Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þessi hv. deild á eftir að fjalla um þetta mál við tvær umræður og í nefnd, þannig að ástæðulaust er að fara um það mörgum orðum á þessu stigi. Það eru þó fáein atriði sem mig langar til að hnykkja á í framhaldi af þessum umræðum sem fram hafa farið um málið bæði hér og á fundum nefndarinnar. En eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. störfuðu nefndirnar saman, þingskapanefnd efri deildar og neðri deildar, að þeim brtt. sem hér liggja fyrir. Um þær varð samstaða í báðum nefndum, eða ég skildi það svo, í öllum meginatriðum þó efrideildarnefndin hljóti að sjálfsögðu að fjalla um málið með sjálfstæðum hætti eins og henni er skylt að gera og rétt.
    Það er kannski rétt að geta þess út af orðum hv. 1. þm. Austurl. um ellefu manna fjvn. að ég hélt mjög fast á því máli í undirbúningi þessa frv. áður en það var lagt fram hér í þinginu og lagði á það áherslu að fjvn. yrði fjölmennari. Það var sjónarmið sem þingflokkur Alþb. fól mér að bera nefndinni og ég gerði það. Sömuleiðis hygg ég að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi gert grein fyrir því sjónarmiði hér við 1. umr. um stjórnarskrárfrv. á sínum tíma. Það sjónarmið Alþb. þarf því ekki að koma á óvart að við studdum í neðri deild breytinguna á þingskapafrv. að því er varðar fjölgunina í fjvn. Við meðferð málsins í undirbúningsnefndinni og í þingskapanefndunum fékk þetta sjónarmið hins vegar lítinn hljómgrunn. Það kom fram að hv. fulltrúar Kvennalistans í þingskapanefndinni voru þeirrar skoðunar að til greina gæti komið að fjölga í fjvn., eða fjárlaganefnd eins og hún heitir núna í þessu skjali, en fulltrúar stjórnarflokkanna lýstu harðri andstöðu við málið, einkanlega fulltrúar Sjálfstfl. en einnig fulltrúar Alþfl., þó það kæmi fram einu sinni frá formanni þingflokks Alþfl. að til greina gæti komið að fjölga í nefndinni. Á bak við það virtist þó ekki vera mikil alvara.
    Ég skildi því málið svo að þessi hugmynd um ellefu manna fjvn. væri úr sögunni og við sem hefðum verið þeirrar skoðunar að hún ætti að vera skipuð ellefu mönnum yrðum ósköp einfaldlega að bíta í það súra epli að sætta okkur við að svo yrði ekki. Svo allt í einu rann upp ljós fyrir þessum snillingum í stjórnarliðinu af einhverjum ástæðum. Menn eru að gera þeim upp einhverjar undarlegar hvatir í þeim efnum. Mér dettur það nú ekki í hug. Svo rann upp fyrir þeim ljós og við fögnuðum því náttúrlega þegar menn sjá ljósið eins og gengur og studdum þessa till. í neðri deild og gerum það að sjálfsögðu einnig í þessari deild. Ég tel að það sé út af fyrir sig ástæðulaust að gera á þessu miklar breytingar og væri auðvitað best ef við gætum komið málinu fram án þess að breyta því mjög verulega.
    Það sem ég vildi ræða hér að öðru leyti er í fyrsta lagi kosning varaforsetanna. Ég tel að það kerfi sem er í þessu frv. sé ekki það sem ég hefði helst getað hugsað mér. Ég hefði helst getað hugsað mér að hafa hér nákvæmlega sams konar ákvæði og eru í þingsköpum danska þjóðþingsins, þar sem gert er ráð fyrir að fimm stærstu þingflokkarnir tilnefni menn í forsætið. Ef þingflokkarnir eru sex þá fær sá sjötti eða minnsti ekki mann í forsætið og þar fram eftir götunum. Um þetta varð ekki samkomulag og ég stend að þessari málamiðlun fyrir mitt leyti hér í deildinni að reiknað verði með þeim möguleika að stillt verði upp á lista við kosningu varaforseta en gengið út frá því að menn reyni og freisti samkomulags. Mér finnst þessi aðferð í 68. gr. klúðursleg í sambandi við það að fella niður hlutfallstölu þess flokks sem fékk aðalforsetann. Þetta er að verða flókið, þetta minnir mig á kosningalögin þannig að það þyrfti helst að fá Þorkel Helgason til þess að lesa fyrir þingmenn svo þeir botnuðu eitthvað í þessu og dugði nú yfirleitt ekki til með þessi kosningalög. Svo er nú auk þess búið að fella hann d'Hondt út, sem er nú reyndar til bóta, hann hafði lítið að gera hérna. ( Gripið fram í: Nei, hann er enn þá.) Nú, er hann hafður þarna enn þá já, og líka kannski hann Lague, sem Stefán Jónsson heitinn, fyrrv. alþm., kallaði Laggó og fullyrti að þetta tvennt, d'Hondt og Laggó, væru hvítvínstegundir sem mun nú ekki hafa verið. Út af fyrir sig sætti ég mig við þessa málamiðlun í sambandi við varaforsetana.
    Ég vil þá aðeins koma að því sem lýtur að 25. gr., sem fjallar um fjárveitinga- eða fjárlaganefndina og er í raun og veru ein aðalbreytingin í þessum þingsköpum. Og ég held að rétt sé að hnykkja á því hér að ég er þeirrar skoðunar að þegar þingsköpin hafa verið samþykkt þurfi fjárlaganefndin að fara í gegnum þetta mál alveg lið fyrir lið því þetta gjörbreytir öllum hennar vinnubrögðum. Þetta eru allt, allt önnur vinnubrögð en verið hafa. Og menn þurfa að átta sig á því hvernig fjárlaganefndin annars vegar og fastanefndirnar hinar hins vegar skipta með sér verkum. Ef það fer að verða þannig að nefndirnar í raun og veru geri báðar það sama, menntmn. fari í menntamálakafla fjárlagafrv. og fjárlaganefndin í raun og veru líka, er verið að tvöfalda allt starf og þá er þetta í raun og veru til einskis. Þess vegna þarf að koma hér á skýrri verkaskiptingu. Það er mjög nauðsynlegt að forsætisnefnd þingsins, og ég vil beina því til þeirra sem þangað verða kjörnir, taki á því sérstaklega að fjárlaganefndin, mér liggur við að segja æfi sig á því strax í vor hvernig nýjum vinnubrögðum fjárlaganefndarinnar verður háttað. Þau verða og hljóta að verða allt önnur.
    Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því að fastanefndirnar geti fjallað um málefni einstakra ráðuneyta og það er ekki gert að skyldu að vísa til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrv. sem fjalla um málefnasvið þeirra, eins og það er orðað. En í staðinn, og það er mjög mikilvægt, er fjárlaganefnd veitt heimild til slíks og jafnframt, sem er aðalatriðið, er kveðið á um það að fastanefndirnar geti að eigin frumkvæði ákveðið sjálfar að fjalla um þá þætti í fjárlögunum sem þeim sýnist á hverjum tíma. Þetta hlýtur auðvitað að vera þannig, ég geng a.m.k. út frá því að það verði þannig að fastanefndirnar taki þessi mál til meðferðar og fari í gegnum þau af fullri alvöru.

Mér kemur t.d. til hugar í þessu sambandi einn allra þyngsti þáttur fjárlagafrv., sem er heilbr.- og trmrn., sem er sett þar upp í fjárlagafrv. í stórum blokkum sem eru upp á marga milljarða hver og útilokað í raun og veru fyrir fjárlaganefndina að skoða baksvið þessa en það ættu fastanefndirnar og fagnefndirnar að geta gert.
    Ég tel einnig mjög mikilsvert að hér er búið að setja inn ákvæði um það að 3. umr. um fjárlög hefjist eigi síðar en 15. des. Ég hefði reyndar talið að hér ætti að ákveða að fjárlögin yrðu afgreidd fyrir 15. des. Ég hef fyrir því rök. Í fyrsta lagi þau að þingið kemur saman fyrr en gert hefur verið, það kemur saman 1. okt. Í öðru lagi eru þau rök að þær ákvarðanir sem fjárlög uppáleggja ráðuneytum að framkvæma eiga að taka gildi 1. jan. næsta almanaksár. Það er erfitt að hrinda þeim í framkvæmd með eins stuttum fyrirvara og verið hefur. Segjum að þannig fari t.d. við 3. umr. fjárlaga að ráðherra sé ætlað að skera niður rekstrarfjárveitingar til tiltekinnar stofnunar og hann fái ekki að vita af því fyrr en 20. des., niðurskurðurinn á að hefjast 1. jan. Það er nokkurn veginn alveg ómögulegt að ráða við þetta verkefni fyrir ráðuneytin. Ég minnist þess t.d. að í fjárlögum fyrir árið 1989 frekar en 1990 var ákveðið að skera Þjóðleikhúsið niður, að mig minnir úr 300 millj. í 230 millj. kr. eða eitthvað því um líkt. Það var mjög erfitt að ná taki á því á þessum stutta tíma yfir bláhátíðarnar. Þess vegna finnst mér skynsamlegast að slá því föstu að fjárlög verði afgreidd fyrir 15. des. og búið, það á alveg eins að vera hægt. Og ef einhverjar brtt. verða gerðar í þessari virðulegu deild þá tel ég að það kæmi mjög til athugunar að skoða þetta.
    Ég vil næst víkja, herra forseti, að brtt. við 30. gr. sem var rædd mikið í hv. neðri deild núna áðan, þar sem fjallað er um að leggja mat á kostnað af samþykkt mála. Þá er ekki gert ráð fyrir því að nefndirnar láti sér nægja að biðja um álit Fjárlaga- og hagsýslustofnunar eða Þjóðhagsstofnunar á því hvað þetta og hitt kostar, heldur er gert ráð fyrir því að nefndin verði sjálf að meta það hvaða kostnað þær ráðstafanir sem felast í þáltill. eða í lagafrv. hafi í för með sér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að festa það í sessi að nefndin verður að leggja á þetta sérstakt mat. Þeir pappírar sem hafa komið frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun hafa iðulega verið notaðir til þess með hinum furðulegasta hætti að skjóta niður alls konar þjóðþrifamál. Þetta hefur að sjálfsögðu ekki nærri alltaf verið beint Nóbelsverðlaunatækt, þessir textar sem hafa komið frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, með fullri virðingu fyrir henni. En alþingismenn hafa iðulega látið sig hafa það að gera álitsgerðir Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að sínum gagnrýnislaust. Ef vel ætti að vera þyrfti Alþingi auðvitað að hafa sína efnahagsdeild eða efnahagsstofnun til að meta svona hluti þannig að menn þyrftu ekki að hlaupa í Fjárlaga- og hagsýslustofnun eða Ríkisendurskoðun, sem er nú enn þá furðulegra þegar hún er að hjálpa til við undirbúning fjárlaga. Stofnunin sem á að kontrólera fjárlögin á eftir, eins og þetta mun hafa

verið. En mér er sagt að forstöðumenn Ríkisendurskoðunar hafi meira og minna verið með puttana í undirbúningi fjárlaga á undanförnum árum.
    Síðan vil ég víkja aðeins að mjög mikilvægu atriði frá sjónarmiði okkar alþýðubandalagsmanna, en það er í 19. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því að það verði sú meginregla að nefndarfundir verði lokaðir en það verði heimilt, ef sérstakar aðstæður eru til þess að mati nefndarinnar, að opna nefndarfundi fyrir fjölmiðlum og veita þeim aðgang að þeim svo og almenningi. Hér getur verið um það að ræða að nefnd sé t.d. að fjalla um mikilvæg mál og kalli til viðtals fulltrúa stofnana, segjum fulltrúa Seðlabankans, segjum fulltrúa Landsvirkjunar, segjum fulltrúa Þjóðhagsstofnunar, svo ég nefni nú næstum því virðulegustu stofnanir í heimi. Þá getur nefndin sagt sem svo: Almenningur, fjölmiðlar geta komið hér og hlustað á meðan við erum að rekja garnirnar úr þessum höfuðsnillingum sem leiða þessar stofnanir. Við teljum að hér sé um að ræða mjög stórt skref í þá átt að opna þingið og störf þingsins og ég er alveg sannfærður um að við munum fyrir okkar leyti leita eftir því í einstökum þingnefndum að þær verði opnaðar með þessum hætti strax á næsta vetri til þess að kanna hvort menn eru reiðubúnir til að hjálpa til með þessum hætti að opna lýðræðið með svipuðum hætti og hefur verið gert um áratuga skeið í Bandaríkjunum með ágætum árangri og stuðlar að sterkara lýðræðislegu aðhaldi en við höfum átt kost á í okkar stjórnkerfi.
    Síðan vil ég aðeins nefna það atriði sem lýtur að formennsku í fastanefndum. Þar lögðum við á það áherslu stjórnarandstæðingar, ég hygg úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum, að stjórnarandstaðan ætti að eiga formenn í fastanefndum. Því miður tókst ekki að koma því í frv. En í nál. neðri deildar á þskj. 5 segir: ,,Hins vegar er ekkert sem hindrar að þessi skipan komist á síðar ef um það verður samkomulag milli þingflokka.`` Ég er alveg sannfærður um það að við munum láta á það reyna strax við fyrsta tækifæri hvort hægt er að ná samkomulagi um það að stjórnarandstaðan eigi formennsku í einhverjum fastanefndum. Ég er viss um að slíkt mundi bæta störf þingsins, hver svo sem í stjórnarandstöðunni er á hverjum tíma.
    Ég vil segja það enn fremur, virðulegi forseti, að ég harma það að ekki tókst að ná samstöðu um brtt. sem lúta að málefnum Ríkisendurskoðunar í framhaldi af till. sem hv. 1. þm. Austurl. flutti hér munnlega við 1. umr. stjórnarskrárfrv. á sínum tíma. Við því er ekkert að gera en á málinu verður að taka síðar.
    Að lokum vil ég nefna fyrirkomulagsatriði í sambandi við þinghaldið í framhaldi af þessari þingskapaumræðu og það er þá aðallega tvennt. Ég held að um leið og ný þingsköp hafa verið samþykkt eigi að endurskoða og endurmeta alla fundartíma Alþingis, vinnubrögð nefnda, vinnubrögð þingsins sem slíks, hvenær eru fundir í þinginu, eru þeir á morgnana, eru þeir síðdegis eða hvað? Ég gæti vel séð það fyrir mér að t.d. yrðu þingfundir tvisvar, þrisvar í viku sem byrjuðu kl. 10 á morgnana og nefndarfundir yrðu síðdegis eða eitthvað því um líkt. Ég tel með öðrum orðum að það megi ekki ganga inn í þessi nýju þingsköp á grundvelli gömlu vinnubragðanna, heldur verði menn að ganga inn í þetta eins og þeir séu að nema nýtt land þar sem enginn hafi komið áður og þar sem hlutirnir séu mjög opnir.
    Ég vil líka nefna það sem ég hygg að hafi komið fram áður einhvers staðar í umræðum um þetta mál að undanförnu og það er spurningin um að opna fyrir stöðugt útvarp frá Alþingi. Þegar Alþingi er komið í eina málstofu þá á að vera hægt að opna fyrir stöðugt útvarp frá Alþingi. Það er ekki dýrt og ég held að með slíku gætum við fljótlega farið að ræða um gerbreytt fyrirkomulag á þessum svokölluðu eldhúsdagsumræðum og svipt þeim út úr þeim farvegi sem þær hafa verið í. Eldhúsdagsumræður eru afar leiðinlegar og afar gagnslitlar eins og þær eru og nauðsynlegt að taka það til endurskoðunar, en ég hreyfi því og mun gera það einnig í nefndinni að menn ræði það sérstaklega hvort menn eru tilbúnir til að mæla með því að forsætisnefnd hins nýja þings, þegar hún verður sett á laggirnar, kanni sérstaklega hvort ekki er hægt að koma því við að það verði um að ræða stöðugt útvarp frá Alþingi. Það hefur marga kosti, bæði fyrir þjóðina og svo náttúrlega fyrir þingmennina líka. Það veitir þeim aðhald væntanlega og sumir halda því reyndar fram að samkeppni þingmannanna innan kjördæmanna við að komast í ræðustól á örlagastundu yrði þeim mun harðari sem útvarpið heyrðist víðar. En ég er alveg sannfærður um að þetta er fullkominn misskilningur. Þingmenn eru svo málefnalegir að þeir meta hlutina auðvitað eingöngu út frá slíkum forsendum. En ég held að við eigum að skoða það í fullri alvöru að opna þingið með þessum hætti.