Málefni Sléttuhrepps

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:12:26 (6498)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Skv. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, er félmrn. skylt að eiga frumkvæði að því að sameina sveitarfélag nágrannasveitarfélagi ef íbúafjöldi þess hefur verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt. Sléttuhreppur fór í eyði á sjöunda áratugnum og engin föst búseta hefur verið þar síðan. Eftir að nýju sveitarstjórnarlögin tóku gildi 1986 hefur ráðuneytið unnið að sameiningu sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laganna. Í samráði við sveitarstjórnarmenn í fjórum dreifbýlishreppum við Ísafjarðardjúp var að því stefnt að sameina þessi fjögur sveitarfélög ásamt Sléttuhreppi í eitt sveitarfélag. Þessi sameining náði þó ekki fram að ganga þar sem hún hlaut ekki tilskilið fylgi í kosningum sem fram fóru um sameininguna 1987. Frekari tilraunir með sameiningu þessara sveitarfélaga hafa ekki borið árangur.
    Í desember sl. samþykkti ríkisstjórnin að minni tillögu að gerð yrði sérstök könnun á hagkvæmni sameiningar allra sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum. Byggðastofnun hefur síðan unnið að þessari könnun í samráði við heimamenn, en niðurstaða hennar liggur enn ekki fyrir.
    Hvað Sléttuhrepp áhrærir sérstaklega er það óviðunandi og hefur raunar verið lengi að ekki skuli vera í hreppnum stjórnvöld sem fjallað geta um byggingarmál og fleiri málaflokka. Í mars sl. tók ég því þá ákvörðun að gera tilraun til að sameina Sléttuhrepp Ísafjarðarkaupstað.
    Það er að sjálfsögðu álitamál hvaða sveitarfélag teljist nágrannasveitarfélag Sléttuhrepps í skilningi 2. mgr. 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Sameining við Snæfjallahrepp einan þjónar engum tilgangi, en íbúar þar eru aðeins um ein tugur, en auðvitað má segja að það sé næsta nágrannasveitarfélag ef miðað er við samgöngur á landi. Árneshreppur á Ströndum liggur einnig að Sléttuhreppi, en mjög torsóttar samgöngur eru þar á

milli og ekki verður séð að sameining við það sveitarfélag leysi þau vandamál sem við er að glíma varðandi Sléttuhrepp. Bolungarvík og Ísafjörður verða einnig að teljast nágrannasveitarfélög ef litið er til samgangna á sjó.
    Í mars sl. var héraðsnefnd Ísafjarðarsýslu og bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar skrifað og þessum aðilum gefinn kostur á að tjá sig um sameininu Sléttuhrepps við Ísafjarðarkaupstað. Svar hefur borist frá bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar þar sem hún lýsir stuðningi við hugmyndina um sameininu Sléttuhrepps við Ísafjarðarkaupstað. Svar hefur enn ekki borist frá héraðsnefndinni, en framhald málsins mun að einhverju leyti ráðast að afstöðu hennar. Að sameiningunni verður staðið eins og gert er ráð fyrir í þeim kafla sveitrstjórnarlaganna sem fjallar um stækkun sveitarfélaga. Rétt er þó að benda á þá sérstöðu sem þarna er fyrir hendi og felst í því að engir íbúar eru í Sléttuhreppi. Ég reikna með að rætt verði við fulltrúa landeigendafélags Sléttuhrepps áður en til sameiningarinnar kemur.
    Varðandi spurninguna um það hvort til greina komi að Sléttuhreppur og Grunnavíkurhreppur tilheyri sama sveitarfélagi, þá svara ég henni neitandi einfaldlega vegna þess að enginn Grunnavíkuhreppur er til. Hann var lagður niður 1. jan. 1964.