Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:33:40 (6305)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hv. 6. þm. Reykv. komst þannig að orði í umræðum í gærkvöld að fundir á Alþingi í vetur væru yfirleitt langir og leiðinlegir og það væri stjórnarandstöðunni að kenna. Hv. 6. þm. Reykv. stuðlaði að sjálfsögðu ekki að því að haldnir væru langir og leiðinlegir fundir þegar hún var í stjórnarandstöðu eða hitt þó heldur, en mér sýnist að komin sé upp ákveðin þrjóska af hálfu hv. þm. Auðvitað er alveg augljóst mál að allir þingmenn viðurkenna að það þarf að orða hlutina með gleggri hætti og ég fer fram á það með fullri vinsemd að menn setjist yfir það og reyni að skoða það aðeins betur. Hér í salnum er einn af okkar bestu rithöfundum sem kann að skrifa svo að t.d. börn skilja. Það mætti hugsa sér að hv. 14. þm. Reykv. yrði beðinn um að orða þetta þannig að börn skilji en það er gott fyrir þingmenn að skilja oft eins og börn og mættu gera það oftar en þeir þykjast gera.