Endurgreiðsla virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:19:00 (5290)


     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið undir þessa þáltill. í ræðum hér á undan. Og ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir það hversu vel hann hefur tekið undir þetta líka og upplýst að hann sé jafnframt að láta skoða núgildandi reglugerð. Ég vænti þess þá að hann taki þau efnisatriði til greina sem koma fram í þessari þáltill., þ.e. að endurskoðunin hafi það markmið að einfalda framkvæmdina og lækka lágmarksupphæðina sem ferðamaður má versla fyrir til að fá endurgreiðslu og að sú endurskoðun sem hann ræddi um að væri í gangi í ráðuneytinu miðaði þá ekki í aðra átt heldur að þetta markmið sem ég er hér að setja fram væri þar fullkomlega tekið til greina.
    Ég vil einnig benda á það að í dag er ekki endurgreitt nema 60--75% af greiddum virðisaukaskatti, það er ekki endurgreitt meira af honum en það og fer það eftir verði og er samkvæmt þessari töflu sem hér fylgir með á fskj. Það mætti e.t.v. hugsa sér það að við færum út í það, eins og ýmsar aðrar þjóðir hafa gert, að endurgreiða virðisaukasakttinn að fullu, en ekki aðeins 60--75%, og þar með væri 1 / 5 hlutinn af verði vörunnar endurgreiddur.
    En ég þakka fyrir þær undirtektir sem þessi þáltill. hefur fengið og vænti þess að hún fái þinglega meðferð.