Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:48:00 (3467)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Eins og hér kom fram áðan er auglýsingastofan Hvíta húsið einhver besta auglýsingastofan í landinu. Það töldu forverar mínir í embætti fjmrh. þegar þeir réðu hana til starfa. Það taldi embætti ríkisskattstjóra þegar það mælti með henni. Átti ég sem formaður Alþb. að neita mér eða flokknum um viðskipti við bestu auglýsingastofu landsins einfaldlega vegna þess að aðrir höfðu talið að hún væri líka best? Er hæstv. forsrh. virkilega að gera þá kröfu til Alþb. að það skipti ekki við hina bestu á hverju sviði óháð því hvað þeir gera að öðru leyti? Ég vil nefna m.a. að Hvíta húsið, ef ég þekki rétt, er auglýsingastofa Eimskipafélagsins og fjölmargra ágætra fyrirtækja. ( Gripið fram í: Það getur nú varla verið.) Jú, það er m.a. auglýsingastofa Eimskipafélagsins. ( Gripið fram í: Þetta verður að rannsaka.) Ég gæti nefnt ýmis önnur fyrirtæki sem hafa verið tengd ákveðinni dýrategund í almennri umræðu og á bókamarkaðinum sem þessi auglýsingastofa er aðalauglýsingastofan fyrir. Er það kannski líka tortryggilegt? ( Gripið fram í: Er það Alþb.?) Nei, það er ekki Alþb. En staðreyndin er sú að stofnanir ríkisins, eins og ríkisskattstjóri, og öflug fyrirtæki eins og Eimskipafélagið og fjölmargir aðrir aðilar hafa talið að þessi auglýsingastofa væri besta auglýsingastofa landsins. Það fyrirtæki, sem forsrh. var fundarstjóri hjá, komst að þeirri niðurstöðu. Og auðvitað völdum við það besta á hverju sviði eins og við leitumst yfirleitt við að gera, hæstv. forsrh., að sjálfsögðu. En það var ekkert annarlegt við það. Það var ekkert tortryggilegt við það. Og við greiddum það fullu verði að sjálfsögðu.
    Ég vil nú biðja ræðumenn Sjálfstfl. að fara ekki niður á þetta plan sem þeir hafa gert hér. En hv. þm. Árni Mathiesen boðar það hér að hann ætli að gerast sérstakur rannsakandi í því hvernig ráðherrar hafa varið fjármunum. Ég fagna því að hv. þm. geri það. Ýmis ár og tímabil hjá ýmsum ráðuneytum sem standa þingmanninum nokkuð nærri sem væri fróðlegt fyrir hann að bera fram fyrirspurnir um hér í þinginu og sanna það að hann hafi raunverulegan áhuga á að kynna sér þessi mál. Ég mundi fagna því. Ég mundi líka fagna því ef hæstv. forsrh. mundi beita sér fyrir því að hans eigin ríkisstjórn birti hér jafnsundurliðaða skýrslu yfir auglýsingabirtingar ráðuneyta síðan hans ráðuneyti tók við. Ég mundi fagna því. Það væri æskilegt að núv. fjmrh. og forsrh. legðu fram jafnsundurliðaðan lista. Ég er alveg reiðubúinn að hvetja alla til þess að gera það. En þá skulum við gera það eðlilega og heiðarlega en ekki í þessum ómerkilega flokkspólitíska tilgangi sem hefur greinilega afhjúpast hér í umræðunni að var tilgangur þeirrar ferðar sem hinn nýi krossfararriddari úr Hafnarfirði, Árni M. Mathiesen, lagði í.