Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 14:52:00 (6294)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 844 flyt ég ásamt Önnu Ólafsdóttur Björnsson brtt. við frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum og freistum við þess nú öðru sinni að hafa áhrif á þingmenn svo fellt verði út úr frv., eins og það liggur nú fyrir, að vændi sé refsivert. Eins og þingmönnum er kunnugt kom það inn í frv. þegar það var lagt fram fyrst á Alþingi að vændi var gert refsivert og skyldi sæta fangelsi allt að fjórum árum. Í meðförum allshn. var þetta heldur mildað og eins og frv. stendur nú eftir 2. umr. segir:
     ,,Hver sem stundar vændi sér til framfærslu skal sæta fangelsi allt að 2 árum.
    Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.`` Við leggjum til að þessar tvær málsgreinar orðist svo: ,,Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 5 árum.`` Þ.e. við viljum fella út úr frv. að vændi sé refsivert og við viljum þyngja refsinsu um eitt ár hjá þeim sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra, þ.e. hefur tekjur af vændi annarrar manneskju. Ástæðan fyrir því að við flytjum þessa brtt. er að við lítum svo á að þarna sé óþarft ákvæði á ferðinni. Það sé í fyrsta lagi óþarfi að hafa þetta inni og í öðru lagi sé um ákveðna ósamkvæmni að ræða í lagasetningu ef þetta verður samþykkt sem lög.
    Í fyrsta lagi vil ég benda á varðandi ósamkvæmnina að það þarf, eins og öllum er vonandi ljóst, tvo til að stunda slík viðskipti sem vændi er, það þarf seljanda og það þarf kaupanda. Ef öðrum er refsað þá á samkvæmt okkar skoðun að refsa báðum aðilum. Þetta er hins vegar ekki gert í frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr.
    Í öðru lagi hafa rökin fyrir því að hafa ákvæðið inni verið þau m.a. að það verði ekki notað. Þetta sé kannski til marks um siðferðisstöðu samfélagsins en það verði ekki notað, ekki nýtt til refsingar. En þá hlýtur maður að spyrja: Til hvers að hafa ákvæði í lögum sem menn telja að verði ekki notað? Við teljum að það hafi ekkert upp á sig. Eins og ákvæðið er núna geti það þjónað tvíþættum tilgangi: Annars vegar má segja að það dragi úr vernd þeirra sem stunda vændi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að vændi er nú einu sinni þannig að það hefur fylgt mannkyninu sjálfsagt frá örófi alda. Ef við gerum það refsivert erum við að koma málum þannig fyrir að þeir sem stunda vændi geti ekki leitað sér aðstoðar t.d. ef þeir eru ofbeldi beittir vegna þess að þeir hafi sjálfir tekið þátt í að stunda refsivert athæfi sem má fangelsa fyrir allt að tveimur árum. Í öðru lagi teljum við að þetta þjóni kannski þeim tilgangi að setja hömlur á kynfrelsi fólks og það sé rangt að gera slíkt þegar engin nauðung eða misnotkun er á ferðinni. Nauðung og misnotkun hvers konar er refsiverð samkvæmt því frv. sem liggur fyrir og á að vera það að sjálfsögðu en ekki þegar fólk ákveður af fúsum og frjálsum vilja að stunda slíkt athæfi. Þetta er það sem við viljum gera brtt. um við 3. umr.
    Þegar frv. kom til 1. umr. á þinginu gerði ég ótal athugasemdir við það og ég fagna því að þær athugasemdir hafa átt sér málsvara og hljómgrunn í allshn. Frv. hefur tekið miklum og ágætum breytingum frá því að það var lagt fram hér fyrst. Þær breytingar hafa verið ágætar og flestar til bóta. Svo er þó ekki um þær allar. Mig langar til að geta þess sérstaklega í þessu sambandi að ég er afskaplega ósátt við það að allshn. skyldi taka út orðið manneskja alls staðar og setja maður inn í staðinn. Ef þingmenn eru með frv. fyrir framan sig hljóta þeir að sjá hvað þetta kemur kjánalega út í texta. Mig langar bara til að lesa tvö dæmi. Ég held að í málvitund flestra Íslendinga sé maður karlmaður, þannig skynjum við orðið, ekki síst þegar það kemur fram í samfelldum texta. Nú ætla ég að lesa fyrir þingmenn: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hann er honum háður fjárhagslega,`` o.s.frv. Þegar ég les þetta svona þá held ég að í augum flestra sé hér um tvo karlmenn að ræða. Ég ætla að taka annað dæmi í 7. gr. Þar segir og er í rauninni enn hjákátlegra ef rétt væri með íslenskt mál farið: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann vegna þess að hann heldur ranglega að þau . . .  `` Það stendur ,,þau`` í frv. Ef nefndin væri sjálfri sér samkvæm ætti að standa þarna ,,þeir`` og þá les ég: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann vegna þess að hann heldur ranglega að þeir hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi eða óvígðri sambúð . . .  `` Velkist nokkur í vafa um að þarna er verið að tala um tvo

karlmenn? Ekki geri ég það samkvæmt minni málvitund og ef hv. Alþingi og allshn. er sjálfri sér samkvæm hefur hún ekki orðið ,,þau`` heldur ,,þeir`` þarna inni. Vegna þess að hver, sem er frumlag í þessari setningu, vísar til karlkyns og svo kemur maðurinn inn sem líka er karlkyn. Með öðrum orðum er verið að tala um tvö karlkynsorð og þá kemur ekki ,,þau`` inn heldur ,,þeir``. Ég vil biðja fólk að skoða þetta og ég vil biðja allshn. að athuga þetta áður en hún afgreiðir málið frá sér við 3. umr. Mér finnst samkvæmt minni málvitund og minni málkennd að þarna hafi verið rangt að farið hjá allshn. að breyta frumvarpstextanum frá því sem var og kom úr dómsmrn. Ég vil fá einhver svör við því hvernig á því standi að nefndin hafi haft inni orðið þau í 7. gr. þegar hún samkvæmt sinni eigin röksemdafærslu ætti að hafa orðið þeir? Ég vil gjarnan fá svör við þessu hér, hæstv. forseti.