Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Frsm. stjórnskipunar- og þingskapanefndar (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Ég vil svara í örstuttu máli þeirri fyrirspurn sem hv. 4. þm. Austurl. beindi til mín varðandi 30. gr. frv.
    Eins og fram kom hjá mér við 2. umr. er gerð sú brtt. af hálfu stjórnskipunar - og þingskapanefndar að kveðið er á um það að ef nefnd mælir með samþykkt frv. eða þáltill. skuli hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur að ný lög eða ályktun hafi í för með sér fyrir ríkissjóð. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson óskaði eftir að fá nánari skýringar á þessu atriði og er sjálfsagt að verða við því.
    Hér er ekki um nýtt mál að ræða. Eins og hv. þm. vakti athygli á þá mun hafa verið vísir að slíku ákvæði í svokölluðum Ólafslögum, lögum nr. 13/1979. Hins vegar bar þessa hugmynd þannig að nefndinni að hún var ekki í upphaflega frv. og kom ekki að mig minnir fram við 1. umr. heldur var þetta hugmynd sem hv. þm. Pálmi Jónsson kom með inn í nefndarstarfið. Í upphaflegri mynd gerði hann ráð fyrir því að mönnum sem flyttu slík mál væri gert að gera grein fyrir kostnaði þegar við framlagningu í greinargerð með þingmáli. Nefndarmönnum þótti hins vegar ósanngjarnt að ætlast til að allir óbreyttir þingmenn sem hugsa sér að leggja fram mál afli slíkra upplýsinga og reikni út eða láti reikna út þann kostnað sem því fylgir. Hins vegar er ekkert óeðlilegt við það að leggja þá skyldu og kvöð á herðar þingnefndar sem tekur á sig ábyrgðina á því að slíkt mál verði að lögum eða slík tillaga nái samþykki.
    Ein önnur breyting var gerð á þessari hugmynd, og ég hygg að það sé óhætt að skýra frá því að það var að frumkvæði hv. þm. Svavars Gestssonar. Hann vildi bæta því inn í og nefndin féllst á það að þetta skyldi vera mat, áætlun um þann kostnað sem nefndin sjálf teldi að viðkomandi mál hefði í för með sér til þess að tryggja að hér væri ekki bara verið að taka við einhverjum tilkynningum eða yfirlýsingum frá framkvæmdarvaldinu, heldur til þess að tryggja það að nefndir gætu lagt sjálfstætt mat, ef þær svo kysu, á þann kostnað sem hér er um að ræða og þyrftu ekki að taka við greinargerðum frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun eða öðrum slíkum aðilum frekar en þeim sýndist. Það er skýringin á þessu. Það kom fram í máli hv. þm. Páls Péturssonar að vonandi verður þingið einhvern tíma þannig í stakk búið að það geti lagt sjálfstætt fjárhagslegt mat á hlutina, hvað þeir kosta, og fjárlaganefnd og aðrar fastanefndir hafi aðgang að slíku starfsfólki og geti unnið slík verk og þá held ég að væri gott að vera búið að fá þetta ákvæði inn í lögin. Ég tel að þetta sé nútímalegt ákvæði, til bóta, veiti ákveðið aðhald og jafnframt hefur þetta að sjálfsögðu mikið upplýsingagildi sem hérna er kveðið á um.
    Að vísu er það rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á að mál geta verið svo smá í sniðum að þeim fylgi ekki sérstakur kostnaður. Þau geta verið það lítilfjörleg eða þess eðlis að ekki sé hægt að

ætla að þeim fylgi mikill kostnaður. Þá kemur það fram. Þá segir bara í nefndarálitinu akkúrat það að ætla megi að kostnaður verði lítill eða enginn eftir atvikum þannig að ég held að það sé ekki til trafala.
    Að því er varðar fram komna brtt. frá tveimur hv. þm. varðandi fjárlaganefnd vil ég að það komi hér fram af minni hálfu sem formanns þessarar sérnefndar um þingsköp og stjórnarskrá í Nd. að haldinn var fundur í nefndinni milli 2. og 3. umr. eftir að upp komu hugmyndir um það við 2. umr. málsins. Þar var grennslast fyrir um það hvort nefndin gæti hugsað sér að sameinast um slíka tillögu en svo reyndist ekki vera. Hitt er rétt frá sagt sem hér kom fram áðan að þessar hugmyndir voru ræddar í nefndinni á sínum tíma án þess að um þær væri samstaða og það reyndist óbreytt, það var ekki samstaða í nefndinni um að leggja sameiginlega fram slíka brtt. Þegar það lá fyrir í nefndinni var upplýst að við sem stöndum að nefndarálitinu mundum ekki flytja þá tillögu. Það er rétt sem hv. þm. gat um að í drögum hér fyrr í dag voru önnur nöfn vegna þess að það var talið eða menn vonuðust til að það mundi nást samstaða allra þingflokka um þetta. Svo er ekki og þess vegna flytjum við ekki þá tillögu, við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég vil láta það koma fram að við hv. þm. og aðrir sem um það tjáðu sig áskildum okkur rétt til þess að fylgja brtt. þessa efnis ef hún kæmi fram. Nú er hún komin fram og þá vil ég að það komi til skila hér að ég fyrir mitt leyti og við sjálfstæðismenn í nefndinni munum greiða þessari tillögu atkvæði.
    Ég vísa dylgjum hv. þm. Páls Péturssonar á bug og bendi honum á að ef hann reiknar vel og skarplega eins og honum er lagið og deilir 5 upp í 26 er útkoman 5,2, ef hann deilir 2 upp í 10 er útkoman 5. Ég held að hann viti hvað ég er að fara með þessu þannig að það er ekkert einboðið eftir einhverjum reiknireglum hvar þessir viðbótarmenn lenda ef tillagan verður samþykkt.