Guðmundur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka flm. fyrir þessa ágætu þáltill. og ég get tekið undir með hv. 5. þm. Norðurl. e. að það er mjög ánægjulegt að hér sé flutt mál sem miðar að því fyrst og fremst að byggja upp og skapa fremur en að bjarga fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum. Hér erum við vissulega að koma í veg fyrir erfiðleika og stefnum til nývinninga. Og ég vil kannski nota tækifærið líka til að þakka flm. á þskj. nr. 171 um sama mál fyrir þeirra þátt í málinu því að það eru auðvitað mjög skyld mál sem þarna eru um að ræða og þau stefna nákvæmlega að því sama.
    Ég er sammála flutningsmanni um að við höfum auðvitað lifað á sjávarútvegi hér í landinu um alllangt skeið, kannski allt frá upphafi og ég er líka sammála því að við munum a.m.k. í fyrirsjáanlegri framtíð lifa á sjávarútvegi fyrst og fremst þó að auðvitað komi aðrir hlutir til. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hlúum vel að þessum atvinnuvegi og sköpum okkur sóknarfæri þar. Ég held að þó að ég vilji að sjálfsögðu styrkja öll góð mál í öðrum atvinnugreinum megum við ekki hverfa frá því sem við þegar höfum. Það má segja að hér gildi á vissan hátt hið fornkveðna að betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi. Og sjávarútveginn höfum við og þá möguleika höfum við, á því er enginn vafi.
    Þegar menn tala um sjávarútveg er mjög oft talað um að þar sé um að ræða fiskveiðar og síðan ákveðna frumvinnslu og útflutning á þessum afurðum. En það er einmitt það sem hér er verið að ræða um að þurfi að breyta. Það hefur auðvitað breyst mjög mikið undanfarin ár en það þarf að breytast enn meira. Hér var sagt áðan að verið væri að leggja grundvöll að miklu og merku starfi. Ég held að búið sé að leggja grundvöllinn að því. Nú er að nýta sér þann grundvöll sem þegar liggur fyrir. Þó að hér kæmi fram í gær í umræðum að þeir menn sem flyttu út á land yrðu ,,lókalpatríotar``, þá fullyrði ég og ég held að flestir geti tekið undir það að einmitt á Eyjafjarðarsvæðinu hefur grundvöllur að merku starfi á sviði sjávarútvegs verið lagður og hann er fyrir hendi. Það er auðvitað hið öfluga atvinnulíf í sjávarútvegi sem þar leggur grunninn svo og þau framleiðslu- og þjónustufyrirtæki sem við bætast sem fullkomna myndina.
    Við þurfum auðvitað að auka verðmæti þess afla sem við drögum úr sjó, á því er enginn vafi. Það gerum við með því að vinna aflann betur og auka verðmætið og afla þannig þjóðarbúinu meiri tekna. Við þurfum auðvitað að gera meira og ég get tekið undir það að einkennilegt er að ekki skuli hafa verið hafin æðri menntun í sjávarútvegi fyrr en nú á allra síðustu árum. Það er í rauninni einkennilegt að við, þessi mikla fiskveiðiþjóð sem hefur í rauninni hrærst í og lifað af fiski frá örófi alda, skulum ekki hafa náð að flytja þekkingu okkar og verkmenntun meira út og gera hana að tekjulind en verið hefur. Ég held að það gerist að við munum þróa fiskveiðar okkar og vinnslu en við munum jafnframt með slíkri sjávarútvegsmiðstöð þar sem allt kemur saman, menntun, verksvit og önnur þekking, tækni og kannski fjármagn, geta aukið sókn, ekki síst á þessum sviðum. Við getum að miklu meira leyti en verið hefur orðið leiðandi afl á alþjóðavettvangi. Við getum orðið miðstöð sem aðrar þjóðir sækja í þekkingu og þannig skapað okkur bæði auðsæld og styrkt okkar stöðu til framtíðar. Þess vegna held ég að hér sé mjög stórt mál á ferðinni og að mjög nauðsynlegt sé að kraftar sem eru í íslenskum sjávarútvegi verði sameinaðir betur en verið hefur. Það er auðvitað samtakamátturinn hér eins og svo víða annars staðar sem fyrst og fremst ræður úrslitum.
    Ég held líka að það mál sem hér er flutt sé eðlilegt framhald af því sem gert hefur verið undanfarin ár. Ég tel mjög óeðlilegt ef einhver framvinda af þessu tagi verður ekki til að fylgja eftir stofnun Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsbrautarinnar þar. Ég vil ekki segja að hún verði ómark ef þetta verður ekki en væri vissulega mjög órökrétt ef málinu verður ekki fylgt eftir með einhverjum þessum hætti vegna þess að hún, ásamt mörgu öðru, skapar einmitt þær aðstæður sem nú hafa orðið og hér er verið að leggja til að byggt verði á.
    Ég vil að lokum ítreka ánægju mína og þakklæti til flutningsmanna fyrir þessa ágætu tillögu og ég vona að hún fái góðan framgang hér í þinginu og verði að veruleika svo að þetta mál geti haldið áfram í þeim farvegi sem það hefur verið í og eðlilegur er.