Málefni fatlaðra

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 14:56:37 (6888)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við bráðabirgðaákvæði V. Það er í frv. þannig að gert er ráð fyrir endurskoðun innan fjögurra ára. Við höfum ákaflega slæma reynslu af ákvæði sem þessu. Það er ákvæði í umferðarlögum sem samþykkt voru 1987 um að þau skyldu endurskoðuð innan fjögurra ára, þ.e. fyrir árslok 1991. Það var ekki gert. Hæstv. dómsmrh. hefur ekki lagt fram nýtt frv. til laga um umferðarlög. Það má reyndar líka benda á önnur lög þar sem ákvæði af slíku tagi hefur reynst ákaflega illa. Ég hef ekki mikla trú á að þetta ákvæði skili neinum árangri. Það þarf að kveða fastar að orði. Alþingi þarf að marka stefnuna skýrar ef menn vilja tryggja sér að farið sé eftir þeim anda sem felst í bráðabirgðaákvæðinu. Því hef ég lagt til að þetta ákvæði verði gert mun ákveðnar þannig að þegar í stað verði teknar upp viðræður við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök fatlaðra um það að sveitarfélögin taki við verkefnunum. Það er til umræðu innan svokallaðrar sveitarfélaganefndar eins og menn kannst við, og að stefnt skuli að því að þeim viðræðum ljúki með tillögum innan árs frá gildistöku laganna. Ég sé það þannig fyrir mér að í þeim tillögum verði dreginn upp ákveðinn ferill hvernig menn standa að þessari yfirfærslu verkefnis frá ríki til sveitarfélaga.