Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 199 . mál.


Ed.

246. Frumvarp til laga



um búfjárhald.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI


Markmið og yfirstjórn.


1. gr.


    Tilgangur laga þessara er að tryggja vellíðan búfjár, góða meðferð og að það hafi ætíð nægilegt fóður og drykkjarvatn. Haga skal aðbúnaði búfjár í samræmi við þarfir þess og eðli.
     Tilgangur laganna er einnig að tryggja að við framleiðslu búfjárafurða sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé.

2. gr.


     Landbúnaðarráðherra hefur á hendi æðstu stjórn þeirra mála er lúta að meðferð búfjár og eftirliti með búfjárhaldi sem kveðið er á um í lögum þessum.
     Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitur, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé, svín og önnur dýr sem haldin verða til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.
    Með vörslu búfjár er í lögum þessum átt við að búfjáreigandi haldi því búfé sem varslan tekur til innan ákveðins afmarkaðs svæðis, en með lausagöngu búfjár að búfé geti gengið á annars manns land í óleyfi.

II. KAFLI


Takmörkun búfjárhalds.


3. gr.


    Sveitarstjórn er heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Slík samþykkt tekur gildi, þegar hún hefur verið staðfest af landbúnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum .

4. gr.


     Í samþykktum sveitarstjórna um búfjárhald má ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað við tiltekin svæði innan sveitarfélagsins. Í samþykktunum geta einnig verið ákvæði sem takmarka fjölda búfjár af hverri búfjártegund og fjölda búfjár einstakra búfjáreigenda.
     Í samþykktunum má kveða á um að búfjárhald sé óheimilt án leyfis, þar sem takmarka má fjölda búfjár hvers aðila. Slík leyfi skulu vera tímabundin og afturkallanleg með tilteknum fyrirvara. Ef í gildi eru leyfisákvæði fyrir tiltekna búfjártegund skv. 7. gr. geta leyfi samkvæmt þessum samþykktum ekki verið rýmri.
     Samþykktir skulu kveða á um að búfjáreigandi uppfylli skilyrði um aðstöðu fyrir bústofn sinn, fóðrun hans, vörslu og meðferð.

III. KAFLI


Varsla búfjár.


5. gr.


    Sveitarstjórnum, einni eða fleiri, samliggjandi sveitarfélaga, er heimilt, til að koma í veg fyrir ágang búfjár, að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins.
     Heimild þessi getur jafnt tekið til alls umdæmis viðkomandi sveitarstjórna eða afmarkaðs hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð almenn ákvæði um vörslu búfjár af hverri tegund þar sem einnig skal kveðið á um almennar reglur um framkvæmd þeirrar vörslu.

6. gr.


     Graðpeningi skal haldið í öruggri vörslu sem hér segir:
     Naut, 6 mánaða og eldri, allt árið.
     Hrútar og hafrar á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
     Graðhestar eða laungraðir hestar, 18 mánaða og eldri, allt árið. Óski hrossaræktarsamband og/eða sveitarstjórn eftir því getur ráðherra heimilað að færa aldursmörk að 12 mánaða aldri á viðkomandi svæði.
     Aðrar búfjártegundir en að framan greinir, allt árið.
    Sveitarstjórn skal hlutast til um að graðpeningur, sem ekki er í öruggri vörslu, sé handsamaður og afhentur hreppstjóra. Eigandi getur leyst til sín viðkomandi grip með greiðslu á áföllnum kostnaði. Við ítrekað brot skal graðhestur seldur á opinberu uppboði, en öðrum gripum slátrað og uppboðs - eða frálagsverð látið mæta áföllnum kostnaði.

IV. KAFLI


Aðbúnaður og meðferð búfjár.


7. gr.


    Landbúnaðarráðherra er rétt að gefa út reglugerð fyrir einstakar búfjártegundir þar sem nánar er kveðið á um atriði sem lúta að aðbúnaði og meðferð gripanna.
     Í slíkri reglugerð skulu vera ákvæði um gripahús, umhirðu gripa og eftirlit. Fyrir gripi sem ganga úti hluta ársins skal einnig kveðið á um eftirlit á þeim tíma.
     Í ákvæði um gripahús skal setja reglur um innréttingar, rýmisþörf gripa, loftræstingu, birtu í húsi, fóðurgeymslur, fóðrunarútbúnað og önnur atriði er lúta að velferð viðkomandi búfjártegundar.
     Í slíkri reglugerð er heimilt að kveða á um skráningu á vanhöldum og heilbrigði búfjár. Þar má einnig kveða á um aðrar tímasetningar fyrir talningu gripa af viðkomandi tegund en ákvæði 10. gr. segja til um.
     Þá er einnig heimilt að kveða á um leyfisveitingu til búfjárhalds í viðkomandi búgrein. Þar skal kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til leyfis til að halda búfé af viðkomandi tegund. Þar er einnig heimilt að kveða á um kröfur til reynslu og menntunar þeirra sem búfé halda.
     Í búgreinum, sem lúta framleiðslustýringu með takmörkun framleiðsluréttar, er heimilt að takmarka búfjárhald hvers búfjáreiganda í samræmi við leyfi hans til framleiðslu í viðkomandi grein. Slíka takmörkun má einungis setja í samvinnu við og með samþykki landssamtaka sem hafa að minnsta kosti 2 / 3 starfandi bænda í viðkomandi búgrein innan sinna vébanda. Séu slík búgreinasamtök ekki fyrir hendi skal afla samþykkis Stéttarsambands bænda áður en sett er reglugerð samkvæmt heimildum þessarar málsgreinar.
     Eftirlit með framkvæmd á þeim ákvæðum sem reglugerðir samkvæmt þessari grein kveða á um skal falið búfjáreftirliti sem kveðið er á um í 9. gr.

8. gr.


     Landbúnaðarráðuneytið skal beita sér fyrir því í samvinnu við Búnaðarfélag Íslands, viðkomandi búgreinafélag, yfirdýralækni og dýraverndarnefnd að fyrir hverja búfjártegund verði gefnar út leiðbeinandi reglur um sem flesta þætti er lúta að fóðrun, aðbúnaði, meðferð og heilbrigði búfjár af viðkomandi tegund. Tryggt skal að slíkar reglur séu endurskoðaðar reglulega í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.

V. KAFLI


Um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.


9. gr.


    Í hverju sveitarfélagi skal vera búfjáreftirlitsmaður, einn eða fleiri, sem hafi eftirlit með ásetningi búfjár, fóðrun og hirðingu. Sveitarstjórn ræður þá til starfa til fjögurra ára að loknum sveitarstjórnarkosningum hverju sinni. Til starfsins skal velja menn sem hafa haldgóða reynslu og þekkingu í fóðrun og meðferð búfjár. Heimilt er fyrir fleiri en eitt sveitarfélag að ráða sameiginlega búfjáreftirlitsmann (menn).
     Búnaðarsambönd hafa á hendi umsjón með búfjáreftirliti hvert á sínu svæði. Ráðunautur viðkomandi búnaðarsambands annast slíkt eftirlit eða aðili sem það tilnefnir. Skulu búfjáreftirlitsmenn á svæðinu leita úrskurðar hans í vafaatriðum um framkvæmd eftirlits.
     Eftirlit vegna ákvæða reglugerða skv. 7. gr. skal framkvæmd af búfjáreftirliti samkvæmt þessari grein.
     Héraðsdýralæknar skulu hafa eftirlit með þeim þáttum er snerta heilbrigði búfjár og tryggja hollustu afurða þess.

10. gr.


     Búfjáreftirlitsmanni er skylt að fara minnst tvær ferðir um umdæmi sitt á hverjum vetri til eftirlits með fóðrun og ásetningi búfjár. Skal fyrri ferðinni lokið fyrir 15. nóvember og hinni síðari fyrir lok aprílmánaðar. Skal hann sannreyna tölur um fjölda ásetts búfjár og líta eftir húsakosti þess, fóðrun og hirðingu. Ákvæði reglugerða skv. 7. gr. geta samt mælt fyrir um aðrar dagsetningar fyrir skráningu á fjölda búfjár af viðkomandi tegund. Gróffóðurbirgðir hjá hverjum búfjáreiganda skulu mældar og gæðin metin.
     Þar sem gripir eru í hagagöngu skal eigandi ætíð tilgreina aðila innan viðkomandi sveitarfélags, samþykktan af sveitarstjórn, sem er ábyrgur fyrir eftirliti og umsjá með þeim gripum.
     Niðurstöður hausteftirlits um fjölda búfjár, fóðurforða, fyrningar og fóðurþörf skráir búfjáreftirlitsmaður á eyðublað sem Búnaðarfélag Íslands lætur í té ásamt reglum um framkvæmd forðagæslu. Skýrslu þessa skal senda Búnaðarfélagi Íslands strax að lokinni haustskoðun. Búnaðarfélag Íslands annast úrvinnslu á niðurstöðum um búfjárfjölda og fóðurforða og hefur yfirstjórn með framkvæmd forðagæslu. Skýrslur þessar skulu vera heimilar til afnota Framleiðsluráði landbúnaðarins, Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins og öðrum opinberum aðilum að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
     Telji landbúnaðarráðherra ástæðu til getur hann ákveðið sérstaka talningu búfjár.

11. gr.


     Þegar að lokinni skoðun skal búfjáreftirlitsmaður bera niðurstöður sínar undir eftirlitsmann búnaðarsambands. Komi í ljós að búfjáreiganda skorti hús eða fóður fyrir fénað sinn, vanfóðri hann eða vanhirði, skal búfjáreftirlitsmaður tilkynna það sveitarstjórn þegar í stað. Er þá sveitarstjórn skylt að aðvara þegar þann er hlut á að máli og gefa honum einnar viku frest til úrbóta. Hafi hann að þeim tíma liðnum ekki gert þær ráðstafanir, sem sveitarstjórn og eftirlitsmaður búnaðarsambandsins telja fullnægjandi, ber sveitarstjórn að útvega honum fóður, ráðstafa fénaði hans til fóðrunar eða lóga ef ekki er annarra kosta völ.
     Búfjáreigandi, er hlut á að máli, ber allan kostnað af þessum ráðstöfunum. Skylt er sýslumanni að veita sveitarstjórn stuðning við þessa framkvæmd ef með þarf.

12. gr.


     Búfjáreftirlitsmaður skal launaður af sveitarsjóði.
     Til að standa undir kostnaði við framkvæmd forðagæslu og búfjáreftirlits er sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald af búfjáreigendum sem getur verið fast grunngjald auk gjalds sem ákvarðast af fjölda búfjár af hverri tegund. Gjald þetta skal þó ekki lagt á búfjáreigendur sem halda búfé á lögbýli og eiga þar lögheimili.
     Landbúnaðarráðherra skal gefa út hámarksgjaldskrá fyrir þessa þjónustu.



VI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


13. gr.


    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum og samþykktum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum eða fangelsi, ef miklar sakir eru. Hafi búfjáreigandi gerst sekur um illa meðferð á skepnum skal hann sviptur leyfi til að eiga eða halda búfé. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

14. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi 13., 19., 31. 33., og 38. gr., svo og IX. X. og XI. kafli búfjárræktarlaga, nr. 31 24. apríl 1973, og lög nr. 57 25. maí 1989, um breytingu á þeim lögum, lög nr. 44 23. maí 1964, um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum, og lög nr. 38 23. maí 1980, um breyting á þeim lögum.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við setningu nýrra laga um búfjárrækt á Alþingi vorið 1989 kom fram sá ásetningur að sett yrðu sérstök lög um búfjárhald. Hinn 1. nóvember 1989 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til þess að hefja undirbúning slíkrar lagasetningar. Í nefndina voru skipaðir Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur, formaður, Ólafur R. Dýrmundsson ráðunautur og Sigurður Sigurðarson dýralæknir.
    Nefndin yfirfór búfjárræktarlög frá árinu 1973 með tilliti til þeirra ákvæða laganna sem ekki voru tekin til endurskoðunar við setningu laga um búfjárrækt í maí 1989. Þau atriði, sem hér um ræðir, eru í fyrsta lagi kaflinn um forðagæslu, auk ákvæða sem lúta að lausagöngu búfjár. Varðandi lausagöngu ber að vekja athygli á að þar er um að ræða tvenns konar ákvæði, í fyrsta lagi atriði sem lúta að lausagöngu graðpenings sem gengur laus á beit hluta ársins (naut, hrútar, stóðhestar), í öðru lagi er um að ræða almenn ákvæði um lausagöngu beitarfénaðar mismunandi búfjártegunda.
    Önnur lög, sem komu til athugunar hjá nefndinni, eru lög um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum frá árinu 1964. Þar var einnig haft til hliðsjónar frumvarp til laga um búfjárhald í þéttbýli sem lagt var fyrir 105. löggjafarþing. Þessi löggjöf hefur verið á vegum félagsmálaráðuneytisins.
    Einnig hafa lög um dýravernd frá 1957 verið höfð til hliðsjónar, en í sambandi við þau mál hefur mikið verið stuðst við gögn nefndar sem skilaði drögum að endurskoðuðu frumvarpi um þau mál árið 1986. Þessi löggjöf er á vegum menntamálaráðuneytisins. Fulltrúar bæði félags - og menntamálaráðuneytis hafa verið í viðræðum við nefndina í þessu sambandi.
    Einnig hafa reglugerðir um búfjárhald fyrir einstakar búfjártegundir, sem hafa verið gefnar út eða verið í vinnslu hjá landbúnaðarráðuneytinu, verið til umfjöllunar og skoðunar í þessu sambandi.
    Nefndin leitaðist við að kynna sér þróun þessara mála í nálægum löndum. Gagna var m.a. aflað frá Danmörku, Svíþjóð, Vestur - Þýskalandi og Bretlandi. Í nálægum löndum hefur á síðustu árum átt sér stað mikil umræða um þessi mál og miklar breytingar verið gerðar á löggjöf. Innan Evrópubandalagsins fer fram mikið starf við samræmingu á slíkri löggjöf einstakra landa bandalagsins.
    Eitt helsta einkenni þess málaflokks, sem hér er til meðferðar og má raunar telja að gildi um alla þætti hans, er að þetta eru mál sem snúa mjög beint að hinum einstaka búfjáreiganda. Annað einkenni eru mjög breytilegar aðstæður frá einum stað til annars og hlýtur virk framkvæmd því að byggja mjög á ákvarðanatöku sem liggur sem næst viðkomandi. Þess vegna er gert ráð fyrir að ákvarðanataka í mjög mörgum atriðum, sem lúta að þessum málum, sé á hendi viðkomandi sveitarstjórna.
    Mismunur í mörgum þessum málum er einnig afar mikill á milli búgreina. Augljósustu skilin í mörgum málum liggja á milli þeirra tegunda sem nýta beit (geitur, hross, nautgripir og sauðfé) og þeirra sem ala mestan sinn aldur á húsi (alifuglar, kanínur, loðdýr og svín). Í öllum hugmyndum um nánari útfærslu á ákvæðum, sem lúta að búfjárhaldi, er því ljóst að munur á milli búfjártegunda er mikill og farsæl framkvæmd verður aðeins tryggð með vissu frumkvæði og með góðri samvinnu við forsvarsaðila viðkomandi búgreinar.
    Hvað varðar leyfi til búfjárhalds er ljóst að rök fyrir slíku geta verið nokkuð breytileg eftir búfjártegundum. Þess vegna er hér lagt til að slíkt leyfisform verði í meginatriðum bundið við einstakar búfjártegundir. Í reglugerðum þar um yrði þá nánar kveðið á um ákvæði sem fullnægja þyrfti til slíks leyfis. Eðlilegt virðist einnig að komi til slíkra ákvæða fyrir einstakar búfjártegundir verði gerður skýr greinarmunur á kröfum til þeirra aðila sem þegar stunda viðkomandi búgrein og þeirra sem ætla að taka hana upp.
    Einhver veigamestu rök fyrir slíkri leyfisveitingu er ákveðin þekking í viðkomandi búgrein, auk þess að fyrir hendi sé aðstaða sem tryggi búfénu viðunandi aðbúnað og fóður. Auk þess má einnig benda á vaxandi kröfur til einstakra búgreina um að þær valdi ekki óeðlilegri truflun á aðstöðu annarra þegna í næsta nágrenni (umhverfis - og mengunarkröfur). Ástæða er til að benda á að kröfur um lágmarksþekkingu á meðferð gripa verða hugsanlega brýnni í sumum greinum þar sem búfjáreign er að færast á hendur fjölmargra aðila sem hafa aldrei fyrr komist í snertingu við búfé. Í slíkum tilfellum er líklegt að hætta á vanfóðrun gripa og slæmri meðferð vegna hreinnar vankunnáttu vaxi.
    Í hreinum framleiðslugreinum eru rök fyrir auknum þekkingarkröfum annars eðlis. Þar gerir neytandinn sífellt auknar kröfur um gæði þeirrar vöru sem honum er boðin. Hraðfara tækniþróun í sumum greinum, sem leitt hefur til mikillar stækkunar á rekstrareiningum, gerir auknar kröfur til þekkingar þeirra sem búféð annast. Fari eitthvað úrskeiðis við slíkar aðstæður verða afleiðingarnar mun stórfelldari og alvarlegri en áður þekkist. Sérhæfingin gerir því auknar kröfur til framleiðenda um að standa að framleiðslu með alla tiltæka þekkingu að vopni.
    Í þessu sambandi er rétt að draga fram mismun á mjólkur - og kjötframleiðslu eins og hún er nú. Í mjólkurframleiðslu er mjög víðtækt framleiðslueftirlit samkvæmt reglugerð um mjólk og mjólkurvörur nr. 35/1986 þar sem m.a. er kveðið á um að fjósskoðunarvottorð dýralæknis sé ígildi starfsleyfis fyrir mjólkurframleiðandann. Í kjötframleiðslu er núna engu tilsvarandi eftirliti með aðstöðu framleiðenda til að dreifa. Hitt kann að vera íhugunarefni hvort ekki muni full ástæða til þess í sumum kjötframleiðslugreinum.
    Þá er hér einnig gert ráð fyrir að einstök sveitarfélög geti sett sér samþykktir um búfjárhald þar sem þau hafi heimild til að banna eða takmarka búfjárhald í einstökum greinum. Hér er hugmyndin að koma til móts við ákvæði núgildandi laga um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum. Ljóst er að slíkar samþykktir verða aðeins gerðar til takmörkunar á búfjárhaldi og aðeins þar sem brýnar ástæður eru til. Á þennan hátt má samt einnig ætla að einstök sveitarfélög gætu unnið að friðunaraðgerðum í tilteknum sveitarhluta ef aðstæður krefjast þess. Frumkvæði í þessum efnum er vafalítið best komið hjá sveitarstjórnun því að framkvæmdin hlýtur eðlilega að verða á hendi heimaaðila. Rétt er að vekja athygli á því að í sveitarfélögum þar sem búfjárhald snertir mikinn minni hluta íbúa er nauðsynlegt að tryggja samt rétt búfjáreigenda gagnvart atvinnurekstri sínum.
    Hér er gert ráð fyrir þeim möguleika að fyrir einstakar búgreinar verði settar reglugerðir sem skilgreini skýrt kröfur um ýmsa þætti í aðbúnaði og meðferð búfjár af viðkomandi tegund. Hér eins og áður eru viðhorfin og atriðin sem athyglin beinist að ákaflega breytileg frá einni búfjártegund til annarrar. Í sumum greinum eru slíkar aðferðir til stýringar í greinunum á ýmsan hátt mun eðlilegri heldur en kvóti á framleiðslu. Slíkar reglugerðir eru í raun að hluta þegar fyrir hendi eða á vinnslustigi í nokkrum greinum; loðdýrarækt, kanínurækt, alifuglaframleiðslu og svínarækt. Þessar reglugerðir eða reglugerðadrög eru aftur á móti núna byggðar á ýmsum breytilegum lögum. Um sumar þessar reglugerðir hafa einnig komið fram rökstuddar hugmyndir um þörf á endurskoðun þeirra. Eðlilegt sýnist að slíka vinnu verði á komandi árum hægt að byggja á heilsteyptri löggjöf sem nær til allra búgreina. Til að tryggja að slíkar reglur verði unnar á þann hátt að þær verði viðurkenndar og virtar er nauðsynlegt að við vinnu þeirra og frágang sé tryggður sem mestur og bestur aðgangur þeirra aðila sem málin varða mest, þ.e. bænda í viðkomandi búgrein. Því er gert ráð fyrir nánu samstarfi við viðkomandi búgreinafélög við vinnslu á þessum reglugerðum.
    Þá er bent á að mjög æskilegt væri að jafnhliða þessu frumvarpi kæmi til umfjöllunar breytingar á gildandi dýraverndarlögum, sbr. áðurnefnda endurskoðun frá árinu 1986.
    Ástæða er til að leggja á það áherslu að við mótun á slíkum reglum verður að hafa í heiðri það sjónarmið að íþyngja ekki framleiðslu í viðkomandi greinum með dýru eftirliti, en leggja þess í stað áherslu á virkt innra eftirlit hjá búgreininni. Þessar framleiðslugreinar eiga flestar á brattann að sækja vegna mikils framleiðslukostnaðar og verður því að forðast allt sem eykur hann óeðlilega. Til að tryggja að kostnaði við framkvæmd og eftirlit samkvæmt slíkum reglum sé haldið í lágmarki er bent á þá leið að nota til þess það búfjáreftirlit sem þegar er fyrir hendi með forðagæslu, og heiti forðagæslumanns m.a. breytt til samræmis við það sjónarmið í búfjáreftirlitsmann.
    Bent skal á nauðsyn þess að efla samræmingu í framkvæmd búfjáreftirlits um allt land. Ábending er gefin um það að stefna að reglulegu námskeiðahaldi fyrir búfjáreftirlitsmenn á tveggja til þriggja ára fresti til þess að tryggja á þann hátt samræmda framkvæmd þessa málaflokks um land allt. Þá hefur einnig verið á það bent að æskilegt væri að búfjáreftirlitsmönnum verði sett erindisbréf. Þar mætti kveða nánar á um ýmis atriði í starfi þeirra.
    Hér er lagt til að landbúnaðarráðuneytinu verði falið að beita sér fyrir að gefnar verði út samræmdar almennar leiðbeiningar um aðbúnað og meðferð búfjár fyrir hverja búfjártegund. Þetta er gert að erlendum fyrirmyndum. Með slíku ætti að mega tryggja að framleiðendur í viðkomandi grein hefðu mjög aðgengileg helstu undirstöðuatriði um þessa þætti fyrir búfé sitt. Þó að mjög mikið af slíku efni sé til á íslensku er ekki um það að ræða að það sé til aðgengilegt á einum stað, sem hefði augljósa kosti.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmd forðagæslu sé að miklu leyti haldið óbreyttri frá því sem verið hefur.
    Til að mæta kostnaði við framkvæmd búfjáreftirlits er með lögum þessum gefin heimild til sveitarstjórna um gjaldtöku af búfjáreigendum til að standa straum af kostnaði vegna þessa málaflokks. Til þessa hefur sveitarfélögum verið falin framkvæmd forðagæslu og að standa undir kostnaði við hana án heimilda til gjaldtöku. Eftir því sem búfjáreign verður bundin sífellt minni hluta íbúa í hverju sveitarfélagi virðist eðlilegt að kostnaður vegna þessa málaflokks verði greiddur af búfjáreigendum. Líklegt er að það muni um leið skapa virkara aðhald með framkvæmd þessara mála en víða er nú. Ætla má að til slíkrar gjaldtöku komi fremur hjá sveitarfélögum í þéttbýli en í dreifbýli. Að óreyndu verður einnig að ætla að framkvæmd búfjáreftirlits sé mun dýrari í þéttbýli þar sem oft er um fáa gripi að ræða hjá fjölmörgum eigendum en í dreifbýli þar sem búfjárhald er fyrst og fremst stundað vegna atvinnu búfjáreigenda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


     Hér er kveðið á um yfirstjórn þessa málaflokks og gildissvið, þ.e. til hvaða búfjártegunda ákvæði frumvarpsins ná.

Um 3. gr.


     Greinin er efnislega, samhljóða ákvæði gildandi laga um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum. Hún gerir ráð fyrir því að öllum sveitarfélögum sé heimilt að setja reglugerð um búfjárhald, en ekki eingöngu þéttbýlissveitarfélögum eins og nú er.

Um 4. gr.


     Hér er einnig um að ræða ákvæði sem er að finna í lögum um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum. Gerð er grein fyrir þeim ákvæðum sem ætlast er til að samþykktir um búfjárhald skv. 3. gr. taki til.

Um 5. gr.


     Í þessari grein er fjallað um vörslu búfjár. Nýverið hefur nefnd, sem fjallaði um búfé á þjóðvegum, skilað áliti til landbúnaðarráðherra. Þar eru ábendingar um mörg mál sem þörf er að skoða í sambandi við þennan málaflokk. Ljóst er að hér er um gífurlega mikið hagsmunamál að ræða þar sem eftir er að fjalla um ákaflega marga þætti málsins áður en til endanlegra ákvarðana kemur.
    Þess vegna er hér gert ráð fyrir að mótun á almennum reglum um vörslu verði sett fram með sérstakri reglugerð. Á þann hátt má ætla að auðveldara verði að fást við að koma í framkvæmd þeim breytingum sem fyrirsjáanlegar virðast í þessum málum á allra næstu árum. Með tilkomu á verulega meiri vörslu búfjár en nú gerist er ljóst að í sumum tilfellum muni þurfa ákveðið aðlögunartímabil að breyttum aðstæðum. Þar sem breytingar í þessum málum munu kalla á aukna fjárhagslega ábyrgð búfjáreigenda mun slíkt kalla á t.d. endurskoðun í tryggingamálum fyrir bændur. Þá má benda á möguleika þess að hafa reglur breytilegar eftir landshlutum (svæðum).
    Ástæða er einnig til að minna á að með breyttum reglum um vörslu þarf einnig að huga að því að slíkar reglur verði mótaðar á þann hátt að þær geri mögulega eðlilega nýtingu lands sem skipt er af umferðaræðum og einnig þarf að huga að óhjákvæmilegri umferð hestamanna meðfram og eftir vegum.
    Í áðurnefndu nefndaráliti er eingöngu fjallað um breytt viðhorf til vörslu með tilliti til umferðarmála. Ýmis önnur sjónarmið ýta á breytingar í þessum málum, t.d. breytt viðhorf í landnýtingu, m.a. með tilliti til aukinnar landfriðunar, breyttur búrekstur á jörðum í dreifbýli, sem felst í að búfjárhald leggst af á fjölda jarða. Þessi mál þarfnast því mun víðtækari umfjöllunar áður en endanleg stefnumörkun fer fram.
    Hér er gert ráð fyrir heimildum til einstakra sveitarfélaga til að setja reglur sem kveða á um meiri vörslu búfjár en almennar reglur gera ráð fyrir. Ljóst er að áhugi og frumkvæði heimaaðila er hið eina sem tryggt getur örugga framkvæmd þessara mála.

Um 6. gr.


     Hér hafa verið dregin saman ákvæði búfjárræktarlaga frá 1973 sem fjalla um vörslu graðpenings. Gert er ráð fyrir aðeins þrengdum vörslutíma fyrir hrúta og reglum um graðhesta er breytt til samræmis við samþykktir frá Hrossaræktarsambandi Íslands.

Um 7. gr.


     Hér er um að ræða nýmæli í lögum. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra fái heimild til að gefa út reglugerð fyrir hverja búfjártegund þar sem nánar sé kveðið á um ýmsa þætti er lúta að aðbúnaði og meðferð gripa af hverri tegund. Fylgt er líkri þróun og átt hefur sér stað í þessum málum erlendis á síðustu árum.
    Hér er gerð grein fyrir þeim almennu ákvæðum sem slíkar reglugerðir mundu fjalla um, en eðlilega yrðu umfjöllunar - og áhersluatriði ákaflega breytileg frá einni búfjártegund til annarrar.
    Hér er gert ráð fyrir þeim möguleika að tekin sé upp leyfisveiting til tiltekinnar búfjárframleiðslu og vísað er til umfjöllunar hér að framan um þau mál. Athygli er vakin á þeim mismun sem nú er fyrir hendi á mjólkur - og kjötframleiðslu að þessu leyti.
    Þá er gert ráð fyrir að með slíkum reglugerðum sé mögulegt í þeim framleiðslugreinum, þar sem viðhöfð er framleiðslutakmörkun með úthlutun framleiðsluréttar, að tryggja að samræmi sé á milli ákvæða um búfjárhald og réttar viðkomandi aðila til framleiðslu. Áhersla er lögð á að reglugerðir þurfi samþykki viðkomandi búgreinarfélags. Á þann hátt ætti að vera mögulegt að tryggja að ákvæði þeirra íþyngi ekki framleiðslu í viðkomandi grein á óeðlilegan hátt. Frumkvæði og áhugi framleiðenda í viðkomandi búgrein er einnig áreiðanlega besta trygging fyrir því að reglugerðir séu virtar og þeim framfylgt. Gert er ráð fyrir að eftirlit vegna slíkra reglugerða verði byggt á þeim grunni sem nú er fyrir hendi í forðagæslu.

Um 8. gr.


     Greinin gerir ráð fyrir að gefnar séu út samræmdar leiðbeinandi reglur um aðbúnað og meðferð búfjár af hverri tegund. Um þetta er nánar fjallað í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Um 9. 12. gr.


     Þessar greinar fjalla um framkvæmd forðagæslu. Að grunni eru hér sömu ákvæði og í búfjárræktarlögum, nr. 31 24. apríl 1973. Felld eru niður ákvæði um skráningu á framleiðslu á kartöflum og rófum. Nýmæli er ákvæðið um ábyrgðarmenn með búfé sem er í hagagöngu án þess að eigendur þess séu búsettir í viðkomandi sveitarfélagi.
    Þá er gert ráð fyrir þeim möguleika að búfjáreftirlitsmenn verði ráðnir sameiginlega af fleiri sveitarfélögum. Þetta er gert m.a. með hliðsjón af því að hér verði um meira starf að ræða en verið hefur og gerðar verði auknar kröfur um samræmingu í framkvæmd og þjálfun hjá þeim aðilum sem sinna þessu starfi í framtíðinni. Slík skipan mála getur einnig hugsanlega gert auðveldara að fást við meðferð á vandasömum málum þar sem kann að gæta áhrifa of mikils nágrennis þegar heimaaðili á í hlut.
    Hér er gert ráð fyrir þeim möguleika að sveitarfélögum sé heimilt að mæta kostnaði vegna framkvæmdar við búfjáreftirlit með gjaldtöku af búfjáreigendum. Til þessa hefur framkvæmd forðagæslu verið kostuð að öllu leyti beint af sveitarsjóði.
    Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna framkvæmdar þessara laga er enginn frá því sem verið hefur. Hugsanlega er um aukinn kostnað sveitafélaga að ræða í sumum tilfellum en eins og að framan greinir er gert ráð fyrir heimild þeirra til tekjuöflunar til að mæta þeim kostnaði. Slíkar heimildir eru ekki í gildandi lögum.