Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 223 . mál.


Ed.

297. Frumvarp til laga



um breytingar á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum.

Flm.: Eiður Guðnason, Skúli Alexandersson,


Danfríður Skarphéðinsdóttir.



1. gr.


     2. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna orðist svo:
     Þegar ríkissjóður kaupir fasteignir, fær þær að gjöf eða selur.

2. gr.


     2. tölul. fyrri málsgreinar 35. gr. laganna, skv. 11. gr. laga nr. 90/1984, orðist svo:
     Þegar ríkissjóður ráðstafar fasteignaréttindum eða fær þau að gjöf.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Samkvæmt 6. gr. núgildandi jarðalaga skal afla samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar þegar fyrirhuguð eru aðilaskipti að réttindum yfir fasteign eða stofnun slíkra réttinda, svo sem fyrir kaup, gjöf, skipti, nauðungarsölu o.s.frv. eins og nánar er tilgreint í lögunum. Sú breyting, sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir, er að samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar þurfi ekki að afla þegar ríkissjóður eða stofnanir hans fá fasteignir að gjöf. Gildandi ákvæði um að samþykkis þurfi ekki að afla gilda eingöngu þegar ríkissjóður kaupir eða selur fasteignir.
     Í 35. gr. gildandi jarðalaga er fjallað um hvenær ákvæði um forkaupsrétt komi ekki til framkvæmda. Lagt er til að þessi ákvæði verði rýmkuð þannig að forkaupsréttarákvæði falli ekki aðeins brott þegar ríkissjóður ráðstafar fasteignaréttindum heldur líka ef ríkissjóður fær slík réttindi að gjöf.
     Á undanförnum árum hafa þau tilvik komið upp að ríkissjóður eða stofnanir hans hafa fengið fasteignir að gjöf, t.d. með erfðaskrá eða gjafabréfi. Ákvæði jarðalaga um samþykki og forkaupsrétt geta í slíkum tilvikum komið í veg fyrir að vilji gefanda nái fram að ganga. Þessu telja flutningsmenn frumvarpsins eðlilegt að breyta og því er frumvarpið flutt.