Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 23:57:33 (7151)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að átelja það harðlega að hér sé stjórn þingsins hagað á þann hátt að vegáætlunin, eitt af stóru málunum, sé fyrst að koma til umræðu á síðustu nótt þessa vorþings. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég ætla ekki að fara út í það mál sem hv. 5. þm. Suðurl. var með í lok sinnar ræðu um samning fjmrh. og borgarstjóra. Ég tel að vísu að þar á bak við hafi legið einhverjir nýsköpunardraumar en ég veit ekki hvort þeir nýsköpunardraumar áttu endilega skylt við vegagerð. En það mun kannski aldrei koma í ljós hvað þarna raunverulega var á ferðinni. Að mínu mati hefði það sem fór til greiðslu á þessu átt að taka af fé til vegagerðar í þéttbýli.
    Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að gera að umræðuefni er sú staða sem uppi er núna gagnvart verktökum og gagnvart almennum verklegum framkvæmdum. Það hefur komið fram áður að það bendir margt til þess að það væri mjög skynsamlegt að ráðast í verulegar framkvæmdir í vegagerð nú á meðan almennur samdráttur er í verklegum framkvæmdum og klára á næstu árum nokkra mikilsverða þætti í samgöngumálum áður en að hugsanlegum stórframkvæmdum kemur, til að mynda í orkugeiranum, hvort sem þar væri um að ræða orkusölu til nýs álvers eða til útflutnings um sæstreng. Ég held að það væri mjög mikilvægt gagnvart sveiflujöfnun í þjóðfélaginu að standa þannig að málum. Það væri í raun gildur þáttur í almennri hagstjórn. Með þetta að leiðarljósi lagði ég fram fyrr í vetur till. til þál. ásamt 4. þm. Reykv. Hún er í samgn. og liggur þar þrátt fyrir að hv. 17. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþfl., hefði lýst yfir einróma stuðningi síns þingflokks við tillöguna þegar hún var til fyrri umr. Þetta undirstrikar enn þá einu sinni áhugaleysi Alþfl. í þessari ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Sérstaklega í samgöngumálum.) Hér er um að ræða alvörumál þannig að við skulum ekki hafa það í flimtingum. En tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna nú þegar möguleika á því að ljúka uppbyggingu hringvegarins á næstu tveimur árum. Þjóðhagsleg arðsemi framkvæmdarinnar verði könnuð sérstaklega, svo og hagkvæmi þess að vinna verkið nú þegar fyrirsjáanlegur er mikill samdráttur í allri verktakastarfsemi. Þá verði reynt að leggja mat á hvaða ný sóknarfæri skapast í atvinnulífi landsmanna við þessa framkvæmd. Stefnt verði að því að niðurstöður þessarar könnunar liggi fyrir það snemma að hægt verði að hefja framkvæmdir á næsta sumri ef niðurstaða gefur tilefni til.``
    Eins og menn heyra var þessi tillaga lögð fram nokkuð snemma á þinginu á meðan menn gerðu sér enn þá vonir um að hér yrðu mál stjórnarandstöðuþingmanna afgreidd og a.m.k. þau fáu sem væru afgreidd yrðu afgreidd fyrr en á síðustu dögum þings. Ég hef þær heimildir að tillagan hafi verið send til

Vegagerðarinnar til umsagnar. Ég hef einnig heimildir fyrir því að frá Vegagerðinni hafi borist svar þar sem sagt er að ef miðað væri við nauðsynlega styrkingar og endurbætur ásamt lögn bundins slitlags og hringvegurinn kláraður þannig án þess að farið væri út í þær framkvæmdir sem eftir eru við að styrkja og tvöfalda brýr, þá væri lausleg kostnaðaráætlun við þessa framkvæmd sem hér segir:
    Frá Reykjavík til Akureyrar 600 millj., frá Akureyri til Egilsstaða 1.470 millj., frá Egilsstöðum til Hafnar í Hornafirði 1.180 millj., frá Höfn til Reykjavíkur 1.150 millj. Samtals 4.300 millj. kr.
    Nú er vert að taka tillit til þess að hluti af þessari upphæð er nú þegar á vegáætlun. Til að mynda standa vonir manna og ég veit að vonir hæstv. samgrh. standa einnig til þess að geta klárað kaflann Akureyri--Reykjavík á því kjörtímabili sem nú stendur yfir á tveim til þremur árum. Aðrir kaflar á þessari leið eru einnig á vegáætlun næstu ára. Lauslega áætlað, ef við tökum 600 millj. Reykjavík--Akureyri og það sem stendur til að vinna annars staðar á hringveginum, er það um 1 milljarður. Eftir standa 3,3--3,5 milljarðar sem væri kostnaðurinn við að ljúka hringveginum. Það mun vera mjög hliðstæður kostnaður og við Vestfjarðagöngin án þess að ég sé að draga nokkuð úr mikilvægi þeirrar framkvæmdar. En ég vil þó segja í þessu sambandi að ég hef óttast það með þeirri áherslu sem lögð hefur verið á jarðgöng að undanförnu að almenn vegagerð muni sitja á hakanum og við dragast aftur úr á því sviði. Ekki síst ef þetta dregst fram á þann tíma sem við erum komin með aðrar verklegar framkvæmdir á fulla ferð.
    Þetta er ekki meira verkefni en svo að miðað við þá arðsemi sem Vegagerðin leggur á marga hluta þessa vegar og miðað við þá þjóðhagslegu arðsemi sem má reikna með af öðrum þáttum, til að mynda tengingunni á milli Norður- og Austurlands sem gæti gert einhverja höfn á Austfjörðum að meiri háttar útflutnings- og innflutningshöfn, mundi sú arðsemi borga vexti af lántöku til að klára þessa framkvæmd. Til viðbótar, og það ætla ég að hafa mín lokaorð varðandi þennan þátt míns máls, þá bendir margt til þess, ef við reiknum með því að hugur okkar standi til þess að klára hringveginn á næstu tíu árum, að hagkvæmni þess að bjóða verkið út, þannig að það yrði unnið á tveimur til þremur árum og hagkvæmni þess að bjóða það út sem einn áfanga og vinna það á þeim samdráttartímum sem nú eru, mundi fara langt í að borga vaxtakostnaðinn miðað við að taka féð að láni og borga á 10--12 árum. Það sem menn þyrftu að borga árlega í afborganir og vexti af láninu væri ekki miklu hærri upphæð en það sem færi árlega í þessa framkvæmd samkvæmt vegáætlun.
    Það er hægt að segja að svona sé hægt að reikna með ýmsar framkvæmdir. Það er eflaust rétt en ég bendi á það, sem hefur margsinnis komið fram í kvöld, að það eru sárafáar framkvæmdir sem við getum ráðist í sem sannanlega eru arðsamari en vegabætur. Þetta ætla ég að láta duga varðandi þennan þátt.
    Ég ætla að lokum að víkja í örfáum orðum að því sem kom fram hjá framsögumanni, hv. formanni samgn., varðandi það að þingmenn kjördæmisins hafi skipt vegafé heima í kjördæmum og að það hafi verið látið gilda í öllum tilfellum. Nú er það rétt hvað þingmenn Norðurl. e. varðar að þeir skiptu því sem var til skiptanna í fyrstu umferð. Það gerðist hins vegar þegar til skiptanna komu 10 millj. kr., sem teknar voru af snjómokstursfé, að þeim var skipt án þess að hópurinn væri fullskipaður og þar tók sá meirihluti sem saman var kominn stefnumarkandi ákvarðanir varðandi skiptingu þessa fjár sem menn vissu að var ekki samkvæmt vilja hluta þeirra þingmanna sem þar voru mættir og þeirra þingmanna sem fjarstaddir voru þá viku. Ég vil að það komi skýrt fram að að skiptingu þessa fjár var staðið á þennan hátt.