Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 70 . mál.


Sþ.

633. Nefndarálit



um till. til þál. um kynningu á vörum frá vernduðum vinnustöðum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og bárust umsagnir um hana frá Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum og Öryrkjabandalagi Íslands. Á fund nefndarinnar komu til viðræðna um málið Helgi Seljan og Ásgerður Ingimarsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Gréta Aðalsteinsdóttir, formaður stjórnarnefndar um málefni fatlaðra, og Aðalsteinn Steinþórsson, formaður Sambands verndaðra vinnustaða.
    Forráðamenn verndaðra vinnustaða hafa myndað með sér samband sem ráðið hefur starfsmann til að vinna að hagsmunamálum verndaðra vinnustaða. Að mati nefndarinnar er Samband verndaðra vinnustaða kjörinn vettvangur til að beita sér fyrir því kynningarátaki sem tillagan gerir ráð fyrir á vörum frá þessum vinnustöðum og stuðla um leið að æskilegri samræmingu og samstarfi milli þeirra, svo og um nýbreytni í framleiðslu. Eðlilegt er að þetta samband fjalli um ráðstöfun á því fjármagni sem veitt yrði frá ríkinu í þessu skyni og leiti stuðnings opinberra stofnana eins og Iðntæknistofnunar við kynningarátakið.
    Með þetta í huga mælir nefndin með samþykkt tillögunnar með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Kristinn Pétursson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. febr. 1991.



Hjörleifur Guttormsson,


form., frsm.

Rannveig Guðmundsdóttir,


fundaskr.

Sólveig Pétursdóttir.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Guttormur Einarsson.

Alexander Stefánsson.