Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 235 . mál.


Nd.

337. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Í stað „100.000“ og „200.000“ í 4. tölul. B - liðar 30. gr. laganna kemur: 115.000 og 230.000.

2. gr.


     Í stað „3.280.000“ og „4.920.000“ í 4. mgr. B - liðar 69. gr. laganna kemur: 3.350.000 og 5.025.000.

3. gr.


     Í stað „2.500.000“ og „4.150.000“ í 2. mgr. C - liðar 69. gr. laganna kemur: 2.555.000 og 4.235.000.

4. gr.


     Fyrirsögn 70. gr. laganna orðast svo:
     Tekjuskattur manna sem heimilisfastir eru á Íslandi hluta úr ári, menn sem dveljast erlendis við nám eða vegna veikinda o.fl.

5. gr.


     Við 70. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Þeir menn, sem dveljast erlendis við nám eða vegna veikinda, geta þrátt fyrir ákvæði 1. gr. haldið öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum um opinber gjöld. Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar með reglugerð, m.a. um hvaða nám falli hér undir, rétt maka, framtalsskil o.fl.

6. gr.


     Á eftir orðinu „ríkisvíxla“ í 2. mgr. 78. gr. laganna kemur: ríkisbréf.

7. gr.


     83. gr. laganna orðast svo:
     Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 2.940.000 kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af eignarskattsstofni yfir 2.940.000 kr. greiðist 1,2%. Af eignarskattsstofni yfir 8.235.000 kr. greiðist að auki 0,75%, þó þannig að hjá þeim sem hafa tekjuskattsstofn undir 1.680.000 kr. skal lækka reiknaðan eignarskatt samkvæmt þessum málslið hlutfallslega þannig að hann falli að fullu niður ef tekjuskattsstofn er undir 840.000 kr.

8. gr.


     Við 110. gr. laganna bætast svohljóðandi málsgreinar:
     Tekjuskattur, sem lagður er á reiknað endurgjald þeirra manna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, skal þó vera gjaldfallinn 1. ágúst ef skattaðili hefur eigi staðið skil á fjárhæð þeirri sem um ræðir í staðgreiðslu viðkomandi tekjuárs í samræmi við 6. og 20. gr. staðgreiðslulaga.
     Hafi innheimtumaður hafið aðför að skattaðila vegna skuldar sem myndast hefur í staðgreiðslu á reiknuðu endurgjaldi skulu þau aðfararúrræði, sem innheimtumaður hefur gripið til, halda lögformlegu gildi sínu við þann hluta kröfunnar sem rekja má til vangreiddrar staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi.

9. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1991 og gilda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs. Fjárhæðir 1. gr., 2. gr. og 7. gr. skulu hækka í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum í fyrsta sinn fyrir árið 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir gildistökuákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 117/1989 skulu reglur lokamálsliðar 3. mgr. C - liðar 69. gr. laganna um áfallnar uppsafnaðar verðbætur, sbr. lokamálslið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 117/1989, hvorki taka til þeirra manna, sem seldu íbúðarhúsnæði á árinu 1989 og á því hvíldi lán sem kaupandi yfirtók með uppsöfnuðum áföllnum verðbótum, né til þeirra manna sem á árinu 1989 greiddu uppsafnaðar áfallnar verðbætur á lán á lánstíma umfram ákvæði viðkomandi skuldabréfs.
    Þeir menn, sem ákvæði 1. mgr. taka til og telja sig eiga rétt til vaxtabóta eða til hærri vaxtabóta en þeirra sem voru ákvarðaðar þeim gjaldárið 1990, geta sótt til skattstjóra um slíkar bætur í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður eigi síðar en með skattframtali sínu á árinu 1991.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi er kveðið á um nokkrar breytingar sem snerta skattlagningu einstaklinga í samræmi við það sem boðað var í fjárlagafrumvarpinu. Breytingarnar miðast við að tryggja óbreytta skattbyrði einstaklinga milli áranna 1990 og 1991.
     Óbreytt skattbyrði einstaklinga 1991. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1991 kemur fram sú meginviðmiðun að álagning tekjuskatta á einstaklinga á næsta ári skuli vera óbreytt í hlutfalli við heildartekjur þeirra frá því sem gildir árið 1990, þ.e. skattbyrðin haldist óbreytt milli ára. Áætlað er að meðallaun á mann hækki um 8,5% á næsta ári og heildartekjur heimilanna um 10 11%. Í samræmi við það er áætlað að tekjuskattur hækki um svipað hlutfall. Í þessu felst að helstu frádráttar - og afsláttarliðir tekjuskattskerfisins, þ.e. persónuafsláttur, barnabætur og vaxtabætur, hækka í samræmi við laun á næsta ári, eða heldur meira en nemur hækkun lánskjaravísitölunnar milli ára.
     Hækkun persónuafsláttar 1991. Árið 1990 er persónuafsláttur fyrir hvern einstakling 21.482 krónur að meðaltali á mánuði, en það jafngildir skattleysismörkum upp á 53.988 krónur á mánuði. Samkvæmt endurskoðaðri spá er reiknað með 8,5% meðalhækkun launa á næsta ári. Í samræmi við það hækkar persónuafsláttur nú um áramótin um 3,2%, úr 22.114 krónum í 22.831 krónu á mánuði fyrir fyrri hluta ársins og í rúmlega 23.800 á síðari hluta þess samkvæmt áætlaðri hækkun lánskjaravísitölu frá desember 1990 til júní 1991. Skattleysismörkin hækka um sama hlutfall og verða 58.600 krónur að meðaltali á næsta ári miðað við óbreytt útsvarshlutfall sveitarfélaga.
    Í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir breytingar á persónuafslætti frá upptöku staðgreiðslunnar í ársbyrjun 1988. Í árslok 1988 var lögum um tekjuskatt breytt þannig að ákvörðun persónuafsláttar fyrir fyrri hluta hvers árs var gerð að sjálfstæðri aðgerð en ekki tengd sjálfvirkt við lánskjaravísitöluna. Þetta á einungis við um ákvörðun persónuafsláttar fyrri hluta ársins. Eftir sem áður breytist persónuafsláttur í takt við lánskjaravísitölu um mitt ár.
    Taflan sýnir því í reynd hvaða áhrif fyrrnefnd breyting hefur haft á fjárhæð persónuafsláttarins. Samkvæmt því hefði persónuafsláttur orðið 23.161 króna, eða um 330 krónum hærri á fyrri hluta næsta árs, ef hann hefði fylgt lánskjaravísitölu að fullu allt tímabilið.


Persónuafsláttur

Persónuafsláttur


í reynd

Lánskj.vís.

m.v. lánskj.vís.




kr.

% hækkun

% hækkun

kr.



Jan. - maí 1988
14.797 - - 14.797
Júní - des. 1988
16.092 8,75 8,75 16.092

Jan. - júní 1989
17.842 10,87 10,87 17.842
Júlí - des. 1989
19.419 8,84 8,84 19.419

Jan. - júní 1990
20.850 7,37 9,98 21.357
Júlí - des. 1990
22.114 6,06 6,06 22.651

Jan. - júlí 1991
22.831 3,24 2,25 23.161
Júlí - des. 1991
23.818 4,32 4,32 24.161



     Húsaleigubætur. Í fjárlagafrumvarpinu voru jafnframt boðaðar breytingar á tekjuskattslögunum sem lúta að frekaru jöfnun skattbyrði í gegnum tekjuskattskerfið, t.d. með frekari tekjutengingu barnabóta og upptöku sérstakra húsaleigubóta.
    Undirbúningur þessa máls hefur staðið yfir frá því í haust, unnin á vegum félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Í þessari undirbúningsvinnu hefur komið í ljós að verulegur skortur er á áreiðanlegum upplýsingum um leigumarkaðinn hér á landi. Af þeirri ástæðu er erfitt að meta bæði áhrif á hag leigjenda og heildarkostnað við upptöku húsaleigubóta. Þess vegna hefur verið ákveðið að nota skattframtöl næsta árs til þess að afla sérstakra upplýsinga um húsaleigumarkaðinn til þess að treysta áætlunargrunninn.
     Endurskoðun skattlagningar lögaðila. Með bréfi dagsettu 11. júní 1990 skipaði fjármálaráðherra sérstaka nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um skattlagningu fyrirtækja. Markmið þessarar endurskoðunar er að jafna samkeppnisstöðu innlendra útflutnings - og samkeppnisgreina gagnvart erlendum keppinautum. Um miðjan nóvember skilaði nefndin fyrstu tillögum sínum, sem voru kynntar í sérstakri skýrslu.
    Megintillögur nefndarinnar í þessum áfanga voru tvíþættar. Annars vegar lagði nefndin til að í stað núverandi launaskatts, lífeyristryggingagjalds, slysatryggingagjalds, vinnueftirlitsgjalds og iðgjalds í Atvinnuleysistryggingasjóð kæmi eitt gjald, launa - eða tryggingagjald. Þessari hugmynd eru gerð nánari skil í öðru frumvarpi og því verður ekki frekar um hana fjallað hér.
     Hins vegar lagði nefndin til að í fyrsta áfanga yrði tekjuskattshlutfall félaga lækkað úr 50% í 45%. Þessi lækkun á skatthlutfallinu er liður í því að laga skattlagningu fyrirtækja hér á landi að þeim breytingum sem eru að verða og hafa þegar orðið víða erlendis. Jafnframt verði skattstofninn breikkaður með því að fækka undanþágum og fella niður frádráttarheimildir.
    Í áliti nefndarinnar kemur enn fremur fram að hún telji æskilegt að lækka skatthlutfallið enn frekar í áföngum á næstu árum þannig að það verði svipað og gengur og gerist í helstu viðskipta - og samkeppnislöndum okkar. Jafnframt eru boðaðar ýmsar frekari breytingar á skattlagningu fyrirtækja, svo sem leiðir til þess að jafna afkomusveiflur milli ára o.fl.
    Í tengslum við breytingar á launagjöldum setti nefndin einnig fram hugmyndir um niðurfellingu aðstöðugjalds, þar sem sú skattlagning brenglaði samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og gengi þvert á skynsamlega stefnu í skattamálum. Í framhaldi af þessu hafa stjórnvöld átt viðræður við fulltrúa sveitarfélaganna um þessar hugmyndir. Þeim viðræðum verður haldið áfram með það að leiðarljósi að hrinda þessum hugmyndum um afnám aðstöðugjaldsins í framkvæmd.
    Í þessu frumvarpi eru ekki gerðar tillögur um breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Það er hins vegar nauðsynlegt að vinna áfram að tillögugerð um þetta mál á næstu vikum, þar sem m.a. verður hugað að breytingum á ákvæðum um verðbreytingafærslu, þó þannig að fyrirtæki eigi jafnan kost á því að gera reikningana upp á grundvelli gildandi skattalaga. Frumvarp um þetta efni verður lagt fram eftir að þing kemur saman í janúar.
     Skattvísitala 1991. Það er rétt að vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir að skattvísitala verði ákveðin 109,5 stig í fjárlögum 1991 miðað við 100 stig 1990. Allar fjárhæðir sem tengdar eru skattvísitölu í lögum um tekju - og eignarskatt munu því hækka um 9,5% á næsta ári. Hækkun fasteignamats milli ára er hins vegar 12%. Þess vegna þykir rétt að hækka skattfrelsismörk eignarskatts sérstaklega í þessu frumvarpi, þannig að þau hækki um 12% á milli ára þegar þau hafa verið uppfærð með skattvísitölu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum, er hámark frádráttar vegna fjárfestingar í atvinnurekstri 115.000 kr. hjá hverjum manni eða 230.000 kr. hjá hjónum. Er því um að ræða ósamræmi við ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt. Hér er lagt til að þessar fjárhæðir verði samræmdar.

Um 2. gr.


    Barnabótaauki er skertur með tilliti til eigna. Samkvæmt þessari grein er lagt til að þessi skerðingarmörk verði hækkuð. Þetta stafar af því að hækkun samkvæmt skattvísitölu sem ákveðin verður í fjárlögum fyrir árið 1991 verður væntanlega minni en hækkun á fasteignamati á milli ára. Af þessum sökum er talið nauðsynlegt að hækka þessi mörk.

Um 3. gr.


    Vaxtabætur eru skertar með tilliti til eigna. Þar sem reikna má með að skattvísitalan 1991 hækki minna en fasteignamatið milli ára er talið nauðsynlegt að hækka skerðingarmörk eigna sérstaklega.

Um 4. og 5. gr.


    Á síðasta þingi voru samþykkt ný lögheimilislög, nr. 21/1990, og taka þau gildi 1. janúar 1991. Við gildistöku laganna skortir lagagrundvöll undir þá skattaframkvæmd sem ríkt hefur varðandi námsmenn sem tímabundið stofna til heimilis í öðru ríki en Íslandi. Til þess að tryggja að þessir skattþegnar haldi sínum skattalegu réttindum hér á landi meðan á námi stendur erlendis eru lagðar til breytingar á 70. gr. laga nr. 75/1981. Er því lagt til að þessir aðilar geti þrátt fyrir 1. gr. laga nr. 75/1981 haldið öllum réttindum, sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt þessum lögum og öðrum lögum um opinber gjöld.

Um 6. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum eru markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxlar, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs og húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins undanþegin eignarskatti að uppfylltum vissum skilyrðum. Fjármálaráðherra hefur ákveðið að setja á markað nýja tegund ríkisverðbréfa sem hafa hlotið nafnið ríkisbréf. Tilgangurinn með þessari útgáfu er m.a. að brúa bilið milli ríkisvíxla og spariskírteina, svo og að gefa kaupendum ríkisverðbréfa kost á meira úrvali af ríkisverðbréfum, bæði hvað varðar tímalengd og vaxtakjör. Jafnframt þykir rétt að freista þess á tímum lágrar verðbólgu og væntanlegs stöðuleika á því sviði að ríkissjóður hafi frumkvæði að því að gefa út verðbréf án verðtryggingar, en með viðmiðun við nafnvexti sem myndast á markaðinum hverju sinni. Hér er lagt til að umrædd ríkisbréf verði undanþegin eignarskatti með sama hætti og t.d. ríkisvíxlar.

Um 7. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að skattfrelsismörk eignarskatts verði hækkuð. Þetta stafar af því að hækkun samkvæmt skattvísitölu sem ákveðin verður í fjárlögum fyrir árið 1991 verður væntanlega minni en hækkun á fasteignamati á milli ára. Af þessum sökum er nauðsynlegt að hækka þessi mörk þannig að ekki verið um að ræða þyngingu á álagningu eignarskatts á árinu 1991 frá því sem var á árinu 1990.

Um 8. gr.


    Með þessari grein er verið að tryggja innheimtu á vanskilum eftir álagningu opinberra gjalda vegna reiknaðs endurgjalds þeirra manna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, þ.e. í þeim tilvikum sem skattaðili hefur ekki staðið skil á fjárhæð þeirri sem skila átti í staðgreiðslu. Hér er kveðið á um það að álagningin skuli vera gjaldfallin 1. ágúst á því ári sem álagning fer fram. Jafnframt fellst í þessari grein að í þeim tilvikum þar sem innheimtuaðgerðir vegna skulda á reiknuðu endurgjaldi sem skila á í staðgreiðslu eru hafnar þá skuli slíkar innheimtuaðgerðir halda gildi sínu þrátt fyrir að fram fari álagning sem kemur í stað skuldar á staðgreiðslu, að því er varðar þann hluta kröfunnar sem má rekja til vangreiddrar staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi.

Um 9. gr.


    Samkvæmt þessari grein koma ákvæði frumvarpsins til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs. Jafnframt er kveðið á um það að fjárhæðir 1. gr., 2. gr. og 7. gr. hækki í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin verður í fjárlögum fyrir árið 1991 þar sem umræddar fjárhæðir eru á verðlagi desembermánaðar 1989.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að afturkölluð verði sú breyting á skilgreiningu vaxtagjalda, að því er varðar árið 1989, sem ákveðin var með lögum nr. 117/1989, en þar var ákveðið að breytingin öðlaðist gildi 1. janúar 1989. Hér er lagt til að þessi breyting gildi frá 1. janúar 1990.
    Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að þeir, sem hér eiga hlut að máli, sæki um leiðréttingu til skattstjóra þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir þessir einstaklingar eru.