Útflutningur á raforku um sæstreng

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 14:53:00 (3322)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa farið fram um þessi mál og víkja fyrst að þessu með jarðgasið, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, gerði nokkuð að umtalsefni. Það er alveg rétt að samkeppnin snýst auðvitað fyrst og fremst um stöðuna gagnvart jarðgasi. En það var jarðgasið sem ég var með í huga. Ég taldi ekki upp hina einstöku orkugjafa, en ég sagði: Við erum samkeppnisfær miðað við þá orkugjafa sem taldir eru hagkvæmastir núna t.d. í Skotlandi. Og niðurstaða Jakobs Björnssonar á orkuþingi er orðrétt þessi:
    ,,Íslensk raforka, komin inn á raforkukerfið í Englandi og Wales, er samkeppnisfær við orku frá stöðvum sem ganga fyrir jarðgasi en þær stöðvar virðast vera þær hagkvæmustu sem völ er á á Bretlandi í dag.``
    Sem sagt: Raforka með streng er samkeppnisfær við jarðgasið eins og það er í dag. Síðan kemur til viðbótar sú staðreynd að þetta getur auðvitað breyst enn þá frekar jarðgasinu og íslenskri raforku í hag þegar kolefnisskattar á orkuframleiðslu verða komnir til framkvæmda og ýta örugglega út ýmsum gömlum orkugjöfum sem notaðir hafa verið til þessa á undanförnum áratugum.
    Í síðasta lagi skiptir það mjög miklu máli um okkar stöðu í þessu sambandi að eins og menn vita hafa verið í gangi tilraunir til þess að tryggja svokallaða frjálsa samkeppni í raforkuframleiðslu í Bretlandi. Það er hins vegar alveg ljóst að þessi svokallaða frjálsa samkeppni raforkuframleiðslu í Bretlandi á mjög erfitt uppdráttar vegna þess að það eru tvö stór fyrirtæki þar, í Englandi og Wales, Power Energy og National Power, sem hafa yfirburða aðstöðu. Og þeir aðilar, sem vilja stuðla að eðlilegri samkeppni á þessum markaði, vilja gjarnan skapa möguleika til að fá orku frá öðrum til þess að veita þessum tveimur stóru risaraforkufyrirtækjum á Bretlandseyjum eitthvert aðhald. Ég held því að á orkuþinginu, þó maður geri ekki annað en að fletta þeirri ágætu möppu sem þar var dreift og að hlusta á erindin sem þar fóru fram, aðeins þar fannst mér að kæmu fram í raun og veru fullgild rök í þessu efni þó svo auðvitað að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon séum ekki með tillögu um eitthvað sem leysir allan vanda vegna þess að það þarf að hafa hliðsjón af öllu öðru, þ.e. forgangsröðun í nýtingu raforkunnar yfir höfuð og svo framvegis.
    Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni almennt séð að vara við því sem hann kallar patent-hyggju. Þetta hefur verið eitt meginvandamál íslenskra efnahags- og atvinnumála undanfarin 50 ár. Menn hafa horft á tiltekin patent og ætlað sér að leysa alla hluti þannig. Einu sinni voru það togarar, einu sinni voru það frystihús, síðan voru það álver, síðan var það loðdýrarækt og fiskeldi o.s.frv. Menn voru alltaf að einblína á einhvern einn þátt án þess að horfa á sviðið í heild og það hefur orðið okkur dýrt þó að enginn hafi í raun náð eins mikilli fullkomnun í þessu máli og frambjóðandi Alþfl. í Eyjafirði fyrir eins og hálfri öld, þegar hann sagði, mismælti sig að vísu en það vakti athygli og er greinilega munað enn: ,,Stefna Alþfl. er sú að tryggja að það komist nýsköpunartogari á hvert heimili í Eyjafirði.``
    Varðandi þessi mál og stöðu þeirra að öðru leyti er kannski rétt að undirstrika það --- ja, í framsöguræðu minni hér áðan fór ég í sjálfu sér ekki í það að skattyrðast sérstaklega við hæstv. iðnrh. um þessi mál. Það vita allir að ég er auðvitað ósammála honum um margt. Út af fyrir sig taldi ég ekki að það þjónaði þeim markmiðum sem við höfum með flutningi þessarar till. En það er kannski rétt að rifja upp að það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan, ég hygg að það hafi verið seint á síðasta ári, í ágúst eða september, að Halldór Jónatansson, framkvæmdastjóri Landsvirkjunar, sagði það opinberlega í blaðaviðtali að það væri ekkert pláss fyrir þessa sæstrengsumræðu af því að menn væru að undirbúa stofnun álvers og virkjanir fyrir það. Þessari sæstrengsumræðu var í raun og veru ýtt út af borðinu. Og þetta kalla ég patent-hyggju vegna þess að ég held að fyrir okkur sem orkuframleiðanda sé það mjög mikilvægt að við séum með margt undir í einu, horfum vítt yfir og látum ekki þrengja að okkur á einhverju einu sviði umfram önnur.
    Hæstv. iðnrh. fann að því að menn væru kannski með þessari till. að einhverju leyti að taka verkefni af því sem framkvæmdarvaldið ætti að hafa. Í sjálfu sér getur vel verið að það megi gagnrýna það, en ég segi þá við hæstv. iðnrh.: Það er þá ekkert nýtt að það sé gert. Menn eru auðvitað mjög mikið, m.a. alþingismenn, á kafi í framkvæmdarvaldinu líka. Ég bendi á að sá sem talaði hér fyrr í dag af miklum myndugleik, hv. 1. þm. Norðurl. v. er þingmaður í stjórnarandstöðu, vissulega, hann situr í stjórn Landsvirkjunar og hann er í stjórn markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Ég held að það sé varla hægt að finna dæmi um menn sem eru jafngjörsamlega báðum megin allra borða eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. að þessu leytinu til. Og auðvitað er það þannig í þessu litla stjórnkerfi þar sem við erum með t.d. þingmenn sem hafa reynslu af því að vera í svo að segja öllum þessum verkum af ýmsu tagi að þá er ekkert óeðlilegt að menn nýti sér þá þekkingu og þann áhuga sem einstakir þingmenn kunna að hafa þó þeir séu ekki með beinum hætti inni í framkvæmdarvaldinu sem slíku. Í þessu sambandi minni ég t.d. á ítarlegar og langar ræður og tillögu sem Vilmundur heitinn Gylfason flutti hér í þinginu á sínum tíma um framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið og samspil þessara þátta. Auðvitað eiga menn að draga þarna tiltekna línu, þannig verður það a.m.k. ábyrgðarlega séð að vera en tæknilega getur það auðvitað oft komið upp að menn séu svo að segja báðum megin að skipta sér af hlutunum eins og hæstv. iðnrh. hér fyrr í dag þegar hann segir um eina tiltekna tillögu Kvennalistans að hún sé svoleiðis vitleysa að það sé engin þörf á að samþykkja hana af því að hún hafi verið afgreidd í fyrra. Þar með er hann að bregða sér í þingmanninn og þannig er hann sjálfur báðum megin borðsins og þar með falla gjörsamlega flatar þær röksemdir sem hann var að beita gegn þeim hugmyndum sem hér eru uppi um að iðnn. beiti sér í þessu máli.
    Síðan verð ég líka að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst það keppikefli að Alþingi allt fjalli um mál af þessu tagi, þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu. Þingmenn stjórnarflokkanna, hverjir svo sem eru í stjórn á hverjum tíma, hafa ekki allt of mikil tækifæri til það komast að einstökum málum sem framkvæmdarvaldið er á kafi í. Við þekkjum það sem höfum verið þingmenn fyrir stjórn og stjórnarandstöðuflokka eftir atvikum. Ég held að það gæti verið gott fyrir stjórnarfarið að reynt yrði að mynda breiða samstöðu um mikilvæg framtíðarmál eins og atvinnuuppbygginguna í landinu. Ég tel t.d. að ef við hefðum borið gæfu til þess að skapa slíka samstöðu, segjum á síðasta kjörtímabili, með stjórn og stjórnarandstöðu þar sem menn hefðu horft á tiltekin framtíðarsvið og raðað hlutunum upp í forgangsröð þá hefðum við ekki lent í því að fá hér yfir okkur stjórnvöld sem mér finnst, það er kannski rangt, en mér finnst að sjái bara eina lausn á öllu og það er að skera og skera og skera og skera. Og sprauta svo að segja svartsýni í alla þjóðina. Ég held að við þurfum á því að halda að þingmenn úr öllum flokkum taki höndum saman um verkefni af því tagi sem hér eru. Auðvitað er þetta bara partur af málinu. Hér er í raun

og veru verið að tala fyrir því, eða ég er að tala fyrir því að við reynum að ná víðri pólitískri samstöðu um nýja sókn í atvinnulífinu til að skapa forsendur fyrir betri lífskjörum á Íslandi og ryðja svartsýninni í burtu.
    Varðandi önnur einstök atriði þessa máls sem hv. þm. hafa komið að, t.d. það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir nefndi og hv. þm. Páll Pétursson, að þau töldu að það væri betra að verðmætasköpunin færi fram hér en annars staðar, þá er allt gott um það að segja en þetta finnst mér vera alveg dæmigerðar viðbárur út í loftið af því að þetta liggur svo í augum uppi. Það sem ég vil benda á í þessu sambandi er þetta: Ég horfi á sæstreng með raforku til útlanda sem tengingu okkar, fyrstu skref Íslands, í þá átt að verða hluti af alþjóðlegu orkuneti. Og það er fullkomin skammsýni að slá því föstu að við verðum lokað eyland í þessum efnum um aldur og ævi. Ísland hlýtur að verða með beinum eða óbeinum hætti hluti af alþjóðlegu orkuneti. Þegar ég segi beinum þá á ég við streng, þegar ég segi óbeinum þá á ég við það að við notum okkar orku til að framleiða tiltekna vöru sem hentar betur að framleiða hér en annars staðar. Umræðan um það að við eigum ekki að gera þetta minnir mig á umræðuna sem var hér í gangi fyrir örfáum árum um það að tengja allt Ísland saman í eitt raforkukerfi. Menn sáu alla agnúa á því. Sjálfstfl. gerði ótal samþykktir um það hvað það væri mikið hneyksli að taka við hundi að sunnan, eins og það var orðað, fyrir norðlendinga. Mér finnst stundum aðeins örla á þessu viðhorfi þröngsýninnar í þessari umræðu líka af því að hér erum við ekki bara að tala um það að við leggjum tiltekin streng og seljum orkumagnið úr honum með tilteknum hætti, heldur erum við líka að tala fyrir því að Ísland getur ekki orðið eyland um aldur og ævi í þessu efni, það hlýtur að verða hluti af þróuðu alþjóðlegu orkuneti. Og það verður ekki spurt að því þegar verður opnað fyrri rafmagnið í Breiðholtinu eða hvar það nú er, hvort þetta rafmagn er úr Þjórsárvirkjun, Sogsvirkjun, Kröfluvirkjun eða Blönduvirkjun, það gæti alveg eins verið einhvers staðar annars staðar að. Og eins er það með orkuna sem héðan fer.
    Auðvitað gæti ég, virðulegi forseti, sagt sem svo að undirtektir iðnrh. hafi verið þannig að hann hafi sagt: Við erum að vinna að þessu öllu saman, við erum hér með Pirelli þar og Vattenfall hér og Caminus þar og við erum með 7,4 millj. í Landsvirkjun og við eigum nú bara að gera þetta sjálfir og þið eigið ekkert að vera að vesenast í þessu. Auðvitað gæti ég svo sem tekið þetta þannig en ég ætla ekkert að gera það. Ég ætla að leyfa mér að túlka undirtektir iðnrh. þannig að þær hafi verið afar jákvæðar og að iðnn. muni fjalla um málið málefnalega næstu dagana, næstu vikurnar. Og þá er ég ekki bara að tala um þennan sæstreng, ég er líka að tala um t.d. tillöguna sem var rædd hér undir síðasta dagskrárlið og jafnvel fleiri tillögur í orkumálum þannig að menn eygi þar einhverja vitræna umræðu og skoðanaskipti um orkumál yfirleitt.
    Eitt efnisatriði er það þó sem ég ætla aðeins að nefna úr ræðu hæstv. iðnrh. og það er að hann sagði: Kostnaður við þetta er meiri en svo að Landsvirkjun geti staðið í þessari framkvæmd ein sér. Það er auðvitað alveg hárrétt. Þegar ég var að tala um það, hefur fjármögnunarþáttur þessa máls verið undirbúinn, þá átti ég auðvitað fyrst og fremst við þann veruleika að það er augljóst mál að það er mjög flókið að fjármagna þetta verkefni í heild og tryggja í senn öryggi Íslands og sjálfstæði í þeim samningum sem um þetta þarf að gera. Það er mjög flókið mál. Í raun og veru þyrfti að fara að undirbúa það. Menn þyrftu að átta sig á grundvallaratriðum í þeim efnum vegna þess að það getur verið slæmt að þurfa að ganga frá svona flóknum málum á síðustu stundu, jafnvel um leið og verið er að ganga frá sölusamningum í einstökum atriðum. Ég hvet til þess að það verði farið í þetta. Ég segi fyrir mig að ég er fullkomlega opinn fyrir því að taka á þessu með þeim hætti sem er hagkvæmastur og öruggastur fyrir Ísland og ég held að um það ætti að geta myndast allgóð og breið samstaða. En ég dreg enga dul á það --- og ég gerði það heldur ekki í minni framsöguræðu, að ég tel, en það hefur þá kannski ekki verið nægilega skýrt af minni hálfu --- að þetta sé eitt allra flóknasta málið í sambandi við orkumálaframtíð Íslendinga, hvernig við nýtum orkulindirnar og fjármögnum nýtingu þeirra og tryggjum um leið sjálfstæði og öryggi okkar eigin þjóðar í þessu sambandi.
    Þar með læt ég máli mínu lokið og þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.