Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 214 . mál.


Ed.

274. Frumvarp til laga



um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1990, nr. 116/1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Eftirfarandi breyting verði á 1. gr. laganna:
     Í stað „6.625.000“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: 12.650.000.
     Við bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                             Fjármálaráðherra er heimilt að endurlána Alþjóðaflugþjónustunni allt að 180.000 þús. kr. af þeirri fjárhæð sem um getur í 1. málsl. 2. mgr. þessarar greinar og Lánasjóði íslenskra námsmanna allt að 450.000 þús. kr. umfram það sem kveðið er á um í fjárlögum fyrir árið 1990.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs var í fjárlögum 1990 áætluð tæpir 9 milljarðar kr. Þar af var áformað að mæta 6,6 milljörðum með innlendri lánsfjáröflun og 2,4 milljörðum með erlendri lántöku. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á yfirstandandi ári um 12,6 milljarðar kr. og verður henni mætt með 11,7 milljarða kr. innlendri lánsfjáröflun og 0,9 milljarða kr. erlendri lántöku. Þar við bætist að sótt er um heimild til útgáfu á spariskírteinum vegna uppgjörs á skuld ríkissjóðs við Útvegsbankann að fjárhæð 0,9 milljarða kr.
    Innlend lánsfjáröflun verður samkvæmt þessu 6,0 milljörðum kr. hærri en heimild í lánsfjárlögum 1990 segir til um og er með frumvarpi þessu leitað eftir viðbótarheimild fyrir ríkissjóð til hennar.
    Hækkun innlendrar lánsfjárþarfar ríkissjóðs á sér nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi má ætla að halli á fjárlögum aukist um 1,4 milljarða króna. Fjárlög 1990 voru afgreidd með tæplega 3,7 milljarða kr. halla. Nú er hins vegar útlit fyrir að gjöld verði rúmir 5,1 milljarður kr. umfram tekjur. Heimilda til greiðslu gjalda umfram fjárlög var aflað með fjáraukalögum, nr. 72/1990, sem samþykkt voru á sl. vori og með fjáraukalögum sem lögð voru fram í byrjun haustþings og hafa nýlega verið samþykkt.
    Í annan stað nam skammtímaskuld við Seðlabanka Íslands vegna halla á ríkissjóði á árinu 1989 um 2 milljörðum kr. Fjármögnun þessarar skuldar var ekki inni í lántökuheimild ríkissjóðs í lánsfjárlögum 1990. Samkvæmt lögum um Seðlabanka ber að greiða skuld ríkissjóðs við bankann fyrir lok marsmánaðar. Í ljósi mikillar sölu á ríkisvíxlum í byrjun árs var ákveðið að nota hluta andvirðis þeirra til þessa uppgjörs.
    Í þriðja lagi eykst lánsfjárþörf um 450 m.kr. vegna aukinnar fjárþarfar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Loks hefur verið ákveðið að nýta ekki heimild til erlendrar lántöku sem áætluð var til greiðslu erlendra afborgana en fjármagna þær í stað þess með innlendri lántöku.