sem falla munu á ríkissjóð.
     Ýmsar skuldbindingar Hlutafjársjóðs.
     Ýmsar ábyrgðir.
     Sjóðir sem settir eru á laggirnar til að fela ríkisútgjöld.
     Þjóðarbókhlaða.
     Skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.

    Auk þess eru ýmiss konar útgjöld sem eru færð á móti tekjum og koma ekki fram í fjárlögum sem útgjöld, svo sem sértekjur stofnana og skattafslættir.
    Hér skulu ekki settar fram tölur um það hvað er utan fjárlaga eða um þá liði sem eru nettófærðir. Hins vegar er greinilegt að undiralda ríkisútgjalda er þung.
    Verði ríkisútgjöld skorin niður minnkar tekjuþörfin að sama skapi. Verði hins vegar að hækka skatta þarf að taka tillit til viðbragða launþegasamtaka og hugsanlegrar rýrnunar skattstofns vegna letjandi áhrifa skattahækkunar á vinnuframboð.

2. Launahækkanir í sjávarútvegi.
    Þjóðarsáttin er afstætt hugtak að því er varðar tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Þannig felur hún í sér að 4,5% hækkun eins hóps er þjóðhættuleg en 68% hækkun annars hóps er allt í lagi. Mér telst svo til að meðallaun sjómanna hafi hækkað um 25% á tímum þjóðarsáttar og sumra þeirra er sigla með aflann um 68% (hugsanlega með einhverri skerðingu vegna olíuverðshækkunar). (Rétt er að taka fram að ég er ekki aðili að BHMR!) Þar að auki hafa nokkrir fengið tugi milljóna við úthlutun kvóta. Þessar hækkanir í sjávarútvegi bera sem betur fer vott um bættan efnahag þjóðarinnar. En hann sýnir jafnframt að það kraumar undir þjóðarsáttinni.

3. Aukning peningamagns og hækkun vaxta.
    Rétt er að athuga hvort betri hagur útvegsins setji ekki spor sín á peningamarkaðinn, en utanríkisviðskiptin eru aðaluppspretta aukins peningamagns. Einnig er þess að vænta að þrálátur ríkishalli valdi vaxtahækkun á markaðnum.
    Hjálagt línurit sýnir að vöxtur peningamagns hefur verið stöðugur eða yfir 20% undanfarið ár. Á sama tíma dró úr verðbólgu í byrjun en hún fer nú aftur vaxandi. Miðað við samband verðbólgu og peningamálastærða er líklegt að bilið milli þessara stærða minnki. Þetta þýðir að verði ekki dregið úr aukningu peningamagns mun verðbólga aukast.

4. Sjálfsblekking.
    Það sætir furðu hve menn eru auðtrúa í sambandi við nokkra liði þjóðarsáttar. Ég ætla að taka nokkur dæmi.
    Þau fyrstu eru reyndar frá fyrri þjóðarsáttinni 1986. Þá var samið um lækkun aðflutningsgjalda af bifreiðum. Tekjutap ríkissjóðs varð miklu meira en áætlað var og m.a. hjálpaði verkalýðshreyfingin til við að menn gætu keypt lúxusjeppa á hagstæðari kjörum en áður. Hinir tekjulægri urðu að slá verðtryggð lán til að geta náð út kjarabótinni og kvörtuðu svo yfir vöxtunum. Nemandi minn reiknaði út að kjarabótin sem tollalækkunin á bílum átti að skila hafi að mestu farið í kostnað og eru þá ótaldar ófarir ríkissjóðs sem enn er glímt við. Í sömu kjarasátt var einnig samið um skattlaust ár og það hljóð heyrðist úr horni vinnuveitenda að þetta yrði til þess að slá á verðbólguna. Þetta átti að gerast með því að vinnuframboð ykist svo mikið á skattlausa árinu og framleiðsla að fyrirtækin gætu lækkað verð. En það var greinilega reiknað með því að aukinn kaupmáttur yrði ekki til að örva eftirspurn enn meira en framboð enda fór sem fór.
    Þriðja dæmið eru samningar launþega um auknar niðurgreiðslur vöruverðs af hálfu ríkissjóðs. Einhver verður að taka á sig auknar skattálögur og vexti af lánum vegna þessa í framtíðinni. Því er um hæpna kjarabót að ræða. Þetta lækkar verðlag en ekki verðbólgu.
    Fjórða dæmið er samningar um vaxtastig. Þetta er skiljanlegt með tilliti til þess að vextir af húsnæðislánum hækki ekki vegna hagsmuna launþega. En þar til nýlega hefur þetta ekki átt við um bankavexti að sama skapi. Þetta er annars vegar vegna þess að launþegar eiga tiltölulega meira af sparifé í bönkum og sparisjóðum en þeir skulda þeim. Hins vegar er sá misskilningur furðu útbreiddur að hærri vextir auki verðbólgu. Í þessu sambandi gleymist tvennt. Annað er það að vextir á frjálsum markaði ákveðast af bæði framboði og eftirspurn, rétt eins og það er ekki annað blaðið á skærunum sem klippir þráðinn heldur bæði. Hærri vextir valda vissulega meiri rekstrarkostnaði fyrirtækja en minni eftirspurn þeirra eftir fjárfestingarfé. Þar að auki verður framboð sparifjár meira. Þetta er líklegra til þess til lengdar að lækka vexti og vöruverð. Hitt er að allar athuganir sýna að til lengdar fylgjast að lágir vextir og mikil verðbólga og öfugt. Þetta er einfaldlega vegna þess að lágir vextir örva eftirspurn eftir lánsfé en draga úr framboði þess. Aukið peningamagn veldur verðhækkun og glæðir væntingar um vaxandi verðbólgu.

5. Arfinn og þjóðarsáttin.
    Við höfum orðið vitni að því hvernig miðstýrð hagkerfi hafa hrunið í Austur-Evrópu og vitum hvernig önnur ramba á barmi örvæntingar. Þar átti þó að ríkja þjóðarsátt í einhverjum skilningi. Ég nefni þetta ekki af því að ég telji núverandi þjóðarsátt vera í anda skipulagshyggju eða alræðis heldur vegna þess að hún gengur þvert á lögmál markaðarins. Þar halda fyrirtæki og launþegar hver öðrum í skefjum með frjálsri samkeppni þar sem frelsi eins takmarkast af frelsi annars. Markaðskerfið getur heldur ekki gegnt hlutverki sínu ef verð á sumum vörum fá ekki að hækka og önnur að lækka þannig að boð séu send til neytenda og framleiðenda um hvað er hagkvæmast að kaupa og selja hverju sinni.
    Eins og ég gat um hér að framan ruglast menn iðulega á lækkun verðlags og verðbólgu. Lækkun verðlags felst t.d. í því að greiða niður vöruverð. Verð getur lækkað, þ.e. vísitala eða ferill hliðrast til, en verðbólgan heldur sínu striki. Það má líkja þessu við arfann. Það er ekki nóg að klippa hann, því að hann vex alltaf aftur ef hann er ekki tekinn upp með rótum.
    Í þjóðarsáttinni hefur arfinn verið klipptur en rótin er enn eftir.




REPRÓ Í PRENTSMIÐJU




12 mánaða breytingar í peningamagni og verðlagi.



REPRÓ Í PRENTSMIÐJU




Breytingar nokkurra hagstærða í tvo áratugi (%).



Fylgiskjal IX.


Seðlabanki Íslands, hagfræðideild:


Hugsanleg verðbólguáhrif afnáms bráðabirgðalaga.


(30. nóvember 1990.)



    Forsætisráðherra hefur óskað þess að Seðlabankinn meti verðbólguáhrif þess að bráðabirgðalögin, sem sett voru gegn launahækkunum til aðildarfélaga BHMR sl. sumar, verði numin úr gildi.
    Erfitt er á þessu stigi að ákveða forsendur slíkra útreikninga. Endanlegar afleiðingar þess að nema bráðabirgðalögin úr gildi velta m.a. á viðbrögðum aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnar og Seðlabankans. Svo mörg túlkunaratriði og óvissa um nýja samningsgerð koma hér til álita að ekki getur orðið um eiginlega verðbólguspá að ræða. Við slíkar aðstæður virðist eðlilegast að skoða nokkur dæmi um hugsanlega framrás atburða sem hægt er að nota til viðmiðunar án þess að endanleg afstaða sé til þess tekin hvert þessara dæma sé líklegast til að verða að veruleika. Í þessu sambandi eru gerðir eftirfarandi fyrirvarar:
    1. Hagfræðideild getur enga ábyrgð tekið á túlkun kjarasamninga eða bókana um afstöðu aðila til viðbótarsamninga.
    2. Við ríkjandi efnahagsástand hlýtur að teljast fásinna að stefna að gengislækkun. Dæmi byggt á þeirri forsendu þjónar þeim tilgangi einum að sýna á hvern hátt gengisfelling mundi leiða til enn meiri verðbólgu, ef í slíkt óefni væri komið.

Þrjú dæmi .


    Eftirfarandi dæmi miðast öll við að bráðabirgðalögin frá því í sumar verði felld, en greinir á hvað varðar viðbrögð annarra launþegasamtaka og VSÍ og fyrirstöðu í gengismálum. Gert er ráð fyrir að laun BHMR hækki frá áramótum að telja, enda skiptir afturvirkni ekki máli við mat framleiðslukostnaðar og verðlags.
    1. Fyrsta dæmið byggir á þeirri forsendu að VSÍ standi ekki við fyrirheit um almennar launahækkanir til jafns við BHMR. Í kjarasamningi ASÍ/VSÍ eru engin afdráttarlaus ákvæði um það að svo þurfi að vera. Því má túlka yfirlýsingar VSÍ sem svo að þær séu fyrst og fremst til þess ætlaðar að beita stjórnvöld þrýstingi til að halda bráðabirgðalögunum áfram í gildi. Í ljósi þess hve afdráttarlausar þessar yfirlýsingar hafa verið er þó ljóst að VSÍ hefur sett sig í erfiða stöðu ef bráðabirgðalögin verða felld. Í þessu tilfelli mætti hugsa sér að 4,5% viðbótarhækkun launa komi í júní í stað verðbóta á laun. Gengi er haldið föstu.
    2. Annað dæmi byggir á þeirri forsendu að VSÍ standi við gefin fyrirheit um almennar launahækkanir eina umferð þannig að laun hækki almennt um 4,5% 1. janúar, en að öðru leyti standi kjarasamningurinn frá því í febrúar óbreyttur. Í þessu tilfelli mundu verðbætur á laun í júní falla niður, enda mundi launahækkunin í janúar þegar fullnægja kaupmáttarákvæðum samningsins og unnt er að segja samningnum upp á þeim tíma.
    3. Þriðja dæmið byggir á sömu forsendum og dæmi 2, nema hvað reiknað er með 2% gengisfellingu í mars til þess að bæta stöðu útflutningsatvinnuveganna. Gengisfelling af þeirri stærðargráðu nægir til þess að ná svipuðu raungengisferli og gert var ráð fyrir við kjarasamningana í febrúar.

Niðurstöður.


    Þau dæmi, sem hér hafa verið rakin og byggja á mismunandi traustum forsendum, ber að líta á sem nytsamlegar viðmiðanir í umræðunni um hugsanleg verðbólguáhrif þess að fella bráðabirgðalögin en ekki spádóm.
    Dæmi 1 verður líklega að skoðast fremur óraunsætt í ljósi yfirlýsinga VSÍ þó að það standist lágmarksforsendur febrúarsamninganna. Verðlagsáhrif hækkunar til BHMR eru lítils háttar og 4,5% viðbótarlaunahækkun í júní nk. felur í raun í sér einungis 2,5 3% til viðbótar þeim hækkunum sem hefðu orðið hvort eð er. Þriggja mánaða árshækkun framfærsluvísitölu kæmist um skeið yfir 10% í ágúst og september og hækkun framfærsluvísitölu yfir árið yrði 1 2% meiri en í grunnspánni (þ.e. síðustu verðlagsspá SÍ). Hækkun lánskjaravísitölu yrði rúmlega 10% yfir árið, eða um 2% meiri en í grunnspánni. Þriggja mánaða hækkun hennar mundi um tímabil ná tæplega 18% árshraða.
    Dæmi 2 breytir í raun litlu frá dæmi 1 ef árið er skoðað í heild. Ástæðan er sú að 4,5% launahækkun í ársbyrjun mundi líklega gera rauða strikið í maí óvirkt þar sem það launastig sem verðbótum í júní er ætlað að tryggja væri þá þegar komið fram. Meginbreytingin felst í því að launabreytingar og þar með verðlagsbreytingar koma fram fyrr á árinu.
    Dæmi 3 gefur um 9% hækkun framfærsluvísitölu yfir árið. Þriggja mánaða árshækkun vísitölunnar yrði mest um 11,3% í apríl og meiri en 10% í fjóra mánuði samfleytt.
    Það er vissulega hægt að hugsa sér mörg önnur tilbrigði, misjafnlega háskaleg, við þá atburðarás sem hér er dregin fram. Til þess að hækkun verðlags nái 20% yfir árið þyrfti t.d. víxlhækkun launa um 4,5% annan hvern mánuð fram yfir mitt ár að viðbættu mánaðarlegu gengissigi upp á u.þ.b. 1,5% á mánuði. Að VSÍ mundi gangast inn á slíkt er að mati hagfræðideildar algerlega óhugsandi þar sem engin afdráttarlaus ákvæði eru um það í kjarasamningum VSÍ/ASÍ að svo þurfi að vera. Gildi þess að halda í þjóðarsáttina væri þá að engu orðið og allt til þess vinnandi að láta hana springa. Svo algert fyrirstöðuleysi af hálfu VSÍ samræmist því tæpast þeirri grundvallarforsendu allra hagvísinda að efnahagseiningarnar stjórnist af skynsamlegri ákvarðanatöku. Það er því mat hagfræðideildar að skynsamleg túlkun kjarasamninga ASÍ/VSÍ feli ekki í sér vá óðaverðbólgu.
    Tilgangslaust er að reikna dæmi af þessu tagi langt fram í tímann því slík þróun hlyti að kalla á alvarleg viðbrögð stjórnvalda, en möguleikar á tímasetningu og eðli þeirra eru margir. Tæknilega séð eru því lítil takmörk sett hversu hátt verðbólgustigið gæti orðið ef gefið er eftir á öllum vígstöðvum í nægilega langan tíma. Slíkir loftfimleikar í útreikningum hafa hins vegar ekkert hagnýtt gildi.

Þrjú dæmi um þróun framfærsluvísitölu.




Vísitölur.

Þriggja mánaða hækkun


                                  

á árskvarða.


    
Grunn-
Dæmi 1 Dæmi 2 Dæmi 3 Grunn- Dæmi Dæmi Dæmi
    
dæmi
dæmi

    Des.
148,9
148,9 148,9 148,9 6,0 6,0 6,0 6,0
    Jan.
150,1
150,1 150,1 150,1 8,2 8,1 8,1 8,1
    Febr.
150,9
151,0 151,3 151,4 7,4 7,7 8,5 9,0
    Mars
151,8
151,7 152,4 152,8 7,8 7,6 9,6 10,7
    Apríl
152,5
152,4 153,5 154,2 6,4 6,4 9,5 11,3
    Maí
153,3
153,4 154,7 155,5 6,5 6,4 9,4 11,1
    Júní
154,2
154,5 155,7 156,8 6,5 7,6 9,0 10,8
    Júlí
155,2
155,9 156,7 157,9 7,3 9,4 8,5 9,9
    Ágúst
156,2
157,3 157,6 158,9 7,9 10,6 7,8 9,0
    Sept.
157,1
158,5 158,5 159,8 7,9 10,7 7,3 8,0
    Okt.
158,0
159,6 159,4 160,7 7,3 9,8 7,0 7,4
    Nóv.
158,6
160,4 160,2 161,6 6,4 8,3 6,8 6,9
    Des.
159,2
161,2 161,1 162,4 5,5 6,8 6,8 6,6