Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 417 . mál.


Nd.

749. Frumvarp til laga



um breytingu á gjaldþrotalögum, nr. 6/1978.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.


     Við c-lið 13. gr. laganna bætast eftirfarandi málsgreinar:
     Innheimtumenn ríkissjóðs og aðrir opinberir innheimtumenn, ríkisbankar, sjóðir, opinberar stofnanir og fyrirtæki ríkisins, hverju nafni sem nefnast, mega ekki krefjast gjaldþrotaskipta á búi einstaklings vegna skulda hans við ríkissjóð eða stofnanir, banka, sjóði og fyrirtæki ríkisins. Árangurslaus fógetagerð skal talin nægileg staðfesting á greiðsluþrotum til að hægt sé að afskrifa skuld einstaklings í ríkisbókhaldi eða yfirlýsing frá löggiltum endurskoðanda sem kannað hefur bú viðkomandi og skiptaráðandi metur gilda.
     Ekki má taka bú einstaklings til gjaldþrotaskipta nema um það komi kröfur frá þrem lánardrottnum öðrum en ríkissjóði samkvæmt framansögðu og samanlögð fjárhæð skulda sé 500 þús. kr. eða hærri.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Gjaldþrot er einhver harkalegasta aðför að persónu manna sem um getur í nútímaþjóðfélagi. Þeim fylgir ekki bara tap eigna fyrir þolandann heldur líka mikil röskun á stöðu og högum gjaldþrota fólks, fjölskyldum þess og ástvina. Gjaldþrota fólki finnst það vera annars eða þriðja flokks fólk við missi eigna og stöðu í þjóðfélaginu. Gjaldþrota fólk heldur áfram að vera fólk þótt bú þess sé tekið til gjaldþrotaskipta. Því má aldrei gleyma.
    Flutningsmaður telur að gjaldþrot eigi aðeins að taka til eigna manna en ekki persónu þeirra að svo miklu leyti sem hægt er. Afleiðingar gjaldþrots er nútímavergangur og enginn er bættari þótt bú náunga hans sé tekið til gjaldþrotaskipta. Innheimtumenn ríkissjóðs biðja um langflest skipti á búum einstaklinga á Íslandi. Þar mun gjaldheimtan biðja um heil sextíu prósent og tollayfirvöld um tuttugu. Þá eru ótaldir bankar ríkisins, sjóðir, stofnanir og fyrirtæki. Samtals er því ríkið með um níutíu prósent beiðna um gjaldþrot á sinni könnu.
    Þetta gengur ekki lengur. Flutningsmaður tekur af heilum hug undir að gjalda þurfi keisaranum það sem keisarans er og engar refjar. Oft eru þó skattskuldir vegna áætlaðra gjalda og því ekki raunverulegar tekjur á bak við þær skuldir. Það er hreint og beint hörmulegt að ljúka skiptum á búi manna vegna áætlaðra skulda sem öllum má vera ljóst að eiga ekki við rök að styðjast. Það nær ekki nokkurri átt.
    Ríkissjóður er engu bættari með að mylja undir sig hvern þegn landsins á fætur öðrum með því að láta úrskurða hann gjaldþrota. Þeim úrskurði fylgir allt of mikil óhamingja fyrir þolandann og fjölskyldu hans og ástvini. Það er ekki hlutverk ríkisins að leika landsmenn svo grátt til þess eins að strika megi skuldir þeirra út úr ríkisbókhaldi um áramót.
    Þess vegna er lagt til hér að árangurslaus aðför eða kyrrsetning eða önnur fógetagerð dugi til að úrskurða fólk eignalaust fyrir skiptarétti. Einnig yfirlýsing frá löggiltum endurskoðanda sem hefur kynnt sér fjárreiður viðkomandi og skiptaráðandi tekur gilda. Þar með geti innheimtumenn ríkissjóðs afskrifað skuldir í bókhaldi sínu og lokið málum án þess að kalla þá óhamingju yfir fólk sem fylgir gjaldþrotum.
    Einnig er oft óskað eftir gjaldþroti vegna lítillar skuldar við einn lánardrottin og iðulega lýkur skiptum vegna smáupphæða. Hér er lagt til að þurfi fleiri en einn lánardrottin til að taka megi bú til skipta og samanlögð fjárhæð sé hærri en 500 þús. kr. Þar með er girt fyrir að fólk missi bú sitt fyrir spottprís.
    Íslendingar eru smátt og smátt að laga þjóðfélag sitt að raunveruleikanum í mannlífinu en hann er oft bæði beiskur og nakinn. Til skamms tíma máttu fórnarlömb heldrykkjunnar þola bæði útskúfun og sinnuleysi meðbræðra sinna en á því hefur orðið mikil breyting síðustu fimmtán árin. Þjóðfélagið hefur tekið ofdrykkjufólk sitt í sátt. Dæmdir menn hafa löngum verið litnir hornauga eftir að hafa afplánað refsingu sína í fangelsum og gert þar með upp skuld sína við þjóðfélagið. Þeir mæta þó sem betur fer vaxandi skilningi í samfélaginu og fólkið utan múranna er um það bil að búa sig undir að taka þá í sátt aftur. Gjaldþrota fólk á ekki því láni að fagna í dag. Gjaldþrot eru áfram feimnismál á Íslandi og fjöldinn þjáist vegna þeirra. Bæði þolendur og ástvinir. Oft er um að ræða roskna foreldra sem rata í miklar raunir á efri árum þegar æskilegt er að um hægist. Lítil börn bera harm sinn í hljóði niðurlút í skólanum. Þau eru brennd fyrir lífstíð. Fjöldi fólks gefst upp við svo búið og freistar gæfunnar í öðrum löndum. Aðrir missa heilsuna og láta jafnvel lífið. Gjaldþrota fólk er óhreinu börnin hennar Evu.
    Það er nægileg röskun á stöðu og högum að missa aleigu sína og sitja uppi með skuldabyrði. Þjóðfélagið þarf ekki að bæta gráu ofan á svart með því að svipta fólk hluta af persónu sinni með úrskurði um gjaldþrot. Skuldir fást ekki frekar greiddar við þann úrskurð nema síður sé.