Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 203 . mál.


Ed.

910. Nefndarálit



um frv. til stjórnsýslulaga.

Frá meiri hl. allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Jón Sveinsson, aðstoðarmann forsætisráðherra, Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra, Eirík Tómasson hæstaréttarlögmann, Björn Þ. Guðmundsson prófessor, Lúðvík Geirsson, formann Blaðamannafélags Íslands, og Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð. Umsagnir bárust frá Blaðamannafélagi Íslands, Birni Þ. Guðmundssyni prófessor, umboðsmanni Alþingis, Sýslumannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, stjórnsýslunefnd, Páli Hreinssyni lögfræðingi, forsætisráðuneytinu og Þjóðskjalasafni Íslands. Auk þess sendi forsætisráðuneytið þær umsagnir sem nefndinni, er samdi frumvarpið, bárust.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði almenn löggjöf um stjórnsýslu og vinnureglur stjórnvalda. Settar eru meginreglur sem stjórnvöldum ber að virða við meðferð mála. Í lögum er að finna á víð og dreif ákvæði um málsmeðferð stjórnvalda við ákvarðanir, en almennar reglur hafa mestmegnis verið dregnar af dómaframkvæmd. Setning stjórnsýslulaga er gífurleg réttarbót fyrir almenning og felst í þeim öryggi fyrir því að stjórnsýslan starfi í anda jafnræðis og að hlutlæg sjónarmið ráði afgreiðslu mála.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lagt er til að gildissvið, sbr. 1. gr., verði skýrar afmarkað. Einnig er lagt til að heiti I. kafla breytist.
    Í umsögnum um frumvarpið kom m.a. fram gagnrýni á hugtakanotkun í því. Leggur nefndin til lagfæringar þar að lútandi, m.a. með því að orðið „stjórnsýsluhafi“ verði ekki notað. Eru lagðar til breytingar á 2. gr. og mörgum öðrum greinum frumvarpsins vegna þessa.
    Breyting á 3. gr. felur í sér að reglur um sérstakt hæfi, ef aðili hefur haft afskipti af máli á fyrra stigi, gilda ekki um hæfi sveitarstjórnarmanns til að fjalla um mál þótt hann hafi haft afskipti af því í stjórn eða ráði á vegum sveitarstjórnarinnar.
    Lagt er til að reglur 6. gr. frumvarpsins um úrskurð um vanhæfi stjórnvalds breytist þannig að stjórnvaldið taki sjálft ákvörðun um hvort það eigi að víkja sæti. Ákvörðun þess getur yfirmaður breytt og hún getur einnig komið til endurskoðunar við stjórnsýslukæru. Fjölskipað stjórnvald tekur einnig ákvörðun um hvort maður, sem sæti á í því, telst vanhæfur og víkur hann þá sæti á meðan nema lög skipi á annan veg. Ef fjölskipað stjórnvald verður ekki ályktunarhæft vegna hugsanlegs vanhæfis allra sem þar eiga sæti taka þeir allir þátt í ákvörðun um hvort stjórnvaldið sé vanhæft.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. mars 1991.



Guðmundur Ágústsson,


form., frsm.

Jóhann Einvarðsson,


fundaskr.

Skúli Alexandersson.


Salome Þorkelsdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir.

Ey. Kon. Jónsson.