Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 246 . mál.


Nd.

781. Nefndarálit



um frv. til l. um ferðaþjónustu.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk um það umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Ferðamálaráði Íslands, Sambandi veitinga- og gistihúsa, Ferðafélagi Íslands, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Slysavarnafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, Ferðaskrifstofu Íslands hf., Skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík, Ferðamálasamtökum Norðurlands, Ferðafélagi Akueyrar, Félagi eigenda sumardvalarsvæða, Landvarðafélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, Öryrkjabandalagi Íslands, Almannavörnum ríkisins, vita- og hafnamálastjóra, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Ferðamálasamtökum Vestfjarða, Útflutningsráði Íslands, Upplýsingamiðstöð ferðamála, Byggðastofnun, Félagi starfsfólks í veitingahúsum, Neytendasamtökunum, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Ferðaþjónustu bænda, Leiðsöguskólanum, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Náttúruverndarráði, Ferðamálasamtökum Austurlands, Jöklaferðum hf., Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, ferðamálanefnd Reykjavíkur, Félagi sérleyfishafa og Halldóri Bjarnasyni.
    Þá fékk nefndin á sinn fund um málið Karl Sigurhjartarson, framkvæmdastjóra Sambands ísl. ferðaskrifstofa, Magnús Oddsson ferðamálastjóra, Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Sambands veitinga- og gistihúsa, Wilhelm Wessman, stjórnarmann í Sambandi veitinga- og gistihúsa, Kristínu Halldórsdóttur, formann stjórnar Ferðamálaráðs Íslands, Jóhönnu Leópoldsdóttur, stjórnarformann Ferðamálasjóðs, og Snorra Tómasson, starfsmann Ferðamálasjóðs.
    Nefndin leggur til ýmsar breytingar á frumvarpinu en í flestum tilvikum er ekki um veigamiklar efnisbreytingar að ræða heldur er frekar verið að bregðast við ábendingum umsagnaraðila og sníða af frumvarpinu ýmsa agnúa. Helstu breytingar eru eftirtaldar:
     Við 3. gr. Talið er rétt að Ferðamálaráð geri tillögu til samgönguráðherra um efnisákvæði reglugerðar um ferðaþing. Núverandi Ferðamálaráð mundi gera tillögu um fyrsta ferðaþing.
     Við 4. gr. Meginbreytingin er sú að þeir fjórir fulltrúar, sem valdir eru í Ferðamálaráð með óhlutbundinni kosningu á ferðaþingi, séu allir valdir á sama tíma en ekki séu kosnir tveir eitt árið og tveir annað árið. Þannig verða því allir átta fulltrúarnir í ráðinu valdir í einu.
     Við 6. gr. Talið er eðlilegast að ráðherra skipi framkvæmdastjóra Ferðamálaráðs (ferðamálastjóra) samkvæmt tillögu ráðsins.
     Við 12. gr. Þar sem þörfin fyrir úrbætur vegna vaxandi ferðamannastraums verður æ brýnni á ferðamannastöðum víða um land leggur nefndin til að ekki minna en þriðjungi þeirra tekna sem Ferðamálaráð fær af hinu svokallaða „fríhafnargjaldi“ verði varið til umhverfismála tengdum ferðaþjónustu.
     Við 36. gr. Til viðbótar því að lögreglustjóri geti innkallað veitingaleyfi (leyfishafi missir þá leyfi tímabundið) að uppfylltum ákveðnum skilyrðum verður honum heimilað að afturkalla leyfi (leyfishafi missir rekstrarleyfi). Það er hins vegar skoðun nefndarinnar að lögreglustjóri hljóti að jafnaði að beita innköllunarheimild þegar um er að ræða brot sem hægt er að lagfæra á stuttum tíma.
     Við 37. gr. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð um flokkun veitinga- og gististaða sett kröfur um kunnáttu þeirra er við þann rekstur starfa og þá mismunandi eftir einstökum flokkum slíkra staða.
     Við 5. og 37. gr. Bætt er við ákvæðum er tryggja að tekið verði sérstakt tillit til aðgengis fatlaðra.
    Nefndin telur rétt að vekja athygli á því að þó að sagt sé í 42. gr. að úrskurðir kvörtunarnefndar séu bindandi þá verður engu að síður ávallt hægt að bera úrskurði hennar undir undir dómstóla uni menn ekki niðurstöðu nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hún flytur tillögu um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 5. mars 1991.



Hjörleifur Guttormsson,


form., frsm.

Guðni Ágústsson,


fundaskr.

Friðjón Þórðarson.


Árni Gunnarsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.

Kristín Einarsdóttir.


Matthías Á. Mathiesen,


með fyrirvara.