Endurgreiðsla virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:13:00 (5289)

     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vil þakka fyrir framlagningu þessarar þáltill. og ekki síður undirtektir hæstv. fjmrh. sem mér finnst lofa góðu um að hann hyggist skoða þessi mál og koma til móts við þau sjónarmið sem þar er lýst. En fyrst og fremst kem ég upp til þess að fagna því að hér skuli vera rætt um ferðamál og vil vekja athygli á því að það eru ýmsar aðrar hugmyndir, tillögur og frumvörp, í gangi um ferðamál í þinginu núna í vetur.
    Ég hef fylgst með því í fimm ár hvernig Alþingi hefur fjallað um ferðamál og vægast sagt hefur gætt þar lítils skilnings á þessari grein. Þegar það er haft í huga að nú þegar veltir hún á öðrum tug milljarða í gjaldeyristekjum þá hlýtur það að vera hverjum manni ljóst að hér er um að ræða verulega hagsmuni þjóðarinnar og ríkissjóðs. Menn sáu reyndar fyrir mörgum árum að það væri rétt að tryggja þessari grein tekjur og þá var farið að velta því fyrir sér hvernig það yrði best gert. Einhverjum datt í hug að líklega væri samband á milli veltu í Fríhöfninni í Keflavík og ferðaþjónustunnar, umferðar um Keflavíkurflugvöll. Og mikið rétt, það var tekin sú ákvörðun og bundið í lög að 10% af þeirri veltu ætti að fara til ferðamála. Aukning varð veruleg strax eftir að þetta var gert og hefur verið æ síðan --- ég held ég megi segja alveg samfellt --- þannig að það fór nú því miður svo að þessar 10% tekjur voru skertar strax og hafa verið skertar allar götur síðan. Og sem dæmi um hvað hérna er um að ræða má geta þess að tekjur af Fríhöfninni núna eru tæpir tveir milljarðar, þ.e. vörusala þar er 1.840 millj., og hefði því átt að gefa Ferðamálaráði til ráðstöfunar 184 millj., en það fékk 68 millj. á þessu ári, sem er sama tala í krónum og það fékk á síðasta ári.
    Þetta veldur því að menn eru hér í þinginu að flytja þáltill. um ýmis atriði ferðaþjónustu sem væri og er sjálfsagt verkefni Ferðamálaráðs, en menn eru þá af vanmætti sínum að reyna einhverjar aðrar leiðir fyrst ekki næst samstaða um að þessar sjálfsögðu tekjur renni til ferðamála. Ég vil nefna að hér eru t.d. einar fjórar þáltill., þrjár auk þessarar. Það er kynning á ímynd Íslands erlendis, sem er nákvæmlega það sem Ferðamálaráði er ætlað að gera, það sem Ferðamálaráð er að vinna að, en er vanmáttugt vegna fjárskorts. Því held ég að þessi umfjöllun og umfjöllun um ferðamál yfirleitt sé mjög gagnleg til þess að upplýsa þingmenn um gildi þessarar atvinnugreinar sem er orðin verulegur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar og fer stöðugt vaxandi.
    Ég vildi vekja á þessu athygli vegna þess að þar sem ég þekkti til í sveitum þá þótti það lélegur búskapur að fóðra ekki mjólkurkýrnar sínar og það finnst mér vera einmitt verið er að gera hér, það er verið að halda þeim í svelti með því að veita ekki fjármagni í þessa vaxandi atvinnugrein, sem er reyndar sú atvinnugrein í heiminum sem er í mestum vexti um þessar mundir.
    Reyndar höfðu verið boðuð af hálfu ríkisstjórnarinnar ný lög og nýjar áherslur í skipulagi ferðamála en það er ekkert sem bendir til þess að úr því verði á þessu þingi því að eina tillagan sem komið hefur um skipulag ferðamála er um breytta skipan á þeim sem eru stjórnskipaðir í Ferðamálaráð og ég ætla ekkert að ræða það hér og nú.
    En ég held að þessi till. sem hér liggur fyrir um endurgreiðslu virðisaukaskatts sé góðra gjalda verð. Ég fagna því hversu henni er vel tekið af hæstv. fjmrh. Mín skoðun er

sú að hér sé frekar ódýr leið til þess að efla þann innlenda iðnað sem getið er um í grg. og ýmsa verlsun og þjónustu við ferðamenn og þessi endurgreiðsla komi til með að auka allverulega einmitt þessi smáu innkaup ferðamannanna. Við erum með mikið af ferðafólki hér sem heldur dálítið fast um budduna og reynslan hefur sýnt að erlendir ferðamenn eyða mun minni peningum hérlendis heldur en Íslendingar gera erlendis. Þannig að einmitt þetta, þessar smáu upphæðir en mörgu, mundu geta fært okkur þó nokkra aukningu á þessum iðnaði og gæti verið mjög vænlegur kostur. Samt sem áður má líta á það að þetta mundi líklega ekki kosta ríkissjóð mikla fjármuni því að margt af því sem þarna yrði verslað yrði kannski frekar keypt ef þessi heimild yrði rýmkuð. Og það er ágætt að sjá þarna til viðmiðunar hvað Danir hafa verið að gera sem eru með mjög svipaðan virðisaukaskatt og við erum með.